You are on page 1of 167

Eftirlitsstofnun EFTA

EFTA Surveillance Authority


Rue Belliard 35
B-1040 Brussels
Belgium

Reykjavík, 15 November 2016

Kvörtun yfir rangri innleiðingu og


framkvæmd EES-reglna um neytendalán

Complaint concerning incorrect legalisation and


implementation of EEA rules on consumer credit

Hagsmunasamtök heimilanna • Ármúla 5 • 108 Reykjavík • kt. 520209-2120


The Homes Association • Ármúli 5 • 108 Reykjavík, Iceland • National ID 520209-2120
heimilin@heimilin.is • www.heimilin.is
Eftirlitsstofnun EFTA
EFTA Surveillance Authority
Rue Belliard 35
B-1040 Brussels
Belgium

Reykjavík, 15. nóvember 2016

Kvörtun yfir rangri innleiðingu og framkvæmd EES-reglna um neytendalán

Samantekt
Hagsmunasamtök heimilanna eru sjálfboðaliðasamtök sem starfa á Íslandi við hagsmunagæslu á
opinberum vettvangi í þágu íslenskra heimila, með sérstakri áherslu á stöðu þeirra sem neytenda á
fjármálamarkaði. Þar á meðal í málefnum er varða réttindi neytenda í tengslum við skuldbindingar
vegna neytendalána, einkum með hliðsjón af samræmdum reglum EES á sviði neytendaverndar.
Ólíkt því sem tíðkast í flestum löndum Evrópu þar sem neytendalán og húsnæðislán eru almennt með
föstum eða breytilegum nafnvöxtum, eru slík lán á Íslandi í flestum tilvikum verðtryggð. Með því er átt
við að höfuðstóll lánanna er tengdur við vísitölu neysluverðs, þannig að fjárhæðir eftirstöðva þeirra
hækka í takt við verðbólgu. Verðtrygging var framan af nátengd þróun opinbers húsnæðislánakerfis
sem hefur lengi verið liður í svokallaðri séreignarstefnu í húsnæðismálum Íslendinga. Verðtrygging
lánsfjár var almennt heimiluð með lögum árið 1966 og fest frekar í sessi árið 1979, þegar tekin var upp
sú meginregla að auk vaxta, skyldi höfuðstóll lána vera verðtryggður. Síðan þá hefur útbreiðsla
verðtryggingar á íslenskum neytendalánamarkaði farið sívaxandi, og það sem af er þessari öld hafa
80%-90% neytendalána til íslenskra heimila verið verðtryggð. Hartnær helmingur af umfangi slíkra
skuldbindinga er beinlínis til kominn vegna hækkunaráhrifa verðtryggingar og verðbólguþróunar.
Samhliða aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var hafist handa árið 1993 við
innleiðingu EES-reglna á sviði neytendaverndar, þar á meðal tilskipunar 87/102/EBE um neytendalán
með síðari breytingum. Höfuðatriði hennar er skylda lánveitenda til að gefa neytendum ítarlegar og
greinargóðar upplýsingar um kostnað við lántöku og heildarumfang skuldbindinga þeirra. Þar sem
verðbólga á Íslandi hefur sögulega jafnan verið frekar há eru verðbætur í flestum tilfellum stærsti
kostnaðarliður íslenskra neytendalána. Við innleiðingu reglnanna um neytendalán í íslenskan rétt var
því ákveðið að gera sérstaklega ráð fyrir þessu í upplýsingagjöf um kostnað vegna lántöku.
Rannsóknir af hálfu Hagsmunasamtaka heimilanna á árunum 2010-2012 leiddu í ljós að þrátt fyrir að
ætlun löggjafans hafi verið sú að veita skyldi neytendum upplýsingar um kostnað í formi verðbóta af
verðtryggðum lánum, virðast flestir lánveitendur hafa vanrækt þá skyldu þar sem útreikningar á þeim
kostnaði miðuðust oftast við þá forsendu að verðbólga yrði 0% á lánstímanum. Þannig var kostnaður
vegna verðtryggingar í raun undanskilinn í þeim upplýsingum sem neytendum voru gefnar. Árið 2012
var höfðað dómsmál í því skyni að láta reyna á lögmæti þeirrar framkvæmdar. Í dómi sínum þann 26.
nóvember 2015 í málinu nr. 243/2015 túlkaði Hæstiréttur Íslands íslensk lög þannig að samkvæmt þeim
hefði þrátt fyrir allt ekki þurft að upplýsa neytendur um kostnað vegna verðtryggingar. Fór sú
niðurstaða þvert gegn ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli E-27/2013 um túlkun á ákvæðum
tilskipunar 87/102/EBE. Hagsmunasamtök heimilanna telja þar með ljóst að íslenska ríkið hafi gerst
brotlegt gegn skyldum sínum samkvæmt EES-samningnum, sem er tilefni kvörtunar þessarar.

Hagsmunasamtök heimilanna • Ármúla 5 • 108 Reykjavík • kt. 520209-2120


heimilin@heimilin.is • www.heimilin.is
Eftirlitsstofnun EFTA
EFTA Surveillance Authority
Rue Belliard 35
B-1040 Brussels
Belgium

Reykjavík, 15. nóvember 2016

Kvörtun yfir rangri innleiðingu og framkvæmd EES-reglna um neytendalán

I. Inngangur

Kvartandi: Hagsmunasamtök heimilanna eru almannasamtök sem starfa á Íslandi við hagsmunagæslu
á opinberum vettvangi í þágu íslenskra heimila, með sérstakri áherslu á stöðu þeirra sem neytenda á
fjármálamarkaði. Innan vébanda samtakanna eru yfir 8.700 félagsmenn auk þess sem 37.743 manns
tóku þátt í undirskriftasöfnun til stuðnings baráttumálum samtakanna árið 2011. Skoðanakannanir
hafa jafnan sýnt fram á víðtækan stuðning íslensks almennings við helstu baráttumál samtakanna.
Samtökin starfa í samræmi við íslensk lög og þann tilgang sem bundinn er í samþykktir félagsins, að
mestu leyti er um að ræða sjálfboðastörf en hjá samtökunum starfa þó tveir launaðir starfsmenn í
hlutastörfum. Enn fremur hafa samtökin verið tilnefnd af íslenskum stjórnvöldum, með auglýsingu
innanríkisráðherra nr. 1320/2011, til þess að fara með aðildarhæfi fyrir hönd neytenda samkvæmt
lögum um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda nr. 141/2001, sem fela í sér
innleiðingu í íslenskan rétt á tilskipun 2009/22/EB um lögbann til verndar hagsmunum neytenda.

Aðili sem kvörtun beinist að: Kvörtun þessi beinist að íslenska ríkinu, fyrir hönd þeirra stofnana á
Íslandi sem bera ábyrgð á réttri innleiðingu EES-reglna og framkvæmd þeirra að íslenskum rétti.

Ágreiningsefni sem kvörtun lýtur að: Kvörtun þessi lýtur í meginatriðum að því hvernig innleiðingu
og réttarframkvæmd reglna á sviði neytendaréttar, einkum varðandi neytendalán, hefur verið háttað á
Íslandi allt frá gildistöku EES-samningsins. Sérstaklega hvað varðar þá tegund neytendalána sem
einkennir íslenskan markað fyrir neytendalán, það er að segja svokölluð „verðtryggð lán“ sem voru
almennt heimiluð með lögum árið 1966 og fest frekar í sessi árið 1979. Var þá gert ráð fyrir að laun
yrðu einnig verðtryggð en frá því var horfið innan fárra ára og endanlega árið 1990. Æ síðan hafa slík
lán náð svo mikilli útbreiðslu á íslenskum lánamarkaði að þau nema nú nálægt 80% af skuldum
íslenskra heimila. Að mati kvartanda hefur framkvæmd slíkra lánveitinga á Íslandi lengst af verið
hagað með hætti sem stenst ekki þær kröfur sem gerðar eru til neytendalána í þeim reglum sem falla
undir EES-samninginn. Einkum er þar um að ræða þær reglur sem kveða á um að veita skuli neytenda
sem bestar upplýsingar um allan kostnað sem fylgir slíkri lántöku, en kvartandi telur að sú skylda hafi
verið vanrækt í tilfelli þess kostnaðar sem orsakast af verðtryggingu, auk þess sem íslensk löggjöf og
réttarframkvæmd, hafi brugðist þeirri skyldu að tryggja neytendum þann rétt með fullnægjandi hætti.
Samkvæmt þeim lögum sem sett hafa verið á Íslandi til þess að innleiða umræddar EES-reglur, ætti
slík vanræksla að hafa áhrif á skuldbindingar neytenda og umfang þeirra. Með þeirri réttarframkvæmd
sem komið hefur fram í dómum Hæstaréttar Íslands um slík álitaefni, hefur sá réttur neytenda hins
vegar verið fyrir borð borinn, með hætti sem kvartandi telur vera í andstöðu við EES-reglur. Hér á
eftir verður gerð nánari grein fyrir kvörtunarefninu og tengdum álitaefnum.

Hagsmunasamtök heimilanna • Ármúla 5 • 108 Reykjavík • kt. 520209-2120


heimilin@heimilin.is • www.heimilin.is
II. Lagaumhverfi

Verðtrygging lánsfjár

Á Íslandi er löng hefð fyrir svokallaðri séreignarstefnu í húsnæðismálum, og í því skyni hefur lengi
vel verið rekið opinbert kerfi húsnæðislána til að gera sem flestum kleift að eignast íbúðarhúsnæði.
Húsnæðislán í svipaðri mynd og nú þekkjast, hófust á 6. áratug 20. aldar þegar komið var á fót ýmsum
opinberum lánasjóðum, og með lögum nr. 55/1955 um húsnæðismálastjórn var þeim komið undir
sameiginlega opinbera stjórn. Var þá þegar kveðið á um verðtryggingu hluta lána stofnunarinnar, en
allar götur síðan hefur verðtrygging verið nátengd þróun opinbera húsnæðislánakerfisins.

Þar sem verðtrygging þekkist vart í lánum sem neytendum standa til boða í öðrum Evrópulöndum, er
rétt að gera hér stuttlega grein fyrir sérstökum eiginleikum slíkra lána og sögulegum forsendum þeirra
á Íslandi. Með verðtryggingu eru fjárskuldbindingar tengdar við þróun verðlags á tilteknum vörum og
þjónustu, þannig að lánsféð haldi raunvirði sínu þrátt fyrir að verð á umræddum vörum og þjónustu
hækki. Víðast hvar hefur þó verið litið svo á að vextir séu til þess fallnir að þjóna þessu hlutverki, en á
Íslandi hafa önnur sjónarmið náð yfirhöndinni, og heimilað hefur verið með lögum að verðtryggja
lánsfé, til að mynda með álagningu og innheimtu svokallaðra verðbóta auk umsaminna vaxta.

Verðbætur má líta á sem ígildi þeirra vaxta sem svara til hlutfallslegra verðlagsbreytinga frá stofndegi
til gjalddaga fjárskuldbindingar, svo sem endurgreiðslu eða afborgunar af láni. Framan af var reyndar
um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu, að samningsákvæði um verðtryggingu væru ekki
heimil frekar en sérstaklega væri leyft í lögum. Þessi meginregla endurspeglaðist til dæmis í 1. gr.
laga nr. 71/1966 um verðtryggingu fjárskuldbindinga, svo sem hér segir:

Eigi er heimilt frekar en leyft er í lögum þessum að stofna til fjárskuldbindinga í íslenzkum
krónum eða öðrum verðmæli með ákvæðum þess efnis, að greiðslur, þar með taldir vextir, skuli
breytast í hlutfalli við breytingar á vísitölum, vöruverði, gengi erlends gjaldeyris, verðmæti gulls,
silfurs eða annars verðmælis.

Ákvæði í fjárskuldbindingum, sem brjóta í bága við ákvæði 1. málsgreinar, eru ógild.

...

Með lögum nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála o.fl., var horfið að nokkru leyti frá því að líta á
verðtryggingu sem undantekningu og var þess í stað tekin upp sú stefna að festa hana í sessi sem
meginreglu. Þannig var til dæmis í 33. gr. laganna mælt fyrir um svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða
við 13. gr. þágildandi laga nr. 10/1961 um Seðlabanka Íslands:

Vaxtaákvarðanir á árunum 1979 og 1980 skulu við það miðaðar, að fyrir árslok 1980 verði í
áföngum komið á verðtryggingu sparifjár og inn- og útlána, sbr. VII. kafla þessara laga um
verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Meginreglan verði sú, að höfuðstóll skuldar breytist með
verðlagsþróun en jafnframt verði nafnvextir lækkaðir. Afborganir og vextir reiknist af verðbættum
höfuðstól. Verðtrygging verði reiknuð í hlutfalli við verðbreytingar. Samhliða verðtryggingu verði
lánstími almennt lengdur og skal setja um þetta efni almennar reglur, þar á meðal um heimildir til
skuldabréfaskipta af þessu tilefni.

Með ákvæðinu var sérstaklega innleidd sú meginstefna að verðbæta höfuðstól lánsfjár auk vaxta.

2 / 26
VII. kafli laga nr. 13/1979 hafði að geyma almennar reglur um verðtryggingu, en í 34. gr. sagði:

Stefna skal að því að verðtryggja sparifé landsmanna og almannasjóða. Í því skyni er heimilt, eins
og nánar greinir í þessum kafla, að mynda sparifjárreikninga og stofna til lánsviðskipta í
íslenskum krónum eða öðrum verðmæli með ákvæðum þess efnis, að greiðslur, þar með taldir
vextir, skuli breytast í hlutfalli við verðvísitölu eða gengi erlends gjaldeyris, sbr. 39. gr.

Í 39. gr. laganna var kveðið á um að verðtrygging skyldi miðast við tiltekna vísitölu sem Seðlabanki
Íslands birtir, svokallaða lánskjaravísitölu. Enn fremur var í samræmi við fyrrnefnt bráðabirgðaákvæði
sbr. 33. gr., einnig kveðið í 40. gr. á um almenna heimild til að verðbæta höfuðstól lánsfjár:

Heimilt er að ákveða verðtryggingu í því formi, að sérstakur verðbótaþáttur vaxta, sem sé tengdur
verðlagsbreytingum með formlegum hætti, leggist við höfuðstól láns eða sé hluti forvaxta.

Í kjölfar þessarar lagasetningar voru jafnframt sett lög nr. 51/1980 um Húsnæðismálastofnun sem þá
hafði tekið við stjórn húsnæðismála, en með lögunum voru gerðar margvíslegar breytingar á þessu
sviði. Í 33. gr. laganna var kveðið á um að öll lán stofnunarinnar til almennings skyldu vera „að fullu
verðtryggð“ og skyldi höfuðstóll þeirra miðast við lánskjaravísitölu eins og hún er á hverjum tíma
samkvæmt áðurnefndri 39. gr. laga nr. 13/1979. Sambærilegt ákvæði var að finna í 30. gr. laga nr.
60/1984 um Húsnæðisstofnun ríkisins sem leystu hin eldri af hólmi. Þrátt fyrir talsverðar breytingar á
þeim lögum næstu árin héldust ákvæðin um verðtryggingu höfuðstóls lána almennt óbreytt.

Framangreint bráðabrigðaákvæði við lög nr. 10/1961 um Seðlabanka Íslands sbr. lög nr. 13/1979 hélt
gildi sínu allt þar til lögin voru felld brott með nýjum lögum nr. 36/1986 um Seðlabanka Íslands, án
þess að sambærilegt ákvæði kæmi fram í hinum nýrri lögum. Tæpu ári síðar voru svo í fyrsta sinn sett
almenn vaxtalög nr. 25/1987, en þau náðu þó upphaflega ekki til verðtryggingar sérstaklega.
Vaxtalögum var síðar breytt með lögum nr. 13/1995, sem felldu brott VII. kafla laga nr. 13/1979, þar
með talin fyrrgreind ákvæði 34. og 39.-40. gr., og færðu þess í stað nýjan V. kafla í lög nr. 25/1987
sem hafði að geyma almennar reglur um verðtryggingu. Með breytingunni féll niður sú sérstaka
heimild sem áður var að finna í 40. gr. laga nr. 13/1979 til að verðbæta höfuðstól spari​fjár og láns​fjár,
en hið nýja ákvæði 20. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 um heimildir til verðtryggingar var svohljóðandi:

Ákvæði kafla þessa gilda um skuldbindingar um sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem
skuldari lofar að greiða peninga og þar sem áskilið er að greiðslurnar skuli breytast í hlutfalli við
verðvísitölu eða vísitölu gengis á erlendum gjaldmiðli

Samhliða þessu var gerð sú breyting að í stað hinnar eldri lánskjaravísitölu sbr. 39. gr. laga nr.
13/1979 skyldi verðtrygging framvegis miðast við vísitölu sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir,
samkvæmt lögum nr. 12/1995 um vísitölu neysluverðs sem höfðu þá nýlega tekið gildi.

Með lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál var komið á fót nýrri stofnun, Íbúðalánasjóði, sem tók við
fyrra hlutverki Húsnæðisstofnunar en þó í talsvert breyttri mynd, meðal annars að í stað þess að njóta
beinna framlaga frá ríkinu átti sjóðurinn að sækja sér fjármagn á frjálsum markaði. Í 19. gr. laganna
var kveðið á um verðtryggingu fasteignaveðbréfa vegna almennra lána, en þar segir í 1. mgr.:

Fasteignaveðbréf skal vera verðtryggt með vísitölu neysluverðs, sbr. lög um vísitölu neysluverðs,
og hafa sömu lánskjör og þau húsbréf sem skipta á fyrir fasteignaveðbréfið, sbr. 24. gr., að
viðbættu föstu vaxtaálagi, sbr. 28. gr.

3 / 26
Vaxtalög nr. 25/1987 voru felld úr gildi með núgildandi lögum nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu, en VI. kafli þeirra hefur að geyma almennar reglur um verðtryggingu sparifjár og
lánsfjár. Þar er gildissvið heimilda til verðtryggingar skilgreint í 1. mgr. 13. gr. svo sem hér segir:

Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar
sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli
verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda
verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.

Enn fremur sagði upphaflega í 14. gr. laganna nr. 38/2001, um heimildir til verðtryggingar:

Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar


vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og
birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir
um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár næsta mánuð á eftir.

Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra
vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.

Með lögum nr. 51/2007 var síðari málslið 1. mgr. 14. gr. laganna breytt á þann veg sem hér segir og er
ákvæðið enn í gildi svo breytt:

… Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár
frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.

Samkvæmt þessu er ljóst að sá mælikvarði sem lagður er til grundvallar við útreikning verðtryggingar
á Íslandi er vísitala neysluverðs, reiknuð og birt opinberlega af Hagstofu Íslands samkvæmt lögum nr.
12/1995 um vísitölu neysluverðs. Þar sem vísitölustig hvers mánaðar er notað til verðtryggingar næsta
eða þar næsta mánuð er jafnframt ljóst að breyting vísitölunnar (verðbólga) undanfarna mánuði fram
til þess næsta og eftir atvikum þar næsta mánaðar, var og er ávallt þekkt á hverjum tíma.

Auk þessa er Seðlabanka Íslands falið í 2. mgr. 15. gr. laganna nr. 38/2001 að setja „nánari reglur um
verðtryggingu sparifjár og lánsfjár“, þar á meðal um lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána.
Skömmu eftir gildistöku laganna setti bankinn á grundvelli þeirrar heimildar, reglur nr. 492/2001 um
verðtryggingu sparifjár og lánsfjár sem leystu af hólmi eldri reglur um sama efni. Í 4. gr. reglnanna er
að finna ákvæði um verðtryggð útlán, en í 2. mgr. er kveðið á um eftirfarandi útfærslu þeirra:

Höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu til fyrsta
gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Skal höfuðstóll láns
breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út.

Athygli vekur að í ákvæðinu sé gert ráð fyrir því að heimilt sé að verðbæta höfuðstól lánsfjár, hér með
beinni tengingu við vísitölu, þrátt fyrir að sérstakar heimildir til þess hafi fallið brott úr lögum á
árunum 1986 til 1987. Að íslenskum rétti þyrftu stjórnvaldsfyrirmæli sem þessi, jafnan að styðjast við
fullnægjandi heimild í settum lögum til þess að geta talist hafa bindandi áhrif. Svo virðist reyndar sem
hið umrædda orðalag hafi einfaldlega staðið óbreytt í tilkynningum og reglum sem Seðlabanki Íslands
hefur birt og endurnýjað margoft í gegnum tíðina, eða allt frá gildistíma laga nr. 19/1979, en að því er
virðist án tillits til þeirra margvíslegu breytinga sem síðan þá hafa orðið á lagaumhverfinu.

4 / 26
Neytendalán

Fyrir gildistöku EES-samningsins voru ekki í gildi almenn lög um lánsviðskipti eða afborgunarkaup á
Íslandi. Í aðdraganda gildistökunnar hófust íslensk stjórnvöld því handa strax árið 1992 við aðlögun
íslenskrar löggjafar að reglum Evrópusambandsins á þessu sviði. Var þá einkum höfð til hliðsjónar
þágildandi tilskipun 87/102/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna
varðandi neytendalán, með þeim breytingum sem urðu á henni samkvæmt tilskipun 90/88/EBE.
Þessar reglur voru síðan innleiddar í íslenskan rétt með lögum nr. 30/1993, en ári síðar voru þau lög
endurskoðuð og gefin út að nýju sem lög nr. 121/1994 um neytendalán.

Meginefni tilskipunar 87/102/EBE snýr að upplýsingaskyldu lánveitanda um skilmála lánasamninga,


þýðingu þeirra fyrir neytanda og sérstaklega þeim kostnaði sem hann þarf að greiða samkvæmt þeim
skilmálum. Þannig segir til að mynda í 9. mgr. inngangsorða tilskipunarinnar:

Rétt er að neytendur fái fullnægjandi upplýsingar um lánsskilyrði, lánskostnað og um


skuldbindingar sínar. Upplýsingar þessar ættu meðal annars að taka til árlegrar hlutfallstölu
lánskostnaðar eða, sé því ekki til að dreifa, heildarupphæðarinnar sem neytandinn þarf að greiða
fyrir lánið. …

Hvað varðar þær upplýsingar sem skuli koma fram í lánssamningi segir m.a. í 4. gr tilskipunarinnar:

1. Lánssamningar skulu gerðir skriflega. Neytandinn skal fá eintak af slíkum skriflegum samningi.
2. Í skriflega samningnum skal eftirfarandi koma fram:
a) yfirlýsing um árlega hlutfallstölu lánskostnaðar;
b) yfirlýsing um það við hvaða aðstæður megi breyta árlegri hlutfallstölu lánskostnaðar. Í því
tilviki að ekki sé unnt að gefa yfirlýsingu um árlega hlutfallstölu lánskostnaðar, skal veita
neytandanum nægjanlegar upplýsingar í skriflega samningnum. Upplýsingar þessar skulu a.m.k.
taka til þess sem kveðið er á um í öðrum undirlið 1. mgr. 6. gr.
c) tilgreining upphæðar, fjölda og tíðni eða gjalddaga greiðslna er neytandinn verður að inna af
hendi til að endurgreiða lánið, sem og um greiðslur fyrir vexti og annan kostnað. Heildarupphæð
þessara greiðslna ætti einnig að tilgreina þar sem unnt er;

Árleg hlutfallstala kostnaðar er skilgreind þannig í a-lið 1. mgr. 1. gr. a tilskipunar 87/102/EBE, eins
og henni var breytt samkvæmt 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 90/88/EBE:

Árleg hlutfallstala kostnaðar skal vera það sem svarar til núvirðis allra skuldbindinga (lána,
endurgreiðslna og kostnaðar), er til kann að koma eða þegar eru fyrir hendi og lánveitandi og
lántakandi hafa samið um, og skal reiknað út í samræmi við þá stærðfræðiformúlu sem sett er
fram í II. viðauka.

Jafnframt segir í d-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar eins og henni var breytt samkvæmt 1. mgr. 1. gr.
tilskipunar 90/88/EBE, að „heildarlánskostnaður neytandans“ merki:

… allan kostnað, að meðtöldum vöxtum og öðrum kostnaði sem neytandinn þarf að greiða fyrir
lánið.

5 / 26
Þá segir í a-lið 4. mgr. 1. gr. a tilskipunar 87/102/EBE, sbr. 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 90/88/EBE:

Árleg hlutfallstala kostnaðar skal reiknuð út á þeim tíma sem lánssamningur er gerður…

Í tilskipuninni er ekki gert ráð fyrir verðtryggingu sérstaklega, enda eru slíkir skilmálar almennt ekki
notaðir í lánssamningum í öðrum Evrópulöndum. Það sem kemst e.t.v. næst því er ákvæði í 6. mgr. 1.
gr. a tilskipunarinnar sem gerir ráð fyrir því með eftirfarandi hætti að sumir þeirra kostnaðarliða sem
upplýsingaskyldan nær til, einkum vextir, geti verið breytilegir og fyrirfram óþekktir:

Þegar um er að ræða lánssamninga, sem í eru ákvæði er heimila breytingar á vaxtagjöldum og


upphæð eða stigi annars kostnaðar er fellur undir árlega hlutfallstölu kostnaðar en ekki er unnt
að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu
kostnaðar á þeirri forsendu að vextir og annar kostnaður verði óbreytanlegur og gildi fram til
loka lánssamnings.

Eins og fyrr segir var tilskipun 87/102/EBE eins og henni hafði verið breytt með tilskipun 90/88/EBE,
innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 30/1993 um neytendalán. Í athugasemdum með frumvarpi til
laganna kom fram að tilgangur tilskipunarinnar væri að samræma reglur hvers lands á sviði
neytendalána um hvaða upplýsingar neytendur skulu fá í tengslum við lán í því skyni að ná fram
jafnari stöðu lánveitenda og tryggja neytendum sem mesta vernd. Í 6. kafla almennra athugasemda
með frumvarpinu var fjallað um árlega hlutfallstölu kostnaðar, en þar segir meðal annars:

Það er meginatriði í tilskipun nr. 87/102 EBE [sic] og frumvarpinu að lántakandi skuli fá
upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar í prósentum í tengslum við samþykkt samnings.

… Tilgangurinn með ákvæði er skyldar lánveitanda til að upplýsa lántakanda um árlega


hlutfallstölu er að gefa lántakanda færi á að meta hve mikill kostnaður fylgir láninu. …

Upplýsingar um hlutfallstöluna gera lántakanda auðveldara að bera saman mismunandi


lánstilboð og geta því komið að gagni í samkeppninni og jafnvel haft áhrif til lækkunar á
lántökukostnaði. Skilgreining árlegrar hlutfallstölu í frumvarpinu er í samræmi við a-lið 1. gr. í
áðurnefndri tilskipun.

Um útreikning hlutfallstölunnar fer eftir stærðfræðilíkingu sem sett verður í reglugerð og er þá


gert ráð fyrir að farið verði eftir samræmdum EES-reglum á hverjum tíma. Í frumvarpinu kemur
fram hvað er tekið með í útreikning á árlegri hlutfallstölu. …

Þannig var frá upphafi gert ráð fyrir því að árleg hlutfallstala yrði meginatriði í þeim upplýsingum
sem skyldi veita í tengslum við lán, að útreikningur hennar skyldi fara eftir samræmdum EES-reglum,
og að sá útreikningur skyldi innifela þá þætti sem nánar væri kveðið á um í frumvarpinu.

Eftir ýmsar breytingar á frumvarpinu í meðförum Alþingis var það samþykkt sem lög nr. 30/1993.
Árleg hlutfallstala og heildarlántökukostnaður voru skilgreind þannig í d-e lið 4. gr. laganna:

d. Heildarlántökukostnaður neytanda er allur kostnaður sem hlýst af töku lánsins og neytanda


ber að greiða, þar með taldar vaxtagreiðslur.

e. Árleg hlutfallstala kostnaðar er heildarlántökukostnaður sem hlýst af gerð lánssamnings, lýst


sem árlegri prósentu af upphæð láns þess sem veitt er og reiknuð út í samræmi við 10.–12. gr.

6 / 26
Eins og í 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 87/102/EBE var kveðið á um skriflega samninga í 5. gr. laganna:

Lánssamningur skal gerður skriflega og fela í sér upplýsingar þær sem tilgreindar eru í 6. og 8.
gr. Neytandi skal fá í hendur eintak af lánssamningnum.

Ákvæði framangreindra a-c liða 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar um þær upplýsingar sem skyldu koma
fram í lánssamningi voru innleidd í 6. gr. laga nr. 30/1993, sem var svohljóðandi:

Við gerð lánssamnings skal lánveitandi gefa neytanda upplýsingar um:


1. Höfuðstól, þ.e. lánsfjárhæð án nokkurs kostnaðar.
2. Fjárhæð útborgunar, þ.e. höfuðstól að frádregnum lánskostnaði.
3. Árlega nafnvexti.
4. Lántökukostnað í krónum, reiknaðan út skv. 7. gr.
5. Árlega hlutfallstölu kostnaðar, þ.e. heildarlántökukostnað, lýst sem árlegri prósentu af
upphæð höfuðstólsins og reiknaðri út skv. 10.–12. gr.
6. Heildarupphæð þá sem greiða skal, þ.e. samtölu höfuðstóls, vaxta og lánskostnaðar.
7. Fjölda einstakra greiðslna, fjárhæð þeirra og gjalddaga.
8. Gildistíma lánssamnings og skilyrði uppsagnar hans.

Ef breyta má lánskostnaði, afborgunum eða öðrum atriðum lánskjara á samningstímanum skal


lánveitandi greina neytanda frá því við hvaða aðstæður breytingarnar geta orðið. Ef ekki er unnt
að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar skal lánveitandi þess í stað skýra neytanda frá því
hverjir árlegir nafnvextir eru, hvaða gjöld falla á lánið og við hvaða aðstæður breytingar geti
orðið.

Eins og sjá má er um nokkuð víðtæka og ítarlega upplýsingaskyldu að ræða. Í 7. gr. var nánar kveðið
á um útreikning lántökukostnaðar sem skyldi í meginatriðum fela í sér allan kostnað af láninu, þar
með talda vexti og önnur gjöld sem neytandi skyldi greiða af því, þó með ákveðnum undantekningum,
þar á meðal kostnaði vegna vanskila. Jafnframt var kveðið nánar á um útreikning árlegrar hlutfallstölu
kostnaðar í 10.-12. gr. sem voru hliðstæðar efnislegum ákvæðum 1. gr. a í tilskipuninni. Þannig var til
dæmis a-lið liður 1. mgr. 1. gr. a í tilskipuninni innleiddur nánast orðrétt í 10. gr. laganna:

Árleg hlutfallstala kostnaðar er tala sem svarar til núvirðis allra skuldbindinga (lána,
endurgreiðslna og kostnaðar) er til kann að koma eða þegar eru fyrir hendi og lánveitandi og
neytandi hafa samið um. Hlutfallstalan skal reiknuð út í samræmi við stærðfræðilíkingu sem
nánar er mælt fyrir um í reglugerð er ráðherra setur. Í henni skal einnig setja nánari reglur um
útreikning kostnaðar.

Á grundvelli ákvæðisins var svo sett sérstök reglugerð með nánari útfærslu á útreikningi árlegrar
hlutfallstölu kostnaðar með þeirri stærðfræðiformúlu sem sett var fram í II. viðauka tilskipunarinnar.
(Sjá 5. gr. reglugerðar nr. 377/1993 um neytendalán, síðar breytt með reglugerð nr. 236/2000.)

Enn fremur var fyrrnefnd 4. mgr. 1. gr. a tilskipunarinnar þar sem segir hvenær útreikningur þessi
skyldi gerður, innleiddur efnislega óbreyttur í 11. gr. sem var svohljóðandi:

Árleg hlutfallstala kostnaðar skal reiknuð út á þeim tíma sem lánssamningur er gerður. Við
útreikning árlegrar hlutfallstölu skal gengið út frá því að lánssamningur gildi umsaminn tíma og
að lánveitandi og neytandi standi við skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum samningsins.

7 / 26
Líkt og í tilskipun 87/102/EBE var hvergi gert sérstaklega ráð fyrir verðtryggingu í upphaflegu
frumvarpi til laga nr. 30/1993. Þó var ákvæði hliðstætt fyrrnefndri 6. mgr. 1. gr. a tilskipunarinnar
varðandi upplýsingagjöf um breytilegan lánskostnað að finna í 9. gr. laganna, svohljóðandi:

Þó að í lögum þessum sé kveðið á um að neytandi skuli fá upplýsingar um vexti eða fjárhæðir þar
sem vextir eru meðtaldir, sbr. 6. gr., kemur það ekki í veg fyrir að aðilar geti samið um að vextir
séu að nokkru eða öllu leyti breytilegir. Skal þá greint frá vöxtum eins og þeir eru á þeim tíma
sem upplýsingarnar eru gefnar, tilgreint skal með hvaða hætti vextirnir eru breytilegir og við
hvaða aðstæður þeir breytast.

Þrátt fyrir að í ákvæðinu sé aðallega vísað til breytilegra vaxta, hefði þó hugsanlega mátt líta svo á að
verðtrygging gæti rúmast innan orðalagsins „…eða fjárhæðir þar sem vextir eru meðtaldir,“. Jafnframt
var lagt til í frumvarpinu að umrætt ákvæði 6. mgr. ásamt 7. mgr. 1. gr. a tilskipunarinnar svipaðs
efnis, yrðu innleidd í 12. gr. laganna en þar sagði meðal annars í 1. mgr.:

Ef lánssamningur heimilar breytingu á vaxtagjöldum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti
árlegrar hlutfallstölu kostnaðar en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur
er gerður skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar á þeirri forsendu að vextir og annar
kostnaður verði óbreyttur til loka lánstímabilsins.

Líkt og í framangreindri 9. gr. vísaði 1. mgr. 12. gr. aðallega til breytinga á vöxtum, en að sama skapi
hefði mátt líta svo á að verðtrygging gæti rúmast innan skilgreiningar á „…öðrum gjöldum sem teljast
hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar…“ að því gefnu að ljóst væri að hún félli þar undir.

Í þessu samhengi er rétt að nefna að tveimur árum fyrr hafði Seðlabanki Íslands beint greinargerð til
viðskiptaráðuneytisins um upplýsingaskyldu vegna lánveitinga með beiðni um lögfestingu virkra
vaxta, sem eru í raun það sama og árleg hlutfallstala kostnaðar. Í þeirri greinargerð var gert ráð fyrir
að auk afborgana, vaxta o.fl. ætti jafnframt að telja verðbætur með í slíkri upplýsingagjöf. Með vísan
til þeirrar greinargerðar, gerði Seðlabanki Íslands þá tillögu í umsögn sinni við frumvarpið til laga nr.
30/1993, að 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins yrði breytt á þann veg að á eftir orðinu „vaxtagjöldum“
kæmi: „vísitölubinding og verðlagsviðmiðun“ þannig að verðbætur yrðu taldar með rétt eins og vextir.
Við meðferð frumvarpsins á Alþingi var fallist á þessa tillögu, og var hún færð í ákvæði 1. mgr. 12.
gr. sem rataði að endingu í lögin svohljóðandi (með breytingunni undirstrikaðri til áherslu):

Ef lánssamningur heimilar breytingu á vaxtagjöldum, þar með talið vísitölubinding og


verðlagsviðmiðun, eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar en ekki er
unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður skal reikna út árlega
hlutfallstölu kostnaðar á þeirri forsendu að vextir og annar kostnaður verði óbreyttur til loka
lánstímabilsins.

Breytingin var skýrð á eftirfarandi hátt í áliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við frumvarpið:

Lagt er til að 12. gr. verði breytt þannig að vísitölubinding og verðlagsviðmiðun teljist til
vaxtagjalda í ákvæðinu.

Af þessu verður ekki annað ráðið en að vilji löggjafans hafi staðið til þess að telja kostnað vegna
verðtryggingar með sem hluta lánskostnaðar á sama hátt og vexti, þegar árleg hlutfallstala kostnaðar
væri reiknuð út, og þar með sem hluta heildarlántökukostnaðar sbr. e-lið 4. gr. og 7. gr. laganna.

8 / 26
Innan við ári eftir gildistöku laga nr. 30/1993 höfðu þau verið endurskoðuð og nýtt frumvarp lagt fram
sem innihélt tillögur um ýmsar breytingar, þar á meðal á orðalagi 1. mgr. 12. gr. eins og hér segir:

Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast
hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem
útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að
verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans.

Þessi orðalagsbreyting var skýrð í athugasemdum með frumvarpinu á eftirfarandi hátt:

Hér er lagt til að orðalag ákvæðisins verði gert skýrara. Hugtakið verðtrygging er notað í
víðtækri merkingu þannig að það nær til hvers konar verðtryggingar sem heimiluð er hér á landi.

Þannig var í raun ekki um efnislega breytingu að ræða, heldur einungis að orðalag ákvæðisins væri
gert skýrara svo ótvírætt væri að það næði til hverskonar verðtryggingar sem heimiluð væri á Íslandi.
Frumvarpið var samþykkt á Alþingi í maí 1994 og breytingar samkvæmt þeim tóku gildi 18. október
sama ár, en þannig breytt voru lögin endurútgefin sem lög nr. 121/1994 um neytendalán.

Gildissvið laga um neytendalán tók í upphafi mið af tilskipun 87/102/EBE og var því takmarkað við
ákveðin fjárhæðarmörk og lánaflokka sem talin eru upp í 2. gr. tilskipunarinnar. Þar á meðal voru lán í
formi yfirdráttarheimilda af tékkareikningum og lán sem tryggð eru með veði í fasteign, samkvæmt
f-h liðum 1. mgr. 2. gr. laga nr. 121/1994. Gildissvið laganna var þó síðar útvíkkað með lögum nr.
179/2000 sem tóku gildi 11. janúar 2001, en með 1. gr. þeirra voru hin umræddu undanþáguákvæði
felld brott. Í áliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við frumvarpið sagði um þá breytingu:

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að f-lið 1. mgr. 2. gr. laganna, sem kveður á um að
lánssamningar sem tryggðir eru með veði í fasteign séu undanþegnir lögum um neytendalán,
verði breytt þannig að hann taki til lánssamninga sem Íbúðalánasjóður gerir eða annarra
sambærilegra fasteignaveðlánasamninga sem gerðir eru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis. Við
athugun málsins kom í ljós að annars staðar á Norðurlöndunum falla lánveitendur sem veita lán
með veði í fasteign til lengri tíma undir ákvæði laga um neytendalán. Ástæðulaust þykir að
undanskilja slíka aðila ákvæðum laganna og þeirri skyldu að veita lántakanda upplýsingar um
árlega hlutfallstölu kostnaðar af láni. Við meðferð málsins í nefndinni kom í ljós að
Íbúðalánasjóður, sem er sá aðili sem gerir flesta lánssamninga vegna öflunar íbúðarhúsnæðis, er
ekki mótfallinn því að ákvæði laga um neytendalán taki einnig til slíkra samninga. Með hliðsjón
af þessu leggur nefndin jafnframt til að f-liður 1. mgr. 2. gr. laganna falli brott.

Með þessari breytingu voru ýmis lán, þar á meðal lán sem veitt eru vegna öflunar húsnæðis, felld
undir gildissvið laga um neytendalán. Jafnframt má líta svo á að með því hafi löggjafinn verið að nýta
sér það svigrúm sem veitt er í 15. gr. tilskipunar 87/102/EBE þar sem segir:

Tilskipun þessi skal ekki koma í veg fyrir að aðildarríki viðhaldi eða taki upp strangari ákvæði til
að vernda neytendur er samrýmist skuldbindingum þeirra samkvæmt sáttmálanum.

Þessi breyting var afar þýðingarmikil vegna þess hve stór hluti húsnæðismarkaðarins á Íslandi byggist
á lánsfjármögnun til húsnæðiskaupa. Með breytingunni var gildissvið laga um neytendalán í raun
útvíkkað frá því að ná upphaflega til fremur takmarkaðs hluta lánamarkaðsins, til þess að ná í raun til
allflestra lána sem standa einstaklingum og heimilum til boða á Íslandi.

9 / 26
Um afleiðingar af vanrækslu á upplýsingagjöf sagði í frumvarpi til laga nr. 30/1993:

Í tilskipun nr. 87/102 EBE eru ekki neinar reglur um til hvers það leiðir ef lánveitandi lætur hjá
líða að upplýsa lántakanda um árlega hlutfallstölu kostnaðar. Lög í hverju landi verða því að
skera úr um það. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að þegar árleg hlutfallstala kostnaðar er of
lág í lánssamningum með fastri fjárhæð skuli lánveitandi ekki krefja lántakanda um hærri kostnað
en samningur kveður á um, sbr. 14. gr. … . Fyrir vikið verður að ætla að lánveitendur gæti þess
að fullnægja upplýsingaskyldunni. … Hér skal vísað til athugasemda við 14. gr.

Meðal þess sem kom fram í hinum tilvísuðu athugasemdum við 14. gr. var að meginreglan yrði sú að
ekki mætti krefjast frekari lántökukostnaðar í prósentum en samningurinn kveður á um. Ákvæðinu var
breytt lítillega við endurskoðun laganna sbr. lög nr. 121/1994 og var þá kveðið enn fastar að orði í
athugasemdum við ákvæðið í viðkomandi frumvarpi, þannig að vexti og annan lántökukostnað sem
ekki kæmi fram í samningi yrði með öllu óheimilt að innheimta, en 14. gr. var þá svohljóðandi:

Nú eru vextir eða annar lántökukostnaður ekki tilgreindir í lánssamningi og er lánveitanda þá


eigi heimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra. Að öðru leyti fer um vexti af neytendalánum
samkvæmt ákvæðum vaxtalaga.

Lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í


samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of
lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri
árlega hlutfallstölu kostnaðar.

Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki ef lánveitandi getur sannað að neytanda hefði mátt vera ljóst hver
lántökukostnaðurinn átti að vera. Ef ákvæði 1. eða 2. mgr. leiða til lækkunar eftirstöðva skal
neytandi greiða þær samkvæmt samningnum og lækkunin koma fram á síðustu afborgunum.

Hin endurnýjuðu lög nr. 121/1994 um neytendalán héldu gildi sínu án þess að verulegar breytingar
væru gerðar á framangreindum ákvæðum, allt til ársins 2013. Þá hafði tilskipun 87/102/EBE verið
endurskoðuð og ný tilskipun 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur leyst hana af hólmi. Ráðist
var í endurskoðun laganna og til þess að innleiða hina nýju tilskipun voru sett ný lög um neytendalán
nr. 33/2013 sem felldu hin eldri lög úr gildi. Sem fyrr var kveðið á um útreikning árlegrar hlutfallstölu
kostnaðar, nú í 21. gr. frumvarps til hinna nýju laga sem var að mestu leyti sama efnis og 10.-12. gr.
hinna eldri laga, þar á meðal 3. mgr. sem var samhljóða margumræddri 1. mgr. 12. gr. eldri laganna.
Við meðferð frumvarpsins var athygli löggjafans hins vegar vakin á því að þrátt fyrir áskilnað um að
verðtrygging skyldi innifalin, hefði hún verið undanskilin í útreikningi árlegrar hlutfallstölu kostnaðar
og heildarlántökukostnaðar af hálfu flestra lánveitenda. Var því ákveðið að bæta nýjum málslið við
ákvæðið til að ítreka enn á ný þann skýra vilja löggjafans að kostnaður vegna verðtryggingar skyldi
talinn með í slíkum útreikningi, og með nýju lögunum tók ákvæðið gildi þannig breytt:

Ef lánssamningur heimilar breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar
hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er
gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og
önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans. Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu skal
útreikningur árlegrar hlutfallstölu kostnaðar miðast við ársverðbólgu samkvæmt tólf mánaða
breytingu vísitölu neysluverðs og þá forsendu að ársverðbólga verði óbreytt til loka lánstímans.

10 / 26
III. Málsatvik

Umfang og áhrif verðtryggingar

Til þess að varpa ljósi á mikilvægi kvörtunarefnisins er nauðsynlegt að gera sérstaklega grein fyrir því
hversu umfangsmikil verðtrygging er á íslenskum markaði fyrir neytendalán og hvaða áhrif það hefur
haft á skuldbindingar íslenskra neytenda. Eins og áður hefur komið fram hefur verðtrygging lengst af
verið nátengd þróun opinbers húsnæðislánakerfis sem hefur verið liður í svokallaðri séreignarstefnu í
húsnæðismálum. Sú stefna felur í sér áherslu á að sem flestir eignist sitt eigið eigið íbúðarhúsnæði, á
meðan minni áhersla hefur verið lögð á leiguhúsnæði sem almennan valkost.

Til þess að fjármagna húsnæðiskaup almennings hefur verið komið á fót opinberu kerfi húsnæðislána
sem lengi vel var eini valkostur neytenda, þar sem fjármálamarkaður var mestan hluta 20. aldar
fábreyttur og óaðgengilegur fyrir almenna neytendur. Lengst af voru flestir bankar ríkisreknir og þeir
fáu sem stofnaðir voru af einkaaðilum lögðu aðallega áherslu á þjónustu við atvinnulífið eða einstakar
greinar þess. Á þessu varð þó nokkur breyting í upphafi 21. aldar þegar stjórnvöld hófu að einkavæða
ýmis ríkisrekin fyrirtæki, þar á meðal banka og aðrar lánastofnanir. Í kjölfarið hófu einkareknir bankar
innreið sína á neytendalánamarkað, og tóku að bjóða neytendum húsnæðislán í samkeppni við hinn
ríkisrekna Íbúðalánsjóð. Verðtrygging var þá þegar orðin rótgróinn og allt að því órjúfanlegur hluti af
íslensku fjármálaumhverfi, enda höfðu húsnæðislán opinberra lánastofnana lengst af verið verðtryggð.
Á þessu varð ekki breyting með innkomu einkareknu bankanna á lánamarkaðinn, og má því segja sem
svo að neytendum hafi í gegnum tíðina ekki staðið til boða neinir aðrir valkostir á sviði húsnæðislána
heldur en verðtryggð lán. Óverðtryggð lán hafa almennt ekki staðið almenningi til boða fyrr en á allra
síðustu árum, einkum í kjölfar leiðréttinga á ólöglega gengistryggðum lánum, og hinir breytilegu
nafnvextir slíkra lána eru enn það háir að þau standast illa samkeppni við verðtryggðu lánin.

Samkvæmt opinberum hagtölum Hagstofu Íslands eru á bilinu 60-70% heimila landsins skuldsett
vegna húsnæðiskaupa. Samkvæmt opinberum hagtölum Seðlabanka Íslands voru hér um bil 85% af
skuldum íslenskra heimila verðtryggðar um síðustu aldamót, og hefur það hlutfall haldist um og yfir
80% þrátt fyrir að framboð óverðtryggðra lána hafi aukist nokkuð í seinni tíð. Þessi mikla útbreiðsla
verðtryggðra lána hefur hins vegar ekki reynst íslenskum neytendum vel, þar sem þau eru tengd við
þróun verðbólgu, sem hefur sögulega verið afar sveiflukennd á Íslandi og að jafnaði frekar há. Þannig
var ekki óalgengt lengst af 20. öldinni að verðbólga á ársgrundvelli næði tugum prósenta, svo tekið sé
dæmi var verðbólgan á árinu 1983 hvorki né minna en rúmlega 70%. Eina leið launþega til að standa
undir þeirri ört hækkandi skuldabyrði sem þessu fylgir er að krefjast launahækkana, sem hefur getið af
sér sífellt kapphlaup launþegasamtaka við rýrnandi kaupmátt og hækkandi skuldir almennings.

Mikilvægur áhrifaþáttur í þessu samhengi er sá sérstaki eiginleiki verðtryggðra lána á Íslandi, að í stað
þess að breytilegum vöxtum sé beitt til að laga greiðslubyrði þeirra og ávöxtun að efnahagssveiflum,
er sjálfur höfuðstóll þeirra beintengdur við verðbólguþróun, auk þess að bera nafnvexti sem er algengt
að séu á bilinu 4-5%. Samkvæmt upplýsingum sem komu fram í 1. tölublaði rits Seðlabankans Íslands
um fjármálastöðugleika árið 2011, hefur þessi útfærsla verðtryggðra lána haft þá afleiðingu í för með
sér að hartnær helmingur allra skulda íslenskra heimila er til kominn vegna áhrifa verðtryggingar.
Einnig er vert að geta þess að vísitala neysluverðs á Íslandi er reiknuð þannig að auk verðlags á
neysluvörum og þjónustu inniheldur hún einnig húsnæðiskostnað. Þar sem verðbætur húsnæðislána
eru í raun mjög stór hluti húsnæðiskostnaðar á Íslandi má því segja að vísitalan mæli í raun sjálfa sig
að verulegu leyti, en það hefur hefur í för með sér mögnunaráhrif sem ýkja verðbólgutoppa.

11 / 26
Auk umfangs verðtryggingar neytendalána á Íslandi er einnig nauðsynlegt að gera nánar grein fyrir
sérstökum eiginleikum slíkra lána. Þegar verðtrygging berst í tal við utanaðkomandi aðila ókunnuga
íslensku fjármálaumhverfi er algengt að þeir dragi í fyrstu þá ályktun að um sé að ræða einhverskonar
fyrirkomulag breytilegra vaxta þar sem breytingarnar taki mið af breytingum á verðbólgu. Ef því væri
þannig farið þá gætu vextir bæði hækkað eða lækkað eftir því hvort verðbólga er há eða lág. Því fer þó
fjarri að svo sé þar sem íslensk lán eru útfærð þannig að vextirnir breytast ekki endilega, heldur sjálfur
höfuðstóll lánsins, og hann sveiflast ekki með verðbólgustigi, heldur breytist í hlutfalli við breytingar
á sjálfri vísitölu neysluverðs sem verðtryggingin miðast við. Þetta þýðir að höfuðstóllinn hækkar
þegar verðbólga mælist jákvæð eða yfir 0%, en lækkar aldrei nema verðbólga fari niður fyrir 0%, og
jafnvel ekki þá heldur þar sem algengt er að í lánaskilmálum séu lánveitendur varðir fyrir slíku með
áskilnaði um „vísitölugólf“ miðað við vísitölustig á lántökudegi (svokallaða „grunnvísitölu“).

Eins og áður kom fram var sú framkvæmd að verðbæta sjálfan höfuðstól lána, fest í sessi með lögum
nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála o.fl. Þrátt fyrir að sérstök lagaákvæði þar að lútandi hafi verið til
bráðabirgða og fallið brott úr lögum á árunum 1986-1995 héldu lánveitendur áfram að notast við slíka
skilmála í lánasamningum, að því er virðist í skjóli reglugerða frá Seðlabanka Íslands. Eftirfarandi
umfjöllun tekur því mið af því að þetta fyrirkomulag er enn við lýði. Eins og komið hefur fram hefur
verðbólga á Íslandi oftar en ekki verið frekar há, og þrátt fyrir vísitala neysluverðs hafi einstaka
sinnum lækkað örlítið og verðbólga þannig mælst neikvæð milli einstakra mánaða, þá hefur þróunin
yfir lengri tímabil nær alltaf einkennst af hækkandi verðlagi. Þá er rétt að nefna samning sem er í gildi
milli ríkisstjórnar Íslands og Seðlabanka Íslands um opinbert verðbólgumarkmið, þar sem er kveðið á
um að stefnt skuli að því að verðbólga verði 2,5% með 1,5% vikmörkum eða á bilinu 1-4%.

Viðvarandi verðbólga hefur þau áhrif að höfuðstóll á verðtryggðu láni hækkar milli mánaða áður en
afborgun og vextir eru reiknuð af honum. Þar sem afborganir eru reiknaðar sem ákveðið hlutfall af
eftirstöðvum höfuðstóls getur þetta leitt til þess að afborgun á hverjum gjalddaga verði lægri fjárhæð
en sem nemur hækkuninni frá mánuðinum á undan og verði því í raun neikvæð afborgun (e. ​negative
amortization). Haldist verðbólga yfir þeim mörkum til lengri tíma hækkar höfuðstóllinn stöðugt þrátt
fyrir að lántakandi standi í fullum skilum með afborganir, og greiðist lánið því aldrei niður nema með
því að greiðslubyrði síðar á lánstímanum hækki sem nemur mismuninum og vöxtum af honum.

Svo dæmi sé tekið af láni til 40 ára með jöfnum mánaðarlegum afborgunum, þá myndi hver afborgun
nema 1/40 = 2,5% af höfuðstólnum á hverjum gjalddaga, sem þýðir að sé verðbólgustig við opinbert
verðbólgumarkmið eða yfir því eins og oft hefur verið raunin, er afborgun af láninu neikvæð framan
af lánstímanum. Þetta jafngildir í raun frestun á því að áfallinn lánskostnaður í formi verðbóta komi til
greiðslu og lántakandi skynjar því ekki áhrifin fyrr en löngu seinna þegar lánið hefur jafnvel hækkað
svo mikið að vera orðið óviðráðanlegt. Jafnframt hafa þau áhrif sem þessir tilteknu eiginleikar geta
haft á umfang skuldbindinganna, almennt ekki verið kynnt sérstaklega fyrir neytendum.

Önnur afleiðing af því fyrirkomulagi að vísitölutengja höfuðstól lána er sú að flækjustig þeirra verður
umtalsvert meira en í venjulegum neytendalánum með nafnvöxtum. Jafnvel þó að vextir geti verið
breytilegir er tiltölulega einfalt að reikna þá af eftirstöðvum láns þegar prósentustig þeirra er þekkt á
hverjum tíma. Þegar lán er með verðtryggðum höfuðstól er hinsvegar um að ræða flóknara samspil
fleiri þátta. Í fyrsta lagi þarf að taka tillit til áhrifa verðbólgu á höfuðstólinn, í öðru lagi þeirra vaxta
sem reiknast af höfuðstólnum, og í þriðja lagi þarf að taka tillit til þess að vextirnir reiknast í raun af
breytilegum og oftast hækkandi höfuðstól þannig að þeir eru þrátt fyrir allt ekki „fastir vextir“ nema
að nafninu til. Þetta flókna samspil er frekar torskilið og ógegnsætt fyrir almenna neytendur.

12 / 26
Til þess að gefa hugmynd um hversu flóknir eiginleikar verðtryggðra lána geta verið má vísa til bréfs
sem Seðlabanki Íslands sendi Umboðsmanni Alþingis þann 30. ágúst 2011 í tengslum við meðferð
kvörtunar sem Hagsmunasamtök heimilanna beindu til umboðsmanns yfir reglum seðlabankans um
verðtryggingu. Þar eru á bls. 7-9 sýnd ýmis dæmi um útreikning á greiðslubyrði verðtryggðra lána
miðað við ákveðnar forsendur um verðbólgu, en til einföldunar eru einungis sýndir útreikningar lána
með jafnar afborganir sem fara þó reyndar engu að síður hækkandi í hlutfalli við verðbólgu eftir því
sem líður á lánstímann. Algengasta tegund langtímalána eru hins vegar svokölluð jafngreiðslulán
(​annuitet) þar sem mánaðarleg heildargreiðsla vaxta og afborgunar af höfuðstól er reiknuð út sem föst
fjárhæð í upphafi sem hækkar svo í hlutfalli við verðbólgu út lánstímann. Á bls. 10 í umræddu bréfi
kemur fram að nokkuð flókið sé að sýna dæmi um útreikninga slíkra lána, og að þau hafi þann ókost
út frá sjónarhóli skuldarans að útreikningurinn sé ekki eins auðskilinn og ella. Enn fremur hafa ýmsir
sérfræðingar talið á að slík lán til langs tíma séu óæskileg með tilliti til hagsmuna neytenda.

Vegna þeirra áhrifa sem fylgja verðtryggingu höfuðstóls lána og flækjustigs slíkra lána, er þeim mun
mikilvægara en ella að neytendur fái greinargóðar og skilmerkilegar upplýsingar um eiginleika þeirra
og umfang skuldbindinga sinna. Eins og gefur að skilja getur það umfang verið breytilegt og fyrirfram
óþekkt vegna þess að ekki er alltaf hægt að spá fyrir um hvernig verðbólga muni þróast til margra ára,
en það sama gildir reyndar líka um lán með breytilegum vöxtum. Eins og áður kom fram var einmitt
gert sérstaklega ráð fyrir slíkum kringumstæðum í 6. mgr. 1. gr. a tilskipunar 87/102/EBE sem var
innleidd í 9. gr. og 1. mgr. 12. gr. laga um neytendalán þar sem var kveðið á um að þá skyldi leggja til
grundvallar þá vexti og annan kostnað sem eru í gildi á þeim tíma sem upplýsingarnar eru gefnar og
miða við að sá kostnaður verði óbreyttur til loka lánstímans. Þetta á einkum við um þær upplýsingar
sem kveðið er á um í 6. gr. þegar lánssamningur er gerður sbr. 11. gr. laga um neytendalán.

Þar sem vísitala neysluverðs er notuð til verðtryggingar tveimur mánuðum (áður einum mánuði) eftir
birtingu hennar, samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu, er ljóst að vísitölustig er
ávallt þekkt á hverjum tíma og ekkert því til fyrirstöðu að reikna út verðbólgu miðað við breytingu
vísitölunnar frá síðasta mánuði eða undanfarna 12 mánuði eins og er venjulegt þegar um er að ræða
verðbólguprósentur. Þannig er heldur ekkert því til fyrirstöðu að taka tillit til áhrifa verðtryggingar á
slík lán við gerð útreikninga á lántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Þar sem slíkur
útreikningur getur hins vegar verið nokkuð flókinn og verður í raun ekki gerður nema með þar til
gerðum tölvuforritum, er eðlilegt að sú skylda hvíli á lánveitendum, enda er varla hægt að gera ráð
fyrir því að almennur neytandi hafi tök á að framkvæma slíkan útreikning sjálfur. Þá er enn fremur við
hæfi að gera grein fyrir því hversu stór hluti kostnaðar verðtryggðra lána fellur til í formi verðbóta en
hér má sjá nokkur dæmi um það miðað við mismunandi verðbólgustig. Dæmin eru öll miðuð við
jafngreiðslulán (​annuitet) að fjárhæð 10.000.000 kr. til 40 ára með 4% föstum nafnvöxtum.

Verðbólgustig Heildarlántökukostnaður Þar af verðbætur (hlutfall af heildarkostnaði)


0,0% 10.061.011 kr. 0 kr. (0,0%)
1,0% 14.650.368 kr. 4.589.357 kr. (31,3%)
2,5% 24.260.151 kr. 14.199.140 kr. (58,5%)
4,0% 38.684.218 kr. 28.623.207 kr. (74,0%)
5,5% 60.535.648 kr. 50.474.637 kr. (83,4%)

Eins og sjá má eru áhrif verðtryggingar á umfang skuldbindinga neytenda umtalsverðar, jafnvel þegar
verðbólga er innan opinberra markmiða. Fleiri sýnishorn af útreikningum má sjá í fylgiskjölum, þar á
meðal þá sem Neytendastofa birtir, sbr. lög um neytendalán nr. 33/2013.

13 / 26
Dómsmál um verðtryggð neytendalán

Þegar gildissvið laga nr. 121/1994 um neytendalán var útvíkkað til fasteignaveðlána í ársbyrjun 2001,
höfðu verðtryggð lán náð mikilli útbreiðslu á íslenskum lánamarkaði. Þau námu þá yfir 85% af
útlánum lánastofnana til íslenskra heimila, eða yfir 75% af vergri landsframleiðslu. Á fyrri hluta þessa
fyrsta áratugar 21. aldar upphófst mikið þensluskeið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, og svipuð
þróun varð á Íslandi sem stóð yfir fram að fjármálahruninu árið 2008. Eins og alkunna er varð Ísland
harkalega fyrir barðinu á þeim áföllum sem þá dundu yfir og leiddi það til þess að haustið 2008 hrundi
fjármálakerfi landsins nánast til grunna. Samfara því féll gengi íslensku krónunnar og verðbólga rauk
upp úr öllu valdi, en hún náði 20% á árinu 2008 með samsvarandi hækkun á verðtryggðum skuldum
heimilanna sem glímdu á sama tíma við sívaxandi atvinnuleysi og rýrnandi kaupmátt. Stór hluti
íslenskra heimila lenti af þessum sökum í verulegum vandræðum með að standa undir hækkandi
greiðslubyrði hinna verðtryggðu lána. Hagsmunasamtök heimilanna töldu fyrirsjáanlegt að þessi vandi
yrði óviðráðanlegur að óbreyttu, og hófu því að leita leiða til að draga úr áhrifum hrunsins á heimilin
og standa vörð um fjárhagsleg réttindi þeirra.

Allt frá stofnun Hagsmunasamtaka heimilanna, hafa rannsóknir á réttarstöðu neytenda gagnvart
lánveitendum og lögmæti skuldbindinga þeirra verið stór þáttur í starfi samtakanna. Nokkur árangur á
því sviði náðist árið 2010 þegar Hæstiréttur Íslands staðfesti að verðtrygging lána miðað við gengi
erlendra gjaldmiðla væri ólögmæt en í kjölfarið voru slík lán endurreiknuð og lækkuð talsvert sem
mildaði áhrif gengisbreytinganna á fjárhag þeirra heimila sem höfðu tekið slík lán. Í kjölfarið beindust
slíkar rannsóknir enn fremur að lagagrundvelli þeirra lána sem voru verðtryggð miðað við vísitölu
neysluverðs, en eins og fyrr segir eru slík lán langalgengust á íslenskum neytendalánamarkaði. Leiddu
þær rannsóknir meðal annars í ljós að þrátt fyrir þau ákvæði laga um neytendalán sem að framan hafa
verið rakin, virtust lánveitendur í langflestum tilvikum hafa hagað framkvæmd við gerð slíkra
lánssamninga þannig að þegar neytendum voru veittar upplýsingar um lántökukostnað þá miðuðust
þeir útreikningar við þá forsendu að verðbólga yrði 0% á lánstímanum. Þannig var í raun kostnaður
vegna verðtryggingar undanskilinn í útreikningum á lántökukostnaði, og í sumum tilvikum kom í ljós
að jafnvel hefðu engar slíkar upplýsingar verið gefnar við lánveitingar.

Árið 2012 hófu Hagsmunasamtök heimilanna undirbúning dómsmáls í því skyni að leita úrlausnar um
lögmæti þeirrar framkvæmdar að miða útreikning lánskostnaðar verðtryggðra lána við þær forsendur
að verðbólga yrði 0% á lánstímanum, þrátt fyrir að þekkt verðbólgustig við lántöku væri í raun hærra.
Þann 18. október var slíkt mál höfðað af félagsmönnum í samtökunum með stuðningi samtakanna,
sem hafði orðið fyrir valinu sem prófmál til þess að láta reyna á þau álitaefni sem hér um ræðir og var
það höfðað gegn Íbúðalánasjóði sem er stærsti lánveitandinn á íslenskum húsnæðislánamarkaði. Máli
þessu var þó vísað frá dómi af tæknilegum ástæðum, með dómi Hæstaréttar Íslands 29. maí 2013. Var
því höfðað mál að nýju þann 22. október 2013 (mál héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-4521/2013) í því
skyni að ná fram efnislegri úrlausn íslenskra dómstóla um lögmæti slíkra lánveitinga.

Meðal helstu álitaefna sem reyndi á í máli þessu var sú fyrirliggjandi staðreynd að við lánveitinguna
voru lántakendum einungis veittar upplýsingar um höfuðstól, vexti, lánstíma, fjölda afborgana, og
áætlaða (fasta) fjárhæð afborgana og vaxta, án þess þó að gert væri ráð fyrir neinum kostnaði vegna
verðtryggingar lánsins (þ.e. verðbótum). Enn fremur að lántakendum voru hvorki veittar upplýsingar
um heildarlántökukostnað, né árlega hlutfallstölu kostnaðar, sbr. 4. og 5. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr.
121/1994 um neytendalán, eða fjárhæðir einstakra greiðslna samkvæmt 7. tölulið málsgreinarinnar, en
þær upplýsingar bar að veita skriflega í lánssamningi samkvæmt 5. gr. þeirra laga.

14 / 26
Um svipað leyti höfðuðu fleiri aðilar mál í sama skyni þ.e. að láta reyna á lögmæti verðtryggðra lána
þar sem ekki höfðu verið veittar upplýsingar um kostnað vegna verðtryggingar. Í einu slíku máli var
farið fram á að leitað yrði ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum, og féllust bæði héraðsdómur og
Hæstiréttur Íslands á að leitað yrði ráðgefandi álits um tilteknar spurningar varðandi skýringu á
tilskipun 87/102/EBE og tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Þar á
meðal um hvort það samræmdist tilskipun 87/102/EBE að leggja forsendur um 0% verðbólgu til
grundvallar útreikningum á lántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar við upplýsingagjöf til
neytenda. Í þessu tiltekna máli (mál E-27/13 ​Sævar Jón Gunnarsson gegn Landsbankanum) var meðal
annars leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um svohljóðandi spurningu:

1. Samrýmist það ákvæðum tilskipunar nr. 87/102/EBE um neytendalán, eins og tilskipuninni


var breytt með tilskipun nr. 90/88/EBE og tilskipun nr. 98/7/EB, að við gerð lánssamnings,
sem bundinn er vísitölu neysluverðs samkvæmt heimild í settum lögum og tekur því
breytingum í samræmi við verðbólgu, sé við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri
hlutfallstölu kostnaðar, sem birtur er lántaka við samningsgerðina, miðað við 0% verðbólgu
en ekki þekkt verðbólgustig á lántökudegi?

Að auki var leitað ráðgefandi álits um fimm spurningar til viðbótar, sem EFTA-dómstóllinn hafði
þegar svarað í öðru máli (E-25/13). Sú fyrsta, sem hér er sérstaklega tilgreind, hafði hinsvegar mesta
þýðingu fyrir úrlausn þeirra álitaefna sem reyndi á í því máli sem höfðað var af félagsmönnum í
Hagsmunasamtökum heimilanna (mál nr. E-4521/2013). Í niðurstöðum sínum um ráðgefandi álit í
máli E-27/13 þann 24. nóvember 2014, svaraði EFTA-dómstóllinn þeirri spurningu þannig:

1. Þegar lánssamningur er bundinn við vísitölu neysluverðs, samrýmist það ekki tilskipun
87/102/EBE að miðað sé við 0% verðbólgu við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri
hlutfallstölu kostnaðar ef þekkt verðbólgustig á lántökudegi er ekki 0%. Það er
landsdómstólsins að meta, að teknu tillit til allra atvika málsins, hvaða áhrif röng
upplýsingagjöf af þessu tagi hefur og hvaða úrræðum er hægt að beita af því tilefni, að því
gefnu að þeirri vernd sem tilskipun 87/102/EBE veitir, eins og dómurinn skýrir hana, sé ekki
stefnt í hættu.

Þessi niðurstaða EFTA-dómstólsins staðfesti að verulegu leyti þær málsástæður sem hið umrædda mál
héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-4521/2013 byggðist í meginatriðum á, varðandi vanrækslu lánveitanda
á upplýsingaskyldu sinni. Í niðurstöðum héraðsdóms í málinu sagði meðal annars um þetta:

Með hliðsjón af fyrrgreindu ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994, svo og 6. mgr. 1. gr. a
tilskipunar 87/102/EBE sama efnis, sbr. 1. gr. tilskipunar 90/88/EBE, verður samkvæmt þessu að
leggja til grundvallar að verðbætur hafi fallið undir heildarlántökukostnað samkvæmt 1. mgr. 7.
gr. þágildandi laga nr. 121/1994 og d-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 87/102/EBE. Er þetta í
samræmi við það álit sem fram kemur í 90. til 92. mgr. í dómi EFTA-dómstólsins 24. nóvember
2014 í máli nr. E-27/13. Var stefnda því skylt að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað
við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld yrðu óbreytt til loka lánstímans. Téð fyrirmæli
laga nr. 121/1994 verður að skýra til samræmis við þau ákvæði tilskipunar 87/102/EBE og
breytingatilskipana sem ákvæðinu var ætlað að leiða í íslensk lög, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um
Evrópska efnahagssvæðið. Við úrlausn um efnislegt inntak reglna samningsins um Evrópska
efnahagssvæðið verður hins vegar að horfa til viðtekinna aðferða við skýringu, þ. á m. fordæma
EFTA-dómstólsins.

15 / 26
Í fyrrgreindum dómi EFTA-dómstólsins er fjallað um túlkun framangreindra ákvæða
neytendalánatilskipunarinnar. Þar er sú ályktun dregin að hugtakið „heildarlántökukostnaður“
feli í sér allan kostnað sem neytanda ber skylda til að greiða samkvæmt lánssamningnum, að
meðtöldum vöxtum og kostnaði sem leiði af verðtryggingu höfuðstólsins. Eigi þessar upplýsingar
að stuðla að gagnsæi á markaðnum, þar sem þær geri neytandanum kleift að bera saman
mismunandi lánatilboð. Þá er þess getið í fyrrgreindum dómi að ákvæði 6. mgr. 1. gr. a í
tilskipuninni geri ráð fyrir því að vaxtagjöld og annar kostnaður geti verið breytilegur. Sé á hinn
bóginn gert ráð fyrir því við lántöku að verðbólgustig haldist 0%, þegar raunveruleg verðbólga er
töluvert hærri, gefi það ekki rétta mynd af þeim kostnaði sem leiði af verðtryggingu og þar með
heildarlántökukostnaði í skilningi d-liðar 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Slík yfirlýsing veiti því
ekki raunhæfa mynd af árlegri hlutfallstölu kostnaðar eins og hún sé skilgreind í e-lið 2. mgr. 1.
gr. og a-lið 1. mgr. 1. gr. a í neytendalánatilskipuninni.

Að þessu virtu, svo og með hliðsjón af 3. gr. laga nr. 2/1993, verður að skýra 1. mgr. 12. gr. laga
nr. 121/1994 á þá leið að við útreikning árlegrar hlutfallstölu hafi verið skylt að miða við að
verðlagsþróun yrði óbreytt út lánstímann. Var það ósamrýmanlegt þessari kröfu ákvæðisins að
miða greiðsluáætlun stefnenda við að verðbólgustig yrði 0%, svo sem gert var.

Með þessu féllst héraðsdómur í höfuðatriðum á þá meginmálsástæðu, að lánveitandinn hefði ekki


fullnægt upplýsingaskyldu sinni, með því að undanskilja þann kostnað sem myndi falla á lánið vegna
verðtryggingar, við upplýsingagjöf til lántakenda, þar á meðal við útreikning árlegrar hlutfallstölu
kostnaðar og framsetningu greiðsluáætlunar. Áréttað skal í þessu samhengi að alls ekkert var því til
fyrirstöðu að leggja verðbólgustig á lántökudegi til grundvallar, þar sem í 2. málslið 1. mgr. 14. gr.
laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, var kveðið á um að miða skyldi við þá vísitölu sem
reiknuð væri og birt í tilteknum mánuði, um verðtryggingu lánsfjár frá fyrsta degi næsta mánaðar þar
á eftir. Sú verðbólguprósenta sem miða hefði átt við var því ávallt þekkt á hverjum tíma.

Þó svo að í tilskipun 87/102/EBE séu engar reglur um afleiðingar vanrækslu á upplýsingaskyldu um


kostnað við lántöku, var kveðið á um slíkt í 14. gr. laga nr. 121/1994. Þar sagði að lánveitanda væri
eigi heimilt að krefja neytanda um greiðslu kostnaðar sem ekki kæmi fram í samningi, auk þess sem í
2. mgr. ákvæðisins var sérstaklega tekið fram að lánveitanda væri óheimilt að krefjast greiðslu hærri
lántökukostnaðar en tilgreindur væri í samningi samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 6. gr., eða sem gæfi hærri
árlega hlutfallstölu kostnaðar sbr. 5. tölulið ef hún væri of lágt reiknuð. Enn fremur var í 36. gr. og 36.
gr. c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, að finna ákvæði um ógildingu
ósanngjarnra skilmála í samningum við neytendur, sbr. tilskipun 93/13/EBE.

Þrátt fyrir að héraðsdómur hafi fallist á að lánveitandinn hefði vanrækt upplýsingaskyldu sína, vísaði
dómurinn hinsvegar til þess að í skilmálum lánsins segði að skuldin væri bundin vísitölu neysluverðs,
samkvæmt lögum þar að lútandi. Að því leyti hefði sá kostnaður sem af verðtryggingu lánsins leiðir
verið tilgreindur, og jafnframt hefðu ákvæðin í skilmálum lánsins um verðtryggingu verið „skýr og
fortakslaus“. Með vísan til þess sagði svo í niðurstöðu héraðsdóms:

Samkvæmt öllu framangreindu telur dómurinn að ekki sé fram komið að vanræksla stefnda á því
að veita fullnægjandi upplýsingar um lántökukostnað, að teknu tilliti til áætlaðra verðbóta, hafi
haft slíkar afleiðingar fyrir hagsmuni stefnenda að það geti leitt til ógildis á ákvæði
fasteignaveðbréfsins um verðtryggingu. Gildir þá einu hvort litið er til 36. gr. laga nr. 7/1936 og
36. gr. a til d í sömu lögum eða fyrirmæla 14. gr. laga nr. 121/1994.

16 / 26
Samkvæmt því sem að framan greinir hafnaði héraðsdómur kröfum félagsmanna Hagsmunasamtaka
heimilanna í umræddu máli, þrátt fyrir að viðurkennt væri að lánveitandi hefði vanrækt skyldu sína til
að gefa upplýsingar um þann hluta lántökukostnaðar sem félli til vegna verðtryggingar. Var dómnum
því áfrýjað til Hæstaréttar Íslands þar sem málið hlaut málsnúmerið 243/2015.

Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti lögðu áfrýjendur sérstaka áherslu á þau atriði sem að framan
hafa verið rakin varðandi innleiðingu á reglum um neytendalán í íslensk lög, og lögskýringargögn sem
gáfu eindregið til kynna að það hefði frá upphafi verið vilji löggjafans að gera ráð fyrir því að telja
skyldi verðtryggingu með í útreikningum á lántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar.
Jafnframt var vísað til dóms EFTA-dómstólsins um ráðgefandi álit í máli E-27/13 og þeirrar reglu sem
kemur fram í bókun 35 við EES-samninginn að EES-reglur sem komnar séu til framkvæmdar skuli
gilda í þeim tilvikum sem þær kunni að rekast við á við aðrar reglur landsréttar. Hliðstæð regla er
bundin í 3. gr. íslenskra laga nr. 2/1993, þar sem segir að skýra skuli lög og reglur landsréttar, að svo
miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.

Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm sinn í málinu nr. 243/2015, þann 26. nóvember 2015. Líkt og í
dómi héraðsdóms var talið að vanræksla á upplýsingaskyldu lánveitanda gæti leitt til þess að
ósanngjarnt væri af lánveitanda að bera þá skilmála fyrir sig sem ekki hefðu verið veittar fullnægjandi
upplýsingar um. Jafnframt var fallist á að þótt tilskipun 87/102/EBE hafi ekki tekið til samninga um
lán sem voru veitt til að afla eignarréttinda að fasteign, hefði löggjafinn með þeirri breytingu sem gerð
var á lögum um neytendalán með lögum nr. 179/2000, ákveðið að fasteignaveðlán skyldu einnig
teljast til neytendalána. Því ætti í þessu tilviki að hafa tilskipunina til hliðsjónar við skýringu ákvæða
laganna um neytendalán, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993, svo sem hér að framan greinir.

Varðandi upplýsingaskyldu lánveitanda um verðtryggingu sagði í dóminum, að nægilega skýrt hefði


komið fram í skilmálum lánsins hvernig skuldin ætti að breytast samkvæmt vísitölu neysluverðs sem
væri reiknuð út af Hagstofu Íslands. Þrátt fyrir að upplýsingar um heildarlántökukostnað hefðu ekki
verið veittar við lánveitinguna var talið að þar sem fjárhæð og fjöldi einstakra greiðslna hefðu komið
fram í greiðslumati sem gert var í tengslum við lánveitinguna, hefðu lántakendur átt að geta gert sér
grein fyrir heildarkostnaðinum. Enn fremur að þrátt fyrir að engar upplýsingar um árlega hlutfallstölu
kostnaðar hefðu verið veittar þá hefði legið fyrir hvaða vextir og önnur gjöld myndu falla á lánið, og
var upplýsingaskyldu talið fullnægt að því leyti. Að því sögðu stóð þá eftir að taka afstöðu til þess
hvort verðbætur hefðu átt að teljast til heildarlántökukostnaðar við útreikning árlegrar hlutfallstölu
kostnaðar, og hvort lánveitanda hafi borið að afhenda neytendum sérstaka greiðsluáætlun þar sem gert
væri ráð fyrir verðbótum. Um þetta álitaefni sagði í dómi Hæstaréttar Íslands:

Þá skiptir máli … að með þeim orðum 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 að miða ætti útreikning
við þá forsendu að verðlag yrði óbreytt til loka lánstímans var eftir hljóðan þeirra boðið að fara
þá leið að miða skyldi við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld yrðu óbreytt til loka
lánstímans. Var stefnda samkvæmt þessu ekki skylt samkvæmt lögum nr. 121/1994 að láta
áfrýjendum í té við lánveitinguna sérstaka greiðsluáætlun sem gerði ráð fyrir tiltekinni hækkun
vísitölu neysluverðs.

Af þessu má ráða að Hæstiréttur Íslands hafi talið rétt að skýra orðalag 1. mgr. 12. gr. laganna þannig
að við útreikning upplýsinga um kostnað við lántökuna, skyldi miða við þá forsendu að verðbólga yrði
0% til loka lánstímans. Sé sú skýring lögð til grundvallar felur hún það hins vegar í sér að ekki hafi átt
að upplýsa neytendur um neinn kostnað vegna verðtryggingar.

17 / 26
Í framangreindum dómi nr. 243/2015 vék Hæstiréttur Íslands því næst að dómi EFTA-dómstólsins um
ráðgefandi álit í máli E-27/13, með eftirfarandi orðum:

Sé fyrrgreind skýring EFTA-dómstólsins á ákvæðum tilskipunar 87/102/EBE lögð til grundvallar


er, eins og segir í dómi Hæstaréttar í máli nr. 160/2015, ljóst að orðalag 1. mgr. 12. gr. laga nr.
121/1994 hafi ekki verið í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Við mat á afleiðingum slíks
ósamræmis er þess að gæta að tilskipunin hafði ekki lagagildi hér á landi. Í 3. gr. laga nr. 2/1993
er mælt svo fyrir að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við
EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Slík lögskýring tekur eðli máls samkvæmt til
þess að orðum í íslenskum lögum verði, svo sem framast er unnt, gefin merking sem rúmast innan
þeirra og næst kemst því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska
efnahagssvæðinu. Lögskýring samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 getur á hinn bóginn ekki leitt til
þess að orðum íslenskra laga verði gefin önnur merking en leidd verður af hljóðan þeirra, sbr.
meðal annars dóm Hæstaréttar 9. desember 2010 í máli nr. 79/2010.

Þau fyrirmæli 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 að í áætlun um greiðslur samkvæmt
lánssamningi, þar sem fjárhæð skuldar væri verðtryggð, skyldi miðað við óbreytt verðlag voru
eins og kemur fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 160/2015 ótvíræð. Er því ekki svigrúm til að
miða við aðra forsendu á grundvelli skýringar á þessu ákvæði samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993.
Samkvæmt þessu ber að lögum að líta svo á að sú mánaðarlega greiðsluáætlun sem fólst í
greiðslumatinu 31. janúar 2003 og áfrýjendur undirrituðu hafi þannig jafnframt, að því leyti sem
hér um ræðir, verið í samræmi við ákvæði 4., 5. og 6. töluliðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 10., 11. og 12.
gr. laga nr. 121/1994. Af þessu leiðir að staðfest verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms.

Þannig taldi Hæstiréttur Íslands að hið umrædda orðalag 1. mgr. 12. laga nr. 121/1994 um „óbreytt
verðlag“ væri svo ótvírætt að ekki væri hægt að skýra það til samræmis við tilskipun 87/102/EBE eins
og ákvæði hennar voru skýrð með ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins. Jafnframt að greiðslumat þar
sem fram komu upplýsingar um fasta fjárhæð og fjölda mánaðarlegra greiðslna af láninu teldist hafa
falið í sér ígildi greiðsluáætlunar sem fullnægði áskilnaði laganna þar að lútandi. Rétt er að vekja
athygli á því að þó svo að með þessu hafi Hæstiréttur Íslands komist að efnislega sömu niðurstöðu og
Héraðsdómur Reykjavíkur, byggðist sú niðurstaða á gjörólíkri röksemdafærslu.

Loks er við hæfi að nefna að á meðan framangreint mál var rekið fyrir dómstólum, hófst endurskoðun
laga nr. 121/1994 um neytendalán af hálfu íslenskra stjórnvalda, í tengslum við innleiðingu á nýrri
tilskipun 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur. Leiddi það til þess að lagt var fram frumvarp
á Alþingi til nýrra laga um neytendalán, og var það samþykkt sem lög nr. 33/2013 þann 18. mars 2013
en þau tóku gildi þann 1. nóvember 2013 og felldu eldri lögin úr gildi. Eins og rakið hefur verið hér að
framan er ákvæði í 1. málslið 3. mgr. 21. gr. hinna nýju laga sem er hliðstætt hinni margumræddu 1.
mgr. 12. gr. eldri laganna um útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, svohljóðandi:

Ef lánssamningur heimilar breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar
hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er
gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og
önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans. …

Eins og sjá má er þar um sama orðalag að ræða og í hinum eldri lögum, þar sem segir að miða skuli
útreikninginn við þá forsendu að „verðlag … verði óbreytt til loka lánstímans“.

18 / 26
IV. Kvörtunarefni

Hagsmunasamtök heimilanna telja að sú framkvæmd reglna um neytendalán sem hér hefur verið
rakin, hafi brotið í bága við EES-reglur um neytendalán, og að sama skapi þær EES-reglur sem lúta að
vernd neytenda fyrir óréttmætum samningsskilmálum og viðskiptaháttum. Kjarni málsins snýr að því
hvernig haga skyldi upplýsingagjöf til neytenda um kostnað vegna verðtryggðra neytendalána.
Einkum þar sem kostnaður vegna verðtryggingar hafði ekki verið meðtalinn í útreikningum þeirra
upplýsinga um kostnað sem skylt er að gefa neytendum í tengslum við slíkar lánveitingar.

Með dómi EFTA-dómstólsins um ráðgefandi álit í máli E-27/13 voru ákvæði tilskipunar 87/102/EBE
um neytendalán skýrð þannig að það samræmdist þeim ekki að miða við 0% verðbólgu við útreikning
á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar ef þekkt verðbólgustig á lántökudegi er
ekki 0%. Hagsmunasamtök heimilanna benda jafnframt á að sú framkvæmd að miða slíka útreikninga
við 0% verðbólgu, jafngildir í raun því að undanskilja allan kostnað vegna verðtryggingar frá slíkum
útreikningum. Þannig hefur réttur neytenda til þess að fá skýrar upplýsingar um þennan stærsta
kostnaðarlið algengustu tegundar lána á íslenskum lánamarkaði verið sniðgenginn.

Þau ágreiningsefni sem hér hafa verið rakin, kristallast að mati Hagsmunasamtaka heimilanna, í þeirri
túlkun Hæstaréttar Íslands í máli nr. 243/2015 á því orðalagi 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 þar sem
segir að þegar lánssamningur kveður á um breytilegan kostnað skuli miða útreikning árlegrar
hlutfallstölu kostnaðar við þá forsendu að „…verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka
lánstímans“. Tveir mögulegir kostir geta komið til greina við skýringu ákvæðisins:

1) Annars vegar að miða skyldi við að verðbólga verði 0% til loka lánstímans, sem er algjörlega
óraunhæf forsenda, ekki síst þegar um er að ræða húsnæðislán til allt að 40 ára.

2) Hins vegar að miða skyldi við að þekkt verðbólgustig verði óbreytt til loka lánstímans, þannig
að öll gjöld sem neytandinn þurfi að greiða verði óbreytt miðað við fyrirliggjandi forsendur.

Augljóslega er síðarnefndi kosturinn sá sem gefur raunhæfari mynd af umfangi þeirrar skuldbindingar
sem neytandi þarf að vita um, svo hann geti borið saman mismunandi lánstilboð áður en hann ákveður
að taka lán. Sá skýringarkostur (nr. 2) er jafnframt í fullu samræmi við skýringu EFTA-dómstólsins á
tilskipun 87/102/EBE, og hefði því frekar átt að leggja þá skýringu til grundvallar, samkvæmt 3. gr.
laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið sbr. 3. gr. EES-samningsins og bókun 35 við hann.

Hagsmunasamtök heimilanna telja að með því að leggja fyrri skýringarkostinn (nr. 1) til grundvallar í
dómi sínum í máli nr. 243/2015, hafi Hæstiréttur Íslands í raun farið gegn 3. gr. laga nr. 2/1993 og þar
með gegn grundvallarreglum EES-samningsins. Jafnframt að Hæstiréttur Íslands hafi brotið gegn
tilskipun 87/102/EBE, með því að fara þvert gegn ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli nr.
E-27/13 um skýringu á tilskipuninni í tengslum við þetta álitaefni.

Verði ekki fallist á að Hæstiréttur Íslands hafi með ofangreindum hætti brotið gegn þeim EES-reglum
sem vísað er til, verður á hinn bóginn að leggja fyrri skýringarkostinn (nr. 1) til grundvallar skýringu
þeirra ákvæða íslenskra laga sem ætlað var að innleiða ákvæði tilskipunar 87/102/EBE í íslenskan rétt.
Að mati Hagsmunasamtaka heimilanna og með hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli
E-27/13, verður þá að líta svo á að ranglega hafi verið staðið að innleiðingu ákvæða tilskipunarinnar í
1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994, og tilskipunar 2008/48/EB í 1. málsl. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 33/2013
um neytendalán. Þannig hafi íslenska ríkið vanrækt skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum.

19 / 26
Með hliðsjón af öllu framangreindu er þess farið á leit að Eftirlitsstofnun EFTA taki kvörtun þessa til
meðferðar, og taki til athugunar hvort að innleiðing tilskipana 87/102/EBE og 2008/48/EB og tilvísuð
réttarframkvæmd þeirra hafi verið fullnægjandi af hálfu íslenska ríkisins. Verði fallist á það með
Hagsmunasamtökum heimilanna, að sú innleiðing eða eftir atvikum réttarframkvæmd hafi brotið í
bága við EES-reglur, er þess jafnframt óskað að Eftirlitsstofnun EFTA grípi til viðeigandi ráðstafana
vegna þess, í samræmi við ákvæði samnings EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun og dómstól.

Hagsmunasamtök heimilanna leggja áherslu á að eftirfarandi atriði verði leidd til lykta í máli þessu:

Annars vegar hvort tilvísuð dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands í máli nr. 243/2015 þar sem komist
var að niðurstöðu sem fór þvert gegn niðurstöðum EFTA-dómstólsins í máli nr. E-27/13, feli það sér í
sér að íslenska ríkið sé þar með brotlegt við skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum. Sérstaklega
með vísan til þeirra skýringa sem koma fram í svari við 1. spurningunni sem lögð var fyrir
EFTA-dómstólinn í umræddu máli, og einnig með hliðsjón af því að fyrirliggjandi lögskýringargögn
sem gefa til kynna vilja löggjafans, gátu sem slík gefið kost á því að ákvæði 1. mgr. 12. gr. íslenskra
laga um neytendalán yrðu skýrð til samræmis við ákvæði tilskipunar 87/102/EBE.

Hins vegar hvort að innleiðing tilskipunar 87/102/EBE í íslenskan rétt, einkum innleiðing 6. mgr. 1.
gr. a. sbr. 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 90/88/EBE, í 1. mgr. 12. laga um neytendalán nr. 30/1993 sbr. lög
nr. 121/1994, hafi verið fullnægjandi, eða ef ekki hvort að íslenska ríkið hafi þar með gerst brotlegt
gegn skyldum sínum samkvæmt EES-samningnum. Sérstaklega með vísan til þeirrar skýringar
Hæstaréttar Íslands á merkingu ákvæðisins sem niðurstaða dómsins í máli nr. 243/2015 byggðist á.

Hagsmunasamtök heimilanna telja það beinlínis liggja fyrir í máli þessu að íslenska ríkið hafi gerst
brotlegt við skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum. Aðeins standi eftir að taka afstöðu til þess
hvort brotið stafi af rangri skýringu Hæstaréttar á réttilega innleiddri EES-reglu í 1. mgr. 12. gr. laga
um neytendalán, eða ófullnægjandi innleiðingu tilskipunar 87/102/EBE í íslensk lög. Að minnsta kosti
er ljóst að tilskipunin hefur ekki komist til framkvæmda með fullnægjandi hætti.

Enn fremur er mikilvægt að tekin verði afstaða til þess hvort að innleiðing tilskipunar 2008/48/EB,
sérstaklega 4. mgr. 19. gr tilskipunarinnar, í 3. mgr. 21. gr. íslenskra laga nr. 33/2013 um neytendalán,
geti talist fullnægjandi. Einkum í ljósi þess að 1. málsliður ákvæðisins hefur að geyma sama orðalag
um „óbreytt verðlag“ og lagt var til grundvallar niðurstöðu dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr.
243/2015 sem fór þvert gegn ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, enda fæst ekki séð að skýring
Hæstaréttar Íslands á því orðalagi geti samrýmst hinni nýrri tilskipun frekar en þeirri eldri.

Að lokum er brýnt að fá úr því skorið hvort að þau meintu brot íslenska ríkisins gegn skyldum sínum
samkvæmt EES-samningnum sem hér hafa verið rakin kunni að varða bótaskyldu samkvæmt þeirri
meginreglu um bótaskyldu sem fjallað hefur verið um í nokkrum málum er varða slík brot gegn
skyldum aðildarríkja. Þar á meðal í máli EFTA-dómstólsins nr. E-09/97 sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í
málinu nr. 236/1999, í máli EFTA-dómstólsins nr. E-02/10, sem og í rökstuddu áliti Eftirlitsstofnunar
EFTA frá 20. janúar í máli nr. 75004.

Þess er vinsamlegast óskað að kvörtun þessari verði svarað með rökstuddum hætti þar sem fram komi,
að því marki sem unnt er, afstaða Eftirlitsstofnunar EFTA til kvörtunarefnisins, og með hvaða hætti
megi búast við að stofnunin muni bregðast við kvörtuninni að öðru leyti.

20 / 26
V. Fyrri samskipti

Þann 9. janúar 2013 sendu Hagsmunasamtök heimilanna bréf til þáverandi forseta Eftirlitsstofnunar
EFTA, þar sem vakin var athygli á ýmsum annmörkum við framkvæmd EES-reglna um neytendalán á
Íslandi. Í bréfinu var meðal annars greint frá höfðun dómsmáls þess sem leiddi til þeirrar niðurstöðu
Hæstaréttar Íslands sem kvörtun þessi lýtur að. Afrit af bréfinu má finna meðal fylgiskjala.

VI. Trúnaðaryfirlýsing

Hagsmunasamtök heimilanna heimila Eftirlitsstofnun EFTA, gerist þess þörf, að tilgreina samtökin
sem kvartanda í samskiptum sínum við stjórnvöld þess ríkis sem kvörtun þessi beinist að. Ekki er talin
þörf á sérstökum trúnaði um kvörtunina, efni hennar eða kvörtunaraðila.

VII. Áskilnaður um málsgögn

Hagsmunasamtök heimilanna áskilja sér rétt til þess að koma á framfæri frekari gögnum eftir því sem
meðferð kvörtunar þessar kann að gefa tilefni til. Telji Eftirlitsstofnun EFTA þörf á frekari gögnum
eða upplýsingum varðandi kvörtunarefnið er vinsamlegast óskað leiðbeininga þar að lútandi. Enn
fremur áskilja samtökin sér rétt til að leggja fram frekari gögn og upplýsingar á síðari stigum eftir því
sem meðferð kvörtunarinnar og framvinda mála að öðru leyti kunna að gefa tilefni til.

VIII. Tilvísanir og fylgiskjöl

Skrá yfir tilvísanir og fylgiskjöl má finna í meðfylgjandi viðauka.

---oooOOOooo---

Reykjavík, 15. nóvember 2016

Virðingarfyllst,
f.h. Hagsmunasamtaka heimilanna

Vilhjálmur Bjarnason, formadur@heimilin.is Guðmundur Ásgeirsson, erindreki@heimilin.is

21 / 26
Viðauki I: Tilvísanir

Íslensk lög og reglur:

Verðtrygging og vísitala:
● Lög nr. 71/1966 um verðtryggingu fjárskuldbindinga
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=86&mnr=20
● Vaxtalög nr. 25/1987
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/126a/1987025.html
● Lög nr. 12/1995 um vísitölu neysluverðs
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/nuna/1995012.html
○ EN: ​http://www.statice.is/about-statistics-iceland/laws-and-regulations/act-on-the-consumer-price-index/
● Lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/nuna/2001038.html
○ EN: ​http://eng.atvinnuvegaraduneyti.is/laws-and-regulations/nr/nr/7374
● Reglur nr. 492/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár
○ IS: ​http://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=910d1d3a-023f-4508-93b9-99f353d5ef9b
○ EN: ​http://www.cb.is/uploads/files/13. Price Indexation of Savings and Loans.pdf

Efnahagsmál:
● Lög nr. 10/1961 um Seðlabanka Íslands
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=81&mnr=180
● Lög nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála o.fl.
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=100&mnr=230
● Lög nr. 36/1986 um Seðlabanka Íslands
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/126a/1986036.html
● Lög nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/nuna/2001036.html
○ EN: ​http://www.cb.is/library/Skraarsafn---EN/Various-announcements/CBI Act updated.pdf

Húsnæðismál:
● Lög nr. 55/1955 um Húsnæðismálastjórn [​o.fl.]
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=74&mnr=183
● Lög nr. 42/1957 um Húsnæðismálastofnun [​o.fl.]
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=76&mnr=160
● Lög nr. 19/1965 um Húsnæðismálastofnun ríkisins
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=85&mnr=147
● Lög nr. 30/1970 um Húsnæðismálastofnun ríkisins
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=90&mnr=198
● Lög nr. 51/1980 um Húsnæðisstofnun ríkisins
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=102&mnr=17
● Lög nr. 60/1984 um Húsnæðis​stofnun ríkisins
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=106&mnr=123
● Lög nr. 44/1998 um húsnæðismál
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/nuna/1998044.html
○ EN: ​http://eng.velferdarraduneyti.is/acts-of-Parliament/nr/3707

22 / 26
Neytendamál:
● Lög nr. 141/2001 um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/nuna/2001141.html
○ EN: ​http://www.neytendastofa.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=2744
● Auglýsing nr. 1320/2011 um tilnefningu stjórnvalda og samtaka sem rétt hafa til
lögbannsaðgerða í þágu heildarhagsmuna neytenda
○ IS: ​http://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=b3c2ef4c-cd18-42a1-afb8-53ebdee74d85
● Lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/nuna/1936007.html
○ EN: ​http://eng.atvinnuvegaraduneyti.is/laws-and-regulations/nr/nr/7429
● Lög nr. 33/1993 um neytendalán
○ IS: ​http://www.althingi.is/altext/stjt/1993.030.html
● Reglugerð nr. 377/1993 um neytendalán
○ IS: ​http://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/innanrikisraduneyti/nr/4775
● Lög nr. 101/1994 um breytingu á lögum nr. 30/1993 um neytendalán
○ IS: ​http://www.althingi.is/altext/117/s/1239.html
● Lög nr. 121/1994 um neytendalán
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/142/1994121.html
○ EN: ​http://eng.atvinnuvegaraduneyti.is/laws-and-regulations/nr/nr/7426
● Reglugerð nr. 236/2000 um breytingu á reglugerð nr. 377/1993 um neytendalán
○ IS: ​http://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/vidskiptaraduneyti/nr/4761
● Lög nr. 33/2013 um neytendalán
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/nuna/2013033.html

EES-lögfesting:
● Lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/nuna/1993002.html

EES-reglur:

● Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið


○ IS/EN: ​http://www.efta.int/legal-texts/eea
● Samningur milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls
○ IS: ​http://www.utanrikisraduneyti.is/samningar/ees/EESSamningur/nr/1475
○ EN: ​http://www.efta.int/legal-texts/the-surveillance-and-court-agreement/agreement-annexes-and-protocols
● Tilskipun 2009/22/EB um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda
○ IS/EN: ​http://www.efta.int/eea-lex/32009L0022
● Tilskipun 87/102/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna
varðandi neytendalán
○ IS: ​http://brunnur.stjr.is/ees.nsf/385499142c7e4810002567590058573a/16f4ee6b5a0b8ac000256700004e1379
○ EN: ​http://www.efta.int/eea-lex/31987L0102
● Tilskipun 90/88/EBE til breytingar á tilskipun 87/102/EBE
○ IS: ​http://brunnur.stjr.is/ees.nsf/385499142c7e4810002567590058573a/e2ea3e64d3d7608500256700004e1333
○ EN: ​http://www.efta.int/eea-lex/31990L0088
● Tilskipun 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur [​o.s.frv.]
○ IS/EN: ​http://www.efta.int/eea-lex/32008L0048
● Tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum
○ IS: ​http://brunnur.stjr.is/ees.nsf/385499142c7e4810002567590058573a/b63b1e04c268c20900256700004e132f
○ EN: ​http://www.efta.int/eea-lex/31993L0013

23 / 26
Dómar og ákvarðanir:

● Ákvörðun Neytendastofu nr. 8/2014


○ IS: ​http://www.neytendastofa.is/library/Files/Kaerunefnd-lausafjar--og-thjonustu/Ákv 2014_8.pdf
● Úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála nr. 5/2014
○ IS: ​http://www.neytendastofa.is/library/Files/Neytendarettarsvid/urskurdir/Úrskurður2014-5.pdf
● Dómur EFTA-dómstólsins í máli nr. E-25/13
○ IS/EN: ​http://www.eftacourt.int/cases/detail/?tx_nvcases_pi1[case_id]=207
● Dómur EFTA-dómstólsins í máli nr. E-27/13
○ IS/EN: ​http://www.eftacourt.int/cases/detail/?tx_nvcases_pi1[case_id]=209
● Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-4521/2013
○ IS: ​http://domstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=37dd1d74-c14a-42a9-a439-09379d5958c6
● Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 243/2015
○ IS: ​http://www.haestirettur.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=29685daa-fe4b-4adf-9227-cd4550de9b5e
● Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins í máli nr. E-09/97
○ IS/EN: ​http://www.eftacourt.int/cases/detail/?tx_nvcases_pi1[case_id]=33
● Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 236/1999
○ IS: ​http://www.haestirettur.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=9009ddb8-65d0-4da2-8975-9e0824f065bf
● Dómur EFTA-dómstólsins í máli nr. E-02/10
○ IS/EN: ​http://www.eftacourt.int/cases/detail/?tx_nvcases_pi1[case_id]=120
● Rökstutt álit Eftirlitsstofnunar EFTA í máli nr. 75004
○ EN: ​http://www.eftasurv.int/press--publications/public-documents?ActionEvent=Search&casenr=75004

Opinber tölfræði:

● Hagstofa Íslands: Vísitala neysluverðs


○ IS: ​http://hagstofa.is/talnaefni/efnahagur/verdlag/visitala-neysluverds/
○ EN: ​http://www.statice.is/statistics/economy/prices/consumer-price-index/
● Hagstofa Íslands: Skuldir, eignir og eiginfjárstaða einstaklinga
○ IS: ​http://hagstofa.is/talnaefni/samfelag/lifskjor/skuldir-eignir-og-eiginfjarstada-einstaklinga/
○ EN: ​http://www.statice.is/statistics/society/quality-of-life/liabilities-and-assets-of-individuals/
● Hagstofa Íslands: Fjárhagsstaða heimila
○ IS: ​http://hagstofa.is/talnaefni/samfelag/lifskjor/fjarhagsstada-heimila/
○ EN: ​http://www.statice.is/statistics/society/quality-of-life/household-finances/
● Hagstofa Íslands: Húsnæðismál
○ IS: ​http://hagstofa.is/talnaefni/samfelag/lifskjor/husnaedismal/
○ EN: ​http://www.statice.is/statistics/society/quality-of-life/housing/
● Seðlabanki Íslands: Vextir
○ IS: ​http://www.sedlabanki.is/annad-efni/vextir-sedlabankans-og-adrir-vextir/
○ EN: ​http://www.cb.is/other/interest-rates-and-other-rates/
● Seðlabanki Íslands: Skuldir heimila við fjármálafyrirtæki, 2. ársfjórðungur 2016
○ IS/EN: ​http://www.cb.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=e2b6c71e-6b9f-11e6-9406-005056bc0bdb
● Seðlabanki Íslands: Fjármálastöðugleiki 2011/1 (sjá mynd II-37, bls. 37 IS)
○ IS: ​http://www.sedlabanki.is/utgefid-efni/rit-og-skyrslur/rit/2011/06/01/Fjarmalastodugleiki-2011-1/
○ EN: ​http://www.cb.is/publications/publications/publication/2011/03/29/Financial-Stability-2011-1/
● Seðlabanki Íslands: Households' position in the financial crisis in Iceland (Working paper)
○ EN: ​http://cb.is/library/Skraarsafn---EN/Working-Papers/Working Paper 59.pdf

24 / 26
Ýmislegt:

● Frumvarp til laga nr. 30/1993 um neytendalán


○ IS: ​http://www.althingi.is/altext/116/s/0014.html
● Nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um frumvarp til laga nr. 30/1993
○ IS: ​http://www.althingi.is/altext/116/s/0841.html
● Breytingartillögur efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við frumvarp til laga nr. 30/1993
○ IS: ​http://www.althingi.is/altext/116/s/0842.html
● Frum​varp til laga nr. 101/1994 um breytingu á lögum nr. 30/1993 um neytendalán
○ IS: ​http://www.althingi.is/altext/117/s/0642.html
● Yfirlýsing Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnar Íslands um verðbólgumarkmið
○ IS: ​http://www.sedlabanki.is/library/Skraarsafn/Verdlagstroun-og-verðbólgumarkmið/Yfirlýsing um
verðbólgumarkmið.pdf
○ EN: ​http://www.cb.is/library/Skraarsafn---EN/Monetary-Policy-Committee/Declaration inflation.pdf
● Seðlabanki Íslands: Bréf til Umboðsmanns Alþingis, dags. 30. ágúst 2011
○ IS: ​http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=8964
● Jacky Mallett: An examination of the effect on the Icelandic Banking System of Verðtryggð
Lán (Indexed-Linked Loans)
○ EN: ​http://arxiv.org/abs/1302.4112
● Forsætisráðuneytið: Skýrsla sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar af neytendalánum
○ IS: ​http://www.forsaetisraduneyti.is/afnam-verdtryggingar/
○ EN: ​http://eng.forsaetisraduneyti.is/news-and-articles/nr/7883
● European University Institute: The over-indebtedness of European consumers, a view from
six countries. Iceland (by M. Elvira Méndez Pinedo and Irina Domurath)
○ EN: ​http://cadmus.eui.eu/handle/1814/32451
● M. Elvira Mendez-Pinedo: The cost of credit in Iceland under european judicial review: may
legality and transparency justify unfairness? (Europarättslig tidskrift nr 2 2014)
○ EN: ​http://www.ert.se/Journals/Journal/957
● M. Elvira Mendez-Pinedo: Indexation of consumer and mortgage credit in Iceland in 2014. A
Critical battle between legality, fairness and legitimacy. (International Journal of Finance &
Banking Studies, Vol 3, No 04, 2014)
○ EN: ​http://www.ssbfnet.com/ojs/index.php/ijfbs/article/view/191
● M. Elvira Mendez-Pinedo: Iceland: Indexation of Credit and the Fairness Test in European
Consumer Law (Journal of Consumer Policy, 38 árg., 1. tbl., mars 2015)
○ EN: ​http://link.springer.com/article/10.1007/s10603-014-9277-x
● Neytendastofa: Upplýsingar um þróun höfuðstóls og greiðslubyrði neytendalána
○ IS: h​ ttp://www.neytendastofa.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=3205
● Frum​varp til laga um breyt​ingu á lög​um um vexti og verðtrygg​ingu nr. 38/​2001
○ IS: ​http://www.althingi.is/altext/145/s/1537.html
● M. Elvira Mendez-Pinedo: Iceland, the EFTA Court and the indexation of credit to inflation:
operating in nature ex-post but need to calculate and disclose ex-ante. A law of contradiction?
(Juridical Tribune, 6 árg., 2. tbl., October 2016)
○ EN: ​http://www.tribunajuridica.eu/arhiva/anul6v2_en.html

25 / 26
Viðauki II: Fylgiskjöl

1. Seðlabanki Íslands: Umsögn við frumvarp til laga nr. 30/1993 um neytendalán

2. Viðskiptaráðuneytið: Afstaða til breytingartillagna við frumvarp til laga nr. 30/1993

3. Frumvarp til laga nr. 30/1993 með breytingartillögum innfelldum (vinnuskjal)

4. Fundargögn starfshóps um endurskoðun laga nr. 30/1993 (minnispunktar)

5. Viðskiptaráðuneytið: Drög að frumvarpi um breytingu á lögum nr. 30/1993 (vinnuskjal)

6. Sýnishorn af neytendaláni með greiðsluáætlun sem miðast við 0% verðbólgu, ásamt


greiðsluyfirliti sem sýnir raunverulegar greiðslur að verðbótum meðtöldum
○ Lánveitandi: Kaupþing Búnaðarbanki hf., árið 2004

7. Sýnishorn af neytendaláni með greiðsluáætlun sem miðast við 0% verðbólgu, ásamt


greiðsluyfirliti sem sýnir raunverulegar greiðslur að verðbótum meðtöldum
○ Lánveitandi: Frjálsi fjárfestingarbankinn hf., árið 2005

8. Sýnishorn af neytendaláni með greiðsluáætlun sem miðast við 0% verðbólgu, ásamt


greiðsluyfirliti sem sýnir raunverulegar greiðslur að verðbótum meðtöldum
○ Lánveitandi: Landsbanki Íslands hf., árið 2006

9. Mynd II-37 úr Fjármálastöðugleika 2011/1: Áhrif verðtryggingar á skuldir heimila

10. Neytendastofa: Upplýsingar um þróun höfuðstóls og greiðslubyrði neytendalána

11. Hagsmunasamtök heimilanna: Greining á næmni verðtryggðra lána fyrir verðbólgu

12. Hagsmunasamtök heimilanna: Bréf til Eftirlitsstofnunar EFTA o.fl., 9. janúar 2013

---oooOOOooo---

26 / 26
Eftirlitsstofnun EFTA
EFTA Surveillance Authority
Rue Belliard 35
B-1040 Brussels
Belgium

Reykjavík, 15 November 2016

Complaint concerning incorrect legalisation and implementation of EEA rules on consumer credit

Summary
The Homes Association of Iceland is a voluntary association, operating in Iceland to protect the
interests of Icelandic homes in the governmental forum, with special emphasis on consumers' status in
the financial market. This includes matters regarding the rights of consumers in connection with
obligations regarding consumer loans, especially taking into account the coordinated rules of the EEA
in the field of consumer protection.
Unlike what is customary in most countries in Europe, where consumer loans and housing loans
generally have fixed or variable nominal interest, such loans in Iceland are in most instances indexed.
This means that the loan principals are linked to the Consumer Price Index; thus, their balances
increase in step with inflation. Indexing was at first closely connected with the development of the
governmental housing loan system, which has long been part of a “private property policy” in
Icelanders' housing loans. Indexing of credit was generally authorised by law in 1966 and further
institutionalised in 1979 with the adoption of the main rule that, in addition to interest, the principals of
loans were indexed. Since then, the practice of indexing on the Icelandic consumer credit market has
steadily grown, and in this century to date, 80%-90% of consumer loans to Icelandic homes have been
indexed. Almost half the scope of such obligations stems directly from the effect of indexing and the
development of inflation.
In parallel with Iceland's membership in the Agreement on the European Economic Area, in 1993
efforts began to legalise EEA rules in the field of consumer protection, including Directive 87/102/EEC
on consumer credit, as amended. Its main feature is the duty of lenders to provide consumers with
detailed and explicit information on the borrowing costs and the total scope of their obligations. Since
inflation in Iceland, historically and generally, has been rather high, indexation in most instances is the
biggest cost component of Icelandic consumer loans. Upon legalisation of the rules on consumer credit
in Icelandic law, the decision followed to provide specifically for this reporting of borrowing costs.
The Homes Association of Iceland's research on the period 2010-2012 revealed that despite the
legislature's plan to provide consumers with information about costs in the form of indexation on
indexed loans, most lenders seem to have neglected this duty since the cost calculations were most often
based on the assumption that inflation would be 0% during the period of the loan. Thus, the cost of
indexation was actually excluded from the information that consumers received. In 2012, an action was
filed to test the lawfulness of this implementation. The Supreme Court of Iceland's judgement, on 26
November 2015, in Case no. 243/2015, construed the Icelandic act, despite everything, as not requiring
that consumers be informed of the cost of indexing. That conclusion directly contravened the EFTA
Court's advisory opinion in Case E-27/2013 on construing the provisions of Directive 87/102/EEC. The
Homes Association of Iceland thereby deems it clear that the Icelandic State has violated its duties
under the EEA Agreement, which is the reason for this complaint.

The Homes Association • Ármúli 5 • 108 Reykjavík, Iceland • National ID 520209-2120


heimilin@heimilin.is • www.heimilin.is
Eftirlitsstofnun EFTA
EFTA Surveillance Authority
Rue Belliard 35
B-1040 Brussels
Belgium

Reykjavík, 15 November 2016

Complaint concerning incorrect legalisation and implementation of EEA rules on consumer credit

I. Introduction

Complainant: The Homes Association of Iceland is a public association operating in Iceland to protect
interests in the governmental arena on behalf of Icelandic homes, with special emphasis on their status as
consumers in the financial market. The Association has more than 8700 members; in addition, 37,743 people
took part in collecting signatures in support of the association's urgent issues in 2011. Opinion polls have
usually shown the Icelandic public's broad support for the association's main urgent issues. The association
operates in accordance with Icelandic law and the purpose stated in the association's Articles of Association.
Its work mostly involves volunteers' efforts; however, two paid employees of the association work part-time.
The Icelandic Government, with the Ministry of the Interior's Advertisement no. 1320/2011, designated the
association as a party competent to act on behalf of consumers under the Act no. 141/2001 on injunction and
litigation to protect consumers' overall interests, which entails the legalisation into Icelandic law of Directive
2009/22/EC on injunctions for the protection of consumers' interests.

The party against which the complaint is directed: This complaint is directed against the Icelandic State, on
behalf of the institutions in Iceland responsible for the proper legalisation of EEA rules and their
implementation in Icelandic law.

The dispute that the complaint regards: This complaint mainly regards how legalisation and adjudication of
rules in the field of consumer law, especially regarding consumer credit, has been set up in Iceland since the
entry into force of the EEA Agreement. This particularly regards the kind of consumer loans characterising
the Icelandic market for consumer credit, i.e., “indexed loans”, which were generally authorised by law in
1966 and further entrenched in 1979. It was then assumed that wages would also be indexed; however, this
disappeared within a few years and once and for all in 1990. Ever since then, such loans have achieved such
wide circulation in the Icelandic loan market that they currently account for nearly 80% of the debt of
Icelandic homes. In the complainant's view, the implementation of such a lending in Iceland has gone on for
the longest time in a manner not conforming to the requirements for consumer credit in the rules falling
under the EEA Agreement. This especially involves the rules stipulating that consumers shall be provided
with the best possible information on the total cost accompanying such borrowing; however, the
complainant deems that this duty has been neglected regarding the cost stemming from indexation; in
addition, Icelandic legislation and judicial practice have failed in the duty to ensure consumers this right
satisfactorily. Under the laws enacted up to now to legalise the aforementioned EEA rules in Iceland, such
neglect ought to affect consumers' obligations and their scope. On the other hand, with the judicial practice
expressed in the Supreme Court of Iceland's judgements on such issues, this right of consumers has been
neglected in a manner that the complainant deems to contravene EEA rules. Below, there will be further
explanation of the substance of the complaint and related issues.

The Homes Association • Ármúli 5 • 108 Reykjavík, Iceland • National ID 520209-2120


heimilin@heimilin.is • www.heimilin.is
II. Legal environment

Indexation of credit

There is a long tradition in Iceland of a “private property policy” in housing affairs, and for that purpose, a
governmental housing loan system has long operated, to enable most people to acquire housing. Housing
loans, in a form similar to the one now known, began in the 1950s with the establishment of various
governmental loan funds, and Act no. 55/1955 on Housing Affairs Management brought them under joint
governmental management. This act already stipulated an indexation component of the institution's loans,
and ever since then, indexation has been closely connected with the development of the governmental
housing loan system.

Since other European countries are hardly acquainted with indexation of loans offered to consumers, a short
explanation should be made of the special characteristics of such loans and their historical basis in Iceland.
Indexation links financial obligations with the development of the price level of specified goods and
services; thus, loans maintain their real value despite price increases of the aforementioned goods and
services. In most places, however, the view has been that interest serves this function appropriately, but in
Iceland another perspective took precedence, and laws have authorised the indexation of credit, for example,
by imposing and collecting indexation in addition to contractual interest.

Indexation may be viewed as the equivalent of the interest corresponding to the proportional price level
changes from the initial loan date to the payment dates of financial obligations, such as repayment of or
payments on a loan. Initially, this in fact involved an exception to the main rule that agreement provisions on
indexation were not allowed unless specifically permitted by law. For example, Art. 1 of Act no. 71/1966 on
indexation of financial obligations reflected this main rule as follows:

It is forbidden, unless allowed in this act, to initiate financial obligations in Icelandic kronur or other
value with provisions that payments, including interest, shall change in proportion to changes in indices,
product prices, foreign currency exchange rates or the value of gold, silver or other things of value.

Provisions in financial obligations violating the provisions of par. 1 are invalid.

...

Act no. 13/1979 on the management of economic affairs, etc., partly pulled back from the view that
indexation was an exception and instead adopted the policy to institutionalise it as the main rule. Thus, for
example, Art. 33 of the act prescribed the following temporary provision to Art. 13 of the then in force Act
no. 10/1961 on the Central Bank of Iceland:

Decisions on interest in 1979 and 1980 shall take into account that before year-end 1980, the indexation
of savings, deposits and loans will be established in phases, cf. Chapter VII of this Act on the indexation
of savings and credit. The main rule shall be that debt principal changes with price level development,
but nominal interest shall also decrease. Payments and interest shall be calculated on the indexed
principal. Indexation shall be calculated in proportion to price changes. In parallel with indexation, the
loan period shall generally be extended, and general rules on this matter shall be set, including
authorising bond conversions for this purpose.

The provision specifically legalised the main rule to index the principal of credit in addition to interest.

2 / 26
Chapter VII of Act no. 13/1979 contained general rules on indexation. Art. 34 said:

The goal shall be to index Icelanders' savings and public funds. For this purpose, as explained in more
detail in this chapter, it is authorised to establish savings accounts and initiate loan transactions in
Icelandic kronur or other value with provisions to the effect that payments, including interest, shall
change in proportion to a price index or foreign currency exchange rates, cf. Art. 39.

Art. 39 of the act stipulated that indexation should be based on a specific index that the Central Bank of
Iceland published, a “credit terms index”. In addition, in accordance with previously mentioned temporary
provisions, cf. Art. 33, Art. 40 also stipulated general authorisation to index the principal of credit:

Indexation may also be determined in the form of a specific indexation component of interest that is
formally linked to price level changes, is added to the principal of a loan or is part of a discount rate.

Following the passage of this act, Act no. 51/1980 on the Housing Agency was also enacted; it had then
taken over the management of housing affairs. However, the act made diverse changes in this area. Art. 33
of the act stipulated that all of the agency's loans to the public should be “fully indexed”, and their principal
should be based on the credit terms index, as it was each time, in accordance with the aforementioned Art.
39 of Act no. 13/1979. Art. 30 of Act no. 60/1984 on the State Housing Agency, which replaced the older
act, contained a comparable provision. Despite considerable changes in the act over the next several years,
the provisions on indexation of loan principals remained generally unchanged.

The temporary provision mentioned above in Act no. 10/1961 on the Central Bank of Iceland, cf. Act no.
13/1979, remained in force until the act was cancelled by the new Act no. 36/1986 on the Central Bank of
Iceland, without a comparable provision in the new act. Less than a year later came the first enactment of the
general Interest Act no. 25/1987; however, originally, it did not specifically cover indexation. Act no.
13/1995 then amended the Interest Act, deleting Chapter VII of Act no. 13/1979, including the
aforementioned provisions of Art. 34 and Art. 39-40. The new act replaced this with a new Chapter V in Act
no. 25/1987, containing general rules on indexation. The amendment cancelled the special authorisation
previously found in Art. 40 of Act no. 13/1979 to index the principals of savings and credit, but the new
provision of Art. 20 in Interest Act no. 25/1987 on authorisation for indexing was as follows:

The provisions of this chapter apply to obligations on savings and credit in Icelandic kronur, where a
debtor promises to pay money, and where it is stipulated that the payments shall change in proportion to
a price index or exchange-rate index in foreign currency.

In parallel with this was the change that, instead of the older credit terms index, cf. Art. 39 of Act no.
13/1979, the criterion should henceforth be an index that Statistics Iceland calculated and published in
accordance with Act no. 12/1995 on the Consumer Price Index, which had then recently entered into force.

The Housing Act no. 44/1998 established a new agency, the Housing Fund, which took over the former
function of the Housing Agency—however, in a considerably changed form. Among other things, instead of
having the benefit of direct contributions from the State, the fund ought to obtain capital on the free market.
Art. 19 of the act stipulated on the indexation of mortgage bonds regarding general loans. Par. 1 thereunder
states:

A mortgage bond shall be indexed with the Consumer Price Index, cf. The Act on the Consumer Price
Index, and have the same loan terms as the housing bonds to be exchanged for the mortgage bond, cf.
Art. 24, with the addition of a fixed interest surcharge, cf. Art. 28.

3 / 26
The Interest Act no. 25/1987 was cancelled by the current Act no. 38/2001 on interest and price indexation.
Its Chapter VI contains general rules on the indexation on savings and credit. There par. 1 of Art. 13 defines
the scope of authorisation for indexation, as follows:

The provisions of this chapter apply to obligations on savings and credit in Icelandic kronur, where a
debtor promises to pay money, and where it is agreed or stipulated that the payments shall be indexed.
Indexation in this chapter means change in proportion to a domestic price index. Art. 14 governs
authorisations for indexation unless the act stipulates otherwise.

Originally, Art. 14 of Act no. 38/2001 on authorisations for indexation also said:

Art. 13 authorises indexation of savings and credit if there is a basis for indexation in the Consumer
Price Index that Statistics Iceland calculates under the law applying to the index and publishes monthly
in The Official Gazette. An index that is calculated and published in a specific month applies to
indexation of savings and credit in the following month.

However, a loan agreement may use as a criterion a share index, domestic or foreign, or a portfolio of
such indices that do not measure changes in the general price level.

Act no. 51/2007 amended the latter sub-paragraph of par. 1 Art. 14 of the act as stated below, and the
provision is still in force, as amended:

… An index that is calculated and published in a specific month applies to indexation of savings and
credit as of the first day in the following month..

In accordance with this, it is clear that the standard stipulated as the basis for calculating indexation in
Iceland is the Consumer Price Index, calculated and published officially by Statistics Iceland under Act no.
12/1995 on the Consumer Price Index. Since each month's index is used for indexation in the next month or
the one after that, it is also clear that a change in the index (inflation) in recent months through the next one
and, depending on events, the one after that, was and is always known each time.

In addition, par. 2 of Art. 15 of Act no. 38/2001 charges the Central Bank of Iceland with setting “more
detailed rules on the indexation of savings and credit”, including the minimum periods for indexed deposits
and loans. Shortly after the entry into force of the act, on the basis of the authorisations, the bank set Rules
no. 492/2001 on indexation of savings and credit. These rules replaced older rules on the same topic. Art. 4
of the rules has provisions on indexed loans, and par. 2 stipulates the following implementation of them:

The principal of a loan changes in proportion to changes in the Consumer Price Index from the base
index to the first payment date and in proportion to changes in the index between payment dates. A loan
principal shall change on each payment date, before the interest and payment are calculated.

It is noteworthy that the provision assumes that there is authorisation to index the principal of credit, here
with a direct connection to an index, despite the fact that special authorisations for this dropped out of the act
in the period 1986 to 1987. Icelandic law would require a governmental instruction like this, usually
supported with sufficient authorisation in enacted law, in order to be deemed binding. In fact, it appears that
the aforementioned wording simply remained unchanged in notifications and rules that the Central Bank of
Iceland has published and renewed many times through the years, i.e., ever since the entry into force of Act
no. 19/1979, but apparently without respect to the diverse amendments that the legal environment later
underwent.

4 / 26
Consumer credit

Before the entry into force of the EEA Agreement, no general act was in force in Iceland on loan
transactions or instalment purchases. In the lead-up to its entry into force, in 1992 the Icelandic government
immediately began adapting the Icelandic legislature to the rules of the European Union in this area. Then
valid Directive 87/102/EEC for the approximation of the laws, regulations and administrative provisions of
the Member States concerning consumer credit, as amended in accordance with Directive 90/88/EEC, was
especially kept in mind. These rules were then legalised in Icelandic law with Act no. 30/1993. However, a
year later the act was revised and reissued as Act no. 121/1994 on Consumer Credit.

The gist of Directive 87/102/EEC regards the duty of information of lenders on the terms of loan
agreements, their meaning for the consumer and particularly the cost that the consumer must pay under those
terms. Thus, for example, par. 9 of the directive's preamble states:

It is proper that consumers get satisfactory information on loan conditions, loan costs and their
obligations. For example, this information ought to cover the annual percentage rate of charge or, if this
is not obtainable, the total amount that the consumer must pay for the loan. …

Regarding the information that a loan agreement shall state, Art. 4 of the directive, for example, states:

1. Loan agreements shall be in writing. The consumer shall get a copy of such a written agreement.
2. The written agreement shall state the following:
a) a declaration of the annual percentage rate of charge;
b) a declaration regarding under what circumstances the annual percentage rate of charge may change.
In case it is not possible to provide a declaration of the annual percentage rate of charge, the consumer
shall be provided with sufficient information in the written agreement. This information shall at least
cover what Art. 6 (1) (2) stipulates.
c) a specification of the amount, number and frequency or payment dates of payments that the consumer
will have to pay in order to pay off the loan, as well as payments of interest and other costs. The total
amount of these payments ought also to specify, where possible:

The definition of “annual percentage rate of charge” is specified in Art. 1a (1) (a) of Directive 87/102/EEC,
as amended by Directive 90/88/EEC Art. 1 (2):

The annual percentage rate of charge, which shall be equivalent, on an annual basis, to the present
value of all commitments (loans, repayments and charges), future or existing, agreed by the creditor and
the borrower, shall be calculated in accordance with the mathematical formula set out in Annex II.

Art. 1 (2) (d) of the directive as amended by Directive 90/88/EEC Art. 1 (1) also states that “the total cost of
credit to the consumer” means:

… all costs, including interest and other charges, which the consumer has to pay for the credit.

5 / 26
Art. 1a (4) (a) of Directive 87/102/EEC, cf. Directive 90/88/EEC Art. 1 (2), also states:

The annual percentage rate of charge shall be calculated at the time the credit contract is concluded…

The directive does not specifically provide for indexation since such terms are generally not used in loan
agreements in other European countries. What is perhaps closest to this is a provision in Art. 1a (6) of the
directive that anticipates in the following manner that some of the charges covered by the duty of
information, especially interest, can vary and can be unknown ahead of time:

When credit contracts containing clauses allowing variations in interest payments and the amount or
level of other charges contained in the annual percentage rate of charge but unquantifiable at the time
when it is calculated, the annual percentage rate of charge shall be calculated on the assumption that
interest and other charges remain fixed and will apply until the end of the credit contract.

As previously stated, Directive 87/102/EEC, as amended by Directive 90/88/EEC, was legalised in Icelandic
law with Act no. 30/1993 on consumer credit. Comments with the parliamentary bill for the act stated that
the purpose of the directive was to harmonise the rules of each country in the field of consumer credit
regarding which information consumers shall get in connection with loans, for the purpose of equalising the
status of lenders and ensuring the most protection for consumers. Section 6 of the general comments with the
parliamentary bill dealt with the annual percentage rate of charge. Among other things, it stated:

The main point of Directive no. 87/102 EEC [sic] and the parliamentary bill is that a borrower shall get
information on the annual percentage rate of charge as a percentage of the approved agreement.

… The purpose of the provision obliging a lender to inform the borrower of the annual percentage rate
of charge is to give the borrower a chance to assess how much cost accompanies the loan. …

Information on the percentage figure makes it easier for the borrower to compare different loan offers
and can therefore be useful in competition and even lower the cost of borrowing. The definition of the
annual percentage figure in the parliamentary bill is in accordance with Art.1 (a) of the aforementioned
directive.

A mathematical model in a regulation will govern the calculation of the percentage figure, and the
assumption is that coordinated EEA rules will be followed each time. The parliamentary bill states what
is included in the calculation of the annual percentage figure. …

From the start, it was thus assumed that the annual percentage figure would be the main point in the
information that should be provided in connection with loans, that its calculation should follow coordinated
EEA rules, and that the calculation should include the factors that the parliamentary bill would stipulate.

After various changes in the parliamentary bill during its progress through Althingi, it was passed as Act no.
30/1993. The annual percentage figure and total cost of credit were defined as follows in Art. 4 (d) and (e) of
the act:

d. The total cost of credit to the consumer is all of the costs of borrowing that the consumer must pay,
including interest payments.
e. The annual percentage rate of charge is the total cost due to a loan agreement, expressed as an
annual percentage of the amount of the credit granted as calculated in accordance with Art. 10-12.

6 / 26
As in Art. 4 (1) of Directive 87/102/EEC, Art. 5 of the act stipulates written agreements:

A loan agreement shall be written and include the information specified in Art. 6 and Art. 8. A consumer
shall get a copy of the loan agreement.

Provisions of the aforementioned Art. 4 (2) (a-c) of the directive on the information that shall appear in a
loan agreement were legalised in Art. 6 of Act no. 30/1993, which was as follows:

Upon conclusion of a loan agreement, a lender shall provide the consumer with information on:
1. The principal, i.e., the credit amount without any cost.
2. The amount paid, i.e., the principal less the loan charges.
3. Annual nominal interest.
4. Loan charges in kronur, calculated in accordance with Art. 7.
5. The annual percentage rate of charge, i.e., the total loan charges, expressed as an annual
percentage of the amount of principal and calculated in accordance with Art. 10-12.
6. The total amount that shall be paid, i.e., the combined figure of the principal, interest and loan
charges.
7. The number of individual payments, their amount and payment dates.
8. The period of the loan agreement and the conditions for its termination.

If loan charges, payments or other aspects of the loan terms can change during the agreement period, a
lender shall inform the consumer under what circumstances the changes can occur. If the annual
percentage rate of charge cannot be calculated, a lender shall instead explain to the consumer what the
annual nominal interest is, what charges fall on the loan, and under what circumstances changes can
occur.

As can be seen, a fairly broad and detailed duty of information is involved. Art. 7 stipulated the calculation
of loan charges in greater detail that, in broad terms, should entail all charges on the loan, including interest
and other charges that the consumer should pay on it, however, with certain exceptions, including charges
regarding default. There were also more detailed stipulations on the calculation of the annual percentage rate
of charge in Art. 10-12. These were parallel to the substantive provisions in Art. 1a of the directive. Thus,
Art. 10 of the act legalised, nearly word for word, Art. 1a (1) (a) of the directive:

The annual percentage rate of charge is equivalent to the present value of all commitments (loans,
repayments and charges), future or existing, that the creditor and the borrower have agreed. The
percentage rate shall be calculated in accordance with a mathematical model, as further directed in a
regulation that the minister sets. It shall also include more detailed rules on calculating charges.

On the basis of the provision, a separate regulation was set with a more detailed elaboration of the
calculation of the annual percentage rate of charge with the mathematical formula set out in Annex II of the
directive. (See Art. 5 of Regulation no. 377/1993 on consumer credit, as later amended by Regulation no.
236/2000).

Art. 1a (4) of the directive was also mentioned before, where it states when this calculation shall be done. It
was legalised substantively unchanged in Art. 11, which states:

The annual percentage rate of charge shall be calculated when a loan agreement is completed. In
calculating the annual percentage rate, it shall be assumed that a loan agreement will be in force for the
agreed period, and that the lender and consumer abide by their commitments, in accordance with the
terms of the agreement.

7 / 26
As in Directive 87/102/EEC, there was originally no specific provision for indexation in the parliamentary
bill for Act no. 30/1993. However, there was a provision parallel to the aforementioned Art. 1a (6) of the
directive regarding reporting of information on variable loan charges. It is in Art. 9 of the act and states:

Even though this act stipulates that a consumer shall get information on interest or amounts where
interest is included, cf. Art. 6, this does not prevent parties from agreeing that interest is partially or
completely variable. Then, interest, as it is at the time the information is given, shall be reported; it shall
be specified in what way the interest is variable, and under what circumstances it changes.

Despite the provision's reference being mainly to variable interest, one might conceivably take the view that
the wording “… or amounts that include interest” could accommodate indexation. The parliamentary bill
also proposed that the aforementioned par. 6 of Art. 1a of the directive, along with par. 7 of similar
substance would be legalised in Art. 12 of the act, where par. 1 said in part:

If a loan agreement authorises change in interest payments or other charges deemed to be part of the
annual percentage rate of costs, but it is not possible to assess what it is at the time the calculation is
done, the annual percentage rate of charge shall be calculated on the assumption that interest and other
charges will remain unchanged until the end of the loan period.

As in Art. 9 above, Art. 12 (1) referred mainly to changes in interest, but one could likewise deem that
indexation could be accommodated within the definition of “… other charges deemed to be part of the
annual rate of charge…”, given that it clearly fitted in there.

In this context, it should be mentioned that two years earlier the Central Bank of Iceland directed a brief to
the Ministry of Commerce on the duty of information regarding lending, with a request to legalise active
interest, which is actually the same as the annual rate of charge. That brief assumed that, in addition to
payments, interest, etc., such reporting ought to include indexation. With reference to that brief, the Central
Bank of Iceland proposed in its opinion on the parliamentary bill for Act no. 30/1993, amending Art. 12 (1),
adding after “interest payments” the words: “indexation and price-level criterion”; thus, indexation would be
included, just like interest. During processing of the parliamentary bill in Althingi, this proposal was agreed,
and it was incorporated into Art. 12 (1), which finally made it into the act (with the change underscored for
emphasis), as follows:

If a loan agreement authorises change in interest payments, including indexation and a price-level
criterion, or other charges deemed a part of the annual percentage rate of charge, but it is not possible
to assess what it is at the time the calculation is done, the annual percentage rate of charge shall be
calculated on the assumption that interest and other charges will remain unchanged through the end of
the loan period.

Althingi's Economics and Commerce Committee explained the change in its opinion on the parliamentary
bill as follows:

The proposal is to amend Art. 12, so that indexation and a price-level criterion will be deemed interest
payments in the provision.

From this, it can only be inferred that the will of the legislature was to include costs because of indexation as
part of loan charges, in the same manner as interest, when the annual percentage of charge was calculated,
and thereby as part of the total loan charges, cf. Art. 4 (e) and Art. 7 of the act.

8 / 26
Less than a year after the entry into force of Act no. 30/1993, it was revised and a new parliamentary bill
introduced, containing proposals on various amendments, including to the wording of Art. 12 (1), as follows:

If a loan agreement authorises indexation or changes in interest payments or other charges deemed to
be part of the annual percentage rate of charge, but it is not possible to assess what it is at the time the
calculation is done, the annual percentage rate of charge shall be calculated on the assumption that
interest and other charges will remain unchanged until the end of the loan period.

The comments accompanying the parliamentary bill explained this change in wording as follows:

The recommendation here is that the wording of the provision be made clearer. The concept of
indexation is used in a broader sense, so that it covers any kind of indexation authorised in Iceland.

Thus, no substantive change was actually involved, but only a clarification of the the provision's wording, so
that it would cover any kind of indexation authorised in Iceland. Althingi passed the parliamentary bill in
May 1994, and the amendments in it entered into force on 18 October the same year, and the act, as
amended, was re-issued as Act no. 121/1994 on consumer credit.

The scope of the the Act on Consumer Credit was originally based on Directive 87/102/EEC and was
therefore limited to certain amounts and loan categories that were listed in Art. 2 of the directive. Amongst
these were loans in the form of overdraft authorisations for checking accounts and loans secured by real
estate, in accordance with Art. 2 (1) (f-h) of Act no. 121/1994. However, the scope of the act later broadened
with Act no. 179/2000, which entered into force 11 January 2001. However, Art. 1 of this amendment
deleted the aforementioned provisions on exemption. The opinion of Althingi's Economics and Trade
Committee on the parliamentary bill said about this amendment:

In addition, the parliamentary bill provides that Art. 2 (1) (f) of the act, which stipulates that loan
agreements secured by real estate are exempted from the act on consumer credit, shall be amended, so
that it covers loan agreements that the Housing Fund enters into or other comparable real-estate
mortgage agreements entered into regarding the acquisition of residential housing. Checking of the
matter revealed that elsewhere in Nordic countries, lenders granting loans secured by real estate for a
longer period fall under provisions of acts on consumer credit. There seems to be no reason to exempt
such parties from provisions of the act and the duty to provide a borrower with information on the
annual percentage rate of charge on a loan. During the committee's processing of the case, it came to
light that the Housing Fund, which is the party entering into most loan agreements regarding the
acquisition of residential housing, did not oppose the provisions of the act on consumer credit also
covering such agreements. Taking this into account, the committee also recommends deleting Art. 2 (1)
(f) of the act.

This amendment placed various loans within the scope of the Act on Consumer Credit, including loans
granted regarding the acquisition of housing. One may also view this amendment as the legislature's
utilisation of the leeway provided in Art. 15 of Directive 87/102/EEC, which states:

This directive shall not prevent member states from maintaining or adopting stricter provisions to
protect consumers that are in harmony with their commitments under the treaty.

This amendment was very significant because of how big a share of the housing market in Iceland is based
on loan financing of housing purchases. The amendment actually broadened the scope of the Act on
Consumer Credit from originally covering a rather limited portion of the loan market to actually covering
most loans offered to individuals and households in Iceland.

9 / 26
Regarding the consequences of neglecting reporting, the parliamentary bill for Act no. 30/1993 said:

Directive no. 87/102/EEC contains no rules on the consequences if a lender neglects to inform the
borrower of the annual percentage rate of charge. The law in each country has to determine this. The
parliamentary bill recommends that when the annual percentage rate of charge is too low in loan
agreements of a fixed amount, the lender shall not demand from the borrower a higher cost than the
agreement stipulates, cf. Art. 14… . As a result, it must be supposed that lenders will take care to comply
with the duty of information. … Reference shall be made here to the comments on Art. 14.

Among the comments in the referenced Art. 14 was the main rule that greater loan charges in percentage
terms than what the agreement stipulates might not be demanded. The provision was amended slightly with
the revision of the act, cf. Act no. 121/1994, and the comments to the provision in the relevant parliamentary
bill stipulated even more plainly, such that it would be entirely forbidden to collect interest and other loan
charges not appearing in an agreement; Art. 14 was then as follows:

In the event that interest or other loan charges are not specified in a loan agreement, the lender is then
forbidden to demand payment of them from the consumer. In other respects, the provisions of the
Interest Act govern interest on consumer credit.

A lender may not demand payment of higher loan charges than an agreement specifies, in accordance
with Art. 6 (1) (4). If the annual percentage rate of charge, cf. Art. 6 (1) (5) is calculated too low, a
lender may not demand total lending charges that would give a higher annual percentage rate of
charge.

The provisions of par. 1 and par. 2 do not apply if a lender can prove that it ought to have been clear to
the consumer what the loan charges were supposed to be. If the provisions of par. 1 or par. 2 lead to a
decrease in the balance, the consumer shall pay the balance in accordance with the agreement, and the
decrease shall appear in the last payments.

The renewed Act no. 121/1994 on consumer credit maintained its validity without substantial changes being
made in the aforementioned provisions until 2013. Then, Directive 87/102/EEC had been revised and
replaced by Directive 2008/48/EC on credit agreements for consumers. A revision of the act was launched,
and in order to legalise the new directive, a new act was set on consumer credit no. 33/2013 that cancelled
the older act. As before, it stipulated the calculation of the annual percentage rate of charge, now in Art. 21
of the parliamentary bill for the new act, which was, for the most part, the same in substance as Art. 10-12 of
the older act, including par. 3 that was identical to the much-discussed Art. 12 (1) of the older act. During
handling of the parliamentary bill, the legislature's attention was called to the fact that, despite a stipulation
that indexation should be included, most lenders had left it out of the calculation of the annual percentage
rate of charge. The decision was therefore made to add a new sub-paragraph to the provision in order to call
attention yet again to the legislature's clear intent that the cost of indexation should be included in such
calculations, and the provision of the new act entered into force amended as follows:

If a loan agreement authorises interest or other charges that are deemed part of the annual percentage
rate of charge, but it is not possible to assess what it is at the time the calculation is made, the annual
percentage rate of charge shall be calculated, based on the assumption that the price level, interest and
other charges will remain unchanged until the end of the loan period. If a loan agreement authorises
indexation, the calculation of the annual percentage rate of charge shall be based on annual inflation, in
accordance with the 12-month change in the Consumer Price Index and the assumption that the annual
inflation will remain unchanged through the end of the loan period.

10 / 26
III. Facts of the case

Scope and effect of indexation

In order to shed light on the importance of the complaint's substance, it is necessary to explain specifically
how extensive indexation is on the Icelandic consumer loan market, and what effect indexation has had on
the obligations of Icelandic consumers. As previously stated, for a long time, indexation was closely linked
to the development of the governmental housing loan system, which has been part of the “private property
policy” in housing affairs. That policy entails emphasis on as many people as possible acquiring their own
residential housing, while less emphasis has been laid on rental housing as a general option.

In order to finance the public's housing purchases, the governmental housing loan system was established. It
was consumers' only option for a long time since the financial market for most of the 20th century had few
options and was inaccessible to general consumers. For the longest time, most banks were state operated,
and the few that private parties founded mainly emphasised services for the business community or its
individual industries. However, the beginning of the 21st century saw some change in this when the
government began to privatise various state-operated companies, including banks and other lending
institutions. Following this, privately operated banks began moving into the consumer loan market and
began offering consumers housing loans in competition with the state-operated Housing Fund. Indexation
had then already become well established and was very nearly an inseparable part of the Icelandic financial
environment. In fact, housing loans from governmental lending institutions had for the longest time been
indexed. This did not change with the arrival of privately operated banks in the lending market, and it can
therefore be said that, through the years, consumers had no housing loan options other than indexed loans.
Unindexed loans were not generally an option for the public until very recently, especially following the
corrections of unlawful exchange-rate indexed loans, and the variable nominal interest on such loans is still
so high that they are not competitive with indexed loans.

According to Statistics Iceland's official figures, 60-70% of Iceland's homes are mortgaged because of
housing purchases. According to the the Central Bank of Iceland's official figures, at the end of the last
century, about 85% of Icelandic homes' debts were indexed, and that percentage has remained at 80% and
more, despite the number of unindexed loans having recently increased somewhat. On the other hand, this
broad distribution of indexed loans has not proved good for Icelandic consumers since they are tied to the
development of inflation. Inflation in Iceland has historically fluctuated very widely and has generally been
rather high. It was thus not uncommon for most of the 20​th century for annual inflation to reach tens of
percentage points. For example, inflation in 1983 was not less than 70% plus. The only way for wage
earners to pay for the rapidly increasing debt burden accompanying this is to demand wage increases, which
have in turn spawned a continuous race of wage earner associations against eroding purchasing power and
the public's increasing debts.

An important causal factor in this context is the unique characteristic of indexed loans in Iceland, that
instead of applying variable interest to adjust people's debt service burden and yield to economic
fluctuations, their principals are directly linked with the development of inflation. In addition, they carry
nominal interest that is generally 4-5%. According to the information stated in the first edition of a
publication by the Central Bank of Iceland in 2011 on financial stability, this implementation of indexed
loans resulted in almost half of all the debts of Icelandic homes. It is also worth mentioning that the
Consumer Price Index in Iceland is calculated, so that, in addition to the price level of consumer goods and
services, it also includes the cost of housing. Since price indexation of housing loans is actually a very large
part of housing costs in Iceland, one may say that the index actually measures itself to a substantial degree.
This entails an amplification effect that exaggerates inflation peaks.

11 / 26
In addition to the scope of consumer loan indexation in Iceland, it is also necessary to further explain special
characteristics of such loans. When people discuss indexation with outsiders not familiar with the Icelandic
financial environment, it is at first common for them to infer that this involves some kind of variable interest
arrangement, where the changes take changes in inflation into account. If this were the way it went, interest
could both increase and decrease, depending on whether inflation was high or low. However, this is far from
the way it goes since Icelandic loans are detailed so that the interest does not necessarily change, but rather
the loan's principal, and it does not fluctuate with the level of inflation, but rather in proportion to changes in
the Consumer Price Index, on which indexation is based. This means that the principal increases when
inflation is more than 0%, but never decreases unless inflation falls below 0%, and not even then since it is
common that loan terms protect lenders from this with a stipulation on an “index floor”, based on the index
level on the date of the loan (“base index”).

As previously stated, the implementation of indexing loans' principals was institutionalised with Act no.
13/1979 on the management of economic affairs, etc. Despite special legal provisions related to this having
been temporary and deleted from the act between 1986 and 1995, lenders continue using such terms in loan
agreements, apparently with the blessing of regulations from the Central Bank of Iceland. The discussion
below therefore takes into account that this arrangement is still in place. As previously stated, inflation in
Iceland has more often than not been rather high, and despite the Consumer Price Index having decreased
slightly from time to time, and inflation in terms of it having been negative between particular months, an
increasing price level has almost always characterised the development over the longer period. It should also
be mentioned that there is an agreement in force between the Government of Iceland and the Central Bank of
Iceland on the official inflation goal. It stipulates that the inflation goal shall be 2.5%, with a tolerance of
1.5%, i.e., 1-4%.

The effect of chronic inflation is that the principal of an indexed loan increases from the month before.
Payments and interest are calculated on the principal. Since payments are calculated as a certain percent of
the balance of the principal, this can lead to the payment on each payment date being a lower amount than
the increase from the month before and actually being therefore ​negative amortization. If inflation remains
greater than this limit over a longer period, the principal constantly increases despite the fact that the
borrower always makes timely payments. The loan is therefore never paid off unless the debt service burden
later in the loan period increases by the difference and the interest on it.

For example, for a 40-year loan with equal monthly payments, each payment would be 1/40 = 2.5% of the
principal on each payment date. This means that if the level of inflation is at the official inflation goal or
higher, as has often been the case, payment of the loan is negative in the early part of the loan period. This is
actually the equivalent of postponing payment of the loan cost in the form of indexation, and the borrower
therefore does not sense this until much later when the loan has even increased so much that it becomes
unmanageable. In addition, the impact that these particular characteristics can have on the scope of the
obligations has not generally been specifically presented to consumers.

Another consequence of indexing the loan principal is that its complexity becomes considerably greater than
regular consumer loans with nominal interest. Even though interest can be variable, it is relatively simple to
calculate it on a loan's balance when its percentage is known each time. On the other hand, when a loan's
principal is indexed, it involves a more complex interaction of more factors. One must take into account,
first, the effect of inflation on the principal, second, the interest calculated on the principal and, third, the
fact that the interest calculated is actually variable and most often on an increasing principal. Thus, despite
everything, it is not “fixed interest”, except in name only. This complex interaction is rather difficult to
understand and is not transparent to general consumers.

12 / 26
To give an idea of how complex the characteristics of indexed loans can be, reference can be made to a letter
that the Central Bank of Iceland sent to Althingi's Ombudsman on 30 August 2011, in connection with the
handling of a complaint that the Homes Association of Iceland directed to the ombudsman regarding the
Central Bank's rules on indexation. Pages 7-9 of the letter show various examples of calculating the debt
service burden of indexed loans, based on certain assumptions regarding inflation. However, for the sake of
simplicity, the examples show only calculations of loans with equal payments that nevertheless increase
proportionally with inflation as the loan period goes on. On the other hand, the most common kind of
long-term loans are “equal payment” loans (​annuitet), where the monthly total payment of interest and the
payment of principal are calculated as a fixed amount at the start, which then increases proportionally with
inflation throughout the loan period. Page 10 of the letter states that it is somewhat complicated to show
examples of calculations of such loans, and that they have the disadvantage from the debtor's point of view
that the calculation is not as easily understood as it might otherwise be. Various specialists have also deemed
that such loans over the long term are undesirable with respect to consumers' interests.

Because of the effect of indexing a loan principal and the degree of complexity of such loans, it is much
more important than otherwise that consumers obtain explicit and clear information on their characteristics
and the scope of their commitments. Obviously, that scope can vary and is not known ahead of time because
it is not always possible to forecast how inflation will develop over a period of many years, and the same in
fact applies also to loans with variable interest. As previously stated, Art. 1a (6) of Directive 87/102/EEC
specifically provided for such circumstances. Art. 9 and Art. 12 (1) of the Act on consumer credit legalised
this directive. These articles stipulated that the interest and other costs used as a foundation should be valid
for the period for which the information is provided and should be assumed to remain unchanged through
the end of the loan period. This is especially relevant about the information on which Art. 6 stipulates when
a loan agreement is concluded, cf. Art. 11 of the Act on Consumer Credit.

Where the Consumer Price Index is used for indexation two months (previously one month) after its
publication, in accordance with Art. 14 (1) of the Act on Interest and Indexation, it is clear that the index
level is always known each time, and there is therefore nothing preventing the calculation of inflation, based
on a change in the index from the previous month or the last 12 months, as is customary when inflation rates
are involved. Thus, there is nothing preventing taking into account the effect of indexation on such loans
when doing calculations of the loan costs and the annual percentage rate of charge. On the other hand, since
such calculations can be somewhat complicated and will actually not be done except with computer
programs for this purpose, it is normal for this duty to rest on lenders since it is hardly possible to assume
that a general consumer has the wherewithal to perform such calculations. It is also appropriate to explain
how large a share of the cost of indexed loans comes in the form of indexation. Here one can see several
examples of this, based on varying degrees of inflation. The examples are all based on an “equal payment”
loan (​annuitet) in the amount of ISK 10.000.000 for a period of 40 years with 4% fixed nominal interest.

Inflation level Total borrowing costs Indexation (percentage of total costs)


0,0% ISK 10.061.011 ISK 0 (0,0%)
1,0% ISK 14.650.368 ISK 4.589.357 (31,3%)
2,5% ISK 24.260.151 ISK 14.199.140 (58,5%)
4,0% ISK 38.684.218 ISK 28.623.207 (74,0%)
5,5% ISK 60.535.648 ISK 50.474.637 (83,4%)

As one can see, the effect of indexation on the scope of consumers' obligations is considerable, even when
inflation is below the official goal. More examples of calculations may be seen in accompanying documents,
including those published by the Consumer Agency, cf. the Act on Consumer Credit no. 33/2013.

13 / 26
Court cases on indexed consumer loans

When the scope of Act no. 121/1994 on Consumer Credit expanded to mortgage bonds at the start of 2001,
indexed loans had achieved very wide circulation in the Icelandic loan market. They then covered more than
85% of lending institutions' loans to Icelandic homes, i.e., more than 75% of GNP. In the first part of the
first decade of the 21​st century, a great period of overheating began in international financial markets, and
there was a similar development in Iceland that continued up to the financial crisis of 2008. As is well
known, the shocks hit Iceland very hard and, in the fall of 2008, led to the collapse of the country's financial
system very nearly to its foundations. At the same time, the exchange rate of the Icelandic krona fell, and
inflation shot up, completely out of control; it reached 20% in 2008, with a corresponding increase in the
indexation of the debts of homes, which, at the same time, grappled with ever-rising unemployment and
eroding purchasing power. For this reason, a big part of Icelandic homes got into considerable trouble
paying the increasing debt service burden of indexed loans. The Homes Association of Iceland deemed it
foreseeable that this problem would become unmanageable if nothing changed and therefore began
searching for ways to reduce the effect of the collapse on the homes and safeguard their financial rights.

Ever since the founding of the Homes Association of Iceland, research into the legal status of consumers in
respect of lenders and the lawfulness of their obligations has been a major part of the association's work.
Some results in that area were achieved in 2010 when the Supreme Court of Iceland confirmed that
indexation of loans, based on the exchange rates of foreign currency, was unlawful, and following this, such
loans were repaid and decreased considerably. This softened the effect of exchange-rate changes on the
finances of the homes that had taken such loans. Following this, such research also focused on the legal basis
of the loans that were indexed on the basis of the Consumer Price Index, for, as previously said, such loans
were by far the commonest kind in the Icelandic consumer credit market. This research revealed, among
other things, that despite the provisions in the Act on Consumer Credit, lenders, in by far the most instances,
appeared to have carried out the implementation of such loan agreements so that when consumers were
provided with information on loan costs, those calculations were based on the assumption that inflation
would be 0% during the loan period. Thus, the cost of indexation was actually excluded from calculations of
the borrowing costs, and in some instances, it came to light that no such information had even been provided
when granting loans.

In 2012 the Homes Association of Iceland began preparing an action for the purpose of finding a solution on
the lawfulness of basing the calculation of the loan costs of indexed loans on the premise that inflation
would be 0% during the loan period, despite the knowledge that the inflation level at the time of borrowing
was actually higher. On 18 October, with the association's support, members of the association commenced
such an action. The members were selected for the case to test the issues involved here. The action was
brought against the Housing Fund, which is the biggest lender in the Icelandic housing loan market.
However, a judgement of the Supreme Court of Iceland on 29 May 2013 dismissed this case for technical
reasons. Another case was therefore commenced on 22 October 2013 (in the District Court of Reykjavik,
Case no. E-4521/2013), for the purpose of obtaining a substantive solution of the Icelandic courts on the
lawfulness of such lending.

Amongst the main issues tested in this case was the established fact that during lending borrowers were
provided only with information on the principal, interest, loan period, number of payments and estimated
(fixed) amount of payments and interest, however, without providing for any costs caused by the loan's
indexation (i.e. price level compensation). In addition, borrowers were not provided with information on the
total loan costs or the annual percentage rate of charge, cf. Art. 6 (1) (4) and (5) of Act no. 121/1994 on
Consumer Credit, or the amounts of individual payments in accordance with subpar. 7; there was an
obligation to provide this information in writing in a loan agreement in accordance with Art. 5 of the act.

14 / 26
At a similar time, other parties commenced an action for the same purpose, i.e., testing the lawfulness of
indexed loans, where information on the cost of indexation had not been provided. In one such action, an
advisory opinion was sought from the EFTA Court, and both a district court and the Supreme Court of
Iceland agreed on seeking an advisory opinion on specific questions regarding construction of Directive
87/102/EEC and Directive 93/13/EEC on unfair terms in consumer agreements. This included an opinion on
whether setting a premise of 0% inflation as a basis for calculating loan costs and the annual percentage rate
of charge when providing information to consumers was in harmony with Directive 87/102/EEC. This
particular action (Case E-27/13 ​Saevar Jón Gunnarsson vs. Landsbanki) sought, among other things, an
advisory opinion of the EFTA Court on the following question:

1. Is it in accord with the provisions of Directive no. 87/102/EEC on Consumer Credit, as amended by
Directive no. 90/88/EEC and Directive no. 98/7/EC, that, in concluding a loan agreement that is
tied to the Consumer Price Index in accordance with authorisation in set laws, and therefore
changes in accordance with inflation, that upon calculating the total borrowing costs and the
annual percentage rate of charge that is published to a borrower upon completion of the agreement,
based on 0% inflation, but not the known level of inflation on the borrowing date?

In addition, an advisory opinion on five additional questions was sought, which the EFTA Court had already
answered in a separate case (E-25/13). On the other hand, the first, which is particularly specified here, had
the greatest significance for resolution of the issues tested here in the case brought by members of the
Homes Association of Iceland (Case no. E-4521/2013). In its conclusions in an advisory opinion in Case
E-27/13 on 24 November 2014, the EFTA Court answered the question as follows:

1. When a loan agreement is tied to the Consumer Price Index, basing the agreement on 0% inflation
when calculating the total borrowing costs and annual percentage rate of charge does not accord
with Directive 87/102/EEC if the known inflation level on the borrowing date is not 0%. It is for the
national court to assess, after taking into account all the facts of the case, what the effect of
providing wrong information of this kind has, and which remedies are possible to employ in that
case, given that the protection that Directive 87/102/EEC provides, as the court construes it, is not
jeopardised.

This conclusion of the EFTA Court confirmed, that, to a substantial degree, the facts of the case, on which
the aforementioned case in the District Court of Reykjavik, no. E-4521/2013, was mainly based, regarding a
lender's neglect of its duty of information. The district court in the case said, in part, in its conclusions
regarding this:

Taking into account the aforementioned provisions of Art. 12 (1) of Act no. 121/1994, as well as Art. 1a
(6) of Directive 87/102/EEC on the same subject, cf. Art. 1 of Directive 90/88/EEC, in accordance with
this, the basis to apply has to be that indexation was part of the total borrowing costs under Art. 7 (1) of
then-in-force Act no. 121/1994 and Art. 1 (2) (d) of Directive 87/102/EEC. This is in accord with the
opinion stated in par. 90 to 92 in the judgement of the EFTA Court on 24 November 2014, Case no.
E-27/13. The defendant therefore had a duty to calculate the annual percentage rate of charge, based on
the premise that the price level, interest and other charges would be unchanged through the end of the
loan period. The said instructions of Act no. 121/1994 have to be construed in accordance with the
provisions of Directive 87/102/EEC, as amended, that the provision was intended to legalise in
Icelandic law, cf. Art. 3 of Act no. 2/1993 on the European Economic Area. On the other hand, in
resolving the substantive gist of the rules of the Agreement on the European Economic Area, accepted
procedures of construction must be considered, including precedents of the EFTA Court.

15 / 26
The previously specified judgement of the EFTA Court deals with construction of the above-specified
provisions of the consumer credit directive. There the court concludes that the concept „total borrowing
costs“ entails all of the costs a consumer is obligated to pay under the loan agreement, including
interest and costs resulting from indexation of the principal. This information is supposed to promote
transparency in the market since it enables the consumer to compare different loan offers. The
aforementioned judgement also states that the provision of Art. 1a (6) in the directive assumes that
interest payments and other costs can be variable. On the other hand, if the assumption upon taking a
loan is that the inflation level will remain at 0% when the actual inflation is considerably higher, that
does not provide a correct picture of the costs resulting from indexation and thereby the total borrowing
costs in the meaning of Art. 1 (2) (d) of the directive. Such a declaration does not therefore provide a
realistic picture of the annual percentage rate of charge as it is defined in Art. 1a (2) (e) and Art. 1 (1)
(a) in the consumer credit directive.

Having considered this, as well as taking into account Art. 3 of Act no. 2/1993, Art. 12 (1) of Act no.
121/1994 has to be construed to mean that in calculating the annual percentage rate, there was a duty to
assume that the price level development would be unchanged throughout the loan period. Basing the
plaintiffs' payment schedule on an inflation level of 0%, as was done, contravened this requirement of
the provision.

With this, the District Court agreed the major points of the main issue of the case that the lender had not
fulfilled its duty of information by leaving out the cost that would accrue to the loan because of indexation
when providing information to the borrower, including in the calculation of the annual percentage rate of
charge and presentation of the payment schedule. It shall be emphasised in this context that there was
absolutely nothing preventing the use of the inflation level on the borrowing date as a basis since Art. 14 (1)
(2) of Act no. 38/2001 on interest and indexation stipulated that the index that was calculated and published
in a specific month should be the basis for indexation of credit as of the first day of the following month.
The inflation percentage that ought to have been the basis was therefore always known each time.

Even though Directive 87/102/EEC has no rules on the consequences of neglecting the duty of information
on the costs of borrowing, Art. 14 of Act no. 121/1994 stipulated this. It stated that a lender was forbidden to
demand the consumer to pay costs not stated in the agreement; in addition, subpar. 2 of the provision
specifically stated that a lender was prevented from demanding payment of borrowing costs higher than the
agreement specified, in accordance with Art. 6 (1) (4), or that produced a higher annual percentage rate of
charge, cf. subpar. 5, if it was calculated too low. In addition, Art. 36 and Art. 36 (c) of Act no. 7/1936 on
contracts, agency and void legal instruments contain provisions on the cancellation of unfair terms in
agreements with consumers, cf. Directive 93/13/EEC.

On the other hand, despite the District Court's agreeing that the lender had neglected its duty of information,
the court referred to the fact that the terms of the loan stated that the debt was tied to the Consumer Price
Index, in accordance with the relevant act. In that regard, the cost resulting from the indexation of the loan
had been specified, and the provisions on indexation in the loan's terms had been “clear and unequivocal”.
With regard to this, the District Court's conclusion then stated:

In accordance with all of the above, having taken into account the estimated indexation, the court thinks
it is not established that the defendant's neglect to provide satisfactory information on the borrowing
costs had such consequences for the plaintiffs' interests that it could result in cancellation of a provision
on indexation in the real-estate mortgage bond. It also does not matter whether Art. 36 of Act no. 7/1936
and Art. 36 (a-d) of the same act or the instructions of Art. 14 of Act no. 121/1994 are considered.

16 / 26
In accordance with what is stated above, the District Court rejected the demands of the members of the
Homes Association of Iceland in the aforementioned case, despite having acknowledged that the lender had
neglected its duty to provide information on the portion of borrowing costs accruing because of indexation.
The judgement was appealed to the Supreme Court of Iceland, where the case number assigned was
243/2015.

During presentation of the case before the Supreme Court, the appellants particularly emphasised the points
related above regarding legalisation of the rules on consumer credit in Icelandic law and explanatory
documents emphatically declaring that it had been the will of the legislature, from the start, to assume that
indexation should be included in calculations of borrowing costs and the annual percentage rate of charge.
Reference was also made to the EFTA Court's judgement on an advisory opinion in Case E-27/13 and the
rules stated in Protocol 35 to the EEA Agreement that EEA rules that have been implemented shall apply in
instances that may conflict with other rules of national law. Art. 3 of Icelandic Act no. 2/1993 contains a
parallel rule, stating that laws and rules of national law shall be construed, to the extent relevant, in
accordance with the EEA Agreement and the rules building on it.

The Supreme Court of Iceland handed down its judgement in Case no. 243/2015 on 26 November 2015. As
in the District Court's judgement, the Supreme Court's judgement deemed that a lender's neglect of its duty
of information could lead to unfairness if the lender defended itself by pleading the terms about which it had
not provided sufficient information. The court also agreed that although Directive 87/102/EEC did not cover
agreements on loans made to acquire ownership rights in real estate, by amending the Act on Consumer
Credit in Act no. 179/2000, the legislature had decided that real estate mortgages should also be deemed
consumer credit. In this instance, therefore, the directive should have been taken into consideration in
construing the provisions of the Act on Consumer Credit, cf. Art. 3 of Act no. 2/1993, as stated above.

Regarding a lender's duty of information about indexation, the judgement said that the terms of the loan had
stated sufficiently clearly how the debt ought to change in accordance with the Consumer Price Index that
Statistics Iceland calculated. Despite the failure to provide information on the total borrowing costs upon
conclusion of the lending, the court deemed that since the amount and number of individual payments were
stated in the payment assessment, prepared in connection with lending, the borrower ought to have realised
the total costs. In addition, despite the failure to provide any information on the annual percentage rate of
charge, interest and other charges accruing to the loan were available, and the duty of information was
deemed fulfilled, in that respect. That being said, it remained to take a position on whether indexation ought
to have been included in the total borrowing costs during calculation of the annual percentage rate of charge,
and whether the lender was obliged to provide consumers with a separate payment schedule that took
indexation into account. On this issue, the judgement of the Supreme Court of Iceland said:

It is also important … in the words of Art. 12 (1) of Act no. 121/1994, that the calculation ought to be
based on the premise that the price level would be unchanged until the end of the loan period, was
accordingly an obligation to assume that the price level, interest and other charges would be unchanged
through the end of the loan period. The respondent, in accordance with this, was not obliged under Act
no. 121/1994, when concluding the loan, to supply the appellants with a separate payment schedule that
provided for a specified increase in the Consumer Price Index.

From this, it may be inferred that the Supreme Court of Iceland deemed it correct to construe the wording of
Art. 12 (1) of the act, so that in calculating information on the cost of borrowing, the basis should be the
premise that inflation would be 0% through the end of the loan period. On the other hand, if this construction
is used as the basis, it entails that consumers ought not to be informed of any costs regarding indexation.

17 / 26
In the above judgement no. 243/2015, the Supreme Court of Iceland then referred to the judgement of the
EFTA Court on an advisory opinion in Case E-27/13, in the following words:

If the EFTA Court's construction of provisions in Directive 87/102/EEC is used as a basis, as stated in
the Supreme Court's judgement in Case no. 160/2015, it is clear that the wording of Art. 12 (1) of Act
no. 121/1994 was not in accord with the provisions of the directive. In assessing the consequences of
such inconsistency, it must be considered that the directive had no legal force in Iceland. Art. 3 of
Icelandic Act no. 2/1993 instructs that laws and rules of national law shall be construed, to the extent
relevant, in accordance with the EEA Agreement and the rules building on it. Such legal construction,
by its nature, takes into account that words in Icelandic law shall be, insofar as possible, given the
meaning accommodated within them and comes closest to corresponding to joint rules that ought to
apply to the European Economic Area. On the other hand, legal construction in accordance with Art. 3
of Act no. 2/1993 cannot lead to words of Icelandic law being given a meaning other than that resulting
accordingly from them, cf., for example, the judgement of the Supreme Court of Iceland on 9 December
2010, Case no. 79/2010.

The instructions of Art. 12 (1) of Act no. 121/1994, that estimating payments in accordance with the loan
agreement, where the amount of the debt was indexed, the basis should be an unchanged price level, as
stated in the judgement of Supreme Court Case no. 160/2015, were unambiguous. There is therefore no
leeway for a basis other than the premise based on the construction of this provision in accordance with
Art. 3 of Act no. 2/1993. In accordance with this, the law requires the view that the monthly payment
schedule that was entailed in the payment assessment on 31 January 2003, and that the appellants also
thus signed, to the extent involved here, was in accordance with the provisions of Art. 6 (1) (4, 5 and 6),
cf. Art. 10, 11 and 12 of Act no. 121/1994. It follows from this that the conclusion of the appealed
judgement will be affirmed.

The Supreme Court of Iceland thus deemed that the aforementioned wording of Art. 12 (1) of Act no.
121/1994 on “unchanged price level” was so unambiguous that it was not possible to construe it in
accordance with Directive 87/102/EEC, as its provisions were construed in the EFTA Court's advisory
opinion. Also, that the payment assessment, where information on a fixed amount and the number of
monthly payments on the loan appeared, would be deemed to entail the equivalent of a payment schedule
that fulfilled the stipulation of the act in that regard. Attention should be called to the following, that
although with this, the Supreme Court of Iceland arrived at substantively the same conclusion as the District
Court of Reykjavik, this conclusion was based on a completely different argument.

Finally, it is appropriate to mention that while the above case was conducted before the courts, the Icelandic
Government commenced a revision of Act no. 121/1994 on Consumer Credit, in connection with the
legalisation of new Directive 2008/48/EC on credit agreements for consumers. It led to the introduction of a
parliamentary bill in Althingi for a new Act on Consumer Credit and was enacted as Act no. 33/2013 on 18
March 2013 which entered into force on 1 November 2013, cancelling the older act. As related above, a
provision in Art. 21 (3) (1) of the new act, which is parallel to the much discussed Art. 12 (1) of the older act
on calculating the annual percentage rate of charge, is as follows:

If a loan agreement authorises changes in interest or other charges that are deemed part of the annual
percentage rate of charge, but it is not possible to assess it at the time the calculation is made, the
annual percentage rate of charge shall be calculated, based on the assumption that the price level,
interest and other charges will remain unchanged through the end of the loan period. …

As may be seen, this involves the same wording as in the older act, where it states that the calculation shall
be based on the premise that the “price level … will be unchanged through the end of the loan period”.

18 / 26
IV. Complaint's substance

The Homes Association of Iceland deems that the implementation of the rules on consumer credit related
here violated the EEA rules on consumer credit, and, likewise, the EEA rules regarding protection of
consumers from unfair agreement terms and business practices. The essence of the case relates to how
providing information to consumers on the costs regarding indexed consumer loans should be set up.
Especially since costs regarding indexation have not been included in calculations of the information on the
cost that it is obligatory to provide consumers in connection with such lending.

With the EFTA Court's judgement on an advisory opinion in Case E-27/13, the provisions of Directive
87/102/EEC on Consumer Credit were construed not to be in accord with having 0% inflation as a basis in
calculating the total borrowing costs and annual percentage rate of charge if the known inflation level on the
borrowing date is not 0%. The Homes Association of Iceland also points out that the implementation of
basing such calculations on 0% inflation is actually the equivalent of leaving out all of the costs regarding
indexation from such calculations. Thus, the right of consumers to obtain clear information on the biggest
cost component of the most common type of loan in the Icelandic loan market has been circumvented.

The issues related here, in the opinion of the Homes Association of Iceland, crystallise in the Supreme Court
of Iceland's construction in Case no. 243/2015 of the wording of Art. 12 (1) of Act no. 121/1994, which
states that when a loan agreement stipulates variable costs, calculation of the annual percentage rate of
charge shall be based on the premise that “… price level, interest and other charges will be unchanged until
the end of the loan period”. There are two possible ways to construe the provision:

1) On one hand, that the basis of calculation should be that inflation will be 0% until the end of the loan
period, which is an entirely unrealistic premise, not least when housing loans for a period of 40 years
are involved.
2) On the other hand, that the basis should be that the known inflation level will be unchanged through
the end of the loan period, thus that all charges that the consumer will have to pay will be unchanged,
based on the available premises.

The latter option is clearly the one providing a more realistic picture of the scope of the obligations that the
consumer needs to know about, so that he can compare different loan offers before deciding to take a loan.
That option of construction (no. 2) is also in full accord with the EFTA Court's construction of Directive
87/102/EEC and would have therefore been the more relevant construction as a basis, under Art. 3 of Act no.
2/1993 on the European Economic Area, cf. Art. 3 of the EEA Agreement and Protocol 35 to it.

The Homes Association of Iceland deems that by making the former construction option (no. 1) the basis of
its judgement in Case no. 243/2015, the Supreme Court of Iceland actually contravened Art. 3 of Act no.
2/1993 and, thereby, the fundamental principles of the EEA Agreement. The association also deems that the
Supreme Court of Iceland violated Directive 87/102/EEC, by going contrary to the advisory opinion of the
EFTA Court in Case no. E-27/13 on construing the directive in connection with this issue.

On the other hand, if it is not agreed that the Supreme Court of Iceland violated the EEA rules referred to in
the above manner, the former construction option (no. 1) will have to be made the basis for construing the
provisions of an Icelandic act intended to legalise the provisions of Directive 87/102/EEC in Icelandic law.
In the view of the Homes Association of Iceland, and taking into account the EFTA Court's advisory opinion
in Case E-27/13, it must then be deemed that the legislature wrongly organised legalisation of the provisions
of the directive in Art. 12 (1) of Act no. 121/1994 and Directive 2008/48/EEC [and] Art. 21 (3) of Act no.
33/2013 on Consumer Credit. Thus, the Icelandic State neglected its duties under the EEA Agreement.

19 / 26
Taking into account all of the above, the EFTA Surveillance Authority is requested to take this complaint for
processing and consider whether the Icelandic State's legalisation of Directives 87/102/EEC and 2008/48/EC
and the referenced legal implementation of them have been satisfactory. If it is agreed with the Homes
Association of Iceland that this legalisation or, depending on circumstances, the legal implementation of
them violated EEA rules, the EFTA Surveillance Authority is also requested to take appropriate measures in
this regard, in accordance with the provisions of the agreement of the EFTA States on the Surveillance
Authority and Court.

The Homes Association of Iceland emphasises that the following points be concluded in this case:

On one hand, whether the referenced judicial practice of the Supreme Court of Iceland in Case no. 243/2015
that reached a conclusion contravening the conclusions of the EFTA Court's Case no. E-27/13 entails that
the Icelandic State thereby violated its duties under the EEA Agreement. Particularly with reference to the
constructions stated in a reply to the first question presented to the EFTA Court in discussion of the matter,
and also taking into account the available documents of construction indicating the legislature's will, was it
possible, as such, to give an opportunity to construe the provisions of Art. 12 (1) of the Icelandic Act on
Consumer Credit as being in accordance with the provisions of Directive 87/102/EEC.

On the other hand, whether the legalisation of Directive 87/102/EEC in Icelandic law, particularly
legalisation of Art. 1a (6), cf. Art. 1 (2) of Directive 90/88/EEC, in Art. 12 (1) on Consumer Credit no.
30/1993 cf. Act no. 121/1994 was sufficient, or, if not, whether the Icelandic State had thereby violated its
duties under the EEA Agreement. Particularly with reference to the Supreme Court of Iceland's construction
of the meaning of the provision on which the conclusion of the court in Case no. 243/2015 was based.

The Homes Association of Iceland deems it is plainly established in this case that the Icelandic State has
violated its obligations under the EEA Agreement. It only remains to take a position on whether the violation
is due to the Supreme Court of Iceland's wrong construction of lawfully legalised EEA rules in Art. 12 (1) of
the Act on Consumer Credit, or unsatisfactory legalisation of Directive 87/102/EEC in Icelandic law. It is at
least clear that the directive has not been satisfactorily implemented.

Also, it is important to take a position on whether the legalisation of Directive 2008/48/EC, particularly Art.
19 (4) of the directive, in Art. 21 (3) of Icelandic Act no. 33/2013 on Consumer Credit can be deemed
satisfactory. Especially in light of the fact that subpar. 1 of the provision has the same wording of
“unchanged price level” as was the basis of the conclusion of the Supreme Court of Iceland's judgement in
Case no. 243/2015, which directly contravened the EFTA Court's advisory opinion. In fact, it cannot be seen
that the Supreme Court of Iceland's construction of that wording can accord any more with the new directive
than the older one.

Finally, it is urgent to get a ruling on whether the Icelandic State's alleged violation of its duties under the
EEA Agreement related here may entail liability in accordance with the main rule on liability that has been
dealt with in several cases regarding such violations of States Members' duties. These include the EFTA
Court's Case no. E-09/97, cf. the judgement of the Supreme Court of Iceland in Case no. 236/1999, the
EFTA Court's Case no. E-02/10, as well as the reasoned opinion of the EFTA Surveillance Authority of 20
January in Case no. 75004.

It is amicably requested that this complaint be answered in a reasoned manner, stating, to the extent possible,
the EFTA Surveillance Authority's position on the substance of the complaint, and the agency's expected
response to the complaint in other respects.

20 / 26
V. Previous communications

On 9 January 2013, the Homes Association of Iceland sent a letter to the then president of the EFTA
Surveillance Authority, drawing attention to various deficiencies in the implementation of the EEA rules on
consumer credit in Iceland. The letter, among other things, reported the commencement of an action that
resulted in the Supreme Court of Iceland's conclusion that this complaint regards. A copy of the letter can be
found amongst the accompanying documents.

VI. Declaration of confidentiality

The Homes Association of Iceland authorises the EFTA Surveillance Authority, if necessary, to specify the
association as the complainant in the agency's communications with the government of the state at which
this complaint is directed. There is deemed to be no need for specific confidentiality about the complaint, its
substance or the complainant.

VII. Stipulation on case documents

The Homes Association of Iceland reserves the right to present further documents, depending on whether the
handling of this complaint occasions doing so. If the EFTA Surveillance Authority deems there to be a need
for further documents or information regarding the substance of the complaint, instructions in this regard are
amicably requested. The association also reserves the right to submit further documents and information at
later stages, as the handling of the complaint and the progress of matters in other respects may occasion.

VIII. Citations and enclosed documents

A register of citations and accompanying documents is found in the accompanying annex.

---oooOOOooo---

Reykjavík, 15 November 2016

Respectfully,
On behalf of the the Homes Association of Iceland,

Vilhjálmur Bjarnason, formadur@heimilin.is Guðmundur Ásgeirsson, erindreki@heimilin.is

21 / 26
Appendix I: Citations

Icelandic law and regulations:

Indexation and the CPI:


● Act no. 71/1966 on price indexation of financial obligations
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=86&mnr=20
● Interest Act no. 25/1987
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/126a/1987025.html
● Act no. 12/1995 on the Consumer Price Index
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/nuna/1995012.html
○ EN: ​http://www.statice.is/about-statistics-iceland/laws-and-regulations/act-on-the-consumer-price-index/
● Act no. 38/2001 on interest and price indexation
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/nuna/2001038.html
○ EN: ​http://eng.atvinnuvegaraduneyti.is/laws-and-regulations/nr/nr/7374
● Rules no. 492/2001 on price indexation of savings and credit
○ IS: ​http://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=910d1d3a-023f-4508-93b9-99f353d5ef9b
○ EN: ​http://www.cb.is/uploads/files/13. Price Indexation of Savings and Loans.pdf

Economic affairs:
● Act no. 10/1961 on the Central Bank of Iceland
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=81&mnr=180
● Act no. 13/1979 on the management of economic affairs, etc.
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=100&mnr=230
● Act no. 36/1986 on the Central Bank of Iceland
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/126a/1986036.html
● Act no. 36/2001 on the Central Bank of Iceland
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/nuna/2001036.html
○ EN: ​http://www.cb.is/library/Skraarsafn---EN/Various-announcements/CBI Act updated.pdf

Housing affairs:
● Act no. 55/1955 on Housing Affairs Management [​etc.]
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=74&mnr=183
● Act no. 42/1957 on the Housing Affairs Agency [​etc.]
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=76&mnr=160
● Act no. 19/1965 on the State Housing Affairs Agency
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=85&mnr=147
● Act no. 30/1970 on the State Housing Affairs Agency
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=90&mnr=198
● Act no. 51/1980 on the State Housing Affairs Agency
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=102&mnr=17
● Act no. 60/1984 on the State Housing Affairs Agency
○ IS: ​http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=106&mnr=123
● Housing Act no. 44/1998
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/nuna/1998044.html
○ EN: ​http://eng.velferdarraduneyti.is/acts-of-Parliament/nr/3707

22 / 26
Consumer affairs:
● Act no. 141/2001 on injunction and litigation to protect consumers' overall interests
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/nuna/2001141.html
○ EN: ​http://www.neytendastofa.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=2744
● Advertisment no. 1320/2011 on the designation of agencies and organizations having the right to file
for injunction and enter litigation to protect consumers' overall interests
○ IS: ​http://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=b3c2ef4c-cd18-42a1-afb8-53ebdee74d85
● Act no. 7/1936 on contracts, agency and void legal instruments
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/nuna/1936007.html
○ EN: ​http://eng.atvinnuvegaraduneyti.is/laws-and-regulations/nr/nr/7429
● Act no. 33/1993 on Consumer Credit
○ IS: ​http://www.althingi.is/altext/stjt/1993.030.html
● Regulation no. 377/1993 on Consumer Credit
○ IS: ​http://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/innanrikisraduneyti/nr/4775
● Act no. 101/1994 amending Act. 30/1993 on Consumer Credit
○ IS: ​http://www.althingi.is/altext/117/s/1239.html
● Act no. 121/1994 on Consumer Credit
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/142/1994121.html
○ EN: ​http://eng.atvinnuvegaraduneyti.is/laws-and-regulations/nr/nr/7426
● Regulation no. 236/2000 amending regulation no. 377/1993 on Consumer Credit
○ IS: ​http://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/vidskiptaraduneyti/nr/4761
● Act no. 33/2013 on Consumer Credit
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/nuna/2013033.html

EEA-legislation:
● Act no. 2/1993 on the European Economic Area
○ IS: ​http://www.althingi.is/lagas/nuna/1993002.html

EEA-rules:

● The Agreement on the European Economic Area


○ IS/EN: ​http://www.efta.int/legal-texts/eea
● Agreement between the EFTA States on the Establishment of a Surveillance Authority and a Court
of Justice
○ IS: ​http://www.utanrikisraduneyti.is/samningar/ees/EESSamningur/nr/1475
○ EN: ​http://www.efta.int/legal-texts/the-surveillance-and-court-agreement/agreement-annexes-and-protocols
● Directive 2009/22/EC on injunctions for the protection of consumers' interests
○ IS/EN: ​http://www.efta.int/eea-lex/32009L0022
● Directive 87/102/EEC for the approximation of the laws, regulations and administrative provisions
of the Member States concerning consumer credit
○ IS: ​http://brunnur.stjr.is/ees.nsf/385499142c7e4810002567590058573a/16f4ee6b5a0b8ac000256700004e1379
○ EN: ​http://www.efta.int/eea-lex/31987L0102
● Directive 90/88/EEC amending Directive 87/102/EEC
○ IS: ​http://brunnur.stjr.is/ees.nsf/385499142c7e4810002567590058573a/e2ea3e64d3d7608500256700004e1333
○ EN: ​http://www.efta.int/eea-lex/31990L0088
● Directive 2008/48/EC on credit agreements for consumers [​etc.]
○ IS/EN: ​http://www.efta.int/eea-lex/32008L0048
● Directive 93/13/EEC on unfair terms in consumer contracts
○ IS: ​http://brunnur.stjr.is/ees.nsf/385499142c7e4810002567590058573a/b63b1e04c268c20900256700004e132f
○ EN: ​http://www.efta.int/eea-lex/31993L0013

23 / 26
Judgements and decisions:

● Decision of the Consumer Agency no. 8/2014


○ IS: ​http://www.neytendastofa.is/library/Files/Kaerunefnd-lausafjar--og-thjonustu/Ákv 2014_8.pdf
● Ruling of the Consumer Appeals Committee no. 5/2014
○ IS: ​http://www.neytendastofa.is/library/Files/Neytendarettarsvid/urskurdir/Úrskurður2014-5.pdf
● Judgement of the EFTA Court in case E-25/13
○ IS/EN: ​http://www.eftacourt.int/cases/detail/?tx_nvcases_pi1[case_id]=207
● Judgement of the EFTA Court in case E-27/13
○ IS/EN: ​http://www.eftacourt.int/cases/detail/?tx_nvcases_pi1[case_id]=209
● Judgement of the Reykjavík District Court in case no. E-4521/2013
○ IS: ​http://domstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=37dd1d74-c14a-42a9-a439-09379d5958c6
● Judgement of the Supreme Court of Iceland in case no. 243/2015
○ IS: ​http://www.haestirettur.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=29685daa-fe4b-4adf-9227-cd4550de9b5e
● Advisory opinion of the EFTA Court in case E-09/97
○ IS/EN: ​http://www.eftacourt.int/cases/detail/?tx_nvcases_pi1[case_id]=33
● Judgement of the Supreme Court of Iceland in case no. 236/1999
○ IS: ​http://www.haestirettur.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=9009ddb8-65d0-4da2-8975-9e0824f065bf
● Judgement of the EFTA Court in case E-02/10
○ IS/EN: ​http://www.eftacourt.int/cases/detail/?tx_nvcases_pi1[case_id]=120
● Reasoned opinion of the EFTA Surveillance Authority in case no. 75004
○ EN: ​http://www.eftasurv.int/press--publications/public-documents?ActionEvent=Search&casenr=75004

Public statistics:

● Statistics Iceland: Consumer price index


○ IS: ​http://hagstofa.is/talnaefni/efnahagur/verdlag/visitala-neysluverds/
○ EN: ​http://www.statice.is/statistics/economy/prices/consumer-price-index/
● Statistics Iceland: Liabilities and assets of individuals
○ IS: ​http://hagstofa.is/talnaefni/samfelag/lifskjor/skuldir-eignir-og-eiginfjarstada-einstaklinga/
○ EN: ​http://www.statice.is/statistics/society/quality-of-life/liabilities-and-assets-of-individuals/
● Statistics Iceland: Household finances
○ IS: ​http://hagstofa.is/talnaefni/samfelag/lifskjor/fjarhagsstada-heimila/
○ EN: ​http://www.statice.is/statistics/society/quality-of-life/household-finances/
● Statistics Iceland: Housing
○ IS: ​http://hagstofa.is/talnaefni/samfelag/lifskjor/husnaedismal/
○ EN: ​http://www.statice.is/statistics/society/quality-of-life/housing/
● The Central Bank of Iceland: Interest rates
○ IS: ​http://www.sedlabanki.is/annad-efni/vextir-sedlabankans-og-adrir-vextir/
○ EN: ​http://www.cb.is/other/interest-rates-and-other-rates/
● The Central Bank of Iceland: Household debt to financial corporations Q2/2016
○ IS/EN: ​http://www.cb.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=e2b6c71e-6b9f-11e6-9406-005056bc0bdb
● The Central Bank of Iceland: Financial Stability report 2011/1 (see chart II-37, page 38 EN)
○ IS: ​http://www.sedlabanki.is/utgefid-efni/rit-og-skyrslur/rit/2011/06/01/Fjarmalastodugleiki-2011-1/
○ EN: ​http://www.cb.is/publications/publications/publication/2011/03/29/Financial-Stability-2011-1/
● The Central Bank of Iceland: Households' position in the financial crisis in Iceland (Working paper)
○ EN: ​http://cb.is/library/Skraarsafn---EN/Working-Papers/Working Paper 59.pdf

24 / 26
Miscellaneous:

● Parliamentary bill for Act no. 30/1993 on consumer credit


○ IS: ​http://www.althingi.is/altext/116/s/0014.html
● Alþingi's Economic Affairs and Trade Committee's opinion on the bill for Act no. 30/1993
○ IS: ​http://www.althingi.is/altext/116/s/0841.html
● Alþingi's Economic Affairs and Trade Committee's amendments to the bill for Act no. 30/1993
○ IS: ​http://www.althingi.is/altext/116/s/0842.html
● Parliamentary bill for Act no. 101/1994 amending act no. 30/1993 on consumer credit
○ IS: ​http://www.althingi.is/altext/117/s/0642.html
● Declaration of the Central Bank of Iceland and the government of Iceland on inflation target and a
change in the exchange rate policy
○ IS: ​http://www.sedlabanki.is/library/Skraarsafn/Verdlagstroun-og-verðbólgumarkmið/Yfirlýsing um
verðbólgumarkmið.pdf
○ EN: ​http://www.cb.is/library/Skraarsafn---EN/Monetary-Policy-Committee/Declaration inflation.pdf
● The Central Bank of Iceland: Letter to Althingi's Ombudsman, 30 august 2011
○ IS: ​http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=8964
● Jacky Mallett: An examination of the effect on the Icelandic Banking System of Verðtryggð Lán
(Indexed-Linked Loans)
○ EN: ​http://arxiv.org/abs/1302.4112
● Prime Minister's Office: Report of the Expert Group on the elimination of inflation-indexation of
consumer credit
○ IS: ​http://www.forsaetisraduneyti.is/afnam-verdtryggingar/
○ EN: ​http://eng.forsaetisraduneyti.is/news-and-articles/nr/7883
● European University Institute: The over-indebtedness of European consumers, a view from six
countries. Iceland (by M. Elvira Méndez Pinedo and Irina Domurath)
○ EN: ​http://cadmus.eui.eu/handle/1814/32451
● M. Elvira Mendez-Pinedo: The cost of credit in Iceland under european judicial review: may legality
and transparency justify unfairness? (Europarättslig tidskrift nr 2 2014)
○ EN: ​http://www.ert.se/Journals/Journal/957
● M. Elvira Mendez-Pinedo: Indexation of consumer and mortgage credit in Iceland in 2014. A
Critical battle between legality, fairness and legitimacy. (International Journal of Finance & Banking
Studies, Vol 3, No 04, 2014)
○ EN: ​http://www.ssbfnet.com/ojs/index.php/ijfbs/article/view/191
● M. Elvira Mendez-Pinedo: Iceland: Indexation of Credit and the Fairness Test in European
Consumer Law (Journal of Consumer Policy Volume 38, Issue 1, March 2015)
○ EN: ​http://link.springer.com/article/10.1007/s10603-014-9277-x
● The Consumer Agency: Information about variations in consumer credit principal and repayments
○ IS: ​http://www.neytendastofa.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=3205
● Parliamentary bill for amendment of the Act no. 38/2001 on interest and price indexation
○ IS: ​http://www.althingi.is/altext/145/s/1537.html
● M. Elvira Mendez-Pinedo: Iceland, the EFTA Court and the indexation of credit to inflation:
operating in nature ex-post but need to calculate and disclose ex-ante. A law of contradiction?
(Juridical Tribune, Volume 6, Issue 2, October 2016)
○ EN: ​http://www.tribunajuridica.eu/arhiva/anul6v2_en.html

25 / 26
Appendix II: Enclosed documents

1. The Central Bank of Iceland: Comments on the bill for Act no. 30/1993 on consumer credit

2. Ministry of Commerce: Opinion on proposed amendments to the bill for Act no. 30/1993

3. Bill for Act no. 30/1993 with proposed amendments incorporated (working paper)

4. Meeting notes of the working group on revision of Act no. 30/1993 (memorandum)

5. Ministry of Commerce: Draft bill for amendment of Act no. 30/1993 (working paper)

6. An example of a consumer loan agreement with a payment plan based on the assumption of 0%
inflation, and an overview showing actual payments including the indexation component
○ Lender: Kaupþing Búnaðarbanki hf., year 2004

7. An example of a consumer loan agreement with a payment plan based on the assumption of 0%
inflation, and an overview showing actual payments including the indexation component
○ Lender: Frjálsi fjárfestingarbankinn hf., year 2005

8. An example of a consumer loan agreement with a payment plan based on the assumption of 0%
inflation, and an overview showing actual payments including the indexation component
○ Lender: Landsbanki Íslands hf., year 2006

9. Chart II-37 from Financial Stability 2011/1: The impact of indexation on household debt

10. The Consumer Agency: Information about variations in consumer credit principal and repayments

11. The Homes Association: Analysis of the sensitivity of CPI-indexed loans to inflation

12. The Homes Association: Letter to the EFTA Surveillance Authority ​et al., 9 January 2013

---oooOOOooo---

26 / 26
No. 1

Reykjavík, 14. október 1992.

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis,


Alþingi,
150 Reykjavík.
b.t. formanns,

Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands vísar til bréfs


yðar, dags. 17. september 1992, þar sem þér óskið
umsagnar bankaeftirlitsins um frumvarp til laga um
neytendalán.
Bankaeftirlitinu hafði áður borist til umsagnar frum-
varp til laga um lánsviðskipti, sem var undanfari frum-
varps til laga um neytendalán. Það sem einkum vekur
athygli er að eins og frumvarpinu hefur verið breytt
virðist gert ráð fyrir að almennar lánveitingar við-
skiptabanka, sparisjóða, eignarleigufyrirtækja og
greiðslukortafyrirtækja svo nokkuð sé nefnt, séu undan-
þegnar ákvæðum þess. Þetta eru félög, sem í meginstarf-
semi sinni veita almenningi lán gegn endurgjaldi með
vöxtum og kostnaði og verður ekki séð að lögin nái til-
gangi sinum séu þau undanskilin. Þessi ályktun af 1.
gr. frumvarpsins er þó ekki ótvíræð að mati bankaeftir-
litsins, þar sem i c og f liðum 2. gr. eru sérstaklega
undanþegnir lánssamningar, sem annars vegar eignarleigu-
fyrirtæki og hins vegar innlánsstofnanir hafa einkarétt
á að gera. Í þessu sambandi vill bankaeftirlitið þó
benda á að það telur að lögin eigi ekki að gilda um
millibankalán og aðra slíka lánssamninga á milli fjár-
málastofnana innbyrðis.
Bankaeftirlitið gerir að tillögu sinni að hugtakið
"árleg hlutfallstala kostnaðar" verði nefnt "virkir
vextir". Það hugtak er þekkt, þjált og gegnsætt.
Bankaeftirlitið hefur með bréfi til viðskiptaráðu-
neytisins, dags. 25. febrúar 1991, óskað eftir því að
ráðuneytið hefði forgöngu um að ákvörðun um virka vexti
yrði lögfest, sbr. meðfylgjandi ljósrit af ofangreindu
bréfi ásamt greinargerð bankaeftirlitsins, dags. 6.
nóvember 1990.

K A L K O F N S V E G I 1 • 150 R E Y K J A V Í K
SÍMI: ( 9 1 ) 6 9 9 6 0 0 • T E L E X : 2020 CENTBK IS • T E L E F A X : ( 9 1 ) 6 2 1 8 0 2
No. 1
SEÐLABANKI ÍSLANDS

- 2 -
Við einstakar greinar frumvarpsins vill bankaeftir-
litið gera eftirfarandi athugasemdir:
Um 1. qr.
Það er mat bankaeftirlitsins að lögin nái ekki tilgangi
sínum taki þau ekki til félaga sem í meginstarfsemi
sinni hafa með höndum lánveitingar til almennings, sbr.
hér að ofan.
Um 2. gr.
Í c-lið leggur bankaeftirlitið til að í stað orðsins
"nema" komi: þó ekki eða aðrir en.
Bankaeftirlitið telur rétt að íhuga hvort tilvitnun í
lög nr. 19/1989 um eignarleigusamninga sé tímabær, því
verði sett löggjöf um "aðrar lánastofnanir" í tengslum
við aðlögun að EES, koma þau sennilega til með að leysa
af hólmi lög um eignarleigustarfsemi og að ganga í gildi
á sama tíma og lög um lánsviðskipti.
Ekki verður séð að efnisleg rök séu fyrir því, miðað við
aðstæður hér á landi, að undanþiggja þá flokka lána sem
greindir eru í e og g-liðum.
Um 3. qr.
Bankaeftirlitið leggur til að ákvæðið verði umorðað,
þannig að sjá megi af því við hvaða tilvik sé átt.
Um 4. gr.
Bankaeftirlitið telur skilgreininguna á hugtakinu "neyt-
andi" óskýrt.
Í a-lið er lagt til að í stað orðsins "endurgreiðslu"
komi: endurgjaldi.
Í f-lið er lagt til að á eftir orðunum "Árleg hlutfalls-
tala kostnaðar" komi: hér eftir nefnd virkir vextir.
Um 6. qr.
Í 2. tl. er lagt til að á eftir orðunum "Fjárhæð útborg-
unar" komi: þ.e. höfuðstóll að frádregnum lántökukostn-
aði.
Í 5. tl. er lagt til að í stað orðanna "sem greiða skal"
komi: sem lántakandi skal greiða.
Um 10.-12. gr.
Lagt er til að orðin virkir vextir komi í stað orðanna
árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. athugasemd með 4.
gr. hér að ofan.
Nánar um 12. gr.
Lagt er til að á eftir orðinu "vaxtagjöldum" í 1. máls-
lið 1. gr. komi: þ.m.t. vísitölubinding og verðlags-
No. 1
SEÐLABANKI ÍSLANDS

- 3 -
viðmiðun.
Í 3. tl. er lagt til að í stað orðanna "inna af hendi",
komi: reikna með.
Um 13. gr.
Lagt er til að ákvæðið verði nokkru ítarlegra, ef til
vill í sama horfi og 15. gr. frumvarps um lánsviðskipti
var orðuð.
Um 14. gr.
Í 1. mgr. er vísað til ákvörðunar Seðlabanka Íslands um
vexti af almennum skuldabréfum. Bent er á að réttara
væri að orða ákvæðið miðað við skráningu, birtingu eða
auglýsingu Seðlabanka Íslands.
Um 15. qr.
Bankaeftirlitið telur að hér séu viðurlög við broti á
upplýsingaskyldu samkvæmt lögunum, óeð1ilega hörð og
geti í framkvæmd leitt til óeðlilegrar niðurstöðu. Bent
er á 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, þar sem gert er ráð
fyrir skilyrðislausum rétti kröfuhafa til dráttarvaxta
við vanskil.
Um 17. qr.
Í l.tl. er lagt til að í stað orðanna "Ef vanskilatíminn
er orðinn lengri en mánuður og fjárhæðin er hærri en",
komi: Ef vanskil hafa staðið lengur en einn mánuð og
vanskilafjárhæðin er yfir.
Mælt er með samsvarandi umorðun í 2. tl.
Í 4. tl. er lagt til að í stað orðsins "minnkað" komi:
rýrnað.
Í 6. tl. er lagt til að í stað orðanna "lántakandi fer
svo illa með hlutinn að það veldur þvi að trygging fyrir
greiðslu minnkar", komi: trygging hefur rýrnað vegna
illrar meðferðar.
Um 19. gr.
Í 1. tl. er lagt til að á eftir orðunum "vexti og" komi;
annan tímatengdan.
Í 2. tl. er lagt til að í stað orðanna "eru miðaðir við"
komi; hafa verið greiddir fyrir. Bankaeftirlitið telur
nauðsynlegt að fram komi í athugasemdum með frumvarpinu
skýring á því við hvað sé átt með "skilyrðum".
Bankaeftirlitið telur efni 3. tl. ekki skiljanlegt.
Um 20. qr.
Bankaeftirlitið telur 2. mgr. óþarfa, að efni hennar
felist í 1. mgr.
No. 1
SEÐLABANKI ÍSLANDS

- 4 -

Í 3. mgr. er lagt til að í stað orðanna í upphafi 2.


málsliðar, "Þetta á ekki heldur við ef lántakandi",
komi: né heldur þótt lántakanda hafi verið það ókunnugt
ef hann.
Um 21. gr.
Bankaeftirlitið telur að þetta ákvæði sé ekki nægjanlega
skýrt. Er með ákvæðinu átt við að lánveitanda sé ekki
heimilt að taka við víxli eða öðru viðskiptabréfi, sem
greiðslu eða sem tryggingu fyrir greiðslu, samkvæmt
lánssamningi? Þessa merkingu má ráða af 10. gr. til-
skipunar nr. 87/102 EBE.
Um 23. gr.
Bent er á að þar sem sagt er að atbeina sýslumanns þurfi
til að endurheimta söluhlut kemur ekki fram eftir hvaða
réttarfarsleið það skuli gert.
Bankaeftirlitið hefur efasemdir um réttmæti undanþágu-
ákvæðisins í 2. tl. um að ekki sé heimilt að endurheimta
hlut ef hann er undanþeginn aðför að lögum. Bankaeftir-
litið bendir á þá leið að banna lánsviðskipti með
eignarréttarfyrirvara um slíka muni, sé talin þörf á
verndinni fyrir kaupanda.
Um 25. gr.
Í 1. tl. er lagt til að í stað orðanna "miðast við"
komi: hafa verið greiddir fyrir.
Um 26. gr.
Bankaeftirlitið telur nauðsynlegt að skilgreina nánar
hvernig finna skal þá fjárhæð sem "unnt er að fá" fyrir
hlut við sölu á almennum markaði. Með þvi er átt við að
nauðsynlegt sé að lögin kveði á um hvort byggt skuli á
mati og þá hvaða aðilar verði bærir um að láta uppi
slíkt mat eða eftir atvikum hvort með lokauppgjör skuli
bíða eftir að raunveruleg sala hefur farið fram.
Um 28. gr.
Bankaeftirlitið bendir á að ákvæðið er mjög íþyngjandi
fyrir lánveitendur miðað við þá viðskiptahætti, sem hafa
tiðkast hér á landi. Sem dæmi má nefna að í stöðluðum
samningsskilmálum eignarleigufyrirtækjanna er ákvæði um
að sé samningi rift fyrir lok leigutíma sé fyrirtækinu
heimilt að endurheimta leigumun og innheimta þar að auki
bæði gjaldfallnar og ógjaldfallnar leigugreiðslur.
Bankaeftirlitið hefur þó ekki athugasemdir við ákvæðið.
Um 29. gr.
Í 1. málslið 1. mgr. er lagt til að í stað orðsins "mis-
munur" komi: eftirstöðvar.
No. 1
SEÐLABANKI ÍSLANDS

- 5 -
Bankaeftirlitið telur að með lagasetningu um neyt-
endalán, sem er nýmæli í íslenskum rétti og breytir í
ýmsu rótgróinni réttarframkvæmd, hefði verið brýn þörf á
að vanda betur til frumvarpsgerðarinnar. Þá telur
bankaeftirlitið ekki mikla leiðbeiningu að hafa í
athugasemdum við frumvarpið, um hvernig skilja beri
ýmis ákvæði þess.

Virðingarfyllst,
SEÐLABANKI ÍSLANDS
Bankaeftirlit
No. 1

25. febrúar 1991

Viðskiptaráðuneytið
Hr. Björn Friðfinnsson
Arnarhvoli

Hjálögð er greinargerð um upplýsingaskyldu vegna


lánveitinga sem bankaeftirlitið hefur tekið saman.

Óskað er eftir að ráðuneytið hafi forgöngu um að


ákvörðun um virka vexti verði lögfest.

Virðingarfyllst,
SEÐLABANKI ÍSLANDS
Bankaeftirlit
No. 1

SEÐLABANKI ÍSLANDS
Bankaeftirlit - MG

6. nóvember 1990
Efni: Upplýsingaskylda vegna lánveitinga.
Bankaeftirlitið hefur tekið saman greinargerð um aukna
upplýsingaskyldu lánveitenda gagnvart lántakendum.
Upplýsingaskyldan sem um ræðir varðar auglýsingu á virkum
vöxtum svo og öðrum atriðum sem nánar er vikið að í
eftirfarandi greinargerð.
Aflað var umsagnar peningamáladeildar Seðlabankans og
er í þeirri umsögn bent á tvær leiðir, "einföldu leiðina"
annars vegar og "flóknu leiðina" hins vegar.
Einfalda leiðin væri sú sem farin hefur verið hingað til,
þ.e. að innlánsstofnanir sýni dæmi um ávöxtun útlána í
afgreiðslustöðum sinum og taki þá aðeins með í
reikninginn vexti en ekki annan kostnað.
Flókna leiðin væri að mælast til þess við
viðskiptaráðuneytið að sett yrði lagaskylda á allar
lánastofnanir og þá sem gera samninga um afborgunarkaup
um að þessir aðilar reiknuðu ávöxtun lánsins fyrir
viðskiptavini í einstökum tilvikum að teknu tilliti til
gildandi vaxta og tiltekinna kostnaðarliða.
Bankaeftirlitið er fylgjandi þvi að athugaðir verði
möguleikar á að hrinda "flóknu aðferðinni" í framkvæmd
með það í huga að lántakendur eigi auðveldara með að sjá
fyrir allan þann kostnað sem lántakan hefur í för með
sér.
Hér að neðan er greinargerð sú er unnin var af
bankaeftirlitinu varðandi upplýsingaskyldu vegna
lánveitinga.

Drög 23.5.1990
UPPLÝSINGASKYLDA VEGNA LÁNVEITINGA
Með sífellt auknum umsvifum fjármagnsmarkaðarins verður
enn mikilvægara að lántakendur geti fengið tæmandi
upplýsingar um þann kostnað sem lántaka hefur í för með
sér, hvort sem um afborgunarkaup er að ræða eða beinar
lántökur.

- 1 -
No. 1

Ef um afborgunarkaup er að ræða þá er nauðsynlegt að


viðskiptavinurinn fái greinargóðar upplýsingar um
kostnaðinn samfara lántökunni og auglýstir séu virkir
vextir samhliða afborgunarverði.
Með þessum hætti ætti kaupandi að geta vegið og metið
afborgunarverð annars vegar, þegar tekið er tillit til
alls kostnaðar og staðgreiðsluverðs hins vegar.
Þeir lánveitendur sem upplýsingaskyldan ætti að ná til
væru t.d. :
-viðskiptabankar og sparisjóðir
-opinberar lánastofnanir og sjóðir
-aðrar lánastofnanir
-líftrygginga- og vátryggingarfélög
-lífeyrissjóðir og aðrir eftirlaunasjóðir
-eignarleigufyrirtæki
-og e.t.v. aðrir lánveitendur og/eða fjármögnunar-
fyrirtæki sem ekki eru nefnd hér að framan.
Upplýsingaskyldan myndi ná yfir öll þau lánsform sem
ofangreind fyrirtæki og aðilar væru með á sinum snærum.
Lánveitendur gerðu lántaka skriflega grein fyrir
eftirfarandi atriðum áður en til lánveitingar kæmi:
-Virkum vöxtum, þ.e. þeirri vaxtaprósentu (á
ársgrundvelli) sem út kæmi þegar búið væri að taka
tillit til alls þess kostnaðar sem lánið hefði í för
með sér. Taka þyrfti fram hvaða kostnaður það væri sem
reiknaður væri með í þeirri prósentu. *)
-Nafnvöxtum.
-Hvort vextir séu reiknaðir fyrirfram eða eftirá.
-Hve oft vextir væru reiknaðir á ári.
-Áætlaða greiðsluþörf, skipt niður í upphæð afborgunar
nettó, vexti, verðbætur, þóknunarkostnað svo og annan
kostnað ef einhver er. Einnig að uppgefin sé árleg
afborgun brúttó svo og, sé þess óskað,
heildareftirstöðvar láns.
-Þeim viðurlögum sem eru við vanefndum á lánssamning,
gerð sé grein fyrir öllum kostnaði sem vanefndirnar
hefðu í för með sér.
-Hvort lántakandi hafi kost á að greiða lánið hraðar
niður en samið er um í upphafi og hvaða áhrif það hefði
á framangreind atriði. Einnig hvort einhver kostnaður
sé samfara þvi að greiða lánið upp.
-Allan annan kostnað sem ekki hefur þegar verið gerð
grein fyrir hér að framan s.s.
þinglýsingarkostnað, sem haldið er utan við útreikning á
virkum vöxtum.

- 2 -
No. 1

Nauðsynlegt er, samhliða þessum atriðum sem hér að framan


eru tilgreind, að gjaldskrá fyrir vexti og þóknun liggi
frammi á afgreiðslustöðum fyrrgreindra aðila fyrir
lántakendur. Einnig er mikilvægt að upplýsingar þessar
séu framsettar á aðgengilegan og auðskiljanlegan hátt.
Auglýsing á virkum vöxtum ætti að stuðla að samkeppni á
lánamarkaðinum þar sem kostnaður við hina ýmsu
lánamöguleika væri þar með veginn saman með einni
sambærilegri tölu.

*) DÆMI UM ÚTREIKNING Á VIRKUM VÖXTUM:


Afborgunarlán (s.s. skuldabréf):

U = útborgun (nettó) þ.e. heildarlánsfjárhæð að


frádregnum kostnaði.
Bj = Afborgun, vextir og annar kostnaður þegar greiðsla
númar j fer fram.
j = Númer greiðslu.
n = Greiðslufjöldi alls.
e = Fjöldi afborgana pr. ár.

Virka vexti er hægt að finna með formúlunni:


e
R = ((1 + i) - 1) * 100
en fyrst þarf að finna breytuna i með eftirfarandi
formúlu:
n -j
U = Σ Bj(l + i) = Bl + .... + Bn
n
j=l 1 + i (1 + i )
(Eins og peningamáladeild bendir á í umsögn sinni um
greinargerð þessa þá þyrfti að endurskrifa formúlur svo
þær gildi einnig fyrir mismunandi löng tímabil þ.e. milli
gjalddaga og frá lánveitingu til fyrsta gjalddaga.)

Til að taka raunhæft dæmi þá má gefa sér þá forsendu að


upphæð láns sé 100 þús.kr. og til eins árs með fjórum
afborgunum þ.e. á þriggja mánaða fresti. Nafnvextir eru
í dag 14%, stimpilgjald 1.5%, lántökugjald 1.2% og
útlagður kostnaður við lántöku er 630 (- 750) kr. en 100
(- 210) kr. við hverja afborgun.

- 3 -
No. 1

U verður þá 96.670
(96.550)
B1 = 28.600 B2 = 27.725 B3 = 26.850 B4 = 25.975
(28.710) (27.835) (26.960) (26.085)
j =4
e =4

Þessar tölur setjum við svo inn í formúluna:


96.670 = 28.600 + 27.725 + 26.850 + 25.975
1 + i (1 + i) (1 + i )
2 3
(1 + i) 4

i = 0,051263 (0,05357)

Að lokum til að finna virku vextina R


R = ((1 + 0,051263) - 1) * 100
4

R = 22,1365131 eða 22,14% (23,2121631 eða 23,21%)

Aftur á móti ef kröfuhafi væri þriðji aðili og banki eða


sparisjóður væri látinn innheimta kröfuna þá yrði
útlagður kostnaður við hverja afborgun 510 (-750) kr.
í stað 100 (-210) kr. og R yrði þá 25,21% (27,29%)
Ef lánstíminn væri lengri s.s. nokkur ár yrðu virku
vextirnir lægri í þeim tilfellum þar sem mikill
þóknunarkostnaður er samfara lánveitingunni í upphafi þar
sem hann deilist þá á fleiri ár.

- 4-
No. 2
VIÐSKIPTARÁÐUNEYTIÐ
16. október 1992
Efnahags- og viðskiptanefnd
Alþingi
150 REYKJAVÍK

Meðfylgjandi sendist afstaða ráðuneytisins til breytingar-


tillagna sem fram hafa komið í umsögnum hagsmunaaðila varðandi
frumvarp til laga um neytendalán.

F. h. r.

SÍMI M Y N D R I T I (TELEFAX) FJARRITI (TELEX) SÍMNEFNI KENNITALA


(91)609070 354-1-621289 2092 Iscom is Viðskipta 700269-7369
No. 2

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytin.
15.10.1992

Frumvarp til laga um neytendalán.

Í framhaldi af fundi með efnahags- og viðskiptanefnd hinn


14. þ.m. hefur í viðskiptaráðuneytinu verið farið yfir þær
umsagnir sem borist hafa um frumvarpið. Er hér á eftir tekin
afstaða til helstu athugasemda og breytingartillagna sem fram
koma í umsögnunum og verður fjallað um hverja grein, sem
athugasemdir hafa verið gerðar við. Til styttingar er umsögn
Visa-Islands hér nefnd "Visa", umsögn Versluanrráðs nefnd
"VÍ", umsögn Sambands ísl. viðskiptabanka nefnd "SÍV", umsögn
Sambands ísl. tryggingafélaga nefnd SÍT, umsögn
Neyteendasamtakanna nefnd "N", umsögn BSRB nefnd "BSRB",
umsögn Iðnlánasjóðs nefnd " I " og umsögn Seðlabankans nefnd
"S".

Um l.gr.
Ráðuneytið felst á að þrengja skuli gildissvið laganna til
samræmis við lágmarkskröfur EES-samningsins. Það merkir að
lánveitingar innlánsstofnana til neytenda falla undir lögin
með þeim undantekningum sem um getur í 2. gr.
Því er mælt með þeirri tillögu, sem fram kemur í umsögn "VÍ"
og hljóði þannig:

Lög þessi taka til lánssamningfa sem lánveitandi gerir í


atvinnuskyni við neytendur.

Um 2.gr.
Ráðuneytið felst á það sjónarmið, sem kemur í umsögn SÍV og VÍ
að setja skuli hámarksfjárhæð í d.-lið og að liðurinn hljóði
svo:

d. Lánssamningar að lægri fjárhæð en 15 000 krónur eða að


hærri fjárhæð en 1 500 000 krónur.

Ekki er mælt með frekari breytingum á þessari grein og má


nefna að hvorki í Danmörku eða Svíþjóð hefur verið fallist á
að undanþiggja lánssamninga sem gera ráð fyrir uppgreiðslu
láns með í mesta lagi fjórum greiðslum innan 12 mánaða frá
ákvæðum laganna, enda er talin sama þörf á upplýsingaskyldu um
lánskjör í slikum tilvikum.

Um 3. gr.
Ekki er fallist á þær athugasemdir,sem fram koma við þessa
grein í umsögn SÍV, en ráðuneytið mælir með samþykkt
No. 2

breytingartillögu V Í , með orðalagsbreytingu í d.lið, þ.e. að


bókstafsmerktir liðir hljóði sem hér segir:

a. Hvaða takmörk eru á lánsupphæðinni sé um slíkt að ræða.


b. Hverjir eru ársvextir og hvaða gjöld falla á lánið frá
þeim tíma er gengið er frá samningnum og við hvaða skilyrði
megi breyta beim.
c. Með hvaða hætti samningi skuli sagt upp.
d. Lántakanda skal tilkynnt um allar breytingar á ársvöxtum
eða viðeigandi gjöldum sem verða á samningstímanum. Slíkt má
gera með því að vekja sérstaka athygli á breytingunni í
reikningsyfirliti eða með áberandi auglýsingum í fjölmiðlum.

Um 4. gr.
Fallist er á sjónarmið sem fram koma í umsögnum að
skilgreining á neytanda verð þrengd og að felld verði niður
skilgreining á lántakanda.

Því er lagt til að a - liður hljóði þannig:

Neytandi er einstaklingur sem í viðskiptum sem lög þessi ná


til tekur lán og/eða kaupir vöru eða þjónustu gegn
endurgjaldi, enda séu viðskiptin ekki gerð í atvinnuskyni.

b.- liður falli brott og merking annarra liða breytist til


samræmis við það.

Um 5. gr.

Orðið neytandi komi í stað lántakandi.

Um 6. gr..
Í samræmi við framangreinda tillögu breytist orðið
"lántakandi" í "neytandi" í 1. málslið 1. mgr. og í 1. málslið
2. mgr.
Fallist er á ábendingu S og mælt með því að við 2. tölulið 1.
mgr. bætist: þ.e. höfuðstóll að frádregnum lántökukostnaði.
Um 7. gr.
Í samræmi við framangreinda tillögu breytist orðið
"lántakandi" í "neytandi" í 2. málslið 1. mgr., í 2. tölulið
og í síðastu mgr. Í samræmi við ábendingu "VÍ" leiðréttist
villa í 2. mgr. Þar á að standa: "Ákvæði 3.-4. tölul. 1.
mgr." en ekki "Ákvæði 3.-4. tölul. 2. mgr".

Um 8. gr.
Ákvæði þessarar greinar eru samin í samræmi við ákvæði 1. gr.
4.d tilskipunar 90/88/EBE, sem er breyting á 2. tl. 4.gr.
tilskipunar 87/102/EBE. Ekki er fallist á tillögur um að
fella greinina burt skv. umsögn "VÍ" né að gera breytingu skv.
umsögn "N".
No. 2

Um 9. gr.
Fallist er á breytingartillögu "VÍ" og því er lagt til að
greinin hljóði þannig: Þó að í lögum þessum sé kveðið á um að
neytandi skuli fá upplýsingar um vexti eða fjáhæðir þar sem
vextir eru meðtaldir, sbr. 6. gr., kemur það ekki í veg fyrir
að aðilar geti samið um að vextir séu að nokkru eða öllu
breytilegir. Skal þá greint frá vöxtum eins og þeir eru á
þeim tíma sem upplýsingarnar eru gefnar, tilgreint skal með
hvaða hætti vextirnir eru breytilegir og við hvaða aðstæður
þeir breytast.

Um 10. gr.
Vegna umsagnar "SÍV" skal tekið fram að árleg hlutfallstala
kostnaðar er nafn á hugtaki sem samsvarar hugtaki í
tilskipunum EB (annual percentage rate of charge) og í
norrænni löggjöf (de årlige omkostninger i prosent).
Til að gera hugtakið enn skýrara er lögð til breyting á
greininni og mælt með að hún hljóði þannig:
Árleg hlutfallstala kostnaðar skal vera tala sem samsvarar til
núvirðis allra skuldbindinga (lána, endurgreiðslna og
kostnaðar), er til kann að koma eða þegar er fyrir hendi og
lánveitandi og neytandi hafa samið um. Hlutfallstalan skal
reiknuð út í samræmi við stærðfræðilíkingu sem nánar er mælt
fyrir um í reglugerð er ráðherra setur. Í henni skal einnig
setja nánari reglur um útreikning kostnaðarins.

Um. 11. gr.

Orðið lántakandi breytist í neytandi.

Um 12. gr.
Fallist er á tillögu í umsögn "S" um breytingu á 1. málslið 1.
gr. þannig að á eftir orðinu "vaxtagjöldum" komi: þ.m.t.
vísitölubinding og verðlagsviðmiðun. Er því mælt með þessari
breytingu á greininni.
Einnig er mælt með að fallist verði á tillögu "S" um breytingu
á 3.tl. um að "reikna með" komi í stað orðanna "inna af
hendi".
Um 13. gr.
Mælt er með því að 13. gr. hljóði svo:
Í auglýsingum um lánveitingar til neytenda eða viðskipti með
lánsfyrirgreiðslu skal gefa upp vexti, lántökukostnað og
árlega hlutfallstölu kostnaðar með viðhlítandi dæmi sé annars
ekki kostur. Ef lánveitandi er jafnframt seljandi vöru eða
þjónustu skal hann einnig gefa upp staðgreiðsluverð.
No. 2

Um 14. gr.
Neytandi komi í stað lántakandi á 3 stöðum í greininni.
Einnig komi "samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands " í 1.
mgr. í stað "samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands".

Um 15. gr.
Þar sem gildissvið laganna hefur verið þrengt eiga
athugasemdir í umsögnum ekki fyllilega við. Hins vegar er
fallist á að ákvæðið opni möguleika á óréttmætu málþófi við
venjulega innheimtu kröfu . Er því lagt til að ákvæðið hljóði
svo:
"Hafi lánveitandi ekki veitt þær upplýsingar sem fyrir er mælt
í 6. gr., sbr. 5, gr., getur það skapað honum bótaábyrgð, enda
hafi neytandi mátt ætla að lánskjör væru hagstæðari en þau
síðar reyndust vera.

Um 16.gr.
Fallist er á umsögn "VÍ" og því er mælt með því að 16. gr.
hljóði svo:

Neytanda skal heimilt að standa skil á skuldbindingum sínum


samkvæmt lánssamningi fyrir þann tíma sem settur er í
lánssamning sem lausnardagur. Greiði neytandi fyrir þennan
tíma getur hann krafist lækkunar á lánskostnaði sem nemur þeim
vöxtum eða öðrum kostnaði sem greiða átti eftir greiðsludag.
Ekki er hægt að krefjast endurgreiðslu vegna kostnaðar sem er
óháður því hvenær greiðsla er innt af hendi."
1 7 . , 18. og 19. gr. falli brott og röð greina breytist í
samræmi við það.

Um 5. kafla.

Um 20. gr.
Tilskipunin um neytendalán (87/102/EEC) mælir fyrir um að þar
sem réttur lánveitanda skv. lánssamningi er framseldur þriðja
aðila skuli neytandi eiga rétt á að bera fyrir sig gagnvart
þeim þriðja aðila hverja þá málsvörn sem honum var tiltæk gegn
upphaflegum lánveitanda þar með töldum skuldajöfnuði, þar sem
slíkt er heimilt í aðildarríki því sem í hlut á. Í 10. gr. er
mælt fyrir um að aðildarríki sem heimilar neytanda að inna af
hendi greiðslu eða setja tryggingu með víxlum skuli sjá til
þess að neytandinn njóti tilhlýðilegrar verndar þegar hann
notar skjöl þessi á þann hátt.

Á öðrum Norðurlöndum hefur þetta ákvæði verið útfært á þann


hátt að bann er lagt við notkun víxla, þar eð þeir veita
útgefanda eða framsalshafa það réttarfarshagræði, að neytandi
getur ekki borið fyrir sig vanefndir eða galla í viðskiptunum.
Í frumvarpinu er farin sama leið.
Verslunarráð Íslands leggur til að í stað þessa skuli neytandi
eiga aðgang að vátryggingu lánveitanda og bera þar upp kröfu á
No. 2

grundvelli mótbára, sem hann kann að hafa við kröfu


lánveitanda. Ráðuneytið telur að slíkt muni ekki skapa
neytanda sambærilegan rétt og þann sem tilskipunin mælir fyrir
um.
Því er lagt til að kaflinn sé í meginatriðum óbreyttur. Þó er
fallist á tillögu í umsögn "S" og mælt með því að 2. mgr. 20.
gr. falli brott og að 3. mgr. hljóði svo: "Þetta á þó ekki við
ef neytandi innir greiðslu af hendi til lánveitanda og veit að
lánveitandi hefur ekki rétt til að taka við greiðslu eða gera
samning þar að lútandi né heldur þótt neytanda hafi verið það
ókunnugt, ef hann nálgaðist ekki upplýsingarnar af ásetningi
eða vítaverðu gáleysi." Jafnframt komi orðið neytandi í stað
orðsins lántakandi í öðrum málsgreinum greinarinnar.

Um 2 1 . gr.
Til þess að gera 21. gr. skýrari er lagt til að hún orðist
svo:
Lánveitanda er ekki heimilt að taka við víxli af neytanda sem
greiðslu eða tryggingu fyrir greiðslu, sem við framsal getur
valdið því að réttur neytanda til þess að halda uppi mótbárum
glatast. Ekki er heldur heimilt að taka við ávísunum útgefnum
af neytanda sem tryggingu fyrir greiðslu í þessu sambandi.

Um 6. kafla.

Lagt er til að breyta heiti kaflans í "Kaup með


eignarréttarfyrirvara og um endurheimt eignarréttar."

Um 2 2 . gr.
Fallist er á tillögu í umsögn "VÍ" og því er mælt með því að
greinin hljóði þannig:
Ef söluhlutur er seldur með eignarréttarfyrirvara getur
lánveitandi endurheimt hlutinn á grundvelli skriflegs
kaupsamnings þar sem skýrt er kveðið á um
eignarréttarfyrirvarann. Skilyrði endurheimtunnar er að
neytandi sé í vanskilum með afborganir eða lánskostnað.
Þegar söluhlutur er endurheimtur skal við uppgjör á milli
aðila lánssamnings reyna að komast sem næst því að þeir verði
jafnsettir og ef viðskiptin hefðu ekki átt sér stað.
Ef andvirði söluhlutar er meira en sem nemur eftirstöðvum
lánssamnings skal lánveitandi endurgreiða neytanda mismuninn.
Ef andvirði söluhlutar er minna skal neytandi greiða
lánveitanda mismuninn.
Við mat á andvirði söluhlutar skal litið til þess hvort
slit og rýrnun söluhlutar er eðlilegt og til frádráttar vaxta
frá endurheimtudegi til loka lánssamnings.

Um 7. kafla.
Lagt er til að 23., 2 7 . , 28. og 29. gr. falli brott og
greinaröð breytist til samræmis.
7. kaflinn falli út og kaflaröð breytist til samræmis við það.
No. 2

Um 23.gr.
Í ljósi athugasemdar í umsögn "S" er mælt með því að greinin
falli ú t .

Um 2 4 . gr.

Orðið neytandi komi í stað orðsins lántakandi.

Um 2 5 . gr.
Fallist er á ábendingu í umsögn "S" og mælt með því að 1. t l .
orðist svo: 1. Frádráttar vaxta frá þeim degi er hlutur er
endurheimtur ef lánsvextir hafa verið greiddir fyrir allt
tímabilið.
Um 26. gr.
Fallist er á ábendingu í umsögn "S" og lagt til að við
greinina bætist eftirfarandi málsliður: Komi upp ágreiningur
um hvað sé verð söluhlutar á almennum markaði skal hann
útkljáður m e ð matsgerð tveggja dómkvaddra og óhlutdrægra
manna.

Um 2 7 . gr.
Greinin falli ú t .

Um 28. gr.
Greinin falli ú t .

Um 29. gr.
Greinin falli ú t .

Um 3 0 . gr.

Orðið neytandi komi í stað orðsins lántakandi.

Um 8. kafla.

Um 3 2 . gr.
Orðið neytandi komi í stað orðsins lántakandi.
Mælt er með því að 36.gr. verði færð í 8. kafla og tölusetning
hennar breytist samsvarandi.

Um 9. kafla.

Lagt er til að heiti kaflans verði Refsiákvæði og gildistaka.

Um 3 4 . gr.
Fallist er á tillögu í umsögn "VÍ" og því mælt með að 35. gr.
falli brott, en 34. gr. orðist svo:
No. 2

Ef tjóni er valdið með broti á lögum bessum telst það


bótaskylt í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar.
Gera má lögaðila að greiða bætur þó svo að sök sannist ekki
á neinn tiltekinn starfsmann lögaðilans ef sýnt þykir að
einhver starfsmaður lögaðilans hafi gerst brotlegur við ákvæði
laga þessara.
Bætur sem dæmdar verða sbr. 1. mgr. má innheimta hjá þeim
einstaklingi sem dæmdur er bótaskyldur eða lögaðila þeim sem
hann starfaði hjá þegar brotið var framið.
No. 3

Efnahags- og viðskiptanefnd Vinnuskjal


2. nóvember 1992

Frumvarp til laga um neytendalán


eins og það lítur út skv. athugasemdum ráðuneytisins 16.10.1992,
svo og athugasemdir sem fram komu á fundi nefndarinnar 28.10.1992.

I. KAFLI
Gildissvið og hugtök laganna.
1. gr.
Lög þessi taka til lánssamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við
neytendur.

2. gr.
Eftirtaldir lánssamningar eru undanþegnir lögum þessum:
a. Lánssamningar sem gilda skernrnri tíma en þrjá mánuði.
b. Lánssamníngar sem fela í sér endurgreiðslur án vaxta og kostnaðar.
c. Leigusamningar, nema eignarleigusamningar, sbr. lög nr. 19/1989.
d. Lánssamningar að lægri fjárhæð en 15.000 kr. eða að hærri fjárhæð en
1500 000 kr.
e. Lánssamningar sem tryggðir eru með veði í fasteign.
f. Lánssamningar í formi yfirdráttarheirnildar af tékkareikningi.
g. Lánssamningar sem eru gerðir í því skyni að kaupa eða viðhalda fasteign-
um eða til þess að reisa, endurnýja eða endurbæta byggingu.

Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands: Sjá ekki efnisleg rök fyrir því að undanþiggja þá flokka
lána sem greindir eru í e og g-liðum. Gerð er og athugasemd við hámarksfjárhœðina í d-
lið. Vísað er að öðru leyti í umsögn 14.10.1992.

3. gr.
Þrátt fyrir undanþágu skv. f-lið 2. gr. og um er að ræða samkomulag milli lána-
stofnunar eða fjármálastofnunar og lántakanda um lánveitingu í formi heimildar til fyrir-
framúttektar af tékkareikningi, þó ekki greiðslukortareikningi, skulu lántakanda veittar eft-
irtaldar upplýsingar áður en gengið er frá samningnum:
a. Hvaða takmörk eru á lánsupphæðinni sé um slíkt að ræða.
b. Hverjir eru ársvextir og hvaða gjöld falla á lánið frá þeim tíma er geng-
ið er frá samningnum, svo og við hvaða skilyrði megi breyta þeim.
c. Með hvaða hætti samningi skuli sagt upp.
d. Lántakanda skal tilkynnt um allar breytingar á ársvöxtum eða viðeigandi
gjöldum sem verða á samningstímanum. Slíkt má gera með því að vekja
sérstaka athygli á breytingunni í reikningsyfírliti eða með áberandi
auglýsingum í fjölmiðlum.
No. 3

4. gr.
Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
a. Neytandi er einstaklingur sem í viðskiptum sem lög þessi ná til tekur lán
og/eða kaupir vöru eða þjónustu gegn endurgjaldi, enda séu viðskiptin
ekki gerð í atvinnuskyni.
b. Lánveitandi er einstaklingur, lögaðili eða hópur slíkra aðila sem veitir
lán.
c. Lánssamningur er samningur þar sem lánveitandi veitir eða lofar að
veita lántakanda lán í formi greiðslufrests eða svipaðrar fjárhagslegr-
ar fyrirgreiðslu og lántakandi lofar að greiða samkvæmt ákvæðum samn-
ingsins.
d. Heildarlántökukostnaður lántakanda er allur kostnaður sem hlýst af töku
lánsins og lántakanda ber að greiða, þar með taldar vaxtagreiðslur.
e. Árleg hlutfallstala kostnaðar er heildarlántökukostnaður sem hlýst af
gerð lánssamnings, lýst sem árlegri prósentu af upphæð láns þess sem
veitt er og reiknuð út í samræmi við 10.-12. gr.
f. Eignarréttarfyrirvari er þegar við kaup á vöru er samið um að lán-
veitandi geti tekið vöruna til sín ef neytandi stendur ekki við skuld-
bindingar sínar samkvæmt samningnum.

Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands: Á eftir orðunum „árleg hlutfallstala kostnaðar" í e-lið


komi: hér eftir nefnd virkir vextir.

II. KAFLI
Upplýsingaskylda lánveitenda.
5. gr.
Lánssamningur skal gerður skriflega og fela í sér upplýsingar þær sem tilgreindar
eru í 6. og 8. gr. Neytandi skal fá í hendur eintak af lánssamningnum.

6. gr.
Við gerð lánssamnings skal lánveitandi gefa neytanda upplýsingar um:
1. Höfuðstól, þ.e. lánsfjárhæð án nokkurs kostnaðar.
2. Fjárhæð útborgunar þ.e. höfuðstóll að frádregnum lánskostnaði.
3. Árlega nafnvexti.
4. Lántökukostnað í krónum, reiknaðan út skv. 7. gr.
5. Árlega hlutfallstölu kostnaðar, þ.e. heildarlántökukostnað, lýst sem árlegri pró-
sentu af upphæð höfuðstólsins og reiknaðri út skv. 10.-12. gr.
6. Heildarupphæð þá sem greiða skal, þ.e. samtölu höfuðstóls, vaxta og láns-
kostnaðar.
7. Fjölda einstakra greiðslna, fjárhæð þeirra og gjalddaga.
8. Gildistíma lánssamnings og skilyrði uppsagnar hans.
Ef breyta má lánskostnaði, afborgunum eða öðrum atriðum lánskjara á samnings-
tímanum skal lánveitandi greina neytanda frá því við hvaða aðstæður breytingarnar geta
orðið. Ef ekki er unnt að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar skal lánveitandi þess í stað
skýra neytanda frá því hverjir árlegir nafnvextir eru, hvaða gjöld falla á lánið og við hvaða
aðstæður breytingar geti orðið.

Útreikningur á lántökukostnaði.
7. gr.
Lántökukostnaður felur í sér allan kostnað af láninu, þar með talda vexti og önn-
ur gjöld sem neytandi skal greiða af því, með þeim undantekningum sem greinir í 2. mgr.
Þegar reiknuð er út árleg hlutfallstala lánskostnaðar skal ekki tekið tillit til eftirfarandi
No. 3

kostnaðarliða:
1. Kostnaðar vegna vanskila.
2. Kostnaðar sem lántakandi greiðir við kaup á lausafé eða þjónustu, hvort held-
ur kaupin fara fram gegn staðgreiðslu eða samkvæmt lánssamningi.
3. Kostnaðar vegna yfírfærslu fjár.
4. Kostnaðar vegna viðskiptareiknings sem ætlað er að taka við afborgunum af
láninu að undanskildum kostnaði við innheimtu endurgreiðslna, hvort held-
ur um er að ræða staðgreiðslu eða annað greiðslufyrirkomulag.
5. Félagsgjalda er rekja má til samninga sem ekki tengjast lánssamningnum,
jafnvel þótt þau hafi áhrif á lánsskilmála.
6. Kostnaðar vegna trygginga eða ábyrgða nema þær eigi að tryggja lánveit-
anda endurgreiðslu lánsins.
Ákvæði 3.-4. tölul. 1. mgr. eiga því aðeins við að neytandi hafi hæfilegt valfrelsi
um það með hvaða hætti yfirfærsla fjárins eða endurgreiðslan fari fram, svo og að kostn-
aður sé ekki óeðlilega hár.

8. gr.
Þegar samningur er gerður skal lánveitandi gefa lántakanda upplýsingar um kostn-
að þann sem frá er greint í 2.-6. tölul. 1. mgr. 7. gr. og jafnframt tilgreina hvenær slík-
ur kostnaður fellur á. Ef kostnaður er óþekktur skal lánveitandi, ef kostur er, veita lán-
takanda upplýsingar um hvernig hann er reiknaður út eða áætla hver hann er.

Breytilegur lántökukostnaður.
9. gr.
Þó að í lögum þessum sé kveðið á um að neytandi skuli fá upplýsingar um vexti
eða fjárhæðir þar sem vextir eru meðtaldir, sbr. 6. gr., kemur það ekki í veg fyrir að að-
ilar geti samið um að vextir séu að nokkru eða öllu leyti breytilegir. Skal þá greint frá
vöxtum eins og þeir eru á þeim tíma sem upplýsingarnar eru gefnar, tilgreint skal með
hvaða hætti vextirnir eru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breytast.

Útreikningur árlegrar hlutfallstölu kostnaðar.


10. gr.
Árleg hlutfallstala kostnaðar skal vera tala sem samsvarar til núvirðis allra
skuldbindinga (lána, endurgreiðslna og kostnaðar), er til kann að koma eða þegar er
fyrir hendi og lánveitandi og neytandi hafa samið um. Hlutfallstalan skal reiknuð út
í samræmi við stærðfræðilíkingu sem nánar er mælt fyrir um í reglugerð er ráðherra
setur. Í henni skal einnig setja nánari reglur um útreikning kostnaðarins.

11. gr.
Árleg hlutfallstala kostnaðar skal reiknuð út á þeim tíma sem lánssamningur er gerð-
ur. Við útreikning árlegrar hlutfallstölu skal gengið út frá því að lánssamningur gildi um-
saminn tíma og að lánveitandi og neytandi standi við skuldbindingar sínar samkvæmt
skilmálum samningsins.

12. gr.
Ef lánssamningur heimilar breytingu á vaxtagjöldum þar með talið vísitölubinding
og verðlagsmiðun eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar en
ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður skal reikna út
árlega hlutfallstölu kostnaðar á þeirri forsendu að vextir og annar kostnaður verði óbreytt-
ur til loka lánstímabilsins.
Þegar reiknuð er út árleg hlutfallstala kostnaðar skal gera ráð fyrir eftirfarandi:
1. Ef engin hámarksupphæð er tilgreind í lánssamningi skal hámarksupphæð
láns, sem veitt er, teljast 150.000 kr.
No. 3

2. Ef ekki er tilgreindur ákveðinn lánstími og ekki er unnt að ráða hann af


samningi skal lánstími talinn eitt ár.
3. Ef í samningi er kveðið á um fleiri en einn greiðsludag skal reikna með
endurgreiðslu á þeim tíma sem samningur kveður fyrst á um.

Auglýsingar.
13. gr.
Í auglýsingum um lánveitingar til neytenda eða viðskipti með lánsfyrirgreiðslu
skal gefa upp vexti, lántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar með viðhlítandi
dæmi sé annars ekki kostur. Ef lánveitandi er jafnframt seljandi vöru eða þjónustu
skal hann einnig gefa upp staðgreiðsluverð.

III. KAFLI
Vanræksla á upplýsingaskyldu.
14. gr.
Séu ekki veittar upplýsingar um lántökukostnað sem greinir í 4. tölul. 1. mgr. 6. gr.
skal neytandi greiða höfuðstól og ársvexti af honum sem samsvara vöxtum af almennum
skuldabréfum samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands.
Ef lántökukostnaður er tilgreindur í samræmi við 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. er lánveit-
anda eigi heimilt að krefjast frekari lántökukostnaðar. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sem
um getur í 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð getur lánveitandi ekki krafist hærri lán-
tökukostnaðar.
Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki ef lánveitandi getur sannað að neytanda hefði mátt
vera ljóst hver lántökukostnaðurinn átti að vera. Ef ákvæði 1. eða 2. mgr. leiða til lækk-
unar eftirstöðva skal neytandi greiða þær samkvæmt samningnum og lækkunin koma fram
á síðustu afborgunum.

15. gr.
Hafi lánveitandi ekki veitt þær upplýsingar sem fyrir er mælt í 6. gr., sbr. 5.
gr., getur það skapað honum bótaábyrgð, enda hafi neytandi mátt ætla að lánskjör
væru hagstæðari en þau síðar reyndust vera.

IV. KAFLI
Greiðsla fyrir gjalddaga.
16. gr.
Neytanda skal heimilt að standa skil á skuldbindingum sínum samkvæmt láns-
samningi fyrir þann tíma sem settur er í lánssamning sem lausnardagur. Greiði
neytandi fyrir þennan tíma getur hann krafist lækkunar á lánskostnaði sem nemur
þeim vöxtum eða öðrum kostnaði sem greiða átti eftir greiðsludag. Ekki er hægt að
krefjast endurgreiðslu vegna kostnaðar sem er óháður því hvenær greiðsla er innt af
hendi.

17., 18. og 19. gr. falli brott.


No. 3

V. KAFLI
Framsal kröfuréttinda.
20. gr.
Ef lánveitandi framselur kröfu til þriðja aðila getur neytandi haldið uppi sömu mót-
bárum við hann og upphaflegan eiganda kröfunnar. Sama á við ef kröfuhafi hefur sett kröf-
una að veði og fjárnám hefur verið gert í henni.
Þetta á þó ekki við ef neytandi innir greiðslu af hendi til lánveitanda og veit
að að lánveitandi hefur ekki rétt til að taka við greiðslu eða gera samning þar að
lútandi né heldur þótt neytanda hafi verið það ókunnugt, ef hann nálgaðist ekki
upplýsingarnar af ásetningi eða vítaverðu gáleysi.
Ef neytandi á kröfu á hendur lánveitanda, sem jafnframt er seljandi, vegna
kaupa, t.d. vegna galla, er framsalshafí meðábyrgur lánveitanda þar til uppgjör hef-
ur farið fram. Lánveitandi er þó ekki skyldugur að greiða meira en það sem hann
hefur fengið greitt frá neytanda.

21. gr.
Lánveitanda er ekki heimilt að taka við víxli af neytanda sem greiðslu eða
tryggingu fyrir greiðslu, sem við framsal getur valdið því að réttur neytanda til þess
að halda uppi mótbárum glatast. Ekki er heldur heimilt að taka við ávísunum
útgefnum af neytanda sem tryggingu fyrir greiðslu í þessu sambandi.

VI. KAFLI
Kaup með eignarréttarfyrirvara og um endurheimt eignarréttar.
22. gr.
Ef söluhlutur er seldur með eignarréttarfyrirvara getur lánveitandi endurheimt
hlutinn á grundvelli skriflegs kaupsamnings þar sem skýrt er kveðið á um
eignarréttarfyrirvarann. Skilyrði endurheimtunnar er að neytandi sé í vanskilum með
afborganir eða lánskostnað.
Þegar söluhlutur er endurheimtur skal við uppgjör á milli aðila lánssamnings
reyna að komast sem næst því að þeir verði jafnsettir og ef viðskiptin hefðu ekki átt
sér stað.
Ef andvirði söluhlutar er meira en sem nemur eftirstöðvum lánssamnings skal
lánveitandi endurgreiða neytanda mismuninn. Ef andvirði söluhlutar er minna skal
neytandi endurgreiða lánveitanda mismuninn.
Við mat á andvirði söluhlutar skal litið til þess hvort slit og rýrnun söluhlutar
er eðlilegt og til frádráttar vaxta frá endurheimtudegi til loka lánssamnings.

23., 27., 28. og 29. gr. falli brott.

24. gr.
Nú greiðir neytandi skuld eftir gjalddaga með dráttarvöxtum og áföllnum kostn-
aði áður en hlutur hefur verið endurheimtur. Getur lánveitandi þá hvorki gjaldfellt skuld-
ina og endurheimt hlut á þeim forsendum né beitt öðrum þeim úrræðum sem tiltæk voru
fyrir greiðslu nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

Útreikningur eftirstöðva.
25. gr.
Við útreikning eftirstöðva skuldar er lánveitandi vill endurheimta söluhlut sam-
kvæmt kaupsamningi með eignarréttarfyrirvara skal taka tillit til eftirfarandi atriða:
1. Frádráttar vaxta frá þeim degi er hlutur er endurheimtur ef lánsvextir hafa
verið greiddir fyrir allt tímabilið.
No. 3

2. Ef hlutur er endurheimtur á öðrum degi en gjalddaga skal vaxta- og kostn-


aðartímabil miðast við næsta gjalddaga á eftir.

Útreikningur andvirðis söluhlutar.


26. gr.
Þegar söluhlutur er endurheimtur skal andvirði hans renna til kaupanda við upp-
gjör milli aðila. Andvirði söluhlutar er sú fjárhæð sem unnt er að fá fyrir hlutinn við sölu
hans á almennum markaði. Komi upp ágreiningur um hvað sé verð söluhlutar á
almennum markaði skal hann útkljáður með matsgerð tveggja dómkvaddra og
óhlutdrægra manna.

30. gr.
Nú hafa fleiri en einn hlutur verið keyptir samkvæmt einum samningi og lánveit-
andi leggur fram kröfu um endurheimt þeirra. Getur neytandi þá valið einn eða fleiri hlut-
anna til afhendingar gegn því að greiða um leið mismun andvirðis þeirra hluta sem hann
heldur eftir, sbr. 25. gr. Ef inneign lánveitanda er minni en andvirðið á neytandi rétt á að
fá mismuninn greiddan um leið og hlutirnir eru afhentir.
Í fjórtán daga frá endurheimt hefur neytandi rétt til að innleysa hina endurheimtu
hluti til sín. Skal hann þá greiða fjárhæð þá sem inneign lánveitanda er hærri en verð-
mæti þeirra hluta sem eftir eru. Skal fjárhæðin reiknuð skv. 25. gr.
Neytandi getur ekki leyst til sín hlut ef hann er úr safni eða samstæðu sem lán-
veitandi hefur einnig endurheimt frá neytanda og aðskilnaðurinn hefur í för með sér veru-
lega rýrnun á verðmæti hlutanna.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
31. gr.
Viðskiptaráðherra getur ákveðið að lög þessi taki ekki til tiltekinna tegunda lána sem
veitt eru gegn lægra gjaldi en almennt gerist og standa almenningi ekki til boða.

32. gr.
Viðskiptaráðherra getur sett reglur um hvernig prenta skuli leiðbeiningar um rétt-
arstöðu neytanda á skriflega samninga og skjöl sem lögin taka til.

33. gr.
Viðskiptaráðherra getur breytt fjárhæðarmörkum lánssamninga sem lög þessi taka
til eftir því sem verðlagsþróun gefur tilefni til.

IX. KAFLI
Refsiákvæði og gildistaka.
34. gr.
Ef tjóni er valdið með broti á lögum þessum telst það bótaskylt í samræmi
við almennar reglur skaðabótaréttar.
Gera má lögaðila að greiða bætur þó svo að sök sannist ekki á neinn tiltekinn
starfsmann lögaðilans ef sýnt þykir að einhver starfsmaður lögaðilans hafi gerst
brotlegur við ákvæði laga þessara.
Bætur sem dæmdar verða sbr. 1. mgr. má innheimta hjá þeim einstaklingi sem
dæmdur er bótaskyldur eða lögaðila þeim sem hann starfaði hjá þegar brotið var
framið.

35. gr. falli brott.


No. 3

36. gr.
Eigi má með samningi víkja frá ákvæðum laga þessara né reglugerða, sem sett-
ar kunna að verða samkvæmt lögunum, lántakanda í óhag.

-Greinin fœrist í 8. kafla.

37. gr.
Lög þessi öðlast gildi um leið og samningur um Evrópska efnahagssvæðið að því
er Ísland varðar.

VISA-Ísland: Vísa til umsagnar sinnar frá 6.10.1992 svo og umsagnar Verslunarráðs
Íslands. Benda sérstaklega á athugasemd í umsögn sinni efst á bls. 3 þar sem segir að ekki
sýnist óeðlilegt að í lögum um neytendalán vœru einhver ákvœði um samskipti
fjánnögnunaraðila og söluaðila vegna neytendalána.

Athugasemdir Verslunarráðs eru í sérstöku bréfi.


No. 4

Fundir starfshóps um endurskoðun l. 30/1993, og reglugerð nr.377/1993.

ATH. 1. fundur 5/11 1993.

2. gr. b-lið + vildargjörninga.


G-liður binda orðalag við fjármögnun á öflum eða viðhaldi eignaréttar og
fjármögnun á byggingum, endurnýjun eða við endurbætur á
byggingu, (fasteign).

3. gr. Breyta orðalagi.


1.mgr. " fyrirframúttekt " í - yfirdráttarheimild.

d-liður. Fella niður síðustu setninguna. Í hennar stað komi:


Ath. til næsta Slíkt má gera með auglýsingum sem liggja frammi á starfsstöð
fundar valkosti, lánveitanda. Auk þess skal þess getið á næsta reiknings yfirliti.
reikningsy.
augl.
fastir vextir.

4. gr.
a-liður. innskot fyrir síðasta hluta setningarinnar:
sem greitt er síðar.

d-liður Umorða þannig:


Heildarlántökukostnaður er samanlagður kostnaður sem neytanda
ber að greiða fyrir lánið, þar með taldir vextir, þóknanir og annar
kostnaður.

f. Tekin til athugunar.

5. gr. Taka fram í gr.g. að samningurinn þurfi ekki að vera á einu blaði-
einum sama.

6. gr.
3.töluliður. "Árlegir nafnvextir"

Er það besta " VAXTAFÓTUR "


orðið?

Hugtakið Vextir, sem greiðast skulu fyrir lánsféð, skulu uppgefnir sem svari til
vaxtakostnaðar í eitt ár fyrir þann hluta lánsins sem ógreiddur er
hverju sinni.
No. 4

2. fundur 8.11.1993. kl.8:00

7. gr. Fyrsta setningin skal vera 1. mgr., 2. mgr. hefst á "þegar reiknuð er
út

E.t.v. er hægt að losna við töluliði 1-6 með einni setningu.

Þess kostnaðar sem óháður er sjálfri lánveitingunni, en er á lagður


vegna vörusölu, tilfærslu fjár eða vegna vanefnda sem síðar koma
fram.
Ef þessi lausn fær ekki hljómgrunn, er vel hægt að fella niður tölulið
nr.3 og 4. Þá fellur 3. mgr. einnig niður.

8. gr. Þessi grein með áorðinni breytingu ætti að vera 3ja mgr. í 7.gr.

9. gr OK.

10. gr. Hvað þýðir "núvirði allra skuldbindinga" ?


Lýsir á núvirði kostnaði neytandans af láninu, reiknuð sem árleg
hundraðshlutfalli af upphæð lánsins sem veitt er.

Fella má 10. og 11. gr. saman í eina grein.

12.gr. Laga orðalag fyrstu setningar. Sjá leiðréttingaskjalið.

13.gr. OK. Sólrún vill reyna að koma inn ákvæði um auglýsinu í blöðum.

14.gr. 1. mgr. Ef ekki eru veittar uppl. um lántökukostnað


(heildarlántökukostnað skv. 7.gr.) verður ekki hægt að krefja um
vaxtagreiðslu síðar. Vaxtalög ganga út frá því að leigugjald fyrir
peninga verði aðeins greitt ef um það er sérstaklega samið. Beri
samningurinn um endurgreiðslu vexti, þá verði þeir ekki krafðir síðar.

15.gr. OK. Þessi grein er ekki nauðsynleg. Hún staðfestir aðeins gildandi
rétt. Ef skuldari er krafínn um hærri fjárhæð en samið var um.

Greiðsla fyrir gjalddaga.

16.gr. Lagfæring í 2. lín.


x- tíma sem umsaminn er.
No. 4

Noti neytandi sér heimild þessa, á hann rétt á lækkun lánskostnaðar


sem munar þeim vöxtum eða öðrum kostnaði sem greiða átti eftir
greiðsludag.

17.gr. 1. mgr. Ekki er úr vegi að afmarka vel fyrstu setninguna í 1 .mgr.,


í stað orðsins "kröfu" komi: " rétt sinn samkvæmt neytendaláni ".

3.mgr. Heldur undarleg regla kemur fram í þessari mgr. Hvað þýðir
"þar til uppgjör hefur faríð fram" ?.
Í gr.g. með frumvarpinu er gefið í skyn að víðtækur kröfuréttur
neytanda tengist láni - s.s. skuldajöfnunrréttur, þar til lánveitandi og
lántaki (neytandi) hafa gert upp viðskiptin sín á milli. Lánskrafan er
því ekki sjálfstæður kröfuréttur. Þetta samrýmist ekki
grundvallarréttindum fjármunaréttar.

Hugmynd að nýju niðurlagi fyrstu setningar í 3. mgr.

x- þar til lokið er afmarka og bæta fyrir framkominn galla.

Strika síðan út síðari setninguna.

18.gr. 1. mgr. Án þess að breyta stórlega efni núverandi greinar, má bæta hana
nokkuð með innskoti.

Lánveitandi, sem veitir lán með því að taka við útgefnu viðskiptabréfi
frá neytanda við neytendakaup, skal hafa keypt sér áður
ábyrgðatryggingu hjá viðurkenndu vátryggingarfélagi, aflað sér
bankatryggingar eða leggja fram aðrar tryggingar, sem ráðherra metur
gildar, að fjárhæð kr. 5.000.000,00- vegna hugsanlegra
vanefndarkrafna neytenda vegna þeirra viðskipta sem að baki
viðskiptabréfum standa.

Ný 2. mgr. Ábyrgðartryggingin skal vera höfuðstólstrygging fyrir ákveðið


sölutímabil, eitt ár. Réttur til tryggingarfjársins fer eftir röð krefjenda
og skulu þeir hafa lagt fram kröfugerð innan árs frá afhendingu vöru
eða þjónustu. Að gengum dómi eða úrskurði skiptaréttar skal
neytanda greitt af tryggingarfénu.
No. 5

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

11. nóvember 1993

Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 30/1993, um neytendalán.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)

1. gr.
b-liður 2. gr. orðist svo:
Lánssamningur sem felur í sér endurgreiðslur án vaxta og kostnaðar eða lána, sem
veitt eru gegn lægra gjaldi en almennt gerist og standa almenningi ekki til boða.

2. gr.
g-liður 2. gr. orðist svo:
[...]

3. gr.
Í stað orðanna "heimildir til fyrirframúttektar" í 1. málsl. 3. gr. komi:
yfirdráttarheimildar.

4. gr.
Í stað orðanna "áður en gengið er frá samningnum" í 1. mgr. 3. gr. komi: í upphafi
viðskipta.

5. gr.
Í stað orðsins "ársvextir" í b-lið 3. gr. komi: vextir

6. gr.
d-liður 3. gr. orðist svo:
Hvort breytingar geti orðið á vöxtum eða umsömdum gjöldum á samningstímanum.
Ef svo er, skulu neytandanum veittar upplýsingar um það með hvaða hætti breytingar verða
tilkynntar honum. Slíkt má gera með því að vekja sérstaka athygli á breytingunni í
reikningsyfirliti eða með auglýsingum í fjölmiðlum.

7. gr.
Í stað orðsins "endurgjaldi" í a-lið 4. gr. komi: greiðslufresti.

8. gr.
f-liður 4. gr. orðist svo:
Eignarréttarfyrirvari er þegar við kaup á vöru er samið um að lánveitandi sé eigandi
söluvöru þar til andvirði hennar er að fullu greitt samkvæmt lánssamningi og að lánveitandi
geti tekið vöruna til sín ef neytandi stendur ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt
samningnum.
No. 5

9. gr.
Við 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. bætist nýr málsl. er orðist svo:
Þegar lánveitandi er jafnframt seljandi vöru eða þjónustu skal höfuðstóll lánsins
jafngilda staðgreiðsluverði vörunnar eða þjónustunnar.

10. gr.
Í stað orðanna "Árlega nafnvexti" í 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. komi: vexti

11. gr.
Í stað "Lántökukostnað" í 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. komi: Heildarlántökukostnað.

12. gr.
Við 1. mgr. 6. gr. bætist nýr tölul. sem verður 9. tölul.:
Upplýsingar um möguleika til að greiða fyrir lokagjalddaga, sbr. 16. gr.

13. gr.
Í stað orðanna "árlegir nafnvextir" í 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. komi: vextir.

14. gr.
7. gr. breytist þannig að 1. málsl. 1. mgr. verði 1. mgr., 2. málsl. 1. mgr. verði 2.
mgr. og 2. mgr. verði 3. mgr.

15. gr.
10. gr. orðist svo:
Árleg hlutfallstala kostnaðar eru sú hlutfallstala sem jafnar núvirðið af
greiðsluskuldbindingum lánveitanda annars vegar og neytanda hins vegar samkvæmt
lánssamningi þeirra. Árlegri hlutfallstölu kostnaðar skal lýst sem árlegri prósentu af
upphæð höfuðstóls lánsins. Hún skal reiknuð út í samræmi við stærðfræðilíkingu sem
nánar er mælt fyrir um í reglugerð er ráðherra setur.

16. gr.
1. mgr. 12. gr. orðist svo:
Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu, breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum
sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar en ekki er unnt að meta hverju nemi á
þeim tíma sem útreikningur er gerður skal reikna dt árlega hlutfallstölu kostnaðar á-þeirri^
forsendu að verðtrygging, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans.

17. gr.
[Auglýsingar]

18. gr.
1. og 2. mgr. 14. gr. orðist svo:
Nií em vextir eða annar lántökukostnaður ekki tilgreindur í lánssamningi og er
lánveitanda þá eigi heimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra. Að öðru leyti fer um
vexti af neytendalánum samkvæmt ákvæðum vaxtalaga.
Ef heildarlántökukostnaður er tilgreindur í samræmi við 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. er
lánveitanda eigi heimilt að krefjast greiðslu frekarí lántökukostnaðar. Sé árleg hlutfallstala
kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast
heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar.

19. gr.
No. 5

16. gr. orðist svo:


Neytanda skal heimilt að standa skil á skuldbindingum sínum samkvæmt
lánssamningi fyrir þann tíma sem umsaminn er. Notfæri neytandi sér heimild þessa á hann
rétt á lækkun á heildarlánskostnaði sem nemur þeim vöxtum og öðrum gjöldum sem greiða
átti eftir greiðsludag. Ekki er hægt að krefjast endurgreiðslu á gjöldum sem eru óháð því
hvenær greiðsla er innt af hendi.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við um greiðslu sem innt er af hendi fyrir gjalddaga þegar
hún tengist ekki uppgreiðslu láns fyrir umsaminn lokagjalddaga eða annarri breytingu á
umsömdum afborgunum láns.

20. gr.
Í stað orðsins "kröfu" í fyrri málslið 1. mgr. 17. gr. komi: kröfurétt sinn samkvæmt
láni sem veitt er samkvæmt lögum þessum.

21. gr.
Orðin "þar til uppgjör hefur farið fram" í fyrri málslið 3. mgr. 17. gr. falli brott.

22. gr.
[Síðari málsl. 3. mgr. 17. gr.]

23. gr.
18. gr. orðist svo:
Lánveitandi, sem veiti lán með því að taka við útgefnu viðskiptabréfi frá neytenda
við kaup á vöru eða þjónustu, skal hafa keypt ábyrgðartryggingu hjá vátryggingarfélagi,
aflað sér bankatryggingar eða leggja fram aðra tryggingu, sem ráðherra metur gilda, að
fjárhæð 5.000.000 kr. vegna hugsanlegra vanefndakrafna neytenda vegna þeirra viðskipta
sem að baki viðskiptabréfum standa.
Seljendur vöru og þjónustu, sem hafa rekstrartryggingu, starfsábyrgðartryggingu eða
aðra hliðstæða vátryggingu er veitir neytendum hliðstæða vernd og trygging skv. 1. mgr.
skulu undanþegnir kröfu 1. mgr. um sérstaka tryggingu.
Nánari skilyrði um fjárhæð tryggingar og lágmarksskilmála skulu ákveðin með
reglugerð. Í henni er heimilt að kveða á um lægri tryggingarfjárhæð en þá sem greinir í
1. mgr. þegar umfang viðskipta er það takmarkað að lægri fjárhæð veitir nægjanlega vernd.

24. gr.
21. gr. orðist svo:
Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða
nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð.

25. gr.
Heiti VII. kafla verði: Bótaskylda, eftirlit og gildistaka.

26. gr.
Ný grein bætist við og verði 25. gr. Tölusetning annarra greina breytist samkvæmt
því. Greinin orðast svo:
Samkeppnisstofnun annast eftirlit með ákvæðum laga þessara.

27. gr.
25. gr. (sem verður 26. gr.) orðist svo:
No. 5

Brot gegn lögum þessum, reglugerðum eða reglum settum samkvæmt þeim skulu
varða sektum nema þyngri refsing liggi við í öðrum lögum. Um meðferð slíkra mála skal
fara með hætti opinberra mála.
Gera má lögaðila að greiða sektir þó svo að sök sannist ekki á neinn tiltekinn
starfsmann lögaðilans ef sýnt þykir að einhver starfsmaður lögaðilans hafi gerst brotlegur
við ákvæði laga þessara.

28. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 30/1993,
um neytendalán, og gefa þau út svo breytt.

A t h u g a s e m d i r við l a g a f r u m v a r p þetta.
Lög nr. 30/1993, um neytendalán, voru samþykkt á Alþingi í apríl 1993. Þau tóku
gildi 1. október 1993. Megintilgangur laganna er að tryggja neytendum sem taka lán í
tengslum við kaup á vöru og þjónustu ákveðin lágmarksréttindi og ákveðnar
lágmarksupplýsingar áður en þeir taka ákvörðun um lántökuna. Setning laganna var liður
í aðlögun íslenskrar löggjafar að evrópskum rétti í tengslum við aðild Íslands að Evrópsku
efnahagssvæði.
Við gildistöku laga nr. 30/1993 1. október 1993 komu strax í ljós ýmis vandkvæði
við framkvæmd þeirra. Skipta þar mestu máli óljós ákvæði 18. gr. laganna um tryggingu
vegna vanefndakrafna í tengslum við framsal viðskiptabréfa. Þá er notkun hugtaka í
ýmsum ákvæðum laganna ónákvæm og ekki að fullu samræmd innan laganna. Einnig má
nefna að ákvæði vantar um eftirlit með framkvæmd laganna. Loks er ráðherra ekki veitt
almenn heimild til að útfæra nánar ákvæði laganna en í ljós hefur komið að full þörf er
á slíkri heimild.
Viðskiptaráðuneytið fól starfshópi í byrjun nóvember 1993 að fara yfir þau ákvæði
laganna sem valdið hafa vandkvæðum í framkvæmd frá því að þau tóku gildi. Í
starfshópnum voru Benedikt Guðbjartsson lögfræðingur, fyrir hönd banka og sparisjóða,
Jónas Fr. Jónsson lögfræðingur, fyrir hönd Verslunarráðs Íslands, María Thejll lögfræðingur,
fyrir hönd íslenskrar verslunar, Sigurjón Heiðarsson lögfræðingur, fyrir hönd
Samkeppnisstofnunar, Sólrún Halldórsdóttir hagfræðingur, fyrir hönd Neytendasamtakanna,
og Finnur Sveinbjörnsson skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu og var hann jafnframt
formaður hópsins. Gunnar Viðar lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu starfaði með hópnum.
Auk frumvarps þessa samdi starfshópurinn drög að nýrri reglugerð um neytendalán
í stað reglugerðar nr. 377/1993.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.
Í gildandi lögum er í raun kveðið á um vildargjörninga á tveimur stöðum, í b-lið
2. gr. og 21. gr. Hér er lagt til að ákvæðin verði sameinuð í b-lið 2. gr. þannig að í 2.
gr. komi fram allir þeir lánssamningar sem undanþegnir eru ákvæðum laganna. Ljóst er
samkvæmt 6. gr. að lánssamningar sem gerðir eru við kaup á vöru eða þjónustu á
grundvelli afborganaverðs en ekki staðgreiðsluverð eru ekki undanþegnir ákvæðum laganna
þótt þeir séu vaxtalausir og án annars kostnaðar.

Um 2. gr.
[...]

Um 3. gr.
No. 5

Hugtakið "heimild til fyrirframúttektar" er óalgengt og því er lagt til að hugtakið


"yfírdráttarheimild" verði notað í staðinn.

Um 4. gr.
Samningar um yfirdráttarheimildir eru iðulega framlengdir oftar en einu sinni og
samningsfjárhæð jafnvel breytt. Þetta gerist oft símleiðis. Þykir eðlilegt að þær
upplýsingar sem kveðið er á um í greininni séu veittar í upphafi viðskipta en ekki í hvert
sinn sem samningurinn er framlengdur eða honum breytt. Til að taka af öll tvímæli er lagt
til að orðalagi ákvæðisins verði breytt.

Um 5. gr.
Í gildandi lögum eru notuð ýmis hugtök yfir vexti, t.d. ársvextir í b-lið 3. gr., árlegir
nafnvextir í 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. og vextir í 1. mgr. 7. gr. Nú er lagt til að notkun
hugtaka verði samræmd þannig að hugtakið vextir verði notað alls staðar. Þar er þá átt
við vaxtafót lánsins, hvort sem um er að ræða óverðtryggt eða verðtryggt lán. Ef þörf
krefur má útfæra vaxtahugtakið betur í reglugerð.

Um 6. gr.
Hér er lagt til að tvær efnislegar breytingar verði gerðar á ákvæðinu. Í fyrsta lagi
að neytanda sé tilkynnt við upphaf viðskipta hvort vextir og umsamin gjöld geti tekið
breytingum á samningstímanum og þá með hvaða hætti honum verður tilkynnt um slíkar
breytingar. Ekki er kveðið á um þetta í núgildandi lögum heldur aðeins hvernig
tilkynningum um breytingar skuli háttað. Varðandi tilkynningarskylduna er lagt til að
auglýsing í fjölmiðlum þurfi ekki að vera áberandi, enda ávallt matsatriði hvað telst vera
áberandi auglýsing.

Um 7. gr.
Í lögunum er fjallað um lánsviðskipti, þar á meðal kaup á vöru og þjónustu gegn
greiðslufresti. Hér er lagt til að röng hugtakanotkun verði leiðrétt.

Um 8. gr.
Hér er lagt til að í skilgreiningu á eignarréttarfyrirvara komi skýrt fram að
lánveitandi sé eigandi söluvöru þar til andvirði hennar er að fullu greitt samkvæmt
lánssamningi. Er þetta í samræmi við það sem þekkst hefur.

Um 9. gr.
Fram hefur komið mismunandi skilningur á því hvort við úrtreikning árlegrar
hlutfallstölu kostnaðar og frágang lánssamninga skuli miðað við staðgreiðsluverð eða
afborganaverð. Við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar skiptir miklu máli við hvort
verðið er miðað. Þannig verður hún hærri ef notað er staðgreiðsluverð og lántökukostnaður
tiltekinn sérstaklega en ef notað er afborganaverð, þ.e. staðgreiðsluverð að meðtöldum
lántökukostnaði. Hér er lagt til að skýrt verði kveðið á um það að höfuðstóll skuli
miðaður við staðgreiðsluverð þegar um er að ræða lánveitingu í tengslum við kaup á vöru
eða þjónustu. Samkvæmt þessu á lántökukostnaður ávallt að koma sérstaklega fram en ekki
vera innfalinn í verði vöru eða þjónustu.

Um 10. gr.
Um athugasemdir við þessa grein vísast til athugasemda við 5. gr. frumvarpsins.

Um 11. gr.
Með breytingunni er verið að samræma notkun hugtaka í 6. gr. laganna.
No. 5

Um 12. gr.
Eðlilegt þykir að neytanda skuli veittar upplýsingar um rétt sinn til að greiða fyrir
gjalddaga skv. 16. gr.

Um 13. gr.
Um athugasemdir við þessa grein vísast til athugasemda við 5. gr. frumvarpsins.

Um 14. gr.
Af orðalagi 1. málsl. 1. mgr. er ljóst að málsgreinin hefur í raun átt að vera tvær
málsgreinar.

Um 15. gr.
Árleg hlutfallstala kostnaðar er í rauninni sá vaxtafótur sem jafnar núvirðið að
greiðsluskuldbindingum lánveitanda, sem oftast felst í útborgun höfuðstólsins þegar lán er
tekið, og greiðsluskuldbindingum neytanda, sem felast í greiðslu afborgana, vaxta og
annarra gjalda á lánstímanum. Núvirði skiptir máli þar sem lánveiting og afborgun láns
og greiðsla vaxta falla til á ólíkum tíma. Þetta hugtak hefur einnig verið nefnt virkir
vextir. Þetta er ekki ljóst af núgildandi orðalagi ákvæðisins. Jafnframt er lagt til að niður
falli ákvæði um að í reglugerðinni um stærðfræðilíkingu skuli settar nánari reglur um
útreikning kostnaðar, enda ákvæðið óþarft í ljósi þess að í xx. gr. er lagt til að við lögin
bætist almenn reglugerðarheimild.

Um 16. gr.
Hér er lagt til að orðalag ákvæðisins verði gert skýrara.

[...]

Um 18. gr.
Í núgildandi 1. mgr. 14. gr. er kveðið á um að ef vextir eru ekki tilgreindir skuli
þeir vera hinir sömu og vextir af almennum skuldabréfum samkvæmt auglýsingu
Seðlabanka Íslands. Þetta stríðir gegn þeirri meginreglu vaxtalaga að vextir skuli einungis
reiknaðir ef um þá er samið. Því er lagt til að sú breyting verði á ákvæðinu að ef ekki
er kveðið á um vaxtatöku í lánssamningi þá skuli vextir ekki reiknaðir af láninu. Sama
gildir um annan lántökukostnað.
2. mgr. þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að lagt er til að orðalag 2. málsl.
verði skýrara en í núgildandi lögum.

Um 19. gr.
Í lögunum eru neytanda tryggð þau réttindi að geta greitt af láni sínu hraðar en
kveðið er á um í lánssamningi. Í þeim tilvikum getur hann krafist lækkunar á lánskostnaði
sem svarar til þess sem greiða átti eftir greiðsludag. Ekki er gerður greinarmunur á því
hvort lán er greitt upp fyrir lokagjalddaga eða greitt "inn á skuld" þannig að eftirstöðvar
lækki frá því sem gert er ráð fyrir í lánssamningi. Hér er lagt til að orðalag ákvæðisins
verði gert skýrara með því að fella brott hugtakið lausnardagur. Jafnframt er lagt til að
kveðið verði á um að neytandi eigi rétt á lækkun lánskostnaðar í stað þess að hann geti
krafist lækkunarinnar eins og gert er ráð fyrir í núgildandi ákvæði. Þar með ber
lánveitanda að veita neytandanum þessa lækkun án þess að neytandinn þurfi sértaklega að
óska eftir henni.
No. 5

Þá er lagt til að við greinina bætist ný málsgrein. Með henni er verið að taka af
allan vafa um að ákvæði 1. mgr. eigi einungis við þegar greiðsla neytanda verður til þess
að breyting verður á umsömdum afborgunum láns, annað hvort að þær falli niður í þeim
tilvikum að lán er greitt upp fyrir lokagjalddaga eða lækki í þeim tilvikum að greitt er "inn
á skuld". Þannig gildir ákvæðið ekki um þau tilvik þegar neytandi greiðir af láni nokkrum
dögum fyrir reglulegan gjalddaga án þess að breytingar séu gerðar á þeim afborgunum sem
eftir eru.

Um 20. gr.
Hér er lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt þannig að það fari ekki á milli
mála að það taki ekki til framsals á öllum kröfum lánveitanda til þriðja aðila heldur
einungis framsals á kröfurétti samkvæmt láni sem veitt er samkvæmt lögum þessum, þ.e.
neytendaláni.

Um 21. gr.
Orðalagið "þar til uppgjör hefur farið fram" í 3. mgr. 17. gr. er bæði óljóst og
óþörf viðbót við ákvæðið.

Um 22. gr.
[...]

Um 23. gr.
Í frumvarpinu sem lagt var fram á 116. löggjafarþingi og varð að lögum um
neytendalán var gert ráð fyrir að neytendalán með viðskiptabréfum heyrðu sögunni til.
Alþingi féllst ekki á þetta sjónarmið. Þess í stað var ákveðið að viðskiptabréf skyldu
undanþegin ákvæði 17. gr. laganna um möguleika neytanda til að halda uppi mótbárum við
framsalshafa og meðábyrgð framsalshafa og lánveitanda. Þess háttar aðskilnaður er
forsenda fyrir því að bankar og aðrar lánastofnanir vilji kaupa viðskiptabréf af seljendum
vöru og þjónustu. Til að tryggja rétt neytenda var hins vegar ákveðið að seljendur vöru
eða þjónustu sem veita lán í formi viðskiptabréfa skuli taka tryggingu til að mæta
hugsanlegum vanefndakröfum neytenda vegna þeirra viðskipta sem að baki slíkum bréfum
standa.
[Hér varð höfundur að stoppa í bili!!]

g:\efnah\frumvorp\neytlan.wp
No. 6
No. 6
Page 1 of 8

Neytendalán - niðurstaða
Verðtryggt neytendalán með jöfnum greiðslum (annuitetslán) - greiðsluáætlun (Skuldabréf nr. )

Afb. nr. Gjalddagi Eftirstöðvar Afborgun Vextir Kostnadur Samtals greitt


1 21.10.2004 13.300.000 10.341 46.550 430 57.321
2 21.11.2004 13.289.659 10.377 46.514 430 57.321
3 21.12.2004 13.279.282 10.414 46.477 430 57.321
4 21.01.2005 13.268.868 10.450 46.441 430 57.321
5 21.02.2005 13.258.418 10.487 46.404 430 57.321
6 21.03.2005 13.247.932 10.523 46.368 430 57.321
7 21.04.2005 13.237.408 10.560 46.331 430 57.321
8 21.05.2005 13.226.848 10.597 46.294 430 57.321
9 21.06.2005 13.216.251 10.634 46.257 430 57.321
10 21.07.2005 13.205.617 10.671 46.220 430 57.321
11 21.08.2005 13.194.946 10.709 46.182 430 57.321
12 21.09.2005 13.184.237 10.746 46.145 430 57.321
13 21.10.2005 13.173.491 10.784 46.107 430 57.321
14 21.11.2005 13.162.707 10.822 46.069 430 57.321
15 21.12.2005 13.151.885 10.859 46.032 430 57.321
16 21.01.2006 13.141.026 10.897 45.994 430 57.321
17 21.02.2006 13.130.128 10.936 45.955 430 57.321
18 21.03.2006 13.119.193 10.974 45.917 430 57.321
19 21.04.2006 13.108.219 11.012 45.879 430 57.321
20 21.05.2006 13.097.207 11.051 45.840 430 57.321
21 21.06.2006 13.086.156 11.089 45.802 430 57.321
22 21.07.2006 13.075.066 11.128 45.763 430 57.321
23 21.08.2006 13.063.938 11.167 45.724 430 57.321
24 21.09.2006 13.052.771 11.206 45.685 430 57.321
25 21.10.2006 13.041.565 11.246 45.645 430 57.321
26 21.11.2006 13.030.319 11.285 45.606 430 57.321
27 21.12.2006 13.019.034 11.324 45.567 430 57.321
28 21.01.2007 13.007.710 11.364 45.527 430 57.321
29 21.02.2007 12.996.346 11.404 45.487 430 57.321
30 21.03.2007 12.984.942 11.444 45.447 430 57.321
31 21.04.2007 12.973.498 11.484 45.407 430 57.321
32 21.05.2007 12.962.014 11.524 45.367 430 57.321
33 21.06.2007 12.950.490 11.564 45.327 430 57.321
34 21.07.2007 12.938.926 11.605 45.286 430 57.321
35 21.08.2007 12.927.321 11.645 45.246 430 57.321
36 21.09.2007 12.915.676 11.686 45.205 430 57.321
37 21.10.2007 12.903.990 11.727 45.164 430 57.321
38 21.11.2007 12.892.263 11.768 45.123 430 57.321
39 21.12.2007 12.880.494 11.809 45.082 430 57.321
40 21.01.2008 12.868.685 11.851 45.040 430 57.321
41 21.02.2008 12.856.834 11.892 44.999 430 57.321
42 21.03.2008 12.844.942 11.934 44.957 430 57.321
43 21.04.2008 12.833.009 11.976 44.916 430 57.321
44 21.05.2008 12.821.033 12.017 44.874 430 57.321
45 21.06.2008 12.809.016 12.059 44.832 430 57.321
46 21.07.2008 12.796.956 12.102 44.789 430 57.321
47 21.08.2008 12.784.855 12.144 44.747 430 57.321
48 21.09.2008 12.772.711 12.187 44.704 430 57.321
49 21.10.2008 12.760.524 12.229 44.662 430 57.321
50 21.11.2008 12.748.295 12.272 44.619 430 57.321
51 21.12.2008 12.736.023 12.315 44.576 430 57.321
52 21.01.2009 12.723.708 12.358 44.533 430 57.321
53 21.02.2009 12.711.350 12.401 44.490 430 57.321
54 21.03.2009 12.698.948 12.445 44.446 430 57.321
55 21.04.2009 12.686.504 12.488 44.403 430 57.321
56 21.05.2009 12.674.015 12.532 44.359 430 57.321
57 21.06.2009 12.661.483 12.576 44.315 430 57.321
58 21.07.2009 12.648.908 12.620 44.271 430 57.321
59 21.08.2009 12.636.288 12.664 44.227 430 57.321
60 21.09.2009 12.623.624 12.708 44.183 430 57.321
61 21.10.2009 12.610.915 12.753 44.138 430 57.321

.09.2004
No. 6
Page 8 of 8

464 21.05.2043 1.359.552 52.133 4.758 430 57.321


465 21.06.2043 1.307.419 52.315 4.576 430 57.321
466 21.07.2043 1.255.104 52.498 4.393 430 57.321
467 21.08.2043 1.202.606 52.682 4.209 430 57.321
468 21.09.2043 1.149.924 52.866 4.025 430 57.321
469 21.10.2043 1.097.058 53.051 3.840 430 57.321
470 21.11.2043 1.044.006 53.237 3.654 430 57.321
471 21.12.2043 990.769 53.423 3.468 430 57.321
472 21.01.2044 937.346 53.610 3.281 430 57.321
473 21.02.2044 883.736 53.798 3.093 430 57.321
474 21.03.2044 829.938 53.986 2.905 430 57.321
475 21.04.2044 775.952 54.175 2.716 430 57.321
476 21.05.2044 721.776 54.365 2.526 430 57.321
477 21.06.2044 667.412 54.555 2.336 430 57.321
478 21.07.2044 612.856 54.746 2.145 430 57.321
479 21.08.2044 558.110 54.938 1.953 430 57.321
480 21.09.2044 503.173 55.130 1.761 430 57.321
481 21.10.2044 448.043 55.323 1.568 430 57.321
482 21.11.2044 392.720 55.517 1.375 430 57.321
483 21.12.2044 337.203 55.711 1.180 430 57.321
484 21.01.2045 281.493 55.906 985 430 57.321
485 21.02.2045 225.587 56.101 790 430 57.321
486 21.03.2045 169.485 56.298 593 430 57.321
487 21.04.2045 113.187 56.495 396 430 57.321
488 21.05.2045 56.693 56.693 198 430 57.321
Samtals: 0 13.300.000 14.462.823 209.840 27.972.663

Andvirði skuldabréfs: 12.966.100 kr. Fyrsti vaxtadagur er .9.2004


Heildar lántökukostnaður: 15.006.563 kr. Nafnvextir á ári eru 4,2 %
Verðbætur á ári eru 0 %
Heildar endurgreiðsla: 27.972.663 kr. Árleg hlutfallstala kostnaðar er 4 , 5 2 %

Vanskilakostnaður
Fyrra vanskilagjald - 8 daga vanskil kr. 525
Síðara vanskilagjald - 30 daga vanskil kr. 525
Fyrri milliinnheimta - 45 daga vanskil kr. 2.750
Síðari milliinnheimta - 60 daga kr. 5.500
Lögfræðileg innheimta skv. gjaldskrá
+ dráttarvextir og annar innheimtukostnaður, sbr. ákvæði í skuldabréfi

Athugið að um áætlun er að ræða. Áætlunin er byggð á 0 % verðbólgu, 4,2 % föstum vöxtum á ári og gjaldskrá bankans. S é
skuldabréfið greitt upp fyrir lokagjalddaga á skuldari rétt á lækkun lánskostnaðar er nemur þeim vöxtum eða öðrum kostnaði sem
greiða átti eftir greiðsludag- Ef skuldabréfið er skuldfært af reikningi á gjalddaga greiðist lægra tilkynningar- og greiðslugjald.

Staðfestum með undirritun hér undir, að ofangreindir skilmálar eru hluti af viðfestri skuldarviðurkenningu
sbr. lög nr. 121/1994.

. september 2004
Staður

Undirskrift lántakanda Undirskrift lánveitanda

Prentað af innraneti KB banka þriðjudaginn, september 2004

.09.2004
No. 6

Greiðsluyfirlit
Dráttar
Gjalddagi Greiðsludagur afborgun verðbætur vextir Kostnaður Vansk.gjöld vextir samtals
01.11.2005 02.11.2005 10.784 634 48.819 195 60.432
01.12.2005 02.12.2005 10.822 618 48.701 195 60.336
01.01.2006 03.01.2006 10.859 662 48.837 195 60.553
01.02.2006 02.02.2006 10.897 701 48.954 195 60.747
01.03.2006 02.03.2006 10.936 695 48.874 195 60.700
01.04.2006 03.04.2006 10.974 828 49.382 225 61.409
01.05.2006 02.05.2006 11.012 967 49.907 225 62.111
01.06.2006 01.06.2006 11.051 1.145 50.588 225 63.009
01.07.2006 03.07.2006 11.089 1.290 51.131 225 63.735
01.08.2006 01.08.2006 11.128 1.352 51.322 225 64.027
01.09.2006 01.09.2006 11.167 1.399 51.454 225 64.245
01.10.2006 02.10.2006 11.206 1.481 51.721 225 64.633
01.11.2006 01.11.2006 11.246 1.515 51.794 225 64.780
01.12.2006 01.12.2006 11.285 1.515 51.730 225 64.755
01.01.2007 03.01.2007 11.324 1.525 51.704 225 64.778
01.02.2007 01.02.2007 11.364 1.565 51.795 225 64.949
01.03.2007 01.03.2007 11.404 1.624 51.750 510 0 65.288
01.04.2007 03.04.2007 11.444 1.585 51.743 225 0 64.997
01.05.2007 01.05.2007 11.484 1.669 52.007 225 0 65.385
01.06.2007 01.06.2007 11.524 1.788 52.406 225 0 65.943
01.07.2007 02.07.2007 11.564 1.863 52.630 225 0 66.282
01.08.2007 01.08.2007 11.605 1.900 52.699 225 0 66.429
01.09.2007 03.09.2007 11.645 1.911 52.671 225 0 66.452
01.10.2007 12.10.2007 11.686 2.097 53.317 225 595 513 68.433
01.11.2007 01.11.2007 11.727 2.174 53.538 225 0 67.664
01.12.2007 07.12.2007 11.768 2.272 53.836 225 283 68.384
01.01.2008 01.01.2008 11.809 2.376 54.152 225 0 68.562
01.02.2008 01.02.2008 11.851 2.425 54.256 225 0 68.757
01.03.2008 03.03.2008 11.892 2.418 54.148 225 0 68.683
01.04.2008 01.04.2008 11.934 2.625 54.846 225 0 69.630
01.05.2008 01.05.2008 11.976 2.849 55.599 225 0 70.649
01.06.2008 02.06.2008 12.017 3.365 57.441 225 0 73.048
01.07.2008 01.07.2008 12.059 3.588 58.170 225 0 74.042
01.08.2008 01.08.2008 12.102 3.740 58.631 225 0 74.698
01.09.2008 01.09.2008 12.144 3.903 59.129 225 0 75.401
01.10.2008 01.10.2008 12.187 4.062 59.606 225 0 76.080
01.11.2008 03.11.2008 12.229 4.217 60.063 225 0 76.734
01.12.2008 01.12.2008 12.272 4.588 61.299 225 0 78.384
01.01.2009 01.01.2009 12.315 4.898 62.304 225 0 79.742
01.02.2009 02.02.2009 12.358 5.178 63.193 200 0 80.929
01.03.2009 11.05.2009 12.401 5.297 63.492 200 9.650 3.823 94.863
01.04.2010 09.07.2010 12.966 14.376 46.309 200 3.650 3.161 80.662
01.05.2010 09.07.2010 13.012 14.453 46.264 200 650 2.181 76.760
01.06.2010 09.07.2010 13.057 14.759 46.218 200 650 1.203 76.087
01.07.2010 09.07.2010 13.103 15.448 46.172 100 249 75.072
No. 7
No. 7

Fylgiskjal skuldabréfs - sundurliðun afborgana


ATH. útreikningur og sundurliðun afborgana er án verðbóta.

Númer Gjalddagi Afborgun Verðbætur Vextir Kostnaður Samtals


1 2.5.2005 6.845 0 52.290 690 59.825
2 2.6.2005 6.868 0 29.026 690 36.584
3 2.7.2005 6.892 0 29.003 690 36.585
4 2.8.2005 6.916 0 28.979 690 36.585
5 2.9.2005 6.940 0 28.955 690 36.585
6 2.10.2005 6.964 0 28.931 690 36.585
7 2.11.2005 6.988 0 28.907 690 36.585
8 2.12.2005 7.012 0 28.883 690 36.585
9 2.1.2006 7.036 0 28.858 690 36.584
10 2.2.2006 7.061 0 28.834 690 36.585
11 2.3.2006 7.085 0 28.810 690 36.585
12 2.4.2006 7.109 0 28.785 690 36.584
13 2.5.2006 7.134 0 28.760 690 36.584
14 2.6.2006 7.159 0 28.736 690 36.585
15 2.7.2006 7.183 0 28.711 690 36.584
16 2.8.2006 7.208 0 28.686 690 36.584
17 2.9.2006 7.233 0 28.661 690 36.584
18 2.10.2006 7.258 0 28.636 690 36.584
19 2.11.2006 7.283 0 28.611 690 36.584
20 2.12.2006 7.309 0 28.586 690 36.585
21 2.1.2007 7.334 0 28.561 690 36.585
22 2.2.2007 7.359 0 28.535 690 36.584
23 2.3.2007 7.385 0 28.510 690 36.585
24 2.4.2007 7.410 0 28.484 690 36.584
25 2.5.2007 7.436 0 28.459 690 36.585
26 2.6.2007 7.462 0 28.433 690 36.585
27 2.7.2007 7.487 0 28.407 690 36.584
28 2.8.2007 7.513 0 28.381 690 36.584
29 2.9.2007 7.539 0 28.355 690 36.584
30 2.10.2007 7.565 0 28.329 690 36.584
31 2.11.2007 7.591 0 28.303 690 36.584
32 2.12.2007 7.618 0 28.277 690 36.585
33 2.1.2008 7.644 0 28.250 690 36.584
34 2.2.2008 7.670 0 28.224 690 36.584
35 2.3.2008 7.697 0 28.198 690 36.585
36 2.4.2008 7.724 0 28.171 690 36.585
37 2.5.2008 7.750 0 28.144 690 36.584
38 2.6.2008 7.777 0 28.117 690 36.584
39 2.7.2008 7.804 0 28.091 690 36.585
40 2.8.2008 7.831 0 28.064 690 36.585
41 2.9.2008 7.858 0 28.036 690 36.584
42 2.10.2008 7.885 0 28.009 690 36.584
43 2.11.2008 7.913 0 27.982 690 36.585
44 2.12.2008 7.940 0 27.955 690 36.585
45 2.1.2009 7.967 0 27.927 690 36.584
46 2.2.2009 7.995 0 27.900 690 36.585
47 2.3.2009 8.023 0 27.872 690 36.585
48 2.4.2009 8.050 0 27.844 690 36.584
49 2.5.2009 8.078 0 27.816 690 36.584
50 2.6.2009 8.106 0 27.788 690 36.584
51 2.7.2009 8.134 0 27.760 690 36.584
52 2.8.2009 8.162 0 27.732 690 36.584
53 2.9.2009 8.190 0 27.704 690 36.584
54 2.10.2009 8.219 0 27.676 690 36.585

Samtals 405.599 1.555.942 37.260 1.998.801


No. 7

Númer Gjalddagi Afborgun Verðbætur Vextir Kostnaður Samtals


55 2.11.2009 8.247 0 27.647 690 36.584
56 2.12.2009 8.276 0 27.619 690 36.585
57 2.1.2010 8.304 0 27.590 690 36.584
58 2.2.2010 8.333 0 27.561 690 36.584
59 2.3.2010 8.362 0 27.533 690 36.585
60 2.4.2010 8.391 0 27.504 690 36.585
61 2.5.2010 8.420 0 27.475 690 36.585
62 2.6.2010 8.449 0 27.446 690 36.585
63 2.7.2010 8.478 0 27.416 690 36.584
6-1 2.8.2010 8.507 0 27.387 690 36.584
65 2.9.2010 8.537 0 27.358 690 36.585
66 2.10.2010 8.566 0 27.328 690 36.584
67 2.11.2010 8.596 0 27.298 690 36.584
68 2.12.2010 8.626 0 27.269 690 36.585
69 2.1.2011 8.656 0 27.239 690 36.585
70 2.2.2011 8.686 0 27.209 690 36.585
71 2.3.2011 8.716 0 27.179 690 36.585
72 2.4.2011 8.746 0 27.149 690 36.585
73 2.5.2011 8.776 0 27.119 690 36.585
74 2.6.2011 8.806 0 27.088 690 36.584
75 2.7.2011 8.837 0 27.058 690 36.585
76 2.8.2011 8.867 0 27.027 690 36.584
77 2.9.2011 8.898 0 26.997 690 36.585
78 2.10.2011 8.929 0 26.966 690 36.585
79 2.11.2011 8.960 0 26.935 690 36.585
80 2.12.2011 8.991 0 26.904 690 36.585
81 2.1.2012 9.022 0 26.873 690 36.585
82 2.2.2012 9.053 0 26.842 690 36.585
83 2.3.2012 9.084 0 26.810 690 36.584
84 2.4.2012 9.116 0 26.779 690 36.585
85 2.5.2012 9.147 0 26.747 690 36.584
86 2.6.2012 9.179 0 26.716 690 36.585
87 2.7.2012 9.211 0 26.684 690 36.585
88 2.8.2012 9.242 0 26.652 690 36.584
89 2.9.2012 9.274 0 26.620 690 36.584
90 2.10.2012 9.306 0 26.588 690 36.584
91 2.11.2012 9.339 0 26.556 690 36.585
92 2.12.2012 9.371 0 26.524 690 36.585
93 2.1.2013 9.403 0 26.491 690 36.584
94 2.2.2013 9.436 0 26.459 690 36.585
95 2.3.2013 9.469 0 26.426 690 36.585
96 2.4.2013 9.501 0 26.393 690 36.584
97 2.5.2013 9.534 0 26.360 690 36.584
98 2.6.2013 9.567 0 26.327 690 36.584
99 2.7.2013 9.600 0 26.294 690 36.584
100 2.8.2013 9.633 0 26.261 690 36.584
101 2.9.2013 9.667 0 26.228 690 36.585
102 2.10.2013 9.700 0 26.194 690 36.584
103 2.11.2013 9.734 0 26.161 690 36.585
104 2.12.2013 9.767 0 26.127 690 36.584
105 2.1.2014 9.801 0 26.093 690 36.584
106 2.2.2014 9.835 0 26.060 690 36.585
107 2.3.2014 9.869 0 26.026 690 36.585
108 2.4.2014 9.903 0 25.991 690 36.584
109 2.5.2014 9.937 0 25.957 690 36.584
110 2.6.2014 9.972 0 25.923 690 36.585
111 2.7.2014 10.006 0 25.888 690 36.584
112 2.8.2014 10.041 0 25.854 690 36.585
113 2.9.2014 10.076 0 25.819 690 36.585

Samtals 944.354 3.134.966 77.970 4.157.290


No. 7

Númer Gjalddagi Afborgun Verðbætur Vextir Kostnaður Samtals


114 2.10.2014 10.110 0 25.784 690 36.584
115 2.11.2014 10.145 0 25.749 690 36.584
116 2.12.2014 10.180 0 25.714 690 36.584
117 2.1.2015 10.216 0 25.679 690 36.585
118 2.2.2015 10.251 0 25.644 690 36.585
119 2.3.2015 10.286 0 25.608 690 36.584
120 2.4.2015 10.322 0 25.572 690 36.584
121 2.5.2015 10.358 0 25.537 690 36.585
122 2.6.2015 10.394 0 25.501 690 36.585
123 2.7.2015 10.429 0 25.465 690 36.584
124 2.8.2015 10.466 0 25.429 690 36.585
125 2.9.2015 10.502 0 25.393 690 36.585
126 2.10.2015 10.538 0 25.356 690 36.584
127 2.11.2015 10.575 0 25.320 690 36.585
128 2.12.2015 10.611 0 25.283 690 36.584
129 2.1.2016 10.648 0 25.247 690 36.585
130 2.2.2016 10.685 0 25.210 690 36.585
131 2.3.2016 10.722 0 25.173 690 36.585
132 2.4.2016 10.759 0 25.136 690 36.585
133 2.5.2016 10.796 0 25.099 690 36.585
134 2.6.2016 10.833 0 25.061 690 36.584
135 2.7.2016 10.871 0 25.024 690 36.585
136 2.8.2016 10.908 0 24.986 690 36.584
137 2.9.2016 10.946 0 24.949 690 36.585
138 2.10.2016 10.984 0 24.911 690 36.585
139 2.11.2016 11.022 0 24.873 690 36.585
140 2.12.2016 11.060 0 24.835 690 36.585
141 2.1.2017 11.098 0 24.796 690 36.584
142 2.2.2017 11.137 0 24.758 690 36.585
143 2.3.2017 11.175 0 24.719 690 36.584
144 2.4.2017 11.214 0 24.681 690 36.585
145 2.5.2017 11.252 0 24.642 690 36.584
146 2.6.2017 11.291 0 24.603 690 36.584
147 2.7.2017 11.330 0 24.564 690 36.584
148 2.8.2017 11.370 0 24.525 690 36.585
149 2.9.2017 11.409 0 24.486 690 36.585
150 2.10.2017 11.448 0 24.446 690 36.584
151 2.11.2017 11.488 0 24.407 690 36.585
152 2.12.2017 11.528 0 24.367 690 36.585
153 2.1.2018 11.568 0 24.327 690 36.585
154 2.2.2018 11.608 0 24.287 690 36.585
155 2.3.2018 11.648 0 24.247 690 36.585
156 2.4.2018 11.688 0 24.206 690 36.584
157 2.5.2018 11.728 0 24.166 690 36.584
158 2.6.2018 11.769 0 24.126 690 36.585
159 2.7.2018 11.810 0 24.085 690 36.585
160 2.8.2018 11.851 0 24.044 690 36.585
161 2.9.2018 11.892 0 24.003 690 36.585
162 2.10.2018 11.933 0 23.962 690 36.585
163 2.11.2018 11.974 0 23.921 690 36.585
164 2.12.2018 12.015 0 23.879 690 36.584
165 2.1.2019 12.057 0 23.838 690 36.585
166 2.2.2019 12.099 0 23.796 690 36.585
167 2.3.2019 12.140 0 23.754 690 36.584
168 2.4.2019 12.182 0 23.712 690 36.584
169 2.5.2019 12.225 0 23.670 690 36.585
170 2.6.2019 12.267 0 23.628 690 36.585
171 2.7.2019 12.309 0 23.585 690 36.584
172 2.8.2019 12.352 0 23.543 690 36.585

Samtals 1.604.826 4.592.277 118.680 6.315.783


No. 7

Númer Gjalddagi Afborgun Verðbætur Vextir Kostnaður Samtals


173 2.9.2019 12.395 0 23.500 690 36.585
174 2.10.2019 12.437 0 23.457 690 36.584
175 2.11.2019 12.480 0 23.414 690 36.584
176 2.12.2019 12.524 0 23.371 690 36.585
177 2.1.2020 12.567 0 23.328 690 36.585
178 2.2.2020 12.610 0 23.284 690 36.584
179 2.3.2020 12.654 0 23.241 690 36.585
180 2.4.2020 12.698 0 23.197 690 36.585
181 2.5.2020 12.742 0 23.153 690 36.585
182 2.6.2020 12.786 0 23.109 690 36.585
183 2.7.2020 12.830 0 23.065 690 36.585
184 2.8.2020 12.874 0 23.020 690 36.584
1S5 2.9.2020 12.919 0 22.976 690 36.585
186 2.10.2020 12.963 0 22.931 690 36.584
187 2.11.2020 13.008 0 22.886 690 36.584
188 2.12.2020 13.053 0 22.841 690 36.584
1 89 2.1.2021 13.098 0 22.796 690 36.584
190 2.2.2021 13.144 0 22.751 690 36.585
191 2.3.2021 13.189 0 22.705 690 36.584
192 2.4.2021 13.235 0 22.660 690 36.585
193 2.5.2021 13.281 0 22.614 690 36.585
194 2.6.2021 13.327 0 22.568 690 36.585
195 2.7.2021 13.373 0 22.522 690 36.585
196 2.8.2021 13.419 0 22.476 690 36.585
197 2.9.2021 13.465 0 22.429 690 36.584
198 2.10.2021 13.512 0 22.383 690 36.585
199 2.11.2021 13.559 0 22.336 690 36.585
200 2.12.2021 13.605 0 22.289 690 36.584
201 2.1.2022 13.652 0 22.242 690 36.584
202 2.2.2022 13.700 0 22.195 690 36.585
203 2.3.2022 13.747 0 22.147 690 36.584
204 2.4.2022 13.795 0 22.100 690 36.585
205 2.5.2022 13.842 0 22.052 690 36.584
206 2.6.2022 13.890 0 22.004 690 36.584
207 2.7.2022 13.938 0 21.956 690 36.584
208 2.8.2022 13.986 0 21.908 690 36.584
209 2.9.2022 14.035 0 21.860 690 36.585
210 2.10.2022 14.083 0 21.811 690 36.584
211 2.11.2022 14.132 0 21.762 690 36.584
212 2.12.2022 14.181 0 21.714 690 36.585
213 2.1.2023 14.230 0 21.665 690 36.585
214 2.2.2023 14.279 0 21.615 690 36.584
215 2.3.2023 14.329 0 21.566 690 36.585
216 2.4.2023 14.378 0 21.516 690 36.584
217 2.5.2023 14.428 0 21.467 690 36.585
218 2.6.2023 14.478 0 21.417 690 36.585
219 2.7.2023 14.528 0 21.367 690 36.585
220 2.8.2023 14.578 0 21.316 690 36.584
221 2.9.2023 14.628 0 21.266 690 36.584
222 2.10.2023 14.679 0 21.215 690 36.584
223 2.11.2023 14.730 0 21.165 690 36.585
224 2.12.2023 14.781 0 21.114 690 36.585
225 2.1.2024 14.832 0 21.063 690 36.585
226 2.2.2024 14.883 0 21.011 690 36.584
227 2.3.2024 14.935 0 20.960 690 36.585
228 2.4.2024 14.986 0 20.908 690 36.584
229 2.5.2024 15.038 0 20.856 690 36.584
230 2.6.2024 15.090 0 20.804 690 36.584
231 2.7.2024 15.142 0 20.752 690 36.584

Samtals 2.414.506 5.900.373 159.390 8.474.269


No. 7

Númer Gjalddagi Afborgun Verðbætur Vextir Kostnaður Samtals


232 2.8.2024 15.195 0 20.700 690 36.585
233 2.9.2024 15.247 0 20.647 690 36.584
234 2.10.2024 15.300 0 20.595 690 36.585
235 2.11.2024 15.353 0 20.542 690 36.585
236 2.12.2024 15.406 0 20.489 690 36.585
237 2.1.2025 15.459 0 20.435 690 36.584
238 2.2.2025 15.513 0 20.382 690 36.585
239 2.3.2025 15.566 0 20.328 690 36.584
240 2.4.2025 15.620 0 20.274 690 36.584
241 2.5.2025 15.674 0 20.220 690 36.584
242 2.6.2025 15.728 0 20.166 690 36.584
243 2.7.2025 15.783 0 20.112 690 36.585
244 2.8.2025 15.837 0 20.057 690 36.584
245 2.9.2025 15.892 0 20.002 690 36.584
246 2.10.2025 15.947 0 19.947 690 36.584
247 2.11.2025 16.002 0 19.892 690 36.584
248 2.12.2025 16.058 0 19.837 690 36.585
249 2.1.2026 16.113 0 19.781 690 36.584
250 2.2.2026 16.169 0 19.726 690 36.585
251 2.3.2026 16.225 0 19.670 690 36.585
252 2.4.2026 16.281 0 19.614 690 36.585
253 2.5.2026 16.337 0 19.557 690 36.584
254 2.6.2026 16.394 0 19.501 690 36.585
255 2.7.2026 16.450 0 19.444 690 36.584
256 2.8.2026 16.507 0 19.387 690 36.584
257 2.9.2026 16.564 0 19.330 690 36.584
258 2.10.2026 16.622 0 19.273 690 36.585
259 2.11.2026 16.679 0 19.215 690 36.584
260 2.12.2026 16.737 0 19.158 690 36.585
261 2.1.2027 16.795 0 19.100 690 36.585
262 2.2.2027 16.853 0 19.042 690 36.585
263 2.3.2027 16.911 0 18.983 690 36.584
264 2.4.2027 16.970 0 18.925 690 36.585
265 2.5.2027 17.028 0 18.866 690 36.584
266 2.6.2027 17.087 0 18.807 690 36.584
267 2.7.2027 17.146 0 18.748 690 36.584
268 2.8.2027 17.206 0 18.689 690 36.585
269 2.9.2027 17.265 0 18.629 690 36.584
270 2.10.2027 17.325 0 18.570 690 36.585
271 2.11.2027 17.385 0 18.510 690 36.585
272 2.12.2027 17.445 0 18.450 690 36.585
273 2.1.2028 17.505 0 18.389 690 36.584
274 2.2.2028 17.566 0 18.329 690 36.585
275 2.3.2028 17.626 0 18.268 690 36.584
276 2.4.2028 17.687 0 18.207 690 36.584
277 2.5.2028 17.749 0 18.146 690 36.585
278 2.6.2028 17.810 0 18.085 690 36.585
279 2.7.2028 17.871 0 18.023 690 36.584
280 2.8.2028 17.933 0 17.961 690 36.584
281 2.9.2028 17.995 0 17.899 690 36.584
282 2.10.2028 18.058 0 17.837 690 36.585
283 2.11.2028 18.120 0 17.775 690 36.585
284 2.12.2028 18.183 0 17.712 690 36.585
285 2.1.2029 18.246 0 17.649 690 36.585
286 2.2.2029 18.309 0 17.586 690 36.585
287 2.3.2029 18.372 u 17.523 690 36.585
288 2.4.2029 18.435 0 17.459 690 36.584
289 2.5.2029 18.499 0 17.395 690 36.584
290 2.6.2029 18.563 0 17.331 690 36.584

Samtals 3.407.107 7.025.S47 200.100 10.632.754


No. 7

Númer Gjalddagi Afborgun Verðbætur Vextir Kostnaður Samtals


291 2.7.2029 18.627 0 17.267 690 36.584
292 2.8.2029 18.692 0 17.203 690 36.585
293 2.9.2029 18.756 0 17.138 690 36.584
294 2.10.2029 18.821 0 17.073 690 36.584
295 2.11.2029 18.886 0 17.008 690 36.584
296 2.12.2029 18.952 0 16.943 690 36.585
297 2.1.2030 19.017 0 16.877 690 36.584
298 2.2.2030 19.083 0 16.811 690 36.584
299 2.3.2030 19.149 0 16.745 690 36.584
300 2.4.2030 19.215 0 16.679 690 36.584
301 2.5.2030 19.282 0 16.613 690 36.585
302 2.6.2030 19.348 0 16.546 690 36.584
303 2.7.2030 19.415 0 16.479 690 36.584
304 2.8.2030 19.482 0 16.412 690 36.584
305 2.9.2030 19.550 0 16.345 690 36.585
306 2.10.2030 19.617 0 16.277 690 36.584
307 2.11.2030 19.685 0 16.209 690 36.584
308 2.12.2030 19.753 0 16.141 690 36.584
309 2.1.2031 19.822 0 16.073 690 36.585
310 2.2.2031 19.890 0 16.004 690 36.584
311 2.3.2031 19.959 0 15.935 690 36.584
312 2.4.2031 20.028 0 15.866 690 36.584
313 2.5.2031 20.097 0 15.797 690 36.584
314 2.6.2031 20.167 0 15.728 690 36.585
315 2.7.2031 20.237 0 15.658 690 36.585
316 2.8.2031 20.307 0 15.588 690 36.585
317 2.9.2031 20.377 0 15.518 690 36.585
318 2.10.2031 20.447 0 15.447 690 36.584
319 2.11.2031 20.518 0 15.377 690 36.585
320 2.12.2031 20.589 0 15.306 690 36.585
321 2.1.2032 20.660 0 15.234 690 36.584
322 2.2.2032 20.732 0 15.163 690 36.585
323 2.3.2032 20.803 0 15.091 690 36.584
324 2.4.2032 20.875 0 15.019 690 36.584
325 2.5.2032 20.947 0 14.947 690 36.584
326 2.6.2032 21.020 0 14.875 690 36.585
327 2.7.2032 21.093 0 14.802 690 36.585
328 2.8.2032 21.166 0 14.729 690 36.585
329 2.9.2032 21.239 0 14.656 690 36.585
330 2.10.2032 21.312 0 14.582 690 36.584
331 2.11.2032 21.386 0 14.509 690 36.585
332 2.12.2032 21.460 0 14.435 690 36.585
333 2.1.2033 21.534 0 14.360 690 36.584
334 2.2.2033 21.608 0 14.286 690 36.584
335 2.3.2033 21.683 0 14.211 690 36.584
336 2.4.2033 21.758 0 14.136 690 36.584
337 2.5.2033 21.833 0 14.061 690 36.584
338 2.6.2033 21.909 0 13.986 690 36.585
339 2.7.2033 21.985 0 13.910 690 36.585
340 2.8.2033 22.061 0 13.834 690 36.585
341 2.9.2033 22.137 0 13.757 690 36.584
342 2.10.2033 22.214 0 13.681 690 36.585
343 2.11.2033 22.290 0 13.604 690 36.584
344 2.12.2033 22.368 0 13.527 690 36.585
345 2.1.2034 22.445 0 13.450 690 36.585
346 2.2.2034 22.523 0 13.372 690 36.585
347 2.3.2034 22.600 0 13.294 690 36.584
348 2.4.2034 22.679 0 13.216 690 36.585
349 2.5.2034 22.757 0 13.138 690 36.585

Samtals 4.623.952 7.926.475 240.810 12.791.237


No. 7

Númer Gjalddagi Afborgun Verðbætur Vextir Kostnaður Samtals


350 2.6.2034 22.836 0 13.059 690 36.585
351 2.7.2034 22.915 0 12.980 690 36.585
352 2.8.2034 22.994 0 12.901 690 36.585
353 2.9.2034 23.073 0 12.821 690 36.584
354 2.10.2034 23.153 0 12.741 690 36.584
355 2.11.2034 23.233 0 12.661 690 36.584
356 2.12.2034 23.314 0 12.581 690 36.585
357 2.1.2035 23.394 0 12.500 690 36.584
358 2.2.2035 23.475 0 12.419 690 36.584
359 2.3.2035 23.556 0 12.338 690 36.584
360 2.4.2035 23.638 0 12.257 690 36.585
361 2.5.2035 23.720 0 12.175 690 36.585
362 2.6.2035 23.802 0 12.093 690 36.585
363 2.7.2035 23.884 0 12.011 690 36.585
364 2.8.2035 23.967 0 11.928 690 36.585
365 2.9.2035 24.049 0 11.845 690 36.584
366 2.10.2035 24.133 0 11.762 690 36.585
367 2.11.2035 24.216 0 11.678 690 36.584
368 2.12.2035 24.300 0 11.595 690 36.585
369 2.1.2036 24.384 0 11.511 690 36.585
370 2.2.2036 24.468 0 11.426 690 36.584
371 2.3.2036 24.553 0 11.342 690 36.585
372 2.4.2036 24.638 0 11.257 690 36.585
373 2.5.2036 24.723 0 11.172 690 36.585
374 2.6.2036 24.808 0 11.086 690 36.584
375 2.7.2036 24.894 0 11.000 690 36.584
376 2.8.2036 24.980 0 10.914 690 36.584
377 2.9.2036 25.067 0 10.828 690 36.585
378 2.10.2036 25.153 0 10.741 690 36.584
379 2.11.2036 25.240 0 10.654 690 36.584
380 2.12.2036 25.328 0 10.567 690 36.585
381 2.1.2037 25.415 0 10.479 690 36.584
382 2.2.2037 25.503 0 10.391 690 36.584
383 2.3.2037 25.591 0 10.303 690 36.584
384 2.4.2037 25.680 0 10.215 690 36.585
385 2.5.2037 25.769 0 10.126 690 36.585
386 2.6.2037 25.858 0 10.037 690 36.585
387 2.7.2037 25.947 0 9.947 690 36.584
388 2.8.2037 26.037 0 9.858 690 36.585
389 2.9.2037 26.127 0 9.768 690 36.585
390 2.10.2037 26.217 0 9.677 690 36.584
391 2.11.2037 26.308 0 9.587 690 36.585
392 2.12.2037 26.399 0 9.496 690 36.585
393 2.1.2038 26.490 0 9.404 690 36.584
394 2.2.2038 26.582 0 9.313 690 36.585
395 2.3.2038 26.674 0 9.221 690 36.585
396 2.4.2038 26.766 0 9.128 690 36.584
397 2.5.2038 26.859 0 9.036 690 36.585
398 2.6.2038 26.951 0 8.943 690 36.584
399 2.7.2038 27.045 0 8.850 690 36.585
400 2.8.2038 27.138 0 8.756 690 36.584
401 2.9.2038 27.232 0 8.662 690 36.584
402 2.10.2038 27.326 0 8.568 690 36.584
403 2.11.2038 27.421 0 8.474 690 36.585
404 2.12.2038 27.516 0 8.379 690 36.585
405 2.1.2039 27.611 0 8.284 690 36.585
406 2.2.2039 27.706 0 8.188 690 36.584
407 2.3.2039 27.802 0 8.092 690 36.584
408 2.4.2039 27.898 0 7.996 690 36.584

Samtals 6.115.708 8.552.496 281.520 14.949.724


No. 7

Númer Gjalddagi Afborgun Verðbætur Vextir Kostnaður Samtals


409 2.5.2039 27.995 0 7.900 690 36.585
410 2.6.2039 28.091 0 7.803 690 36.584
411 2.7.2039 28.189 0 7.706 690 36.585
412 2.8.2039 28.286 0 7.608 690 36.584
413 2.9.2039 28.384 0 7.511 690 36.585
414 2.10.2039 28.482 0 7.412 690 36.584
415 2.11.2039 28.581 0 7.314 690 36.585
416 2.12.2039 28.679 0 7.215 690 36.584
417 2.1.2040 28.779 0 7.116 690 36.585
418 2.2.2040 28.878 0 7.016 690 36.584
419 2.3.2040 28.978 0 6.916 690 36.584
420 2.4.2040 29.078 0 6.816 690 36.584
421 2.5.2040 29.179 0 6.716 690 36.585
422 2.6.2040 29.280 0 6.615 690 36.585
423 2.7.2040 29.381 0 6.514 690 36.585
424 2.8.2040 29.483 0 6.412 690 36.585
425 2.9.2040 29.585 0 6.310 690 36.585
426 2.10.2040 29.687 0 6.208 690 36.585
427 2.11.2040 29.790 0 6.105 690 36.585
428 2.12.2040 29.893 0 6.002 690 36.585
429 2.1.2041 29.996 0 5.899 690 36.585
430 2.2.2041 30.100 0 5.795 690 36.585
431 2.3.2041 30.204 0 5.691 690 36.585
432 2.4.2041 30.308 0 5.586 690 36.584
433 2.5.2041 30.413 0 5.481 690 36.584
434 2.6.2041 30.518 0 5.376 690 36.584
435 2.7.2041 30.624 0 5.271 690 36.585
436 2.8.2041 30.730 0 5.165 690 36.585
437 2.9.2041 30.836 0 5.059 690 36.585
438 2.10.2041 30.943 0 4.952 690 36.585
439 2.11.2041 31.050 0 4.845 690 36.585
440 2.12.2041 31.157 0 4.738 690 36.585
441 2.1.2042 31.265 0 4.630 690 36.585
442 2.2.2042 31.373 0 4.522 690 36.585
443 2.3.2042 31.481 0 4.413 690 36.584
444 2.4.2042 31.590 0 4.304 690 36.584
445 2.5.2042 31.699 0 4.195 690 36.584
446 2.6.2042 31.809 0 4.085 690 36.584
447 2.7.2042 31.919 0 3.975 690 36.584
448 2.8.2042 32.029 0 3.865 690 36.584
449 2.9.2042 32.140 0 3.754 690 36.584
450 2.10.2042 32.251 0 3.643 690 36.584
451 2.11.2042 32.363 0 3.532 690 36.585
452 2.12.2042 32.475 0 3.420 690 36.585
453 2.1.2043 32.587 0 3.307 690 36.584
454 2.2.2043 32.700 0 3.195 690 36.585
455 2.3.2043 32.813 0 3.082 690 36.585
456 2.4.2043 32.926 0 2.968 690 36.584
457 2.5.2043 33.040 0 2.854 690 36.584
458 2.6.2043 33.155 0 2.740 690 36.585
459 2.7.2043 33.269 0 2.625 690 36.584
460 2.8.2043 33.384 0 2.510 690 36.584
461 2.9.2043 33.500 0 2.395 690 36.585
462 2.10.2043 33.616 0 2.279 690 36.585
463 2.11.2043 33.732 0 2.163 690 36.585
464 2.12.2043 33.848 0 2.046 690 36.584
465 2.1.2044 33.966 0 1.929 690 36.585
466 2.2.2044 34.083 0 1.812 690 36.585
467 2.3.2044 34.201 0 1.694 690 36.585

Samtals 7.944.479 8.841.506 322.230 17.108.215


No. 7

Númer Gjalddagi Afborgun Verðbætur Vextir Kostnaður Samtals


468 2.4.2044 34.319 0 1.575 690 36.584
469 2.5.2044 34.438 0 1.457 690 36.585
470 2.6.2044 34.557 0 1.338 690 36.585
471 2.7.2044 34.676 0 1.218 690 36.584
472 2.8.2044 34.796 0 1.098 690 36.584
473 2.9.2044 34.917 0 978 690 36.585
474 2.10.2044 35.037 0 857 690 36.584
475 2.11.2044 35.159 0 736 690 36.585
476 2.12.2044 35.280 0 614 690 36.584
477 2.1.2045 35.402 0 492 690 36.584
478 2.2.2045 35.525 0 370 690 36.585
479 2.3.2045 35.648 0 247 690 36.585
480 2.4.2045 35.767 0 124 690 36.581
Samtals 8.400.000 8.852.610 331.200 17.583.810

Heildarfjárhæð sem greiða skal: 17.583.810


Árleg hlutfallstala kostnaðar: 4,549%
Heildar lántökukostnaður: 543.950

Verðtryggð skuldabréf
Sé skuldin vísitölutryggð ber skuldara að greiða viðbót við hverja greiðslu sem svarar til hækkunar sem
hverju sinni hefur orðið frá grunnvísitölu bréfs þessa til vísitölu sem í gildi er á hverjum gjalddaga.

Verðtrygging skuldabréfa miðast i flestum tilvikum við vísitölu neysluverðs. Vísitala neysluverðs getur
breyst mánaðarlega og tekur gildi 1. hvers mánaðar. Breytingar á verðlagi einkaneyslu hafa áhrif á
vísitölu neysluverðs og höfuðstóll verðtryggðra skuldabréfa breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu
neysluverðs (sbr. lög um vísitölu neysluverðs nr, 12/1995).

Enskurskoðun vaxta.
Útlánsvextir geta hækkað eða lækkað í samræmi við ákvarðanir Frjálsa fjárfestingarbankans hf. á fimm
ára fresti frá útgáfudegi.

Innheimtukostnaður
Innheimtukostnaður er fastur kostnaður sem bætist við hverja greiðslu. Kostnaðurinn getur verið breytilegur
milli banka og innlánsstofnana. Innheimtukostnaðurinn getur breyst í samræmi við breytingar á gjaldskrá
banka og innlánsstofnana sem liggur frammi á afgreiðslustöðum bankanna.

Vanskil
Ef ekki er greitt á gjalddaga bætist við ítrekunargjald eftir 6 daga vanskil og viðbótarítrekunargjald eftir
30 daga vanskil. Einnig getur bæst við kostnaður vegna sérstakrar innheimtumeðferðar, t.d. hjá lögmanni.
Ítrekunargjaldið, viðbótarítrekunargjaldið og innheimtumeðferðin geta verið breytileg milli banka og
hmlánsstofnana.

Ef ekki er greitt á gjalddaga reiknast dráttarvextir samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma
um grunn dráttarvaxta og vanefndaálag, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Staðfestum með undirritun hér undir, að ofangreindir skilmálar eru hluti af viðfestri skuldaviðurkenningu.

Seljandi Kaupandi
No. 7

Yfirlit viðskiptamanns

Viðmiðunardagur: 31.01.2014

Lán númer Lánstími: 40 ár, 1 mánuður

Gjaldfallið Ógjaldfallið

Lánsfjárhæð: 8.400.000 ISK Eftirst.höfuðstóls: 0 7.535.282


Útgáfudagur: .03.2005 Vextir 0 24.322
Áfallnir vextir frá: 02.01.2014 Verðbætur höfuðstóls: 0 5.631.080
Vextir: 4,150000% Verðbætur vaxta: 0 18.176
Grunnvísitala: NEY 239,700 Greiðslujöfnunarreikn.: 530.975
Vísitala 01.02.2014: NEY 418,827 Áfallnar verðh. á greiðsluj.: 2.710
Áfallnir vextir á greiðsluj.: 1.723
Samtals greiðsluj.reikn.: 535.408
Staða: 0 13.744.268
Staða samtals: 13.744.268

Greiðslur 01.01.2005 - 31.01.2014


Gjalddagi Greiðslud. Tegund Afborgun Verðb. á hst. Vextir Verðb. á vxt. Greiðsluj. Kostnaður Dr.vextir Samtals
15.03.2005 15.03.2005 Útgreiðsla -8.400.000 0 -6.778 0 0 213.850 0 -8.192.928
02.05.2005 03.05.2005 Afb & vextir 6.845 66 52.290 502 0 690 33 60.426
02.06.2005 02.06.2005 Afb & vextir 6.869 29 29.026 121 0 160 0 36.205
02.07.2005 01.07.2005 Afb & vextir 6.892 78 29.003 327 0 160 0 36.460
02.08.2005 02.08.2005 Afb & vextir 6.916 87 28.979 363 0 160 0 36.505
02.09.2005 02.09.2005 Afb & vextir 6.940 101 28.955 423 0 160 0 36.579
02.10.2005 03.10.2005 Afb & vextir 6.964 209 28.931 869 0 160 0 37.133
02.11.2005 02.11.2005 Afb & vextir 6.988 254 28.907 1.049 0 160 0 37.358
02.12.2005 02.12.2005 Afb & vextir 7.012 243 28.883 1.000 0 160 0 37.298
02.01.2006 03.01.2006 Afb & vextir 7.037 270 28.858 1.108 0 160 0 37.433
02.02.2006 01.02.2006 Afb & vextir 7.061 295 28.834 1.203 0 160 0 37.553
02.03.2006 02.03.2006 Afb & vextir 7.085 290 28.810 1.178 0 160 0 37.523
02.04.2006 03.04.2006 Afb & vextir 7.110 374 28.785 1.513 0 160 0 37.942
02.05.2006 02.05.2006 Afb & vextir 7.135 461 28.760 1.860 0 160 0 38.376
02.06.2006 02.06.2006 Afb & vextir 7.158 573 28.736 2.302 0 160 0 38.929
02.07.2006 03.07.2006 Afb & vextir 7.184 665 28.711 2.659 0 160 0 39.379
02.08.2006 02.08.2006 Afb & vextir 7.208 704 28.686 2.800 0 160 0 39.558
02.09.2006 04.09.2006 Afb & vextir 7.234 733 28.661 2.906 0 160 0 39.694
02.10.2006 02.10.2006 Afb & vextir 7.258 784 28.636 3.094 0 160 0 39.932
02.11.2006 02.11.2006 Afb & vextir 7.283 805 28.611 3.163 0 160 0 40.022
02.12.2006 04.12.2006 Afb & vextir 7.308 805 28.586 3.148 0 160 0 40.007
02.01.2007 03.01.2007 Afb & vextir 7.334 811 28.561 3.158 0 160 0 40.024
02.02.2007 02.02.2007 Afb & vextir 7.360 835 28.535 3.238 0 160 0 40.128
02.03.2007 02.03.2007 Afb & vextir 7.384 872 28.510 3.366 0 160 0 40.292
02.04.2007 02.04.2007 Afb & vextir 7.410 847 28.484 3.256 0 160 0 40.157
02.05.2007 02.05.2007 Afb & vextir 7.436 900 28.459 3.443 0 160 0 40.398
02.06.2007 04.06.2007 Afb & vextir 7.461 974 28.433 3.713 0 160 0 40.741
02.07.2007 02.07.2007 Afb & vextir 7.488 1.022 28.407 3.875 0 160 0 40.952
02.08.2007 02.08.2007 Afb & vextir 7.513 1.044 28.381 3.943 0 160 0 41.041
02.09.2007 03.09.2007 Afb & vextir 7.539 1.050 28.355 3.951 0 160 0 41.055
02.10.2007 02.10.2007 Afb & vextir 7.566 1.168 28.329 4.373 0 160 0 41.596
02.11.2007 02.11.2007 Afb & vextir 7.591 1.216 28.303 4.534 0 160 0 41.804
02.12.2007 03.12.2007 Afb & vextir 7.617 1.277 28.277 4.742 0 160 0 42.073
02.01.2008 03.01.2008 Afb & vextir 7.645 1.343 28.250 4.962 0 160 0 42.360
02.02.2008 04.02.2008 Afb & vextir 7.670 1.373 28.224 5.051 0 160 0 42.478
02.03.2008 03.03.2008 Afb & vextir 7.696 1.368 28.198 5.011 0 160 0 42.433
02.04.2008 02.04.2008 Afb & vextir 7.724 1.498 28.171 5.465 0 160 0 43.018

Starfsmaður:
Síða 1 af 2 .02.2014
No. 7

02.05.2008 02.05.2008 Afb & vextir 7.751 1.639 28.144 5.953 0 160 0 43.647
02.06.2008 02.06.2008 Afb & vextir 7.777 1.966 28.117 7.108 0 160 0 45.128
02.07.2008 02.07.2008 Afb & vextir 7.804 2.106 28.090 7.582 0 160 0 45.742
02.08.2008 05.08.2008 Afb & vextir 7.831 2.202 28.064 7.891 0 160 0 46.148
02.09.2008 02.09.2008 Afb & vextir 7.859 2.305 28.036 8.222 0 160 0 46.582
02.10.2008 02.10.2008 Afb & vextir 7.885 2.405 28.009 8.542 0 160 0 47.001
02.11.2008 03.11.2008 Afb & vextir 7.912 2.502 27.982 8.849 0 160 0 47.405
02.12.2008 02.12.2008 Afb & vextir 7.939 2.736 27.955 9.633 0 160 0 48.423
02.01.2009 02.01.2009 Afb & vextir 7.968 2.932 27.927 10.276 0 160 0 49.263
02.02.2009 02.02.2009 Afb & vextir 7.995 3.109 27.900 10.848 0 160 0 50.012
02.03.2009 02.03.2009 Afb & vextir 8.023 3.183 27.872 11.058 0 160 0 50.296
02.04.2009 02.04.2009 Afb & vextir 8.050 3.251 27.844 11.244 0 160 0 50.549
02.05.2009 04.05.2009 Afb & vextir 8.078 3.195 27.816 11.002 -7.756 160 0 42.495
02.06.2009 02.06.2009 Afb & vextir 8.106 3.257 27.788 11.164 -8.161 160 0 42.314
02.07.2009 02.07.2009 Afb & vextir 8.134 3.397 27.760 11.593 -8.459 160 0 42.585
02.08.2009 04.08.2009 Afb & vextir 8.162 3.568 27.732 12.125 -8.799 160 0 42.948
02.09.2009 02.09.2009 Afb & vextir 8.190 3.602 27.704 12.182 -8.708 160 0 43.130
02.10.2009 02.10.2009 Afb & vextir 8.219 3.675 27.676 12.378 -8.796 160 0 43.312
02.11.2009 02.11.2009 Afb & vextir 8.247 3.782 27.647 12.676 -8.882 160 0 43.630
02.12.2009 04.12.2009 Afb & vextir 8.276 3.933 27.619 13.124 -9.527 160 0 43.585
02.01.2010 04.01.2010 Afb & vextir 8.304 4.036 27.590 13.409 -9.463 160 0 44.036
02.02.2010 02.02.2010 Afb & vextir 8.334 4.110 27.561 13.591 -9.672 160 0 44.084
02.03.2010 02.03.2010 Afb & vextir 8.362 4.085 27.533 13.451 -9.870 160 0 43.721
02.04.2010 06.04.2010 Afb & vextir 8.390 4.242 27.504 13.907 -10.392 160 0 43.811
02.05.2010 03.05.2010 Afb & vextir 8.420 4.328 27.475 14.121 -10.647 160 0 43.857
02.06.2010 02.06.2010 Afb & vextir 8.449 4.374 27.446 14.210 -10.600 160 0 44.039
02.07.2010 02.07.2010 Afb & vextir 8.478 4.442 27.416 14.366 -10.417 160 0 44.445
02.08.2010 03.08.2010 Afb & vextir 8.508 4.415 27.387 14.213 -8.876 160 0 45.807
02.09.2010 02.09.2010 Afb & vextir 8.537 4.345 27.358 13.924 -8.335 160 0 45.989
02.10.2010 04.10.2010 Afb & vextir 8.566 4.392 27.328 14.012 -8.379 160 0 46.079
02.11.2010 02.11.2010 Afb & vextir 8.596 4.407 27.298 13.996 -8.151 160 0 46.306
02.12.2010 02.12.2010 Afb & vextir 8.626 4.520 27.269 14.289 -8.602 160 0 46.262
02.01.2011 03.01.2011 Afb & vextir 8.656 4.543 27.239 14.296 -8.678 160 0 46.216
02.02.2011 02.02.2011 Afb & vextir 8.686 4.602 27.209 14.416 -8.902 160 0 46.171
02.03.2011 02.03.2011 Afb & vextir 8.715 4.497 27.179 14.026 -8.634 160 0 45.943
02.04.2011 04.04.2011 Afb & vextir 8.746 4.670 27.149 14.498 -9.280 160 0 45.943
02.05.2011 02.05.2011 Afb & vextir 8.776 4.815 27.119 14.878 -9.623 160 0 46.125
02.06.2011 03.06.2011 Afb & vextir 8.806 4.938 27.088 15.188 -9.782 160 0 46.398
02.07.2011 04.07.2011 Afb & vextir 8.837 5.084 27.058 15.567 -9.401 160 0 47.305
02.08.2011 02.08.2011 Afb & vextir 8.867 5.171 27.027 15.763 -7.506 160 0 49.482
02.09.2011 02.09.2011 Afb & vextir 8.898 5.204 26.996 15.790 -7.022 160 0 50.026
02.10.2011 03.10.2011 Afb & vextir 8.929 5.260 26.966 15.885 -7.127 160 0 50.073
02.11.2011 02.11.2011 Afb & vextir 8.959 5.367 26.935 16.136 -7.076 160 0 50.481
02.12.2011 02.12.2011 Afb & vextir 8.991 5.435 26.904 16.264 -7.000 160 0 50.754
02.01.2012 02.01.2012 Afb & vextir 9.021 5.453 26.873 16.245 -7.045 160 0 50.707
02.02.2012 02.02.2012 Afb & vextir 9.053 5.525 26.842 16.383 -7.210 160 0 50.753
02.03.2012 02.03.2012 Afb & vextir 9.084 5.586 26.810 16.486 -7.328 160 0 50.798
02.04.2012 02.04.2012 Afb & vextir 9.116 5.754 26.779 16.903 -6.870 160 0 51.842
02.05.2012 02.05.2012 Afb & vextir 9.147 5.930 26.747 17.340 -6.801 160 0 52.523
02.06.2012 04.06.2012 Afb & vextir 9.179 6.070 26.716 17.666 -6.995 160 0 52.796
02.07.2012 02.07.2012 Afb & vextir 9.210 6.086 26.684 17.633 -6.252 160 0 53.521
02.08.2012 02.08.2012 Afb & vextir 9.243 6.185 26.652 17.835 -6.100 160 0 53.975
02.09.2012 03.09.2012 Afb & vextir 9.274 6.094 26.620 17.491 -5.574 160 0 54.065
02.10.2012 02.10.2012 Afb & vextir 9.306 6.091 26.588 17.404 -5.484 160 0 54.065
02.11.2012 02.11.2012 Afb & vextir 9.339 6.230 26.556 17.715 -5.662 160 0 54.338
02.12.2012 03.12.2012 Afb & vextir 9.371 6.294 26.524 17.815 -5.961 160 0 54.203
02.01.2013 02.01.2013 Afb & vextir 9.403 6.367 26.491 17.937 -6.156 160 0 54.202
02.02.2013 04.02.2013 Afb & vextir 9.436 6.397 26.459 17.937 -6.369 160 0 54.020
02.03.2013 04.03.2013 Afb & vextir 9.469 6.463 26.426 18.036 -6.216 160 0 54.338
02.04.2013 02.04.2013 Afb & vextir 9.50 1 6.746 26.393 18.740 -5.932 160 0 55.608
02.05.2013 02.05.2013 Afb & vextir 9.534 6.801 26.360 18.805 -5.235 160 0 56.425
02.06.2013 03.06.2013 Afb & vextir 9.568 6.858 26.327 18.869 4.948 120 0 56.794
02.07.2013 02.07.2013 Afb & vextir 9.600 6.873 26.294 18.824 4.556 120 0 57.155
02.08.2013 02.08.2013 Afb & vextir 9.633 6.985 26.261 19.041 4.476 120 0 57.564
02.09.2013 02.09.2013 Afb & vextir 9.667 6.965 26.228 18.897 4.356 120 0 57.521
02.10.2013 02.10.2013 Afb & vextir 9.699 7.045 26.194 19.025 4.521 120 0 57.562
02.11.2013 04.11.2013 Afb & vextir 9.733 7.126 26.161 19.154 4.140 120 0 58.154
02.12.2013 02.12.2013 Afb & vextir 9.767 7.151 26.127 19.129 4.095 120 0 58.199
02.01.2014 02.01.2014 Afb & vextir 9.802 7.238 26.093 19.268 4.274 120 0 58.247
Samtals út: -8.400.000 0 -6.778 0,00 0 213.850 0 -8.192.928
Samtals inn: 864.718 355.764 2.927.446 1.101.893 -425.079 17.010 33 4.841.785

Starfsmaður:
Síða 2 af 2 .02.2014
No. 8
No. 8
No. 8

Landsbanki Íslands hf,

Greiðsluáætlun
v/ Skuldabréfs með vísitölu neysluverðs

Fylgiskjal skuldabréfs nr.

Lánsupphæð 2.000.000 Nafnvextir á ári 8,10%


Lántökugjald 1,70% -34.000 Áætluð vísitöluhækkun 0,00%
Stimpilgjald 1,50% -30.000 Árleg hlutfallstala kostnaðar 9,58%
Kostnaður -2.800 Fyrsti vaxtadagur .7.2006
Fjárhæð til útborgunar 1.933.200 Fyrsti gjalddagi 1.9.2006
Mánuðir milli gjalddaga 1
Heildarlántökukostnaður 911.480 Fjöldi gjalddaga 120

Afborgun Gjalddagi Eftirstöðvar Vísitala á Afborgun Vextir Tilk.-og Samtals til


númer fyrir greiðslu höfuðst. greiðslugjald greiðslu
1 01.09.2006 2.000.000 0 16.667 18.000 195 34.862
2 01.10.2006 1.983.333 0 16.667 13.388 195 30.250
3 01.11.2006 1.966.666 0 16.667 13.275 195 30.137
4 01.12.2006 1.949.999 0 16.667 13.163 195 30.025
5 01.01.2007 1.933.332 0 16.667 13.050 195 29.912
6 01.02.2007 1.916.665 0 16.667 12.938 195 29.600
7 01.03.2007 1.899.998 0 16.667 12.825 195 29.687
e 01.04.2007 1.883.331 0 16.667 12.713 195 29.575
9 01.05.2007 1.866.664 0 16.667 12.600 195 29.462
10 01.05.2007 1.849.997 0 16.667 12.488 195 29.350
11 01.07.2007 1.633.330 0 16.667 12.375 195 29.237
12 01.08.2007 1.816.663 0 16.667 12.263 195 29.125
13 01.09.2007 1.799.996 0 16.667 12.150 195 29.012
14 01.10.2007 1.783.329 0 16.667 12.038 195 28.900
15 01.11.2007 1.766.662 0 16.667 11.925 195 28.787
16 01.12.2007 1.749.995 0 16.667 11.813 195 28.675
17 01.01.2008 1.733.328 0 16.667 11.700 195 28.562
18 01.02.2008 1.716.661 0 16.667 11.588 195 28.450
19 01.03.2006 1.699.994 0 16.667 11.475 195 28.337
20 01.04.2008 1.683.327 0 16.667 11.363 195 28.225
21 01.05.2008 1.666.660 0 16.667 11.250 195 28.112
22 01.06.2008 1.649.993 0 16.667 11.138 195 28.000
23 01.07.2008 1.633.326 0 16.667 11.025 195 27.887
24 01.08.2008 1.616.659 0 16.667 10.913 195 27.775
25 01.09.2008 1.599.992 0 16.667 10.800 195 27.662
26 01.10.2008 1.563.325 0 16.667 10.688 195 27.550
27 01.11.2008 1.566.658 0 16.667 10.575 195 27 437
28 01.12.2008 1.549.991 0 16.667 10.463 195 27.325
29 01.01.2009 1.533.324 0 16.667 10.350 195 27.212
30 01.02.2009 1.516.657 0 16.667 10.238 195 27.100
31 01.03.2009 1.499.990 0 16.667 10.125 195 26.987
32 01.04.2009 1.483.323 o 16.667 10.013 195 26.875
33 01.05.2009 1.466.656 0 16.667 9.9C0 195 26.762
34 01.06.2009 1.449.989 0 16.667 9.788 195 26.650
35 01.07.2009 1.433.322 0 16.667 9.675 195 26.537
36 01.08.2009 1.416.655 0 16.667 9.563 195 26.425
37 01.09.2009 1.399.988 0 16.667 9.450 195 26.312
38 01.10.2009 1.383.321 0 16.667 9.338 195 26.200
39 01.11.2009 1.366.654 0 16.667 9.225 195 26.087
40 01.12.2009 1.349.987 0 16.667 9.113 195 25.975
41 01.01.2010 1.333.320 0 16.666 9.000 195 25.861
42 01.02.2010 1.316.654 0 16.667 8.888 195 25.750
43 01.03.2010 1.299.987 0 16.666 8.775 195 25.636
44 01.04.2010 1.283.321 0 16.667 8.663 195 25.525
45 01.05.2010 1.266.854 0 16.666 8.550 195 25.411
46 01.06.2010 1.249.988 0 16.667 8.438 195 25.300
47 01.07.2010 1.233.321 0 16.666 8.325 195 25.186
48 01.08.2010 1.216.655 0 16.667 8.213 195 25.076
49 01.09.2010 1.199.988 0 16.666 8.100 195 24.961
50 01.10.2010 1.183.322 0 16.667 7.988 195 24.850
51 01.11.2010 1.166.655 0 16.666 7.675 195 24.736
52 01.12.2010 1.149.989 0 16.667 7.763 195 24.625
53 01.01.2011 1.133.322 0 16.666 7.650 195 24.511
54 01.02.2011 1.116.656 0 16.667 7.538 195 24.400
55 01.03.2011 1.099.989 0 16.666 7.425 195 24.266
No. 8

Landsbanki Íslands hf,

Afborgun Gjalddagi Eftirstöðvar Vísitala á Afborgun Vextir Tilk.- og Samtals til


númer fyrir greiðslu höfuðst. greiðslugjald greiðslu
56 01.04.2011 1.083.323 0 16.667 7.313 195 24.175
57 01.05.2011 1.066.656 0 16.666 7.200 195 24.061
58 01.06.2011 1.049.990 0 16.667 7.088 195 23.950
59 01.07.2011 1.033.323 0 16.666 6.975 195 23.836
60 01.08.2011 1.016.657 0 16.667 6.863 195 23.725
61 01.09.2011 999.990 0 16.666 6.750 195 23.611
62 01.10.2011 983.324 0 16.667 6.638 195 23.500
63 01.11.2011 966.857 0 16.666 6.525 195 23.386
64 01.12.2011 949.991 0 16.667 6.413 195 23.275
65 01.01.2012 933.324 0 16.666 6.300 195 23.161
66 01.02.2012 916.658 0 16.667 6.188 195 23.050
67 01.03.2012 699.991 0 16.666 6.075 195 22.936
68 01.04.2012 883.325 0 16.667 5.963 195 22.825
69 01.05.2012 866.658 0 16.666 5.850 195 22.711
70 01.06.2012 849.992 0 16.667 5.738 195 22.600
71 01.07.2012 833.325 0 16.666 5.625 195 22.486
72 01.08.2012 816.659 0 16.667 5.513 195 22.375
73 01.09.2012 799.992 0 16.666 5.400 195 22.261
74 01.10.2012 783.326 0 16.667 5.288 195 22.150
75 01.11.2012 766.659 0 16.666 5.175 195 22.036
76 01.12.2012 749.993 0 16.667 5.063 195 21.925
77 01.01.2013 733.326 0 16.666 4.950 195 21.811
78 01.02.2013 716.660 0 16.667 4.838 195 21.700
79 01.03.2013 699.993 0 16.666 4.725 195 21.586
80 01.04.2013 683.327 0 16.667 4.613 195 21.475
81 01.05.2013 666.660 0 16.666 4.500 195 21.361
82 01.06.2013 649.994 0 16.667 4.388 195 21.250
83 01.07.2013 633.327 0 16.666 4.275 195 21.136
84 01.08.2013 616.661 0 16.667 4.163 195 21.025
85 01.09.2013 599.994 0 16.666 4.050 195 20.911
3G 01.10.2013 583.328 0 16.667 3.938 195 20.800
37 01.11.2013 566.661 0 16.666 3.825 195 20.686
88 01.12.2013 549.995 0 16.667 3.713 195 20.575
39 01.01.2014 533.328 0 16.666 3.600 195 20.461
90 01.02.2014 516.662 0 16.667 3.488 195 20.350
91 01.03.2014 499.995 0 16.666 3.375 195 20.236
92 01.04.2014 483.329 0 16.667 3.263 195 20.125
93 01.05.2014 466.662 0 16.666 3.150 195 20.011
94 01.06.2014 449.996 0 16.667 3.038 195 19.900
95 01.07.2014 433.329 0 16.666 2.925 195 19.785
96 01.08.2014 416.663 0 16.667 2.813 195 19.675
97 01.09.2014 399.996 0 16.666 2.700 195 19.561
98 01.10.2014 383.330 0 16.667 2.588 195 19.450
99 01.11.2014 366.663 0 16.666 2.475 195 19.336
100 01.12.2014 349.997 0 16.667 2.363 195 19.225
101 01.01.2015 333.330 0 16.666 2.250 195 19.111
102 01.02.2015 316.664 0 16.667 2.138 195 19.000
103 01.03.2015 299.997 0 16.666 2.025 195 18.886
104 01.04.2015 283.331 0 16.667 1.913 195 18.775
105 01.05.2015 266.664 0 16.666 1.800 195 18.661
106 01.06.2015 249.998 0 16.667 1.688 195 18.550
107 01.07.2015 233.331 0 16.666 1.575 195 18.436
108 01.08.2015 216.665 0 16.667 1.463 195 18.325
109 01.09.2015 199.998 0 16.666 1.350 195 18.211
110 01.10.2015 183.332 0 16.667 1.238 195 18.100
111 01.11.2015 166.665 0 16.666 1.125 195 17.986
112 01.12.2015 149.999 0 16.657 1.013 195 17.875
113 01.01.2016 133.332 0 16.666 900 195 17.761
114 01.02.2016 116.666 0 16.667 788 195 17.650
115 01.03.2016 99.999 0 16.666 675 195 17.536
116 01.04.2016 83.333 0 16.667 563 195 17.425
117 01.05.2016 66.666 0 16.666 450 195 17.311
118 01.06.2016 50.000 0 16.667 338 195 17.200
119 01.07.2016 33.333 0 16.666 225 195 17.086
120 01.08.2016 16.667 0 16.667 113 195 16.975
Samtals 0 0 2.000.000 821.280 23.400 2.844.680

Andvirði bréfs 1.933.200


Heildarlántökukostnaður 911.480

Heildarendurgreiðsla 2.844.680
Vanskilakostnaður
No. 8

Landsbanki Íslands hf,

Ítrekunargjald eftir 7 daga vanskil 600


Viðbótargjald eftir 30 daga vanskil 600
Sérstök innheimtumeðferð 3.250
* dráttarvextir og annar innheimtukostnaður sbr. ákvæði í skuldabréfi

Athugið að um áætlun er að ræða.


Áætlunin er byggð á núgildandi vöxtum og gjaldskrá Landsbankans, sem geta tekið breytingum sbr. ákvæði í
skuldabréfi. Sé lánið greitt upp fyrir lokagjalddaga á skuldari rétt á lækkun lánskostnaðar er nemur þeim vöxtum
eða öðrum kostnaði sem greiða átti eftir greiðsludag. Notfæri skuldari sér heimild til þessa á hann rétt á lækkun á
heildarlántökukostnaði sem nemur þeim vöxtum og öðrum gjöldum sem greiða átti eftir greiðsludag. Ekki er hægt
að krefjast endurgreiðslu eða lækkunar á gjöldum sem eru óháð því hvenær greiðsla er innt af hendi, s.s.
lántökugjalds og stimpilgjalds. Lántökugjald, stimpilgjald og kostnaður greiðist við útborgun lánsins en tilkynningar-
og greiðslugjald er greitt á hverjum gjalddaga. Við útborgun lánsins eru reiknaðar sérstakar verðbætur til
leiðréttingar ef tímabilið að fyrsta gjalddaga er ekki í heilum mánuðum.

Staðfestum með undirritun hér undir. að ofangreindir skilmálar eru hluti af viðfestri skuldarviðurkenningu sbr. lög nr.
121/1994.

. júlí 2006

Landsbanki Íslands hf,


Landsbankinn hf ÚTLÁN No. 8
Sundurl. greiðsluyfirlit

Bréf númer. :

kostn. + greiðslu-
Gjalddagi afborgun verðbætur vextir drvextir samtals dagur
• 01.09.06 16.667 134 18.144 195 35.140 01.09.06
• 01.10.06 16.667 235 13.577 195 30.674 02.10.06
• 01.11.06 16.667 274 13.632 195 30.768 01.11.06
• 01.12.06 16.667 267 14.117 195 31.246 01.12.06
• 01.01.07 16.667 274 14.411 195 31.547 03.01.07
• 01.02.07 16.667 318 15.436 195 32.616 01.02.07
• 01.03.07 16.667 388 15.635 195 32.885 01.03.07
• 01.04.07 16.667 331 15.926 195 33.119 02.04.07
• 01.05.07 16.667 433 15.880 195 33.175 02.05.07
• 01.06.07 16.667 579 16.404 312 33.962 06.06.07
• 01.07.07 16.667 668 16.605 195 34.135 02.07.07
• 01.08.07 16.667 706 16.964 195 34.532 01.08.07
• 01.09.07 16.667 713 17.362 267 35.009 04.09.07
• 01.10.07 16.667 942 17.428 195 35.232 01.10.07
• 01.11.07 16.667 1.031 17.352 195 35.245 01.11.07
• 01.12.07 16.667 1.145 17.768 195 35.775 03.12.07
• 01.01.08 16.667 1.266 17.951 195 36.079 03.01.08
• 01.02.08 16.667 1.317 17.829 1.418 37.231 20.02.08
• 01.03.08 16.667 1.298 17.637 195 35.797 03.03.08
• 01.04.08 16.667 1.546 17.705 1.668 37.586 30.04.08
• 01.05.08 16.667 1.814 17.787 1.424 37.692 20.05.08
• 01.06.08 16.667 2.444 18.210 1.152 38.473 09.06.08
• 01.07.08 16.667 2.705 18.272 1.194 38.838 10.07.08
• 01.08.08 16.667 2.876 18.246 195 37.984 01.08.08
• 01.09.08 16.667 3.061 18.228 195 38.151 01.09.08
• 01.10.08 16.667 3.239 18.201 251 38.358 03.10.08
• 01.11.08 16.667 3.411 18.165 6.712 44.955 16.12.08
• 01.12.08 16.667 3.844 18.359 1.374 40.244 16.12.08
• 01.01.09 16.667 4.200 18.477 1.164 40.508 09.01.09
• 01.02.09 16.667 4.518 18.555 1.552 41.292 23.02.09
• 01.03.09 16.667 4.639 18.456 195 39.957 02.03.09
• 01.04.09 16.667 4.747 17.814 1.278 40.506 08.04.09
• 01.05.09 16.667 4.620 15.428 195 36.910 04.05.09
• 01.06.09 16.667 4.716 14.288 195 35.866 02.06.09
• 01.07.09 16.667 4.957 14.025 195 35.844 01.07.09
• 01.08.09 16.667 5.256 14.054 195 36.172 04.08.09
• 01.09.09 16.667 5.295 13.912 195 36.069 01.09.09
• 01.10.09 16.667 5.409 13.818 195 36.089 01.10.09
• 01.11.09 16.667 5.581 13.758 195 36.201 02.11.09
• 01.12.09 16.667 5.836 13.746 195 36.444 01.12.09
• 01.01.10 16.667 6.001 13.172 195 36.035 04.01.10
• 01.02.10 16.666 6.109 12.820 195 35.790 01.02.10
• 01.03.10 16.667 6.039 12.619 195 35.520 01.03.10
• 01.04.10 16.666 6.300 12.600 195 35.761 06.04.10
• 01.05.10 16.667 6.427 12.505 195 35.794 03.05.10
• 01.06.10 16.666 6.485 12.371 195 35.717 01.06.10
• 01.07.10 16.667 6.580 12.257 195 35.699 01.07.10
• 01.08.10 16.666 6.504 12.051 195 35.416 03.08.10
• 01.09.10 16.667 6.351 11.808 195 35.021 01.09.10
• 01.10.10 16.666 6.408 11.673 195 34.942 01.10.10
• 01.11.10 16.667 6.408 11.374 246 34.695 05.11.10
• 01.12.10 16.666 6.580 11.206 219 34.671 03.12.10
• 01.01.11 16.667 6.593 11.006 195 34.461 03.01.11
• 01.02.11 16.666 6.669 10.879 1.487 35.701 07.03.11
• 01.03.11 16.667 6.459 10.620 258 34.004 07.03.11
• 01.04.11 16.666 6.733 10.583 5.041 39.023 13.05.11
• 01.05.11 16.667 6.956 10.520 1.223 35.366 13.05.11
• 01.06.11 16.666 7.140 10.311 1.580 35.697 09.06.11
No. 9
Myndrit úr Fjármálastöðugleika 2011/1 sem
sýnir áhrif verðtryggingar á skuldir heimila

Chart from Financial Stability 2011/1 showing


the effect of indexation on household debts

38 Mynd II-37 37
Útlán lánakerfisins til heimila 1

2011•1
FJÁRMÁLASTÖÐUGLEIKI
FINANCIAL STABILITY

Chart II-37
Financial system lending to households 1

Ma.kr.
B.kr.
2011•1

2,000
1,800
1,600
1,400
1,200
1,000
800
600
400
200
0
03 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010

Útlán
Loans

Útlán án gengis- og verðáhrifa


Loans corrected for price level and exchange rate
movements

1. Bókfært virði, móðurfélagstölur. Leiðrétt er fyrir áætluðum áhrifum


verðlags- og gengisbreytinga með vísitölu neysluverðs og vísitölu
meðalgengis.
Heimild: Seðlabanki Íslands.

1. Book value, parent companies. Corrected for estimated effects of


price level and exchange rate movements deflated by the CPI and
the exchange rate of the króna.
Source: Central Bank of lceland.
No. 10

Uppfært 12. ágúst 2015 Neytendastofa

Áður en tekið er lán þarf að fara yfir hvaða lánamöguleikar eru í boði og hvað hentar hverjum og einum. Lánsform
sem er hentug einum gætu ekki hentað öðrum. Þess vegna er ekki hægt að segja að eitt tiltekið lánsform sé
hagstæðast eða best. Til þess að neytendur geti betur áttað sig á hvað henti hverjum og einum eru hér eftirfarandi
almennar upplýsingar og samanburður á lánum. Ef til stendur að taka langtímalán þarf neytandinn að ákveða hvort
hann vilji verðtryggt eða óverðtryggt lán. Áður en að því kemur þarf ennfremur að skoða muninn á jafngreiðsluláni
og jafnafborganaláni og fara stuttlega yfir muninn á nafnvöxtum og raunvöxtum.

Jafngreiðslulán eða jafnafborganalán?


Almennt eru lán með mánaðarlegum greiðslum sem skiptast í afborgun af höfuðstól og vaxtagreiðslu. Höfuðstólinn
getur verið óverðtryggður og vextirnir þá í formi nafnvaxta eða höfuðstóllinn verðtryggður og þá verður
vaxtagreiðsla í formi raunvaxta eins og skýrt verður hér á eftir.

Mánaðarleg greiðsla = Afborgun af höfuðstól + Vaxtagreiðsla

Ef tekið er jafngreiðslulán er reiknað út hvaða föstu mánaðarlegu greiðslu þurfi til að standa undir afborgunum og
vaxtagreiðslum lánsins út lánstímann m.v. upphafsvexti. Með þessu, og að öðru óbreyttu, greiðir neytandinn sömu
fjárhæð í hverjum mánuði út allan lánstímann en yfir lánstímann breytist hlutfallið milli afborgunar af höfuðstól og
vaxtagreiðslu. Í upphafi er hlutfallið sem fer í afborgun af höfuðstól lágt en vaxtagreiðsluhlutinn hár. Eftir því sem
líður á tímabilið skiptist þetta, hærra hlutfall fer í afborgun af höfuðstól og sífellt lægra í greiðslu vaxta. Hraðinn í
uppgreiðslu á höfuðstól eykst því eftir sem líður á lánstímann. Kostur þessa lánsforms er lág mánaðarleg greiðsla en
ókostur er að hægt gengur að greiða niður höfuðstól.
Ef tekið er jafnafborganalán er mánaðarlega greiðslan breytileg yfir lánstímann. Afborgun af höfuðstól er, að öðru
óbreyttu, föst fjárhæð (höfuðstóll/fjöldi afborgana) og því greiðist alltaf jafn mikið af höfuðstólnum en
vaxtagreiðslan er misjafnlega há og lækkar yfir lánstímann eftir því sem gengur á höfuðstól. Þessi lán einkennast af
því að mánaðarleg greiðsla lækkar með tímanum þar sem vaxtagreiðsla fer lækkandi. Ókostur þessa lánaforms er há
mánaðarleg greiðsla í upphafi en kostur er að hratt gengur að greiða niður höfuðstól og mánaðarleg greiðsla lækkar
eftir því sem líður á lánstímann að öðru óbreyttu.

Nafnvextir og raunvextir
Miklu máli skiptir að neytendur geri sér grein fyrir formi vaxta. Almennt er gerður greinarmunur milli nafnvaxta og
raunvaxta. Nafnvextir eru þeir vextir sem taka tillit til verðbólgu, þeir endurspegla bæði vexti skuldar að raungildi
auk verðbólgu, þ.e. kaupmáttarrýrnun höfuðstóls. Á frjálsum markaði ræðst vaxtamyndun af framboði og eftirspurn.
Mismunandi er í samningum hvort kveðið er á um að nafnvextir eða raunvextir séu festir yfir tímabil. Þegar
nafnvextir eru festir fyrirfram er samhengi vaxta með eftirfarandi hætti:

1
Nafnvextir = Væntir raunvextir+ Vænt verbólga+Áhættuálag

Fastir nafnvextir, eða óverðtryggðir vextir, vísa ávallt fram í tímann, samkvæmt þeim skilmálum sem fram koma í
láninu. Verðbólga framtíðarinnar á ári er ávallt óviss en lánveitandi gerir sér væntingar um hana og byggir
vaxtaákvörðun sína á þessum væntingum. Vegna þessarar óvissu um verðbólgu og þróun hennar bætist áhættuálag
við myndun nafnvaxta, þ.e. nokkurs konar iðgjald vegna óvissunnar. Af þessu samhengi leiðir að ef raunveruleg
verðbólga fer á tímabilinu fram úr væntingum um verðbólgu, að teknu tilliti til áhættuálags, þá ívilnar það

1
þetta er u.þ.b. samhengi hið nákvæma samhengi er (1+nafnvextir) = ( 1+væntir raunvextir)* (1+vænt
verðbólga)*(1+áhættuálag)

1
No. 10

Uppfært 12. ágúst 2015 Neytendastofa

neytandanum á kostnað lánveitanda með því að neytandinn greiðir lægri raunvexti. Þessu er öfugt farið ef
verðbólgan verður í reynd lægri en væntingar stóðu til, að teknu tilliti til áhættuálagsins.
Sá sem tekur óverðtryggt lán með nafnvexti festa til ákveðins tíma borgar vænta raunvexti af láninu en því til
viðbótar borgar hann verðbætur í samræmi við vænta verðbólgu. Hinir föstu nafnvextir samanstanda af væntri
raunvaxtakröfu, væntri verðbólgu og áhættuálagi. Áhættuálagið er almennt hærra eftir því sem lengra er á milli
vaxtaendurskoðunardaga því þá er áhættan fyrir lánveitanda meiri. Eftir því sem styttra er á milli
vaxtaendurskoðunar verða vaxtakjörin á verðtryggðu láni og óverðtryggðu með breytilegum nafnvöxtum líkari, því
lánveitanda gefst oftar tækifæri til að bregðast við breyttu verðlagi með því að breyta vöxtum. Ef langt er á milli
vaxtaendurskoðunar og verðbólga verður hærri en gert hafði verið ráð fyrir, hagnast neytandinn af því að hafa tekið
óverðtryggt lán. Ef horfur eru á áframhaldandi verðbólgu þegar að næstu vaxtaendurskoðun kemur er mjög líklegt
að lánveitandi muni leitast við að jafna bilið sem varð.

Til einföldunar er í dæmunum sem hér á eftir koma gert ráð fyrir að verðbólga verði í reynd sú sama og væntingar
stóðu til. Nafnvextir óverðtryggðu lánanna hækka til samræmis við vænta verðbólgu og lánveitandi leggur ekkert
áhættuálag á vextina. Með þessu sjáum við skýrt af dæmunum hversu ólík áhrif sömu breytur hafa á ólíkar tegundir
lána, þ.e. áhrif breytinganna á höfuðstól lánsins og mánaðarlega greiðslu auk áhrifa á afborgun af höfuðstól og
vaxtagreiðslu. Ekki er horft til ívilnunar eða íþyngingar þegar væntingar um verðbólgu ganga ekki eftir.

Verðtryggt eða óverðtryggt lán?


Þegar lán er með föstum nafnvöxtum er sagt að það sé óverðtryggt. Það felur í sér að vaxtahluti greiðslunnar er í
formi nafnvaxta sem endurspeglar fyrirframvæntingar um raunávöxtun og verðbólgu líkt og áður greinir. Verðbólga
sem lánveitandi gerir ráð fyrir á tímabilinu er því staðgreidd með hluta nafnvaxta en bætist ekki á höfuðstólinn.
Verðbólguþáttur nafnvaxtanna af öllum höfuðstólnum getur því hækkað mánaðarlega greiðslu allnokkuð miðað við
ef engin verðbólga væri fyrirsjáanleg. Á móti kemur að höfuðstóll, afborgun af höfuðstól og nafnvextir breytast ekki
meðan nafnvextir eru fastir, en mánaðarleg greiðsla verður almennt hærri en af verðtryggðu láni með samsvarandi
verðbólgu. Þetta þarfnast frekari skýringar.
Verðtryggð lán taka hlutfallslegum breytingum á höfuðstól og mánaðarlegri greiðslu til samræmis við breytingar á
vísitölu neysluverðs en óverðtryggð ekki. Almennt eru vaxtabreytingar á óverðtryggðum lánum tíðari (nafnvöxtum)
en á verðtryggðum (raunvextir) enda er lánveitandi óverðtryggðs láns að leitast við að jafna þróun nafnvaxta og
verðlagsbreytinga.
Á verðtryggðum lánum hafa verðlagsbreytingar bein hlutfallsleg áhrif á höfuðstól og mánaðarlega greiðslu en á
óverðtryggðum lánum koma auknar verðlagsbreytingar til áhrifa með hækkun nafnvaxta. Hækkun nafnvaxta breytir
ekki höfuðstól lánsins eða mánaðarlegri afborgun af höfuðstól en mánaðarleg greiðsla hækkar fyrir áhrif hækkaðra
vaxtagreiðslna. Meginmunur á milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána birtist því í staðgreiðslu verðbólgunnar á
óverðtryggðum lánum. Á verðtryggðum lánum er verðbólgan ekki staðgreidd nema að litlum hluta því höfuðstóll og
afborgunin af höfuðstól hækka í sömu hlutföllum, en höfuðstóllinn að hærri krónutölu. Á óverðtryggðum lánum er
verðbólgan staðgreidd í vaxtahluta hinnar mánaðarlegu greiðslu og ekki færð á höfuðstól sem veldur þyngri
mánaðarlegri greiðslu.

2
No. 10

Uppfært 12. ágúst 2015 Neytendastofa

Áhrif mismikillar verðbólgu á mánaðarlega greiðslu í upphafi lánstíma


Á mynd 1 er dæmi um 10 millj. kr. lán sem ber 4% raunvexti. Breyturnar í dæminu eru 25 og 40 ára lán, verðtryggt
eða óverðtryggt, jafngreiðslu- eða jafnafborganalán. Athyglinni er beint að mánaðarlegri greiðslu í upphafi lánstíma.
Í öllum dæmunum er gert ráð fyrir að nafnvextir óverðtryggðu lánanna breytist í samræmi við vænta verðbólgu og
engin óvissa sé um verðlagsþróun og því ekkert áhættuálag á nafnvöxtum.
Með dæminu á mynd 1 er hægt að bera saman breytingu á mánaðarlegum greiðslum lánanna við það að
ársverðbólga/vænt verðbólga breytist og verði frá 2,5% og upp í 5%. Mánaðarleg greiðsla óverðtryggðu lánanna
hækkar töluvert meira en þeirra verðtryggðu enda eru verðbætur á höfuðstól þar staðgreiddar, ef svo má segja, en
á verðtryggðum lánum er verðbótunum öllum bætt á höfuðstól og þeim síðan dreift á eftirstandandi mánaðarlegar
greiðslur. Að sama skapi sést hér að mánaðarlegar greiðslur jafnafborganalánanna eru almennt hærri en
jafngreiðslulánanna sem endurspeglar hraðari afborgun höfuðstóls þeirra.

Verðtryggt jafngreiðslulán 10 millj. Kr Óverðtryggt jafngreiðslulán 10 millj. Kr.


Árs- 25 40 Vænt u.þ.b. 25 40
verðbólga Raunvextir verðbólga nafnvextir
2,50% 4,00% 52.892 kr. 41.880 kr. 2,50% 6,50% 67.521 kr. 58.546 kr.
3,00% 4,00% 52.914 kr. 41.897 kr. 3,00% 7,00% 70.678 kr. 62.143 kr.
3,50% 4,00% 52.935 kr. 41.914 kr. 3,50% 7,50% 73.899 kr. 65.807 kr.
4,00% 4,00% 52.956 kr. 41.931 kr. 4,00% 8,00% 77.182 kr. 69.531 kr.
4,50% 4,00% 52.978 kr. 41.947 kr. 4,50% 8,50% 80.523 kr. 73.309 kr.
5,00% 4,00% 52.999 kr. 41.964 kr. 5,00% 9,00% 83.920 kr. 77.136 kr.

Verðtryggt jafnafborganalán 10 millj. Kr. Óverðtryggð jafnafborganalán 10 millj. Kr.


Árs- 25 40 Vænt u.þ.b. 25 40
verðbólga Raunvextir verðbólga nafnvextir
2,50% 4,00% 66.804 kr. 54.278 kr. 2,50% 6,50% 88.333 kr. 75.833 kr.
3,00% 4,00% 66.831 kr. 54.300 kr. 3,00% 7,00% 92.667 kr. 80.167 kr.
3,50% 4,00% 66.858 kr. 54.322 kr. 3,50% 7,50% 97.000 kr. 84.500 kr.
4,00% 4,00% 66.885 kr. 54.344 kr. 4,00% 8,00% 101.333 kr. 88.833 kr.
4,50% 4,00% 66.912 kr. 54.366 kr. 4,50% 8,50% 105.667 kr. 93.167 kr.
5,00% 4,00% 66.938 kr. 54.387 kr. 5,00% 9,00% 110.000 kr. 97.500 kr.
Mynd 1 áhrif mismikillar verðbólgu á mánaðarlega greiðslu

Allar tölurnar á mynd 1 uppfærast hlutfallslega í samræmi við hækkandi lán. Neytandi sem hyggst taka 15
millj. kr. lán getur því margfaldað tölurnar með 1,5 og sá sem hyggst taka 20 millj. kr. lán getur
margfaldað þær með 2 til að reikna út þær fjórar sviðsmyndir sem hér eru sýndar fyrir eigið lán.

Í töflunum á mynd 1 eru sýndir u.þ.b. nafnvextir sem fengnir eru með formúlu sem sýnd er á bls. 2.
Útreikningar á mánaðarlegri greiðslu taka hins vegar mið af hinu nákvæma samhengi, sbr. fótnóta 1 3
No. 10

Uppfært 12. ágúst 2015 Neytendastofa

Áhrif breyttrar verðbólgu á lánstímanum á mánaðarlega greiðslu


Á mynd 2 er búið að setja upp sama lánið, þ.e. 10 millj. kr. lán með 4% raunvöxtum, en í þessum dæmum er
eingöngu litið til 40 ára lána. Eins og áður er gert ráð fyrir að nafnvextir óverðtryggðu lánanna breytist í samræmi
við verðbólgu, þ.e. engin óvissa er um verðlagsþróun og ekkert áhættuálag, þá er gert ráð fyrir að skilmálar
lánanna gefi lánveitanda heimild til að breyta vöxtum mánaðarlega. Slíkir lánaskilmálar eru almennt ekki gerðir en
fyrir samanburð getur verið heppilegt að skoða þetta til að sjá ólík áhrif verðbólgunnar á lánin.

Verðtryggt jafngreiðslulán með verðlagshækkun á 5. mánuði


Ársverðbólga 4,00% Ársverðbólga breytist og verður 6,00%
Raunvextir 4,00%
Lánstími í árum 40
Lánsfjárhæð 10.000.000 kr.
Fjárhæðir Fjárhæðir
Mánaðarleg Afborgun af Vaxtagreiðsla Eftirstöðvar Mánaðarleg Afborgun af Vaxtagreiðsla Eftirstöðvar
Tími mánuðir greiðsla höfuðstól (raunvextir) höfuðstóls Tími mánuðir greiðsla höfuðstól (raunvextir) höfuðstóls
Upphaf láns 10.000.000 kr. Upphaf 5. mán 10.097.135 kr.
1 41.931 kr. 8.488 kr. 33.442 kr. 10.024.249 kr. 5 42.550 kr. 8.729 kr. 33.821 kr. 10.137.554 kr.
2 42.068 kr. 8.544 kr. 33.524 kr. 10.048.522 kr. 6 42.757 kr. 8.801 kr. 33.956 kr. 10.178.098 kr.
3 42.206 kr. 8.601 kr. 33.605 kr. 10.072.817 kr. 7 42.965 kr. 8.873 kr. 34.092 kr. 10.218.768 kr.
4 42.344 kr. 8.658 kr. 33.686 kr. 10.097.135 kr. 8 43.174 kr. 8.946 kr. 34.228 kr. 10.259.562 kr.

Óverðtryggt jafngreiðslulán með breytilegum nafnvöxtum á 5. mánuði


Vænt ársverðbólga 4,00% Vænt ársverðbólga breytist og verður 6,00%
Raunvextir 4,00%
Lánstími í árum 40
Lánsfjárhæð 10.000.000 kr.
Fjárhæðir Fjárhæðir
Mánaðarleg Afborgun af Vaxtagreiðsla Eftirstöðvar Mánaðarleg Afborgun af Vaxtagreiðsla Eftirstöðvar
Tími mánuðir greiðsla höfuðstól (nafnvextir) höfuðstóls Tími mánuðir greiðsla höfuðstól (nafnvextir) höfuðstóls
Upphaf láns 10.000.000 kr. Upphaf 5. mán 9.988.427 kr.
1 69.531 kr. 2.865 kr. 66.667 kr. 9.997.135 kr. 5 85.611 kr. 2.374 kr. 83.237 kr. 9.986.053 kr.
2 69.531 kr. 2.884 kr. 66.648 kr. 9.994.252 kr. 6 85.611 kr. 2.394 kr. 83.217 kr. 9.983.658 kr.
3 69.531 kr. 2.903 kr. 66.628 kr. 9.991.349 kr. 7 85.611 kr. 2.414 kr. 83.197 kr. 9.981.244 kr.
4 69.531 kr. 2.922 kr. 66.609 kr. 9.988.427 kr. 8 85.611 kr. 2.434 kr. 83.177 kr. 9.978.810 kr.
Verðtryggt jafnafborganalán með verðlagshækkun á 5. mánuði
Ársverðbólga 4,00% Ársverðbólga breytist og verður 6,00%
Raunvextir 4,00%
Lánstími í árum 40
Lánsfjárhæð 10.000.000 kr.
Fjárhæðir Fjárhæðir
Mánaðarleg Afborgun af Vaxtagreiðsla Eftirstöðvar Mánaðarleg Afborgun af Vaxtagreiðsla Eftirstöðvar
Tími mánuðir greiðsla höfuðstól (raunvextir) höfuðstóls Tími mánuðir greiðsla höfuðstól (raunvextir) höfuðstóls
Upphaf láns 10.000.000 kr. Upphaf 5. mán 10.047.164 kr.
1 54.344 kr. 20.902 kr. 33.442 kr. 10.011.836 kr. 5 54.864 kr. 21.210 kr. 33.654 kr. 10.074.859 kr.
2 54.452 kr. 20.970 kr. 33.482 kr. 10.023.642 kr. 6 55.060 kr. 21.313 kr. 33.746 kr. 10.102.585 kr.
3 54.560 kr. 21.039 kr. 33.522 kr. 10.035.418 kr. 7 55.256 kr. 21.417 kr. 33.839 kr. 10.130.343 kr.
4 54.668 kr. 21.107 kr. 33.561 kr. 10.047.164 kr. 8 55.454 kr. 21.521 kr. 33.932 kr. 10.158.131 kr.
Óverðtryggt jafnafborganalán með breytilegum nafnvöxtum á 5. mánuði
Vænt ársverðbólga 4,00% Vænt ársverðbólga breytist og verður 6,00%
Raunvextir 4,00%
Lánstími í árum 40
Lánsfjárhæð 10.000.000 kr.
Fjárhæðir Fjárhæðir
Mánaðarleg Afborgun af Vaxtagreiðsla Eftirstöðvar Mánaðarleg Afborgun af Vaxtagreiðsla Eftirstöðvar
Tími mánuðir greiðsla höfuðstól (nafnvextir) höfuðstóls Tími mánuðir greiðsla höfuðstól (nafnvextir) höfuðstóls
Upphaf láns 10.000.000 kr. Upphaf 5. mán 9.916.667 kr.
1 87.500 kr. 20.833 kr. 66.667 kr. 9.979.167 kr. 5 103.472 kr. 20.833 kr. 82.639 kr. 9.895.833 kr.
2 87.361 kr. 20.833 kr. 66.528 kr. 9.958.333 kr. 6 103.299 kr. 20.833 kr. 82.465 kr. 9.875.000 kr.
3 87.222 kr. 20.833 kr. 66.389 kr. 9.937.500 kr. 7 103.125 kr. 20.833 kr. 82.292 kr. 9.854.167 kr.
4 87.083 kr. 20.833 kr. 66.250 kr. 9.916.667 kr. 8 102.951 kr. 20.833 kr. 82.118 kr. 9.833.333 kr.

Mynd 2 áhrif verðbólgubreytinga á mánaðarlega greiðslu

4
No. 10

Uppfært 12. ágúst 2015 Neytendastofa

Á mynd 2 eru skoðaðir fyrstu átta gjalddagar lánsins en á fimmta mánuði hækkar verðbólgan/vænt verðbólga úr 4%
í 6%, sem leiðir til þess að nafnvextir óverðtryggða lánsins hækka sem því nemur. Af dæmunum má því sjá ólík áhrif
hækkunarinnar á verðtryggð og óverðtryggð jafngreiðslu og jafnafborganalán.
Þegar fjárhæðirnar eru bornar saman má sjá að verðlagshækkunin hefur minnst áhrif á mánaðarlega greiðslu
verðtryggða jafngreiðslulánsins á meðan mest áhrif koma fram í óverðtryggða jafnafborganaláninu. Þegar litið er á
eftirstöðvar höfuðstólsins er dæminu öfugt farið. Höfuðstóll verðtryggðu lánanna hækkar með hverjum mánuði, en
meira á jafngreiðsluláninu heldur en jafnafborganaláninu. Höfuðstóll óverðtryggðu lánanna heldur áfram að lækka
en þó töluvert hraðar á jafnafborganaláninu.
Þetta dæmi sýnir, m.v. gefnar forsendur, að mánaðarlegar greiðslur verðtryggðs jafngreiðsluláns hækka vegna
breyttrar verðbólgu, frá fyrsta til fimmta mánaðar, úr 41.931 kr. í 42.550 kr. en á verðtryggðu jafnafborganaláni úr
53.344 kr. í 54. 864 kr. Mánaðarleg greiðsla óverðtryggðu lánanna er mun hærri, óverðtryggt jafngreiðslulán byrjar í
69.531 kr. en hækkar í 85.611 kr. á fimmta mánuði við nafnvaxtabreytingu. Óverðtryggt jafnafborganalán byrjar í
87.500 kr. en fer í 103.472 kr. Þetta sýnir hvoru tveggja: mismunandi áhrif á mánaðarlega greiðslu, sem orsakast af
því hvort verðbólga sé staðgreidd (óverðtryggt lán) eða lögð á höfuðstól (verðtryggt lán), og ólíka þyngd
mánaðarlegrar greiðslu jafnafborganalána og jafngreiðslulána.

5
No. 10

Uppfært 12. ágúst 2015 Neytendastofa

Þróun höfuðstóls og mánaðarlegrar greiðslu óverðtryggðra og verðtryggðra jafngreiðslulána


Hér hefur þróun höfuðstóls og mánaðarlegrar greiðslu jafngreiðslulána verið settur upp myndrænt, bæði verðtryggt
og óverðtryggt lán til 25 og 40 ára. Enn erum við með sama lánið, þ.e. 10 millj. kr. með 4% raunvöxtum og
nafnvextir óverðtryggða lánsins haldast í hendur við verðbólgu. Athugið að í þessum dæmum er ekki gert ráð fyrir
að verðbólga eða vextir breytist yfir lánstímann.
Þegar litið er á höfuðstólinn má sjá að höfuðstóll verðtryggðra 40 ára lánanna hækkar allnokkuð áður en hann fer
að vinnast niður. Þetta getur leitt til þess að eignarmyndun verður neikvæð þangað til lengra er liðið á lánstímann
en þar ræður þróun fasteignaverðs. Höfuðstóll óverðtryggðu lánanna lækkar mun hraðar enda er verðbólgunni ekki
bætt við höfuðstólinn sem birtist í hærri mánaðarlegri greiðslu.
Það skal haft í huga að mánaðarleg greiðsla verðtryggðu og óverðtryggðu lánanna er mjög ólík í upphafi líkt og áður
hefur komið fram. Greiðslan fer hækkandi eftir því sem líður á verðtryggða lánið, að því gefnu að forsendur haldist
óbreyttar, en greiðslan helst sú sama á óverðtryggða láninu.

Mynd 3 þróun höfuðstóls og mánaðarlegrar greiðslu jafngreiðslulána

6
No. 10

Uppfært 12. ágúst 2015 Neytendastofa

Þróun höfuðstóls og mánaðarlegrar greiðslu óverðtryggðra og verðtryggðra jafnafborganalána


Hér hefur þróun höfuðstóls og mánaðarlegra greiðsla jafnafborganalána verið settur upp myndrænt, bæði
verðtryggt og óverðtryggt lán til 25 og 40 ára. Enn er um að ræða sama lánið, þ.e. 10 millj. kr. með 4% raunvöxtum
og nafnvextir óverðtryggða lánsins haldast í hendur við verðbólgu. Athugið að í þessum dæmum er ekki gert ráð
fyrir að verðbólga eða vextir breytist yfir lánstímann.
Þegar litið er á höfuðstólinn má sjá að höfuðstóll verðtryggða 40 ára lánsins hækkar að krónutölu yfir líftíma þess ef
verðbólgan helst 4,5%. Við lægri verðbólguforsenduna (2,5%) nær afborgunin af höfuðstól að vega á móti
hækkuninni á fyrri hluta tímabils þannig að hann hækkar ekki að krónutölu. Sams konar þróun verður í höfuðstól 25
ára lánsins. Hækkunin verður þó ekki jafn mikil á jafnafborganaláninu og á jafngreiðsluláninu í dæminu á undan þar
sem uppsöfnunaráhrif verðbólgu á höfuðstól eru minni vegna þess að mánaðarlega afborgun af höfuðstól
jafnafborganalána saxar hraðar á höfuðstól á fyrri hluta lánsins og dregur úr áhrifum verðbólgu á höfuðstól. Á
óverðtryggðu lánunum er alltaf greidd sama fjárhæð inn á höfuðstólinn og því lækkar hann sífellt að sömu
krónutölu óháð því hversu háir vextir eru á láninu.
Af myndunum má ennfremur sjá að þróun mánaðarlegrar greiðslu verðtryggðs og óverðtryggðs jafnafborganaláns
er þveröfug. Mánaðarleg greiðsla þess verðtryggða er tiltölulega lág í upphafi (verðbólgan er ekki staðgreidd) en fer
hækkandi yfir lánstímann, þó mismikið eftir því hversu mikil verðbólgan er. Það temprar hækkunina að vaxtahluti
lánsins lækkar yfir tíma. Mánaðarleg greiðsla óverðtryggða lánsins er hins vegar frekar há í upphafi lánstímans
(staðgreidd verðbólga höfuðstóls) en lækkar jafnt og þétt eftir því sem líður á lánið og vaxtahluti mánaðarlegrar
greiðslu lækkar.

Mynd 4 þróun höfuðstóls og mánaðarlegrar greiðslu jafnafborganalána

7
No. 10

Uppfært 12. ágúst 2015 Neytendastofa

Þróun verðlags og ráðstöfunartekna s.l. 10 ár


Þegar skoðuð eru áhrif verðlagsbreytinga á höfuðstól og mánaðarlegar greiðslur lána þarf að hafa í huga að fyrir
lántaka getur sama krónutala verið misíþyngjandi á ólíkum tímum. Ekki hefur verið tekið tillit til þess í dæmunum
hér að ofan en hafa þarf í huga samspil þróunar ráðstöfunartekna og verðlags. Mynd 5 sýnir hvernig verðlag
þróaðist mun hægar en ráðstöfunartekjur fram til 2009. Fram að þeim tíma léttist greiðslubyrði í hlutfalli af
ráðstöfunartekjum ár frá ári. Eftir 2010 snerist þróunin við: þá fór verðlagið að hækka hraðar en ráðstöfunartekjur
að hlutfallstölu sem íþyngdi greiðslubyrði lána.

Mynd 5 þróun verðlags og ráðstöfunartekna

8
No. 11

Hagsmunasamtök Heimilanna
The Homes Association - Iceland
Greining á næmni verðtryggðra lána fyrir misjafnlega háu verðbólgustigi
Með samanburði við áhrif raunverulegrar verðbólgu á lán tekið um mitt ár 2001

Analysis of the sensitivity of CPI-indexed loans to various inflation rates


Compared with the impact of actual inflation on a loan made at mid-year 2001

LÁNTÖKUFORSENDUR
LOAN CRITERIA

Lánsfjárhæð
ISK 10.000.000
Amount of credit

Lántökudagur
01/06/2001
Borrowing date
Fyrsti gjalddagi 7/1/2001
01/07/2001
First instalment

Lánstími ár
40
Loan period years
Gjalddagar
# 480
Instalments

Nafnvextir
4,00%
Nominal interest rate

Grunnvísitala stig
209,4
Base CPI points

Afborgunarferill jafngreiðslur *
Amortization type annuitet *
* breytilegar eftir verðbólgu
* adjusted for inflation

SAMANBURÐUR KOSTNAÐAR
COST COMPARISON

Verðbólga ÁHK Kostnaður


Inflation rate APRC Total cost
0,00% 4,071% 10.061.011
1,00% 5,111% 14.650.368
2,50% 6,671% 24.260.151
4,00% 8,231% 38.684.218
5,50% 9,791% 60.535.648
7,00% 11,351% 93.879.355
raunverðbólga 9,391% 18.033.754 *
4,97% avg. * fram til júlí 2016
actual inflation * as of july 2016
No. 12

The European Commission


℅ Commissioner for enlargement Štefan Füle
℅ Commissioner for consumer policy Tonio Borg
The European Parliament
℅ President Martin Schulz
EU delegation to Iceland
℅ Ambassador Timo Summa
℅ European Integration manager Amela Trhulj
EFTA Surveillance Authority
℅ President Oda Helen Sletnes
Frakkastíg 27, húsnæði Tækniskólans, 101 Reykjavík, ICELAND

January 9th, 2013

Re: Complex financial indexation imposed on Icelandic consumer credit

The Homes Association of Iceland, Hagsmunasamtök heimilanna (HH), was established in 2009. HH is
a public interest group in the consumer field, lobbying and fighting for the rights, protection and
prosperity of Icelandic households. Currently HH has over 8.500 registered members, ca. 5 % of
homes in Iceland.

The main short term objective of HH is to urgently address the impact made by the financial crisis on
households, and prevent households from becoming victims of unfair and possibly illegal confiscation
of property as well as unsustainable debt and social disintegration. Among our key objectives are
corrections of mortgage capital indexed to inflation or foreign currencies, a reasonable interest rate
environment, and sharing of risk and responsibility between borrowers and lenders. A particular
issue of concern is a specific form of indexation called “verðtrygging”.

Iceland has a relatively long history of widespread financial indexation and as it turns out, most
household mortgages are not really what most other countries would recognize as such. The most
common type of mortgage loan in Iceland is actually more like the complex derivative type of
financial instrument, a loan for a term of 40 years at a fixed rate of interest combined with an
inflation derivative (“verðtrygging”) and secured by residential real estate collateral. This kind of
financial contract which Icelandic law requires to be linked to the official consumer price index (hence
the term CPI-indexation) is commonly known as an index-linked loan, and has also been referred to in
a recent bank report as “Íslandslán” or “Iceland-loan”.

While rampant inflation would ordinarily cause inflation linked mortgage payments to rise sharply,
these loans have additionally been engineered with graduating payments and negative amortization
schedules, leading to compounding interest accrual and in the long run exponential growth of
monthly payments. The ever increasing costs inevitably lead to a variety of economic calamities and
human tragedy. Since originally introduced, such contracts have become so widespread as to
currently represent 85% of the Icelandic mortgage market or around 75% of GDP, one third being
accumulated cost of inflation or around 25% of GDP. Through the years this risk transfer mechanism
has imposed enormous liabilities on the homes which for many has turned out to be an impossible
burden to bear, resulting in thousands of families defaulting on their payments with many of them
having to suffer, or are now facing foreclosure.
No. 12

Among key objectives of HH are corrections of FX and CPI-indexed mortgages and abolishment of
indexation on consumer loans. In the past years we have tried to achieve these goals by various
measures; by rallying, lobbying on different forums and in 2010 by sending a complaint to ESA
against Icelandic authorities, because of their failure in the area of consumer protection regarding
consumer loan indexation, including FX and CPI-indexation. HH is currently involved in court trials
claiming that indexation on consumer loans is incompatible with consumer rights protection as
defined by the directives which have supposedly been implemented in Icelandic law.

Our actions have revealed unquestionable opposition by the Icelandic public against consumer loan
indexation. According to a Capacent Gallup poll conducted in November 2011, abolishment was
supported by 80% of the public, and in the same year a petition for mortgage debt relief and
abolishment of indexation was signed by over 37.000 voters during the course of six months.
Unfortunately such demands by the public have to this date been largely ignored by the authorities
and government of Iceland. Minor adjustments have been made, mostly to write off bad debt, but
none so far that sufficiently address this root cause of bad debt in the first place, the specific and
widespread form of financial indexation in consumer loans called “verðtrygging”.

In the meanwhile some leading political forces actively promote EU-membership as a panacea for
mortgage debt problems in Iceland, although any specifics yet remain unclarified to the public. This
question becomes even more pressing in light of the fact that substantial parts of the acquis on
consumer protection and financial services, should already be implemented or adopted in Iceland via
legislative coordination with North-European countries and Iceland’s membership to the European
Economic Area since ratification of the EEA agreement in 1993. These include:

● Directive 85/577/EEC to protect the consumer in respect of contracts negotiated away from
business premises
● Directive 87/102/EEC for the approximation of the laws, regulations and administrative
provisions of the Member States concerning consumer credit as amended by directive 98/7 *
● Directive 93/13/EEC on unfair terms in consumer contracts
● Directive 97/7/EC on the protection of consumers in respect of distance contracts
● Directive 98/27/EC on injunctions for the protection of consumers' interests **
● Directive 2002/65/EC concerning the distance marketing of consumer financial services
● Directive 2004/39/EC on markets in financial instruments
● Regulation No 2006/2004 on Consumer Protection Cooperation
● Directive 2005/29/EC concerning unfair business-to-consumer commercial practices in the
internal market

* It should be noted that since the year 2000, mortgage loans have been defined as consumer credit
under the scope of current implementation by act. no. 121/1994 on consumer credit.

** Since january 2012 HH has been appointed as a consumer protection organization under the
injunctions directive. The first such case was brought forward in early 2012, leading to a ruling by the
Supreme Court of Iceland on october 15 where the requested injunction was not granted. We
believe the court may have misinterpreted the injunctions directive, enabling lenders to continue
overcharging on certain loan agreements that have been ruled illegitimate by the same court.
No. 12

Directive 2008/48/EC on credit agreements for consumers has yet to be implemented in Iceland. To
such ends in march 2012, a bill of amendments to the act on consumer credit was proposed to the
140th session of Alþingi and a revised version was proposed to the current 141th session in october.
Despite these efforts however, on november 28 the EFTA Surveillance Authority decided to bring a
case against Iceland before the EFTA court for failure to timely implement the directive.

On the basis of extensive research into the problem of indexation (“verðtrygging”) in consumer
credit, HH and others have made formal comments on the proposed bill which are available on the
Althingi website. In our comments we have tried to straighten out the confusion that seems to
surround these issues in Iceland, allowing lenders to get away with questionable business practices,
seemingly in violation of the act on consumer credit and EEA consumer protection.

In order to press for this issue to be resolved, a case has recently been brought to trial before the
Reykjavík district court, in which the attorney general himself defends the claim on behalf of lenders
that the act on consumer credit allows exclusion of the cost of indexation from the total cost of credit
and its expression by the annual percentage rate of charge (APRC) as defined by the act and
directives regarding consumer credit. This is obviously in contrast with any common understanding of
the meaning of the words “total” and “cost” which is only reasonable to assume must include any
and all costs, including the cost of inflation imposed by indexation.

Such clear willingness to disregard the objectives set by the EEA consumer protection directives is
disconcerting, in particular when taken into account that in commentary notes attached to the new
bill on consumer credit is what seem to be nothing less than carefully crafted explanations
attempting to retroactively provide a sense of legitimacy to this otherwise illegitimate practice of
excluding a substantial cost factor from information provided about the total cost of credit. It is the
perception of HH on behalf of our members and supporters that such misrepresentation can only
serve to hide the true cost of consumer credit contracts in support of marketing practices that would
best be described as deceptive, misleading, and therefore probably illegitimate.

Attached to this letter are examples showing graphical representations of mortgage repayment
schedules as calculated for Icelandic CPI-indexed loans, and comparison including and excluding the
cost of inflation due to CPI-indexation of outstanding credit. More extensive information can be
found on the HH website and the english section in particular regarding indexation. Finally we would
welcome any requests for more information or further insights concerning these issues.

Respectfully,
on behalf of the Homes Association, Iceland

_______________________________________
Ólafur Garðarsson, chairman

Attachment: side-by-side comparison showing total cost of credit and indexation


No. 12

Hagsmunasamtök Heimilanna
The Homes Association - Iceland
THE EXPLOSIVE LOAN MACHINE
A Model of Icelandic CPI-indexed Mortgage Loan Repayment Structure

LOAN CRITERIA

Loan principal ISK 20.000.000


Stamp duty 1,5% 300.000
Borrowing fee 1,0% 200.000
Paperwork cost ISK 5.900
Cash disbursment ISK 19.494.100

Borrowing date 30 1/1/2013


First payment 2/1/2013 1/2/2013
Loan term years 40
Instalments # 480
Invoice fee ISK 195

Annual interest rate 4,50%


Inflation forecast 30 4,50%
Base CPI points 402,0
Historical inflation average 5,79%

Total repayment 118.369.979


Repayment percentage 592%
Annual percentage rate 10,65%

Note: faded lines represent repayment plans excluding indexation, while bold represent the actual total cost including indexation
Case handler: Werner Miguel Kühn Brussels, 18 November 2016
Tel: (+32)(0)2 286 1846 Case No: 79870 EFTA SURVEILLANCE

e-mail: wku@eftasurv.int Document No: 827169 AUTHORITY

Hagsmunasamtök heimilanna
Guðmundur Ásgeirsson
Ármúla 5
108 Reykjavík
Iceland

Dear Mr Ásgeirsson,

Subject: Letter of acknowledgement

On 15 November 2016, you submitted a complaint on behalf of Hagsmunasamtök


heimilanna (Homes Association of Iceland) to the EFTA Surveillance Authority (“the
Authority”) against Iceland. In the complaint you allege that Iceland has incorrectly
implemented Council Directive 87/102/EEC of 22 December 1986 for the approximation of
the laws, regulations and administrative provisions of the Member States concerning
consumer credit and/or Directive 2008/48/EC of the European Parliament and of the
Council of 23 April 2008 on credit agreements for consumers by allowing an indexation of
housing loans.

Your complaint has been registered by the Authority under the case number indicated above.
This case number should be quoted in all future correspondence with the Authority. Please
note that the assignment of an official case number does not necessarily mean that the
Authority will open infringement proceedings against the EFTA State in question.

The Authority will consider your complaint in light of the applicable EEA law. You will be
informed of the steps taken and the result of this examination. The Authority's Internal
Market Affairs Directorate (“the Directorate”), which will be handling the complaint, may
contact you for further information. The name and contact details of the responsible case
handler appear at the top of this letter. Please note, you will not be requested to contribute
to the procedural costs of any investigation.

As a complainant you may choose whether your complaint is to be dealt with on a


confidential or non-confidential basis.

The Authority notes that you have chosen to have your complaint treated on a non-
confidential basis. The Authority therefore has your permission to disclose your identity in
any communications with the Icelandic authorities.

As well as the complaint you have lodged with the Authority, it may be in your interest to
consider making use of national procedures which may give rise to a remedy. Relevant
national provisions may enable you to assert your rights in a more direct manner. For
example, if you have suffered damage, only the national courts can award compensation
against Iceland. Furthermore, since there might be a time limit for challenging national

______________________________________________________________________________
Rue Belliard 35, B-1040 Brussels, tel: (+32)(0)2 286 18 11, fax: (+32)(0)2 286 18 00, www.eftasurv.int
EFTA SURVEILLANCE

Page 2 AUTHORITY

measures, there is a risk that you could lose your right to a remedy at national level if these
rights are not exercised promptly.

Please keep the Authority informed of any developments concerning your complaint at the
national level.

For your information, we have enclosed a note explaining the proceedings which may be
taken against an EFTA State for non-compliance with EEA law.

Finally, please note that individuals and economic operators are entitled to communicate
with the Authority in any one of the official languages of the EFTA States or of the European
Union. The working language of the Authority is English. Should you wish to have a
translation of the Authority's correspondence into Icelandic this can be provided. However,
this may cause delays in the handling of your complaint. You may, of course, use Icelandic
in your correspondence with the Authority at all times.

Yours sincerely,

Gabrielle Somers
Deputy Director
Internal Market Affairs Directorate

Enclosure: Explanation of proceedings initiated against EFTA States due to non-compliance


with EEA law
EFTA SURVEILLANCE

Page 3 AUTHORITY

Explanation of proceedings which may be taken against EFTA States for


non-compliance with EEA law

1 Principles

Each Contracting Party to the EEA Agreement is responsible for the implementation of EEA
law within its own legal system. This includes the adoption of implementing measures
before a specified deadline, the fulfilment of obligations arising from the Agreement and
the correct application of the Agreement's provisions. The EEA Agreement provides that
the EFTA Surveillance Authority is responsible for ensuring that EEA law is correctly
applied by the EFTA States . 1

When an EFTA State fails to comply with EEA law the Authority will normally first seek
to resolve the issue through direct contact with the EFTA State in question. However, if the
EFTA State persists in its failure to comply with EEA law, the Authority may refer the case
to the EFTA Court . The Authority takes whatever action it deems appropriate in response
2

to a possible infringement of EEA law, whether notified as a complaint or detected by the


Authority itself.

Non-compliance means failure by an EFTA State to fulfil its obligations under EEA law.
This may be in the form of either an action or omission. The term "State" is taken to mean
the EFTA State which infringes EEA law, and covers all levels of government or
administration, irrespective of the authority - central, regional or local - to which the breach
is attributable.

2 Admissibility of complaints

Anyone may lodge a complaint with the Authority against an EFTA State arising from any
measure (law, regulation or administrative action) or practice attributable to an EFTA State
which they consider to be incompatible with a provision or a principle of EEA law. The
complainant does not have to demonstrate that they are principally and directly concerned
by the infringement. To be admissible, however, a complaint must relate to an infringement
of EEA law by an EFTA State . It cannot concern a dispute between private parties .
3 4

It is very important that a complaint lodged with the Authority is complete and accurate.
This is particularly important as regards the facts referred to in the complaint concerning
the EFTA State in question, any steps that the complainant has already taken, at any level,
and, as far as possible, the provisions of EEA law that the complainant considers have been
infringed.

3 Stages of infringement proceedings in response to a complaint

_________________________
1
Articles 108 and 109 of the EEA Agreement.
2
See Article 31 of the Agreement between the EFTA States on the Establishment of a Surveillance Authority
and a Court of Justice.
3
It should be noted that, if the Authority receives a complaint against an EU State, it will pass the complaint
to the European Commission, which is responsible for ensuring that EEA law is correctly applied by the EU
Member States. The Authority will inform the complainant of the transfer of the complaint to the European
Commission.
4
The procedural rules are different for complaints concerning a breach of the EEA Agreement's provisions
on Competition (Articles 53 - 60), please consult our web page for further information:
http://www.eftasurv.int/competition/complaints/
EFTA SURVEILLANCE

Page 4 AUTHORITY

The stages described here may be followed by the Authority when investigating a possible
infringement of EEA law which has been notified to the Authority by a complainant.

3.1 Information gathering

In response to a complaint it may be necessary to gather further information to determine


the facts and the legal issues arising in the case. If necessary, the complainant will be asked
to supply further information.

The Authority will not disclose the complainant's identity to the authorities of the EFTA
State against which a complaint has been made if the complainant has requested confidential
treatment.

After examining the facts and related legal provisions, and in the light of the rules and
priorities established by the Authority for opening and pursuing infringement proceedings,
the Authority will decide whether further action should be taken in relation to a complaint.

3.2 Opening of infringement proceedings: formal contacts between the Authority and
the EFTA State concerned

If the Authority considers that an infringement of EEA law warranting the opening of
infringement proceedings may have occurred, it addresses a "letter of formal notice" to the
EFTA State concerned. This letter will identify those provisions of EEA law that appear, on
the basis of available information, to have been breached. The EFTA State must adopt a
position on the facts and points of law on which the Authority bases its decision to open the
infringement procedure. The EFTA State is required to submit its observations on the letter
of formal notice by a specified date (normally two months).

In light of the reply to the letter of formal notice, or in the absence of a reply from the EFTA
State concerned, the Authority may decide to address a "reasoned opinion" to that State.
The reasoned opinion sets out, clearly and definitively, the reasons why the Authority
considers that an infringement of EEA law has occurred and calls on the EFTA State to
comply with EEA law within a specified time period (normally two months).

The purpose of this formal correspondence is to determine whether an infringement of EEA


law has, indeed, occurred. If so, they are intended to resolve the case at this stage.

In light of the reply to the reasoned opinion, the Authority may decide not to refer the matter
to the EFTA Court, for example, where the EFTA State provides credible assurances as to
its intention to amend its legislation or administrative practice. Most cases can be resolved
in this way. However, if the Authority, after the expiry of the time period specified in the
reasoned opinion, is of the view that the infringement of EEA law continues, it may choose
to bring the case before the EFTA Court.

3.3 Referral to the EFTA Court

Where the Authority brings a case before the EFTA Court, the Court will generally rule on
the case within a year.

Judgments of the EFTA Court differ from those of national courts. At the close of the
proceedings, the Court delivers a judgment stating whether or not there has been an
EFTA SURVEILLANCE

Page 5 AUTHORITY

infringement of EEA law. The Court cannot annul a national provision that is incompatible
with EEA law, neither can it force a national administration to respond to the request of an
individual, nor can it order the State to pay damages to an individual who has been adversely
affected by an infringement of EEA law.

It is the duty of an EFTA State against which the EFTA Court has given judgment to take
whatever measures are necessary to comply with the judgment, and in particular to resolve
the dispute which gave rise to the proceedings. If the State does not comply with the Court's
judgment, the Authority may again bring the matter before the EFTA Court as the State will
then have failed to fulfil its obligations under the Agreement.

4 National remedies

National courts and administrative bodies have the primary responsibility of ensuring that
the authorities of the EFTA States comply with EEA law . If, therefore, a complainant
5

considers a particular measure (law, regulation or administrative action) or administrative


practice to be incompatible with EEA law, the complainant should consider the remedies
available before the national administrative or judicial authorities (including national or
regional ombudsmen) and/or through any arbitration and conciliation procedures available.
There is a risk that complainants will lose their rights to a remedy at national level if these
rights are not exercised promptly as there might be a time limit for seeking such redress at
national level. Where questions on the interpretation of the EEA Agreement are raised
before any court or tribunal in an EFTA State, that court or tribunal may request the EFTA
Court to give an advisory opinion on the questions . 6

By using the means of redress available at the national level a complainant should, as a rule,
be able to assert his or her rights more directly and more personally than is possible in
infringement proceedings successfully brought by the Authority. Moreover, proceedings by
the Authority can take some time. Only national courts can issue orders to administrative
bodies and annul a national decision. Moreover, only national courts have the power, where
appropriate, to order a State to make good the loss sustained by individuals as a result of the
infringement of EEA law attributable to it.

5 Administrative guarantees

The following administrative guarantees exist for the benefit of a complainant:

a) Following its registration by the Authority, a complaint will be assigned an official


case number (as set out in a letter of acknowledgement to the complainant). This
case number should be quoted in any correspondence with the Authority.
Assignment of an official case number to a complaint does not necessarily mean that
infringement proceedings will be opened against the EFTA State in question.

_________________________
5
It should be noted that the EEA Agreement is part of the EFTA States' internal legal order. It was made part
of Iceland's national legislation by Law No. 2 of 13 January 1993 and of the Norwegian national legislation
by Law No. 10 of 27 November 1992. As Liechtenstein follows a monist tradition the Agreement became
part of its national legal order upon entry into force. It was published in the Law Gazette LGBI 1995 No.
68.
6
Article 34 of the Agreement between the EFTA States on the Establishment of a Surveillance Authority and
a Court of Justice.
EFTA SURVEILLANCE

Page 6 AUTHORITY

b) When the Authority contacts the EFTA State against which the complaint has been
made, it will abide by the choice made by the complainant regarding confidentiality
including disclosure of the complainant's identity. However, it should be borne in
mind that the disclosure of the complainant's identity by the Authority may in some
cases be indispensable to the handling of the complaint or may be unavoidable due
to the factual circumstances of the complaint. Should the Authority decide it is
necessary to disclose the identity, the Authority will contact the complainant in
advance.

c) The Authority will endeavour to take a decision on the substance of a complaint


(either to open infringement proceedings or to close the case) within one year of
registration of the complaint.

d) Where the Authority plans to close a case with the finding that there is no
infringement, the complainant will be informed in advance by the relevant
Directorate of the Authority. The complainant will be given the opportunity to
comment on the Authority's intention to close the case. The Authority will keep the
complainant informed of the course of any infringement procedure.

-----
Case handler: Werner Miguel Kühn Brussels, 18 November 2016
Case No: 79870 EFTA SURVEILLANCE
Tel: (+32)(0)2 286 1846
e-mail: wku@eftasurv.int Document No: 827180 AUTHORITY

Icelandic Ministry for Foreign Affairs


Rauðarárstígur 25
IS-150 Reykjavik
Iceland

Dear Sir/Madam,

Subject: Complaint against Iceland concerning an alleged incorrect implementation


of the EEA rules on credit agreements for consumers

On 15 November 2016, the EFTA Surveillance Authority (“the Authority”) received a


complaint against Iceland concerning an alleged incorrect implementation of Council
Directive 87/102/EEC of 22 December 1986 for the approximation of the laws, regulations
and administrative provisions of the Member States concerning consumer credit and/or
Directive 2008/48/EC of the European Parliament and of the Council of 23 April 2008 on
credit agreements for consumers by allowing an indexation of housing loans.

The Authority’s Internal Market Affairs Directorate (“the Directorate”) is presently


considering the merits of the complaint. After a preliminary assessment has been
undertaken, the Directorate may, where appropriate, ask the Icelandic Government to
provide further information as well as its observations on the complaint.

Yours faithfully,

Gabrielle Somers
Deputy Director
Internal Market Affairs Directorate

Rue Belliard 35, B-1040 Brussels, tel: (+32)(0)2 286 18 11, fax: (+32)(0)2 286 18 00, www.eftasurv.int
Eftirlitsstofnun EFTA
EFTA Surveillance Authority
Rue Belliard 35
B-1040 Brussels
Belgium

Reykjavík, 23 November 2016


Case No. 79870
Case handler: Werner Miguel Kühn
e-mail: wku@eftasurv.int

Clarification of certain issues regarding the letter of acknowledgement of 18 November 2016

On 15 November 2016, a complaint was submitted on behalf of Hagsmunasamtök heimilanna (Homes


Association of Iceland) to the EFTA Surveillance Authority (ESA) concerning the implementation of
rules on consumer credit. On 18 November 2016, ESA replied with a letter of acknowledgement with
enclosed explanation of proceedings. While we are grateful for the acknowledgement, certain remarks
in that letter seem to imply an inaccurate and even incorrect understanding of the issues involved. For
the sake of clarity, we therefore wish to submit the following explanations.

Sentence two in paragraph one of the letter of acknowledgement reads: „In the complaint you allege
that Iceland has incorrectly implemented Council Directive 87/102/EEC of 22 December 1986 for the
approximation of the laws, regulations and administrative provisions of the Member States concerning
consumer credit and/or Directive 2008/48/EC of the European Parliament and of the Council of 23
April 2008 on credit agreements for consumers by allowing an indexation of housing loans.“

There are three particular issues in the above sentence, which seem to require some clarification.

1. It is correct that in the complaint, we allege that Iceland has incorrectly implemented Council
Directive 87/102/EEC. However, it must be kept in mind that there are at least two different ways this
conclusion is reached in the complaint. First, that the directive was in fact correctly implemented in
Icelandic legislation, however the Supreme Court of Iceland failed to apply those rules correctly in the
judgement of 26 November 2016 in case no. 243/2015. Secondly, if the domestic law in question is
seen to be correctly applied by the Supreme Court of Iceland, that must lead to the conclusion that
those rules were incorrectly implemented in the corresponding Icelandic law to begin with. Either way
this leads in our opinion to the result that Iceland has violated the provisions of the directive.

2. The assertion in the letter of acknowledgement, that in our complaint we allege that Iceland has
incorrectly implemented the directives in question by allowing an indexation on loans, is manifestly
wrong and without any basis whatsoever. Indexation of credit is allowed by Icelandic law, but this has
very little if anything to do with EEA-rules, which seem to have no bearing on that issue. The actual
basis of our complaint is that while such indexation is allowed by Icelandic law, the effect it has on
the total cost of credit and the annual percentage rate of charge, should be disclosed to consumers, as
confirmed by the EFTA-court in its judgement in case E-27/13. By failing to meet those conditions,
the Icelandic law as interpreted by the Supreme Court of Iceland, is in violation of EEA-rules.

The Homes Association • Ármúli 5 • 108 Reykjavík, Iceland • National ID 520209-2120


heimilin@heimilin.is • www.heimilin.is
3. Another assertion in the letter of acknowledgement, that our complaint over the aforementioned
lack of disclosure of the actual cost resulting from indexation of consumer credit, applies to housing
loans exclusively, is in fact quite inaccurate and potentially misleading. We are aware that Article 2 of
Directive 87/102/EEC, specifically excludes housing loans from the scope of the provisions of the
directive. However, as stated in Article 15 of Directive 87/102/EEC, this does not preclude Member
States from retaining or adopting more stringent provisions to protect consumers consistent with their
obligations under the Treaty. This entails minimum harmonisation, as opposed to full harmonisation
of national legislation, meaning that national law may exceed the terms of the directive as desired, for
example if the national legislature finds it appropriate to provide better protection to consumers. This
is precisely what the Icelandic legislature has done by amending the domestic law on consumer credit
in the year 2000 and expanding the scope of consumer protection in the credit market to include
housing loans, as thoroughly explained in our complaint.

This extension of the scope of the domestic legislation means that the same law applies to most types
of credit extended to individuals, including both housing loans and other types of credit in general.
Therefore, any interpretation of the Icelandic law on consumer credit, such as in the Supreme Court’s
judgement of 26 November 2015 (case no. 243/2015) is equally applicable to all consumer loans, and
not confined only to housing loans. In this regard it should be pointed out that in the EFTA court’s
case E-27/13, the corresponding case before the domestic court which requested the advisory opinion,
concerned a loan that was not a housing loan at all. It should also be pointed out that in a similar case
of the EFTA-court (E-25/13) an advisory opinion was also given at the request of a domestic court for
proceedings concerning a housing loan. What this means is that because the Icelandic legislature has
decided to apply a wider scope of consumer protection regarding credit agreements, including housing
loans, the same rules must apply in all such cases regardless of whether a particular loan in question is
defined as a housing loan or not. This was in fact confirmed by the Supreme Court of Iceland in case
no. 243/2015, where it was deemed appropriate to apply the interpretation of the EFTA-court in case
E-27/13 of Directive 87/102/EEC, as guidance for an interpretation of the corresponding provisions of
Icelandic law, regardless of whether the loan in question was a housing loan or not. Even if this did
not lead to a material conclusion compliant with the EFTA-court’s advisory opinion, it did however
confirm the effective widening of the scope of those rules in Icelandic law.

Finally we would like to point out that the examples of consumer loan agreements enclosed with our
complaint include housing loans (no. 6-7) as well as a non-housing loan (no. 8). In all those examples
the information about total cost and annual percentage rate, excludes the indexation component.

We believe the clarifications presented above are of critical importance for any further examination of
our complaint, and therefore we hereby submit them with all due respect.

---oooOOOooo---

Reykjavík, 23 November 2016

Respectfully,
On behalf of the the Homes Association of Iceland,

Vilhjálmur Bjarnason, formadur@heimilin.is Guðmundur Ásgeirsson, erindreki@heimilin.is

2/2
Case handler: Werner Miguel Kühn Brussels, 21 December 2016
Tel: (+32)(0)2 286 1846 Case No: 79870 EFTA SURVEILLANCE
e-mail: wku@eftasurv.int Document No: 832490 AUTHORITY

Icelandic Ministry of Foreign Affairs


Rauðarárstígur 25
105 Reykjavík
Island

Dear Sir or Madam,

Subject: Complaint concerning an alleged incorrect implementation of EEA rules


on consumer credit

On 15 November 2016, the EFTA Surveillance Authority (“the Authority) received a


complaint against Iceland concerning an alleged failure to correctly apply or implement the
provisions of Directive 2008/48/EC of the European Parliament and of the Council of 23
April 2008 on credit agreements for consumers and repealing Council Directive
87/102/EEC (“Directive 2008/48/EC”) and Council Directive 87/102/EEC of 22 December
1986 for the approximation of the laws, regulations and administrative provisions of the
Member States concerning consumer credit (“Directive 87/102/EEC”) into national law. 1

The complaint is based on the premise that the Icelandic State has violated the EEA
Agreement either by the Icelandic Supreme Court alleged incorrect interpretation of
Directive 87/102/EC, lawfully implemented into Icelandic law, or that Icelandic authorities
incorrectly implemented Directive 87/102/EEC and Directive 2008/48/EC into the Icelandic
legal order.

Both Directive 87/102/EEC and Directive 2008/48/EC aim to protect consumers against
2

unfair or misleading practices, in particular with respect to the disclosure of information by


the creditor. In order to enable consumers to make their decisions in full knowledge of the
facts, the Directives demand that they should receive adequate information, which the
consumer may take away and consider, prior to the conclusion of the credit agreement, on
the conditions and cost of the credit and on their obligations. To ensure the fullest possible
transparency and comparability of offers, such information should, in particular, include the
annual percentage rate of charge applicable to the credit.

First, the complainant argues that the Icelandic Supreme Court judgment in Case no.
243/2015 contravenes Article 3 of Act no. 2/1993 (lög um Evrópska efnahagssvœðið), by
not interpreting Icelandic law in accordance with Directive 87/102/EEC. The complainant 3

maintains that the interpretation of the Supreme Court of Article 12(1) of Act no. 121/1994
(lög um neytendalán), which implemented Directive 87/102/EEC, is incorrect. In the
complainant’s view, the Supreme Court, by assuming that the basis for calculation of
inflation could be 0% from the beginning to the end of the loan period, violated Directive
87/102/EEC by offering consumers unrealistic information on the content of indexed loans
and consequently contravenes the EFTA Court’s interpretation in its advisory opinion in

1
Act referred to in point 7h of Annex XIX (Consumer Protection) to the EEA Agreement.
2
Directive 2008/48/EC repealed Directive 87/102/EEC.
3
See judgment of the Icelandic Supreme Court of 26 November 2015 in Case 243/2015.

Rue Belliard 35, B-1040 Brussels, tel: (+32)(0)2 286 18 11, fax: (+32)(0)2 286 18 00, www.eftasurv.int
EFTA SURVEILLANCE
AUTHORITY
Page 2

Case E-27/13. In that opinion, the EFTA Court states that an assumption that the rate of
inflation will be indicated as 0% in a loan agreement, at a time when the actual rate of
inflation is considerably higher, does not correctly represent the charges resulting from the
price indexation and thus the total cost of credit within the meaning of Article 1(2)(d) of
Directive 87/102/EEC. Consequently, such a statement does not correctly represent the
annual percentage rate of charge defined in Article 1(2)(e) and Article 1a(1)(a) of the
Consumer Credit Directive 87/102/EEC. As a result, the complainant argues that the
4

judicial practice of the Supreme Court in Case No. 243/2015, in light of the EFTA Court’s
opinion, breaches the EEA Agreement by not correctly interpreting the provisions of
Directive 87/102/EEC.

Secondly, if the Authority finds the judgment of the Supreme Court of Iceland not having
breached the EEA Agreement, the complainant argues that Iceland has incorrectly
implemented the provisions of Directive 87/102/EEC and Directive 2008/48/EC. The
complainant maintains that allowing the inflation rate in indexed based loan agreements to
be calculated using the basis of 0% inflation rate throughout the borrowing period is an
unrealistic premise that conveys inadequate information to the consumer. To support this,
the complainant refers to EFTA Court advisory opinion in Case E-27/13. As a result, the
complainant deems that the legislature incorrectly implemented the provisions of Directive
87/102/EEC and 2008/48/EC into the Icelandic legal order.

Finally, the complainant asks if the alleged breach of the EEA agreement by the Icelandic
State may entail State liability in accordance with the settled case-law of the EFTA Court
and the Icelandic Supreme Court.

In order for the Authority to examine and assess the complaint, the Icelandic Government
is invited to provide the following information:

1. What is the common inflation rate used when calculating the total borrowing cost of
indexed loans for the consumer?
2. How is the potential impact of inflation on the total borrowing cost of indexed loans
explained to the consumer?
3. Are wages in Iceland indexed? If not, is there any limit in how much the total cost
of the credit to the consumer of indexed loans can increase due to inflation?

The Icelandic Government is invited to submit the above information, as well as any other
information it deems relevant to the case, so that it reaches the Authority by 3 February
2017. Please enclose copies of relevant national legislation, including English translations
if available.

Yours faithfully,

Lennart Johanson
Acting Director
Internal Market Affairs Directorate

4
See EFTA Court judgment of 24 November 2014 in Case E-27/l 3, Sævar Jón Gunnarsson v Landsbankinn.
INNANRÍKISRÁÐUNEYTIÐ
EFTA Surveillance Authority
Attn Werner Miguel Kühn Ministry of the Interior
Rue Belliard 35
B-1040 B-1040 BRUXELLES Sölvhólsgötu 7 101 Reykjavík Iceland

BELGIUM tel.:+(354)5459000 fax: + ( 3 5 4 ) 5 5 2 7340

postur@irr.is

irr.is

Reykjavík February 2, 2017


Reference: IRR16110273/2.14
Your reference: Case No 79870

Subject: Alleged incorrect implementation of the EEA rules on credit agreements for
consumers

1. What is the common inflation rate used when calculating the total borrowing cost of
indexed loans for the consumer?

In Iceland the common inflation rate used when calculating the total borrowing cost of indexed
loans for the consumer is „vísitala neysluverðs “ or „consumer price index“ (CPI). This index is
calculated and changed every month of the year by Statistics Iceland.

2. How is the potential impact of inflation on the total borrowing cost of indexed loans
explained to the consumer?

When entering a credit agreement the consumer signs the loan document in A4 format of one page
(see attached example); issued by the creditor. In the standard terms of the credit agreement; see
point 1 in the attached example; it is stated that the consumer accepts „ to repay the loan with equal
payments of the principal, including interest rates on the principal, „ and in addition any increase to
the principal of the loan that is added to every equal down payment of the loan, that is calculated on
basis of monthly established „ vísitala neysluverðs“or „ consumer price index“(CPI)“.

In standard term of the contract see point 2 of the attached example the standard terms states:
„The loan is linked to „vístölu neysluverðs" (consumer price index) and the loan will be changed
according to changes of this index from the basic index number („grunnvísitala“) entered into the
agreement on the day of signature “.

In the standard agreements the potential impact of inflation on the total borrowing cost of indexed
loans is not explained. This type of standard contracts were used for this type of consumer credits, cf.
Act No 121/1994, as amended. This Act applied to all consumer credit agreements and was the
national transposition Act of Directive 87/102/EEC, as amended. As of 2000 this Act did also apply
to consumer mortage credits, cf. Act No 179 / 2000 amending Act No 121/1994.

The new EU Directive 2008/48/EU has now been transposed in Iceland, cf. Act No 33/2013 on
credit agreements to consumers; and Act No 121/1994 was repealed.

In this new Act No 33/2013 it is now stipulated that the creditor is now obliged when calculating
the APR to insert into his formula the average annual inflation rate during the last 12 months prior to
signature of the agreement in case of such indexed loans; and add this figure to the interest rates
found in the agreement when calculating the APR.

In addition the creditor must also hand over to the consumer information in writing that explains
the historical developments in the past of both inflation index as well as of interest rates. The
intention with new and extended information requirement is to oblige the creditor to explain to the
consumer the potential impact of inflation in case of consumer price indexed loans and give the
consumer basis to compare the total borrowing cost with a loan where the interest rates are higher
and without linking the principal of loan and repayments to consumer price indexation.

A similar provision has also been inserted into Act No 118/2016 that transposes into Icelandic
legislation EU Directive 2014/17/EU.

3. Are wages in Iceland indexed? If not, is there any limit in how much the total cost of the
credit to the consumer of indexed loans can increase due to inflation?

Wages in Iceland are not indexed.

There is no legislation that in the past or currently sets limits to what maximum amount the
creditor can receive due to indexation of the loan in addition to the interest rates that have been
agreed by him and the consumer. Economical analysis for different periods may however show that
the general raise of wages and consumer price index are quite similar for example since 2010. If other
periods are compared this may however be variable in the past and periods are recognised when
wages did not follow the general raise of the inflation as mesured by the of consumer price index.
Finally, the Consumer Agency would like to draw the attention of ESA that in the Agency’s
enforcement Decision No 8/2014; „Skilmálar og upplýsingar í tengslum við verðtryggt
húsnæðisveðlán Íslandsbanka“ the issue of implementation of EEA rules on consumer credits
according to Act No 212/194, as amended were addressed if that may be of interest to the EFTA
Surveillance Authority. The Decision can be accessed here:
http://wvw.neytendastofa.is/library/Files/Kaerunefnd-lausafjar--og-thjonustu/%C3%81kv%202014
8.pdf

On behalf of the Minister of Interior

Steinunn Valdís Óskarsdottir Rúnar Guðjónsson


Case handler: Werner Miguel Kühn Brussels, 24 March 2017
Tel: (+32)(0)2 286 1846 Case No: 79870 EFTA SURVEILLANCE

e-mail: wku@eftasurv.int Document No: 844609 AUTHORITY

Hagsmunasamtök heimilanna
Ármúla 5
108 Reykjavík
Iceland

Dear Sir or Madam,

Subject: Complaint concerning an alleged incorrect implementation of EEA rules on


consumer credit in Iceland

1 Introduction

On 15 November 2016, the EFTA Surveillance Authority (“the Authority”) received a


complaint from you against Iceland concerning an alleged failure to correctly apply or
implement the provisions of Directive 2008/48/EC of the European Parliament and of the
Council of 23 April 2008 on credit agreements for consumers and repealing Council
Directive 87/102/EEC (“Directive 2008/48/EC”) and Council Directive 87/102/EEC of 22
1

December 1986 for the approximation of the laws, regulations and administrative
provisions of the Member States concerning consumer credit (“Directive 87/102/EEC”) 2

(jointly referred to as “the Directives”) into national law. Your complaint is based on the
premise that the Icelandic State has breached the EEA Agreement either by incorrect
interpretation by the Icelandic Supreme Court of Directive 87/102/EEC, lawfully
implemented into Icelandic law, or due to the fact that the Icelandic Government has
incorrectly implemented Directive 87/102/EEC and Directive 2008/48/EC into the Icelandic
legal order.

After examining the complaint, the Authority’s Internal Market Affairs Directorate (“the
Directorate”) takes the view that none of the alleged issues raised in the complaint indicate
an incorrect implementation or application of EEA rules on consumer credit in Iceland. The
present letter sets out the main reasons for this conclusion.

2 The Complaint
Firstly, you argue that the judgment of the Icelandic Supreme Court in Case No 243/2015 3

incorrectly interpreted Article 12(1) of Act No 121/1994 (Lög um neytendalán) by allowing


for a 0% inflation rate as a basis in the calculation of the total borrowing costs and annual
percentage rate of charge of consumer loans even if the known inflation level on the
borrowing date is not 0%. You point out that basing such calculation on 0% inflation is
4

1
Act referred to at point 7h of Annex XIX to the EEA Agreement, as incorporated into the EEA Agreement
by Joint Committee Decision No 16/2009 of 5 February 2009.
2
Incorporated into the EEA Agreement but no longer in force. Repealed by Directive 2008/48/EC.
3
Hæstaréttardómur frá 26. nóvember 2015, nr. 243/2015.
4
Hæstaréttardómur nr. 243/2015, section VII.

Rue Belliard 35, B-1040 Brussels, tel: (+32)(0)2 286 18 11, fax: (+32)(0)2 286 18 00, www.eftasurv.int
EFTA SURVEILLANCE
AUTHORITY
Page 2

equivalent to leaving out all of the costs regarding indexation from such a calculation,
thereby depriving the consumer of the right to obtain clear information on the biggest cost
component of the most common type of loan on the Icelandic loan market. You thus
maintain that the Icelandic Supreme Court’s incorrect interpretation of Article 12(1) of Act
No 121/1994 contravenes both Article 3 of Act No 2/1993 on European Economic Area
(lög um Evrópska efnahagsvæðið) and Directive 87/102/EEC by going contrary to the
advisory opinion of the EFTA Court in Case No E-27/13. 5

Secondly, you argue that, if the Authority finds that the judgment of the Icelandic Supreme
Court in Case No 243/2015 is not contrary to the EEA Agreement, Iceland has nevertheless
incorrectly implemented the provisions of the Directives. In your view, Article 12(1) of Act
No 121/1994 permits the inflation rate in indexed based loan agreements to be calculated
6

using the basis of 0% inflation throughout the borrowing period, which thus conveys
inadequate information to the consumer about such loans and, as such, is in breach of the
provisions of the Directives. Furthermore, you state that it is particularly important for the
Authority to take a position on whether Article 19(4) of the Directive has been correctly
implemented into the Icelandic legal order by Article 21(3) of Act No 33/2013 on Consumer
Loans (lög um neytendalán).

Finally, you ask if the alleged breach of the EEA Agreement by the Icelandic State may
entail State liability in accordance with the settled case-law of the EFTA Court and the
Icelandic Supreme Court.

3 Correspondence

On 18 November 2016, the Authority informed the Icelandic Government of receipt of a


complaint regarding an alleged incorrect implementation of EEA rules on consumer credit
in Iceland (Doc No 827180). On 21 December 2016, the Authority sent a letter to the
Icelandic Government requesting information on the implementation of EEA rules on
consumer credit in Iceland (Doc No 832490).

By letter dated 2 February 2017, the Icelandic Government responded to the Authority’s
letter of 21 December 2016 (Doc No 840426). In the letter, the Icelandic Government stated
that, in the case of indexed loans, when calculating the annual percentage rate of charge, a
creditor is now obliged to insert into the formula the average annual inflation rate over the
previous 12 months prior to signature of the agreement. In addition, the Icelandic
Government stated that the creditor must also inform the consumer of the historical
developments of both the inflation index as well as the interest rates in order for the
consumer to be able to take more informed decisions.

4 The Directorate’s Assessment

Firstly, it is important to clarify that the Authority is only competent to assess EEA Acts
which are in force. The Authority cannot initiate infringement proceedings under Article 31
of the Surveillance and Court Agreement concerning EEA Acts which have been repealed.
Directive 87/102/EEC is no longer in force. Therefore, the Directorate's assessment will

5
E-27/13, SævarJón Gunnarsson v Landsbankinn hf., [2014] EFTA Ct. Rep. 1090.
6
As interpreted by the Supreme Court’s in Case No 243/2015.
EFTA SURVEILLANCE
Page 3
AUTHORITY

focus solely on evaluating whether Iceland has correctly implemented Directive


2008/48/EC.

Directive 2008/48/EC aims to protect consumers against unfair or misleading practices in


the field of consumer lending, in particular by mandating disclosure of information by the
creditor to the borrower. According to Articles 4 - 6 of Directive 2008/48/EC, at the time of
concluding a credit agreement, the borrower must have at hand all relevant information
which could have a bearing on or implication for his undertaking. To ensure the fullest
possible transparency and comparability of credit offers, such information should include
the total cost of credit to the consumer, comprising of the annual percentage rate of charge
applicable to the credit. 7

According to Article 3(i) of Directive 2008/48/EC, the term annual percentage rate of charge
means “the total cost of the credit to the consumer, expressed as an annual percentage of
the total amount of credit, where applicable including the costs referred to in Article 19(2).”
According to Article 3(g) of that Directive, the total cost of credit to the consumer is defined
as “all the costs, including interest, commissions, taxes and any other kind of fees which the
consumer is required to pay in connection with the credit agreement and which are known
to the creditor.”

The term “total cost of the credit” thus comprises all the costs that the consumer is liable to
pay under the credit agreement, including both interest charges and charges resulting from
the price indexation of the principal. 8

You maintain that the period between 2010-2012 revealed that despite the legislature’s plan
to provide consumers with information about costs of indexed loans in accordance with the
requirements of the Directives, most lenders seem to have neglected this duty since the cost
calculations were most often based on the assumption that inflation would be 0% during the
period of the loan. Thus, the cost of indexation was excluded from the information that
consumers received. 9

In Case E-27/13 Gunnarsson, the EFTA Court held that the assumption that the rate of
inflation to be indicated in a loan agreement will be 0%, at a time when the actual rate of
inflation is considerably higher, does not correctly represent the charges resulting from the
price indexation and thus the total cost of credit within the meaning of Article 1(2)(d) of
Directive 87/102/EEC, which is equivalent to Article 3(g) of Directive 2008/48/EC.
Accordingly, the Court found that when a credit agreement is indexed based and the cost of
the credit thus changes in accordance with inflation, it is not compatible with Directive
87/102/EEC to calculate the total cost of the credit and the annual percentage rate of charge
on the basis of 0% inflation if the known rate of inflation at the time of the credit agreement
is not 0%. 10

Nevertheless, the Directorate notes that EEA Law does not generally prohibit contractual
terms on the indexation of loans in contracts between a supplier and a consumer. As held 11

by the EFTA Court in Case E-27/13, Article 1a(6) of Directive 87/102/EEC, which is

7
See as example Articles 5(1)(c), 5(1)(g), 6(1)(c) and 6(1)(f) of Directive 2008/48/EC.
8
E-27/13, Sævar Jón Gunnarsson v Landsbankinn hf., [2014] EFTA Ct. Rep. 1090, paragraph 9 1 .
9
The complaint argues that this became particularly true after the Supreme Court of Iceland came to the
conclusion in Case No 243/2015 that Article 12(1) of Act No 121/1994 (Lög um neytendalán) did not require
that consumers in Iceland be informed of the cost of indexing.
10
E-27/13, SœvarJón Gunnarsson v Landsbankinn hf., [2014] EFTA Ct. Rep. 1090, paragraphs 93 and 96.
11
E-25/13, Engilbertsson, [2014] EFTA Ct. Rep. 524.
AUTHORITY
EFTA SURVEILLANCE
Page 4

equivalent to Article 19(4) of Directive 2008/48/EC, takes account of the fact that interest
charges or other charges may be variable. The Court further found that where a charge is
12

unquantifiable at the time when the annual percentage rate of charge is calculated, this
annual percentage rate must be calculated based on reasonable assumptions and that the 13

charge in question remains fixed and will apply until the end of the credit contract. 14

The Directorate notes that the information provided in the complaint is predominantly based
on research of consumer loans in the period between 2010 and 2012. After that period, the
Icelandic legislator introduced new legislation, Act No 33/2013 on Consumer Loans
(“Consumer Loans Act”), which took effect on 1 November 2013 and transposes Directive
2008/48/EC into the Icelandic legal order. In the Directorate’s view, the Consumer Loans
Act seems to correctly implement the requirements of Directive 2008/48/EC, as interpreted
by the EFTA Court, concerning the information which has to be provided to the consumer
about indexed loans.

The Consumer Loans Act changes the way in which the calculation of the annual percentage
rate of charge of indexed loans is conducted. Previously, lenders could base calculations on
the assumption of 0% inflation from the beginning to the end of the loan period. Article
21(3) of the Act now provides that if a loan contract allows for indexation, then the
calculation of the annual percentage rate of charge shall be on the basis of the average annual
inflation rate during the last 12 months, and on the premise that annual inflation will remain
unchanged to the contract maturity. 15

Further, Articles 25(1) and 25(2) of the Consumer Loans Act introduced a new obligation
on the creditor to explain to the consumer the potential impact of inflation in case of
consumer price indexed loans. This should give the consumer the basis to compare the total
borrowing cost of indexed based loans with a loan where the interest rates are higher but do
not link the principal of the loan and repayments to consumer price indexation. 16

The Directorate is of the opinion that the changes introduced by the Consumer Loans Act,
mandating that lenders now calculate the annual percentage rate of charge on the basis of

12
Article 19(4) of Directive 2008/48/EC reads as follows: “agreements containing clauses allowing variations
in the borrowing rate and, where applicable, charges contained in the annual percentage rate of charge but
unquantifiable at the time of calculation, the annual percentage rate of charge shall be calculated on the
assumption that the borrowing rate and other charges will remain fixed in relation to the initial level and will
remain applicable until the end of the credit agreement.”
13
Emphasis added by the Directorate.
14
E-27/13, SævarJón Gunnarsson v Landsbankinn hf., [2014] EFTA Ct. Rep. 1090, paragraph 92.
15
Article 21 of the Consumer Loan Act reads as follows: “Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu skal
útreikningur árlegrar hlutfallstölu kostnaðar miðast við ársverðbólgu samkvæmt tólf mánaða breytingu
vísitölu neysluverðs og þá forsendu að ársverðbólga verði óbreytt til loka lánstímans.”
16
Article 25(1) and 25(2) read as follows: “25. gr. Sérstök upplýsingaskylda lánveitanda. (1) Til þess að
tryggja að neytandi sé upplýstur um hvernig þróun höfuðstóls og greiðslubyrði hefur verið skal lánveitandi
áður en samningur sem kveður á um verðtryggingu eða breytilega vexti er gerður veita upplýsingar, á pappír
eða öðrum varanlegum miðli, um sögulega þróun verðlags og vaxta og áhrif þeirra þátta á breytingar á
höfuðstól og greiðslubyrði sé um verðtryggt lán að rœða og um breytingar á greiðslubyrði sé um óverðtryggt
lán að ræða. Lánveitandi skal einnig veita upplýsingar um þróun verðlags og ráðstófunartekna síðustu 10 ár
fyrir gerð samnings. Sé um verðtryggðan lánssamning að ræða skal lánveitandi, til viðbótar við
reikningsyfirlit í formi niðurgreiðslutöflu, sbr. i-lið 2. mgr. 12. gr, láta neytanda í té niðurgreiðslutöflu þar
sem miðað er við meðaltal ársverðbólgu síðustu 10 ár fyrir gerð samnings. (2) Neytendastofa skal birta
opinberlega á heimasíðu sinni almennar upplýsingar og dæmi um breytingar á höfuðstól og greiðslubyrði
verðtryggðra lána og dœmi um breytingar á greiðslubyrði óverðtryggðra lána sem lánveitendur skulu byggja
upplýsingagjöf skv. 1. mgr. á. Neytendastofa skal einnig birta almennar upplýsingar um þróun verðlags og
ráðstöfunartekna síðustu 10 ár. Staðfesting neytanda á að honum hafi verið kynntar þessar upplýsingar, sbr.
10. mgr. 7. gr., telst fullnægjandi upplýsingagjöf skv. 1. mgr.”
EFTA SURVEILLANCE
AUTHORITY
Page 5

the average annual inflation rate during the last 12 months, fulfil the conditions set out in
the case-law of the EFTA Court that the annual percentage rate must be calculated on
reasonable assumptions when a charge is unquantifiable at the time of the calculation.
Article 21(3) of the Consumer Loans Act should prevent the practice of lenders in Iceland
assuming 0% inflation over the course of the loan period in their calculation of the annual
percentage rate of charge. Icelandic legislation should now guarantee that consumers are
adequately informed on the conditions and cost of indexed based credits, in accordance with
Articles 4 - 6 of Directive 2008/48/EC.

Accordingly, based on the legislative amendments introduced by the Consumer Loans Act
No 33/2013, in particular Articles 21(3), 25(1) and 25(2), the Directorate concludes that
Iceland has correctly implemented Directive 2008/48/EC.

5 Conclusion

The Directorate has come to the preliminary conclusion that none of the issues raised in
your complaint indicate a breach of EEA law. Against this backdrop, the Directorate intends
to propose that the Authority close the case. The Authority may, however, revert to the
matter should any relevant developments occur in EEA or EU law.

Before the Directorate makes such a proposal, you are invited to submit your observations
on the above assessment and to present any new information by 28 April 2017.
Yours sincerely,

Ólafur Jóhannes Einarsson


Director
Internal Market Affairs Directorate

Placeholder for electronic signature. Please do not delete.


Case handler: Werner Miguel Kühn Brussels, 5 May 2017
EFTA SURVEILLANCE
Tel: (+32)(0)2 286 1846 Case No: 79870
AUTHORITY
wku@eftasurv.int Document No: 854668

Hagsmunasamtök heimilanna
Guðmundur Ásgeirsson
Ármúla 5
108 Reykjavík
Iceland

Dear Mr. Ásgeirsson,

Subject: Complaint concerning an alleged incorrect implementation of EEA rules


on consumer credit in Iceland

Reference is made to your e-mail of 28 April 2017, requesting an extension of the deadline
for submitting comments to the Authority’s letter dated 24 March 2017 (Doc. No.
844609), containing a preliminary assessment of your complaint.

The deadline for reply is extended until 22 May 2017.

Yours sincerely,

Gabriele Somers
Deputy Director
Internal Market Affairs Directorate

Rue Belliard 35, B-1040 Brussels, tel: (+32)(0)2 286 18 11, fax: (+32)(0)2 286 18 00, www.eftasurv.int
EFTA Surveillance Authority
Eftirlitsstofnun EFTA
Rue Belliard 35
B-1040 Brussels
Belgium

Reykjavík, 22 May 2017


Case No 79870
Case handler: Werner Miguel Kühn
e-mail: wku@eftasurv.int

Further Observations Regarding Case No 79870

On 15 November 2016, the Homes Association (“the Association”) filed a complaint with the EFTA
Surveillance Authority (“the Authority”) against Iceland concerning a failure to correctly apply or
implement directives 2008/48/EC and 87/102/EEC. On 24 March 2017 the Authority’s Internal
Market Affairs Directorate (“the Directorate”) presented its preliminary conclusion on the issue (Doc.
No. 844609) and invited the Association to submit further observations, which follow hereafter.

The preliminary conclusion of the Directorate is that none of the issues raised in the Association’s
complaint indicate a breach of EEA Law and therefore the Directorate intends to propose that the
Authority close the case. This conclusion is based on two premises that will each be elaborated on, as
well as a third issue that seems to have been left out entirely by the Directorate.

1. Directive 87/102/EEC no longer in force

The Directorate maintains that the Authority is only competent to assess EEA Acts which are in force
and therefore cannot initiate infringement proceedings under Article 31 of the Surveillance and Court
Agreement (“SCA”) concerning EEA Acts which have been repealed. Since Directive 87/102/EEC is
no longer in force, the Directorate has decided to focus its assessment solely on evaluating whether
Iceland has correctly implemented Directive 2008/48/EC.

Article 31 SCA states that if the EFTA Surveillance Authority considers that an EFTA State has failed
to fulfill an obligation under the EEA Agreement or of this Agreement, it shall, unless otherwise
provided for, deliver a reasoned opinion on the matter after giving the State concerned the opportunity
to submit its observations. Nowhere does it say that this is limited to acts that are still in force. The
Association therefore disagrees with the conclusion that the Authority is not competent to address this
part of our complaint. To illustrate by example, one can imagine a situation where an individual has
suffered damages due to a failure of his member state to correctly implement or apply provisions of an
EEA Act. Even if that act is no longer in force, the individual in question may still be experiencing the
consequences of the incorrect implementation. This is in fact precisely the situation of the plaintiffs in
the Supreme Court’s case No 243/2015 as well as thousands of Icelandic consumers that entered into
consumer credit contracts while Directive 87/102/EEC and Act No 121/1994 were still in force. This
includes contracts for terms of up to 40 years that still remain binding on those consumers.

The Homes Association • Ármúli 5 • 108 Reykjavík, Iceland • National ID 520209-2120


heimilin@heimilin.is • www.heimilin.is
The Association points out that the provisions of Act No 121/1994 on Consumer Credit as interpreted
by the Supreme Court of Iceland in Case No 243/2015, were in force for over two decades. During all
that time the implementation of Directive 87/102/EEC seems to have never been brought to question
by the Authority, while Icelandic consumers have trusted that they were sufficiently protected by the
provisions of the Directive to the same extent as consumers in the other member states of the EEA
Agreement. This perception of protection was however, completely obliterated by the judgment of the
Supreme Court of Iceland in Case No 243/2015. The effects of that judgment still remain in full force
with respect to the interests of those consumers who had entered into long term contracts during these
two decades, with considerable detriment to their financial situation as a result.

Therefore the Association is of the opinion that the Directorate’s interpretation of Article 31 SCA,
such that it precludes the Authority from initiating infringement proceedings concerning EEA Acts
which have been repealed in a situation such as the one described here, is in fact equivalent to a denial
of access to effective remedies for consumers and consumer associations on their behalf, in response
to violations by their member state against its obligations under the EEA Agreement.

It is also the Association’s opinion that the preliminary conclusion of the Directorate, that none of the
issues raised in our complaint indicate a breach of EEA law, is incorrect. On the contrary, precisely
the breach in question has effectively been admitted to by the Icelandic Government in its letter of
response (Doc No 840426), where it makes an excuse for it by pointing out that under the new Act No
33/2013, the creditor must now insert into his formula the average annual inflation rate during the last
12 months when calculating the APR for indexed loans. Thus it has now been clearly established that
under the previous regime of Act No 121/1994, Iceland was in violation of its obligations under the
EEA Agreement while that act was in force. Furthermore as a result of its interpretation as provided
by the Supreme Court in Case No 243/2015, two years after this act was replaced by Act No 33/2013,
the implications still remain profoundly manifest for a great number of Icelandic consumers.

In light of the above the Association encourages the Directorate to thoroughly review its preliminary
conclusion, taking into account the fact that the Government of Iceland has recognized the violation.
It would be an unacceptable situation if a member state were able to get away with a clear violation of
such widespread consequence, simply by amending its domestic law ​ex post facto​.

2. The implementation of Directive 2008/48/EC

As the Government of Iceland has pointed out and has been recognized by the Directorate, the new
Directive 2008/48/EU has now been transposed in Iceland by Act No 33/2013 on Consumer Loans,
repealing Act No 121/1994. According to the Directorate’s own wording, this new act „​changes the
way in which the calculation of the annual percentage rate of charge of indexed loans is conducted.
Previously​, lenders could base calculations on the assumption of 0% inflation from the beginning to
the end of the loan period.​“ This recognizes precisely the main basis of our complaint. However, the
Directorate seems to ignore the fact that the specific wording of Article 12 (1) of Act No 121/1994 as
interpreted by the Supreme Court to allow for this assumption, is in fact still in force as it is contained
in Article 21(3)(1) of Act No 33/2013, as pointed out on pages 10, 18 and 20 of our complaint. The
wording in question translates to: „​…the annual percentage rate of charge shall be calculated based
on the assumption that the price level, interest and other charges will remain ​unchanged​…​“.

2/4
The Supreme Court has in case No 243/2015 interpreted the words “unchanged price level” such that
it should be assumed when calculating the APR for consumer credit agreements, that the rate of price
inflation will be 0% through the end of the loan period. This is obviously a completely unrealistic and
unreasonable assumption. Accordingly, as pointed out by the Directorate on pages 3-4 of the letter of
24 March, the EFTA Court found in Case E-27/13 that where a charge is unquantifiable at the time
when the annual percentage rate of charge is calculated, this annual percentage rate must be calculated
based on reasonable assumptions. Therefore it was not compatible with Directive 87/102/EEC to base
such a calculation on 0% inflation. Furthermore, the Directorate appropriately points out that Article
1a(6) of Directive 87/102/EEC is equivalent to Article 19(4) of Directive 2008/48/EC.

Against this backdrop the Association must point out that because the aforementioned wording of
“unchanged price level” was carried over into Article 21(3)(1) of Act No 33/2013, the interpretation it
was given by the Supreme Court must be equally applicable to that provision which is now in force.
Therefore the breach of EEA Law arising from that provision is still ongoing and Icelandic legislation
can not provide any guarantee that consumers are adequately informed on the conditions and cost of
index based credit, in accordance with Articles 4 - 6 of Directive 2008/48/EC. However, this crucial
point seems to have been completely overlooked in the Directorate’s preliminary conclusion.

In light of the above the Association encourages the Directorate to thoroughly review its preliminary
conclusion, taking into account the fact that the violation, which has already been recognized by the
Government of Iceland and the Directorate itself, is still ongoing as an unresolved issue.

3. The Supreme Court’s judgment in Case No 243/2015

Lastly the Association will touch upon an issue, which is in fact the main basis of our complaint, but
does not seem to have been addressed at all by the Directorate. This is the consideration of whether
the Supreme Court of Iceland is the actual source of the breach in question, rather than the legislature,
and accordingly, whether such a judicial infringement of EEA Law may entail state liability.

As explained in detail on page 19 of our complaint the Association considers it an actual possibility
that the breach in question does not arise from an incorrect implementation of Directive 87/102/EEC
but rather the failure of the Supreme Court of Iceland to correctly apply the corresponding provisions
of Act No 121/1994 in Case No 243/2015, constituting a breach of Article 3 of Act No 2/1993 on the
European Economic Area cf. Article 3 of the EEA Agreement and Protocol 35.

To fully appreciate this point it must be realized that the wording “unchanged price level” is more
open to interpretation in its Icelandic form (“óbreytt verðlag”). This unfortunately gets somewhat lost
in translation into the English language. The term “price level” being quite specific and unambiguous,
while the Icelandic term “verðlag” can be interchangeably used when referring to specific price levels
or developments of prices in general such as rising prices due to inflation. In fact, an examination of
preparatory acts to the implementation of Directive 87/102/EEC in Act No 121/1994 reveals intention
towards the latter interpretation, which would have been compliant with the directive as interpreted by
the EFTA Court in Case E-27/13. That is to interpret the words such as not to refer to the current level
of prices but rather the rate at which they are rising due to inflation, and correctly derive that the APR
calculation should have been based on actual inflation rather than a fictitious 0% inflation.

3/4
Submitted to the Supreme Court of Iceland in Case No 243/2015 were a great number of preparatory
acts and working documents relating to the legislation of Directive 87/102/EEC into Act No 121/1994
which all reveal quite clearly the intent of the legislature that inflation should be accommodated for
when calculating the APR and total cost of credit for indexed loans. These were largely ignored by the
Supreme Court which decided instead to maintain that the wording of “unchanged price level” was
sufficiently clear as to provide for no alternative meaning than 0% inflation. Most of the preparatory
acts are available on the Alþingi’s website and referenced as such in our complaint but those that were
not available online at the time of writing were enclosed with the complaint as attachments.

The Association is firmly of the opinion that the Supreme Court of Iceland, despite having thus been
provided with all the necessary materials to provide for an interpretation of Icelandic law harmonious
with the EFTA Court’s interpretation of Directive 87/102/EEC, must have decided not to accept that
suggestion and rather apply an interpretation which directly conflicts with EEA Law. This constitutes
a clear and manifest judicial infringement, which remains in full force, affecting tens of thousands of
loan agreements that consumers have entered into under the false presumption of 0% inflation.

In light of the above the Association encourages the Directorate to review its preliminary conclusion,
taking into consideration the main basis of our complaint, that the violation of EEA Law in question
was not due to any failure of implementation by the legislature but rather due to an incorrect judicial
application of the rules on consumer credit as implemented into Icelandic law. Finally, we also wish
to emphasize the importance of resolving whether such an infringement entails state liability.

---oooOOOooo---

Reykjavík, 22 May 2016

Respectfully,
On behalf of the the Homes Association of Iceland,

Vilhjálmur Bjarnason, formadur@heimilin.is Guðmundur Ásgeirsson, erindreki@heimilin.is

4/4
Case handler: Gaukur Jorundsson Brussels, 27 March 2018
EFTA SURVEILLANCE
Tel: (+32)(0)2 286 1848 CaseNo: 79870
AUTHORITY
e-mail: gjo@eftasurv.int Document No: 905585

Hagsmunasamtök heimilanna
Ármúla 5
108 Reykjavik
Iceland

Dear Sir or Madam,

Subject: Closure of a complaint concerning an alleged incorrect implementation


of EEA rules on consumer credit in Iceland

On 15 November 2016 you lodged a complaint with the EFTA Surveillance Authority
(“the Authority”). In that complaint, you alleged that Iceland has failed to correctly apply
or implement the provisions of Directive 2008/48/EC of the European Parliament and of
the Council of 23 April 2008 on credit agreements for consumers and repealing Council
Directive 87/102/EEC (“Directive 2008/48/EC”) and Council Directive 87/102/EEC of 22
December 1986 for the approximation of the laws, regulations and administrative
provisions of the Member States concerning consumer credit into national law. Your
complaint was based on the premise that the Icelandic State had breached the EEA
Agreement either by incorrect interpretation by the Icelandic Supreme Court of Directive
87/102/EEC, lawfully implemented into Icelandic law, or due to the fact that the Icelandic
Government has incorrectly implemented Directive 87/102/EEC and Directive
2008/48/EC into the Icelandic legal order.

By letter dated 24 March 2017, the Internal Market Affairs Directorate (“the Directorate”)
of the Authority informed you of its intention to propose that the Authority close the case
arising from your complaint. You were invited to submit your observations on the
assessment in the above mentioned letter, and to present any new information by 28 April
2017.

You replied by letter dated 22 May 2017. In your response you maintained that the
Authority is capable of assessing EEA Acts that are no longer in force. Furthermore, you
argued that as the words “unchanged price level” in Article 12(1) of Act 121/1994 were
carried over into Article 21(3)(1) of Act No 33/2013, the interpretation of the Supreme
Court in Case 243/2015, allowing for the assumption that price inflation will be 0% when
calculating the annual percentage rate of charge for consumer credit agreements, must be
equally applicable to Article 21(3)(1) of Act No 33/2013. Finally, you alleged that the
Authority did not address in its letter of 24 March 2017 whether the interpretation of the
Supreme Court of Iceland of Act No 121/1994 in Case No 243/2015 constituted a breach
of Article 3 EEA and Protocol 35. However, the Directorate did not consider that these
observations altered the conclusions set out in its letter of 24 March 2017.

The decision to close the case is attached to this letter for your information (Doc No
895342). The decision to close the case at hand is without prejudice to any future decision
by the Authority to open a new case on this or a related issue in light of further
developments.

Rue Belliard 35, B-1040 Brussels. tel: (+32)(0)2 286 18 11, fax: (+32)(0)2 286 18 00, www.eftasurv.int
EFTA SURVEILLANCE
AUTHORITY
Page 2

Yours sincerely,

Gabrielle Somers
Deputy Director, Internal Market Affairs Directorate

This document has been electronically authenticated by Gabrielle Somers.

Enclosure: Decision to close the case (Doc No 895342)


Case No:79870
Document No: 895342
Decision No: 039/18/COL

EFTA SURVEILLANCE AUTHORITY DECISION

Of 27 March 2018

closing a complaint case arising from an alleged failure by Iceland to fulfil its
obligations with regard to Directive 2008/48/EC of the European Parliament and of
the Council of 23 April 2008 on credit agreements for consumers and repealing
Council Directive 87/102/EEC and Council Directive 87/102/EEC of 22 December
1986 for the approximation of the laws, regulations and administrative provisions of
the Member States concerning consumer credit

THE EFTA SURVEILLANCE AUTHORITY

Having regard to the Agreement between the EFTA States on the Establishment of a
Surveillance Authority and a Court of Justice, in particular Article 31 thereof,

Whereas:

1 Introduction

On 15 November 2016, the EFTA Surveillance Authority (“the Authority”') received a


complaint (Doc No 826674) against Iceland concerning an alleged failure to correctly
apply or implement the provisions of Directive 2008/48/EC of the European Parliament
and of the Council of 23 April 2008 on credit agreements for consumers and repealing
Council Directive 87/102/EEC (“Directive 2008/48/EC”)1 and Council Directive
87/102/EEC of 22 December 1986 for the approximation of the laws, regulations and
administrative provisions of the Member States concerning consumer credit (“Directive
87/102/EEC”)2 jointly referred to as (“the Directives”) into national law.

First, the complainant argues that the judgment of the Icelandic Supreme Court in Case No
243/20153 incorrectly interpreted Article 12(1) of Act No 121/1994 on Consumer Loans
(Lög um neytendalán) (“Act No 121/1994”) by allowing for a 0% inflation rate as a basis
in the calculation of the total borrowing costs and annual percentage rate of charge of
consumer loans even if the known inflation level on the borrowing date is not 0%.4 This
is equivalent to leaving out all of the costs regarding indexation from such a calculation,
thereby depriving the consumer of the right to obtain clear information on the biggest cost
component of the most common type of loan on the Icelandic loan market. The

1
Act referred to at point 7h of Annex XIX to the EEA Agreement, as incorporated into the EEA Agreement
by Joint Committee Decision No 16/2009 of 5 February 2009.
2
Incorporated into the EEA Agreement but no longer in force. Repealed by Directive 2008/48/EC.
3
Hæstaréttardómur frá 26. nóvember 2015, nr. 243/2015.
4
Hæstaréttardómur nr. 243/2015, section VII.
_______________________________________________________________________
Rue Belliard 35, B-1040 Brussels, tel: (+32)(0)2 286 18 11, fax: (+32)(0)2 286 18 00, www.eftasurv.int
Page 2

complainant thus maintains that the Icelandic Supreme Court‟s incorrect interpretation of
Article 12(1) of Act No 121/ 1994 contravenes both Article 3 of Act No 2/1993 on
European Economic Area (Lög um Evrópska efnahagssvæðið) and Directive 87/102/EEC
as interpreted by the EFTA Court in its advisory opinion in Case No E-27/13.5

Second, the complainant argues that if the Authority finds that the judgment of the
Icelandic Supreme Court in Case No 243/2015 is not contrary to the EEA Agreement, it
means that the Icelandic Government must be seen as having incorrectly implemented the
provisions of the Directives. This is because Article 12(1) of Act No 121/1994, as
interpreted by the Supreme Court in Case No 243/2015, allows for the total cost of
indexed loans and its annual percentage rate of charge to be calculated using the basis of
0% inflation throughout the borrowing period. This practice conveys inadequate
information to the consumer about such indexed loans as it essentially excludes the cost of
indexation from the information that consumers receive on the total cost of the credit.
Furthermore, the complainant states that it is particularly important for the Authority to
take a position on whether Article 19(4) of the Directive has been correctly implemented
into the Icelandic legal order by Article 21(3) of Act No 33/2013 on Consumer Loans
(Lög um neytendalán nr. 33/2013) (“The Consumer Loans Act”).

Finally, the complainant asks whether the alleged breach of the EEA Agreement may
entail State liability in accordance with settled case law of the EFTA Court and the
Icelandic Supreme Court.

2 Correspondence

On 18 November 2016, the Authority informed the Icelandic Government of receipt of a


complaint regarding an alleged incorrect implementation of EEA rules on consumer credit
in Iceland (Doc No 827180). On 21 December 2016, the Authority sent a letter to the
Icelandic Government requesting information on the implementation of EEA rules on
consumer credit in Iceland (Doc No 832490).

By letter dated 2 February 2017, the Icelandic Government responded to the Authority‟s
letter of 21 December 2016 (Doc No 840426). In the letter, the Icelandic Government
stated that in the case of indexed loans, when calculating the annual percentage rate of
charge, a creditor is now obliged to insert into the formula the average annual inflation
rate over the previous 12 months prior to signature of the agreement. In addition, the
Icelandic Government stated that the creditor must also inform the consumer of the
historical developments of both the inflation index as well as the interest rates in order for
the consumer to be able to take more informed decision.

On 24 March 2017, the Internal Market Affairs Directorate of the EFTA Surveillance
Authority (“The Directorate”) sent the complainant a letter informing him of the
Directorate‟s intention to propose to the Authority that the case be closed (Doc No
844609). The complainant was invited to submit any observations on the Directorate‟s
assessment of the complaint or to present any new information.

By letter dated 30 May 2017, the Authority received the complainant‟s written observation
to the Directorate‟s assessment of 24 March 2017 (Doc No 858088).

5
E-27/13, Sævar Jón Gunnarsson v Landsbankinn hf., (2014) EFTA Ct. Rep. 1090.
Page 3

On 8 June 2017, the representatives of the Authority discussed the case with the
representatives of the Icelandic Government during a meeting in Iceland.

3 Legal Framework

3.1 Relevant EEA Law

Article 3(g) of Directive 2008/48/EC reads as follows:

“„total cost of the credit to the consumer‟ means all the costs, including interest,
commissions, taxes and any other kind of fees which the consumer is required to
pay in connection with the credit agreement and which are known to the creditor,
except for notarial costs; costs in respect of ancillary services relating to the credit
agreement, in particular insurance premiums, are also included if, in addition, the
conclusion of a service contract is compulsory in order to obtain the credit or to
obtain it on the terms and conditions marketed;”

Article 3(i) of Directive 2008/48/EC reads as follows:

“„annual percentage rate of charge‟ means the total cost of the credit to the
consumer, expressed as an annual percentage of the total amount of credit, where
applicable including the costs referred to in Article 19(2).”

Articles 4 - 6 of Directive 2008/48/EC require, at the time of concluding a credit


agreement, that the borrower has at hand all relevant information that could have a bearing
on or implication for his undertaking.6

Article 19(4) of Directive 2008/48/EC reads as follows:


“4. In the case of credit agreements containing clauses allowing variations in the
borrowing rate and, where applicable, charges contained in the annual percentage
rate of charge but unquantifiable at the time of calculation, the annual percentage
rate of charge shall be calculated on the assumption that the borrowing rate and
other charges will remain fixed in relation to the initial level and will remain
applicable until the end of the credit agreement.”

Article 1a(1)(a) of Directive 87/102/EEC reads as follows:

“The annual percentage rate of charge, which shall be that equivalent, on an


annual basis, to the present value of all commitments (loans, repayments and
charges), future or existing, agreed by the creditor and the borrower, shall be
calculated in accordance with the mathematical formula set out in Annex I”

Article 1(2)(d) of Directive 87/102/EEC reads as follows:

“(d) „total cost of the credit to the consumer‟ means all the costs, including
interest and other charges, which the consumer has to pay for the credit”

Article 1a(6) of Directive 87/102/EEC reads as follows:

6
See as example Articles 5(1)(c), 5(1)(g), 6(1)(c) and 6(1)(f) of Directive 2008/48/EC.
Page 4

“In the case of credit contracts containing clauses allowing variations in the rate
of interest and the amount or level of other charges contained in the annual
percentage rate of charge but unquantifiable at the time when it is calculated, the
annual percentage rate of charge shall be calculated on the assumption that
interest and other charges remain fixed and will apply until the end of the credit
contract.”

3.2 Relevant Icelandic Law7

The second sentence of Article 21(3) of the Consumer Loans Act reads as follows:

“If a loan agreement authorises indexation, the calculation of the annual


percentage rate of charge shall be based on annual inflation, in accordance with
the 12-month change in the Consumer Price Index and the assumption that the
annual inflation will remain unchanged through the end of the loan period.”8

Article 25(1) of the Consumer Loans Act requires the creditor to provide the consumer, by
paper or other permanent medium, with various information. Article 25(1)(1) requires the
creditor to provide the consumer with information on “the historical development of price
levels and the impact of the development of price level on the principal and debt burden if
it is an indexed based loan.” Article 25(1)(4) requires the creditor to provide the consumer
with information on “the development of price levels and disposable income for the last 10
years.”9

Article 25(3) of the Consumer Loans Act requires “the Consumer Protection Agency
(Neytendastofa) to publish yearly on its website, general information and examples that
creditors shall build their information according to paragraph 1 on.”10

4 Assessment

At the outset, it is important to clarify that the Authority, in the context of Article 31 of the
Surveillance and Court Agreement (“SCA”), is only competent to assess compliance with
EEA Acts that are in force. Directive 87/102/EEC was no longer in force at the receipt of
the complaint.11 The complainant‟s written observation on this point, dated 30 May 2017,

7
Unofficial translations by the Authority.
8
1. mgr. 21. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán: “Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu skal
útreikningur árlegrar hlutfallstölu kostnaðar miðast við ársverðbólgu samkvæmt tólf mánaða breytingu
vísitölu neysluverðs og þá forsendu að ársverðbólga verði óbreytt til loka lánstímans.”
9
1. mgr. 25.gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán: [Lánveitandi skal samhliða upplýsingum skv. 7. gr., vegna
lánssamnings sem kallar á greiðslumat, veita neytanda upplýsingar, á pappír eða öðrum varanlegum miðli,
um eftirfarandi:
1. Sögulega þróun verðlags og áhrif þróunar verðlags á höfuðstól og greiðslubyrði ef lán er verðtryggt.
2. Sögulega þróun breytilegra vaxta á neytendalánum og áhrif breytinga á vöxtum á greiðslubyrði ef lán
er með breytilegum vöxtum.
3. Sögulega gengisþróun viðkomandi gjaldmiðla og áhrif gengisþróunar á höfuðstól og greiðslubyrði ef
lán er tengt erlendum gjaldmiðlum.
4. Þróun verðlags og ráðstöfunartekna síðustu 10 ár.
10
3. mgr. 25.gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán: “Neytendastofa skal birta opinberlega á vef sínum
almennar upplýsingar og dæmi sem lánveitendur skulu byggja upplýsingar sínar skv. 1. mgr. á.”
11
Directive 87/102/EEC was repealed by Joint Committee Decision No 16/2009 of 5 February 2009, with
effect from 12 May 2010.
Page 5

does not change this conclusion of the Authority.12 Accordingly, the Authority does not
assess whether the Icelandic Supreme Court has incorrectly interpreted, or the Icelandic
Government incorrectly implemented through Act No 121/1994,13 Directive 87/102/EEC.
Furthermore, the Authority does not evaluate whether a breach of the EEA Agreement by
an EEA Member State might entail State liability. Infringement proceedings under Article
31 of the Surveillance and Court Agreement are no substitute for private enforcement
actions invoking State liability under EEA Law. Consequently, the Authority‟s assessment
will focus solely on evaluating whether Iceland has correctly implemented Directive
2008/48/EC.

Directive 2008/48/EC aims to protect consumers against unfair or misleading practices in


the field of consumer lending, in particular by mandating disclosure of information by the
creditor to the consumer. According to Articles 4 - 6 of Directive 2008/48/EC, at the time
of concluding a credit agreement, the consumer must have at hand all relevant information
that could have a bearing on or implication for his undertaking. To ensure the fullest
possible transparency and comparability of credit offers, such information should include
the total cost of credit to the consumer, comprising of the annual percentage rate of charge
applicable to the credit.

According to Article 3(g) of Directive 2008/48/EC, the total cost of credit to the consumer
is defined as “all the costs, including interest, commissions, taxes and any other kind fees
which the consumer is required to pay in connection with the credit agreement and which
are known to the creditor.” The Court of Justice of the European Union has held that
informing the consumer of the total cost of credit calculated and expressed by means of
annual percent rate of charge according to a single mathematical formula is of critical
importance.14 According to Article 3(i) of Directive 2008/48/EC, the term “annual
percentage rate of charge” means “the total cost of the credit to the consumer, expressed
as an annual percentage of the total amount of credit, where applicable including the
costs referred to in Article 19(2).”

In Case E-27/13 Gunnarsson, the EFTA Court assessed whether it is permissible to omit
the rate of inflation when calculating the „total cost of the credit‟15 and „annual percentage
rate of charge‟16 of indexed consumer loans. The Court held that the assumption that the
rate of inflation to be indicated in a loan agreement will be 0%, at a time when the actual
rate of inflation is considerably higher, does not correctly represent the charges resulting
from the price indexation and thus the total cost of credit within the meaning of Article

12
The complainant argues, in his reply to the Authority‟s pre-closure letter of 24 March 2017, that the
Authority is capable of assessing EEA Acts that are no longer in force. The complainant‟s argument is that
even though a directive is no longer in force, an individual might still be experiencing the consequences of
incorrect implementation or interpretation of that directive, as is the case with thousands of Icelandic
consumers that took loans under Act 121/1994, which implemented Directive 87/102/EEC into the Icelandic
legal order (originally Act 30/1993).
13
It should be emphasised that, under Article 5 SCA, the Authority is entrusted with the task of ensuring the
fulfilment by the EFTA States of their obligations under the EEA Agreement. If it establishes, either on the
basis of its own monitoring activities or on the basis of complaints received, that a State has failed to comply
with its Treaty obligations, the Authority may decide to institute the infringement procedure provided by
Article 31 SCA. As the objective of this procedure is to ensure that the objectives of the EEA Agreement are
effectively attained in practice, the subject of the Authority‟s surveillance must, of necessity, be the
legislation and administrative practice currently in force. Act No 121/1994 on consumer loans (Lög um
neytendalán), which implemented Directive 87/102/EEC, is no longer in force. It was replaced by Act No
33/2013 on Consumer Loans (Lög um neytendalán nr. 33/2013).
14
Case C-264/02 Cofinoga Mérignac [2004] ECR I-02157, paragraph 26.
15
Article 1(2)(d) and (e) of Directive 87/102/EEC.
16
Article 1a(1)(a) of Directive 87/102/EEC.
Page 6

1(2)(d) of Directive 87/102/EEC.17 Accordingly, the Court found that when a credit
agreement is indexed based and the cost of the credit thus changes in accordance with
inflation, it is not compatible with Directive 87/102/EEC to calculate the total cost of the
credit and the annual percentage rate of charge on the basis of 0% inflation if the known
rate of inflation at the time of the credit agreement is not 0%.18

The Authority notes that EEA Law does not prohibit indexation of loans in contracts
between a creditor and a consumer.19 Directive 2008/48/EC takes account of the fact that
interest charges or other charges may be variable. Article 19(4) of Directive 2008/48/EC
states that if charges contained in the annual percentage rate of charge are unquantifiable
at the time of calculation, the annual percentage rate of charge shall be calculated on the
assumption that the borrowing rate and other charges will remain fixed in relation to the
initial level and will remain applicable until the end of the credit agreement. In such
circumstances, when total cost of credit and annual percentage rate of charge cannot be
strictly calculated, as is the case with indexed loans, any estimation thereof must be based
on reasonable assumption, in accordance with the Judgment of the EFTA Court in Case E-
27/13.20

The information provided in the complaint is predominantly based on research of


consumer loans in the period between 2010 and 2012. After that period, the Icelandic
legislator introduced new legislation, Act No 33/2013 on Consumer Loans (Lög um
neytendalán nr. 33/2013), which took effect on 1 November 2013 and implements
Directive 2008/48/EC into the Icelandic legal order.

The Consumer Loans Act changes the way in which the calculation of the annual
percentage rate of charge of indexed loans is conducted in Iceland. Previously, creditors
could base their calculations of the annual percentage rate of charge on the assumption of
0% inflation from the beginning to the end of the loan period. Article 21(3) of the
Consumer Loans Act now requires that creditors, when calculating the annual percentage
rate of charge, insert into his formula the average annual inflation rate during the last 12
months prior to signature of the agreement in case of indexed loans, with the assumption
that this annual inflation will remain unchanged through the end of the loan period.

Further, Article 25(1) of the Consumer Loans Act introduces a new obligation on the
creditor to explain to the consumer, prior to the conclusion of a credit agreement, of the
potential impact that inflation could have on the total cost of indexed loans. Article 25(1)
of the Consumer Loans Act requires the creditor to provide the consumer with information
on the historical development of price levels and the impact of the development of price
level on the principal and debt burden if it is an indexed based loan21 and of the
development of price levels and disposable income for the last 10 years.”22

The Authority is of the opinion that the changes introduced by the Consumer Loans Act,
mandating that creditors now calculate the annual percentage rate of charge of indexed
loans on the basis of the average annual inflation rate during the last 12 months, fulfil the

17
The main element of the definition of „total cost of the credit‟ of Article 3(g) of Directive 2008/48/EC is
essentially the same as in Article 1(2)(d) of Directive 87/102/EEC.
18
E-27/13, Sævar Jón Gunnarsson v Landsbankinn hf., cited above, paragraphs 93 and 96.
19
E-25/13, Engilbertsson, (2014) EFTA Ct. Rep. 524.
20
E-27/13, Sævar Jón Gunnarsson v Landsbankinn hf., cited above, paragraph 92.
21
Article 25(1)(1) of the Consumer Loans Act.
22
Article 25(1)(4) of the Consumer Loans Act.
Page 7

conditions set out by the EFTA Court in Case E-27/1323 that the annual percentage rate of
charge must be calculated on reasonable assumptions when a charge is unquantifiable at
the time of the calculation. Article 21(3) of the Consumer Loans Act should prevent the
practice of creditors in Iceland assuming 0% inflation over the course of the loan period in
their calculation of the annual percentage rate of charge.24 The Consumer Loans Act
should guarantee, in particular through Articles 21(3) and 25(1), that consumers are
adequately informed on the conditions and cost of indexed based credits, in accordance
with Articles 4 - 6 of Directive 2008/48/EC.

There are therefore on behalf of the Authority no grounds for pursuing this complaint case
further.

HAS ADOPTED THIS DECISION:

The complaint case arising from an alleged failure by Iceland to comply with Directive
2008/48/EC and Directive 87/102/EEC, is hereby closed.

For the EFTA Surveillance Authority

Bente Angell-Hansen Frank J. Büchel Högni Kristjánsson


President College Member Responsible College Member

Carsten Zatschler
Countersigning as Director,
Legal and Executive Affairs

This document has been electronically authenticated by Bente Angell-Hansen, Carsten


Zatschler.

23
E-27/13, Sævar Jón Gunnarsson v Landsbankinn hf., cited above.
24
The complainant argues that as the words “unchanged price level” in Article 12(1) of Act 121/1994 were
carried over into Article 21(3)(1) of Act No 33/2013, the interpretation of the Supreme Court in Case
243/2015, allowing for the assumption that price inflation will be 0% when calculating the annual
percentage rate of charge for consumer credit agreements, must be equally applicable to Article 21(3)(1) of
Act No 33/2013. The Authority maintains that it is for the national courts to interpret how Article 21(3) of
the Consumer Loans Act affects the calculation of the annual percentage rate of charge of indexed based
loans.
Þýðing úr ensku

EFTIRLITSSTOFNUN EFTA
Rue Belliard 35, B-1040 Brüssel
Sími: (+32)(0)2 286 18 11
Fax: (+32)(0)2 286 18 00
www.eftasurv.int
Mál nr. 7 9 8 7 0
Skjal nr. 8 9 5 3 4 2
Ákvörðun nr. 0 3 9 / 1 8 / C O L

ÁKVÖRÐUN EFTIRLITSSTOFNUNAR EFTA

Hinn 27. mars 2018

EFTIRLITSSTOFNUN EFTA

Með vísan til samningsins milli EFTA-ríkjanna um að koma á fót eftirlitsstofnun og


dómstól, og þá sérstaklega 31. grein hans,

Með því að:

1. Inngangur

Hinn 15. nóvember 2016 fékk Eftirlitsstofnun EFTA ("stofnunin") í hendur kvörtun
(skjal nr. 826674) gegn Íslandi varðandi meintan misbrest á réttilegri beitingu eða
lögleiðingu á ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB frá 23. apríl
2008 um lánasamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins nr.
87/102/EBE ("tilskipun 2 0 0 8 / 4 8 / E B " ) og tilskipunar ráðsins 87/102/EBE um
1

samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán


("tilskipun 87/102/EBE"), hér sameiginlega nefndar "tilskipanirnar", að
2

heimalandsrétti.

Í fyrsta lagi heldur kærandi því fram að í dómi Hæstaréttar íslands Í máli nr.
2 4 3 / 2 0 1 5 hafi ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 1 2 / 1 9 9 4 (laga um neytendalán) ("lög
3

nr. 121/1994") verið ranglega túlkuð, þegar talið var heimilt að miða við 0%
verðbólgu sem grundvöll að útreikningi á heildarlántökukostnaði og árlegri
hlutfallstölu kostnaðar af neytendalánum, enda þótt þekkt verðbólgustig á
lántökudegi hafi ekki numið 0%. Þetta jafngildi því að undanskilja allan kostnað
4

varðandi verðtryggingu frá slíkum útreikningum, en með því móti sé neytandinn


sviptur réttinum til þess að fá skýrar upplýsingar um þennan stærsta kostnaðarlið
hinnar algengustu tegundar lána á íslenskum lánamarkaði. Er þannig á því byggt af

1
Gerð sem vísað er til í lið 7b í XIX. viðauka við EES-samninginn, svo sem hún var felld inn í EES-
samninginn með ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 1 6 / 2 0 0 9 frá 5. febrúar 2009.
2
Felld inn í EES-samninginn, en ekki lengur í gildi. Felld úr gildi með tilskipun 2 0 0 8 / 4 8 / E B .
3
Hæstaréttardómur frá 26. nóvember 2015, í máli nr. 2 4 3 / 2 0 1 5 .
4
Hæstaréttardómur í máli nr. 2 4 3 / 2 0 1 5 , hluti VII.

1
hálfu kæranda að hin ranga túlkun Hæstaréttar Íslands í þessu tilliti á 1. mgr. 12. gr.
laga nr. 1 2 1 / 1 9 9 4 fari í bága bæði við 3. gr. laganna nr. 2/1993 um Evrópska
efnahagssvæðið ("Lög um Evrópska Efnahagssvæðið") og við tilskipun 87/102/EBE,
enda sé hún gagnstæð hinu ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli nr. E-27/13. 5

Í öðru lagi heldur kærandi því fram, að líti stofnunin svo á að dómur Hæstaréttar
Íslands í máli nr. 243/2015 fari ekki í bága við EES-samninginn, verði staðan eigi að
síður sú að Ísland hafi innleitt ákvæði tilskipananna með röngum hætti. Þetta sé fyrir
þá sök að ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994, svo sem Hæstiréttur hafi túlkað
þau í máli nr. 243/2015, geri ráð fyrir að reikna megi heildarlántökukostnað og
árlega hlutfallstölu kostnaðar af verðtryggðum lánum á grundvelli þess að miða við
0% verðbólgu yfir allan lánstímann. Með þeirri tilhögun séu neytandanum veittar
ófullnægjandi upplýsingar um þessi verðtryggðu lán, þar sem kostnaðurinn af
verðtryggingu sé þá í reynd undanskilinn þeim upplýsingum sem neytendur fái um
heildarlántökukostnað sinn. Ennfremur lýsir kærandi því að sérstaklega sé
mikilvægt að stofnunin taki afstöðu til þess hvort ákvæði 4. mgr. 19. gr.
tilskipunarinnar (2008/48/EB - þýð.) hafi verið réttilega leidd inn í hina íslensku
réttarskipan með 3. mgr. 21. gr. laga nr. 3 3 / 2 0 1 3 um neytendalán.

Að lokum ber kærandi fram þá spurningu hvort hin meintu brot gegn EES-
samningnum geti leitt til bótaskyldu af hálfu ríkisins í samræmi við viðtekna
dómvenju EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar Íslands.

2. Erindaskipti

Hinn 18. nóvember 2016 tilkynnti stofnunin íslensku ríkisstjórninni að sér hefði
borist kvörtun varðandi meinta ranga innleiðingu EES-reglna um neytendalán á
Íslandi (skjal nr. 827180). Hinn 21. desember 2016 sendi stofnunin ríkisstjórninni
bréf með beiðni um upplýsingar varðandi innleiðingu EES-reglna um neytendalán á
Íslandi (skjal nr. 832490).

Með bréfi dagsettu 2. febrúar 2017 veitti ríkisstjórn Íslands svar við bréfi
stofnunarinnar frá 21. desember 2016 (skjal nr. 840426). Í bréfinu lýsti íslenska
ríkisstjórnin því yfir að þegar um verðtryggð lán sé að ræða, og reikna þurfi út hina
árlegu hlutfallstölu lánskostnaðar, sé lánveitandinn nú skuldbundinn til að miða í
reikningsdæminu við meðalársverðbólgustig síðustu 12 mánaðanna fyrir undirritun
lánssamnings. Að auki tók ríkisstjórnin fram að lánveitandinn sé einnig skyldur til að
upplýsa neytandann um sögulega þróun bæði verðbólguvísitölu og vaxta, þannig að
neytandinn verði fær um að taka betur upplýstar ákvarðanir.

Hinn 24. mars 2017 sendi Stjórnarnefnd Eftirlitsstofnunar EFTA um málefni innri
markaðarins ("Stjórnarnefndin") bréf til kæranda, þar sem honum var gert kunnugt
að stjórnarnefndin hefði í hyggju að leggja til við stofnunina að málinu yrði lokað
(skjal nr. 844609). Var kæranda gefinn kostur á að senda inn athugasemdir við mat
stjórnarnefndarinnar á kærunni eða leggja fram hverskonar ný gögn.

5
E-27/13, Sævar Jón Gunnarsson g. Landsbankanum hf. [2014] EFTA Dómasafn 1090.

2
Með bréfi dagsettu 30. maí 2017 barst stofnuninni skrifleg athugasemd kæranda um
mat stjórnarnefndarinnar frá 24. mars 2017 (skjal nr. 858088).

3. Lagaumhverfi

3.1. Viðeigandi EES-réttarákvæði

Grein 3(g) í tilskipun 2 0 0 8 / 4 8 / E B hljóðar þannig:

"" heildarlántökukostnaður neytanda" merkir allan kostnað, þ.m.t. vexti, þóknanir,


skatta og öll önnur gjöld sem neytandinn þarf að greiða í tengslum við
lánssamninginn og sem lánveitandinn veit um, að frátöldum lögbókunarkostnaði;
kostnaður vegna aukalegrar þjónustu í sambandi við lánssamninginn, ekki síst
vátryggingariðgjöld, er einnig innifalinn ef til viðbótar er gert að skyldu að gera
þjónustusamning til að lánið fáist eða til að fá það með skilmálum og skilyrðum
markaðarins."

Grein 3(i) í tilskipun 2 0 0 8 / 4 8 / E B hljóðar þannig:

""árleg hlutfallstala kostnaðar" merkir heildarlántökukostnað neytanda,


tilgreindan sem árlega hlutfallstölu heildarfjárhæðar láns, þ.m.t, þar sem við á, sá
kostnaður sem um getur í 2. mgr. 19. greinar."

Greinar 4 - 6 í tilskipun 2 0 0 8 / 4 8 / E B áskilja að á þeim tíma sem lánssamningur er


gerður hafi lántakandi undir höndum allar viðkomandi upplýsingar sem haft geti
áhrif á eða afleiðingar fyrir skuldbindingu hans. 1

Grein 19(4) í tilskipun 2 0 0 8 / 4 8 / E B hljóðar þannig:

"4. Þegar um er að ræða lánssamninga sem hafa að geyma ákvæði sem heimila
frávik frá útlánsvöxtum og, ef við á, þeim kostnaði sem er innifalinn í árlegri
hlutfallstölu kostnaðar en ekki er unnt að meta þegar útreikningur fer fram, skal
ganga út frá þeirri forsendu við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar að
útlánsvextir og annar kostnaður séu fastur kostnaður miðað við upphafsstöðu og
haldi gildi allt til loka lánssamningsins."

Grein 1a(1)(a) í tilskipun 8 7 / 1 0 2 / E B E hljóðar þannig:

"Hin árlega hlutfallstala kostnaðar, sem skal, á ársgrundvelli, jafngilda núvirði


allra skuldbindinga (lána, endurgreiðslna og kostnaðar), í framtíð eða fyrir hendi,
sem um er samið milli lánveitanda og lánþega, skal reiknuð út í samræmi við þá
stærðfræðiformúlu sem sett er fram í Viðauka I."

Grein 1(2)(d) í tilskipun 87/102/EBE hljóðar þannig:

1
Sjá til dæmis greinar 5(1)(c), 5(1)(g), 6(1)(c) og 6(1)(f) í tilskipun 2 0 0 8 / 4 8 / E B .

3
""heildarlántökukostnaður neytanda" merkir allan kostnað, þar með talda vexti og
önnur gjöld, sem neytandinn þarf að greiða vegna lánsins." (sic)

Grein 1a(6) í tilskipun 87/102/EBE hljóðar þannig:

"Þegar um er að ræða lánssamninga sem í eru ákvæði er heimila breytingar á


vaxtafæti og upphæð eða stigi annarra gjalda sem falla undir hina árlegu
hlutfallstölu kostnaðar en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem
útreikningur er gerður, skal reikna út hina árlegu hlutfallstölu kostnaðar á þeirri
forsendu að vextir og önnur gjöld verði óbreytanleg og haldi gildi allt til loka
lánssamningsins."

3.2. Viðeigandi íslensk lagaákvæði 2

Annar málsliður 3. mgr. 21. greinar neytendalánalaganna hljóðar þannig:

"Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu skal útreikningur árlegrar hlutfallstölu


kostnaðar miðast við ársverðbólgu samkvæmt tólf mánaða breytingu vísitölu
neysluverðs og þá forsendu að verðbólga verði óbreytt til loka lánstímans." 3

Í 1. mgr. 25. gr. neytendalánalaganna er áskilið að lánveitandi skuli veita neytanda, á


pappír eða öðrum varanlegum miðli, ýmsar upplýsingar. Í 1. tölulið 1. mgr. 25. gr. er
þess krafist að lánveitandi veiti neytandanum upplýsingar um "sögulega þróun
verðlags og áhrif þróunar verðlags á höfuðstól og greiðslubyrði ef lán er verðtryggt." Í
4. tölulið sömu málsgreinar er þess krafist að lánveitandi upplýsi neytandann um
"þróun verðlags og ráðstöfunartekna síðustu 10 ár." 4

Í 3. mgr. er gerð krafa um að "Neytendastofa [skuli] birta árlega (sic) á vef sínum
almennar upplýsingar og dæmi sem lánveitendur skuli byggja upplýsingar sínar
samkvæmt 1. málsgrein á." 5

4. Mat á málinu

Mikilvægt er í öndverðu að gera ljóst, að á þeim grunni sem lagður er með 31. grein
Samningsins um eftirlitsstofnun og dómstól er stofnunin einvörðungu bær um að
leggja mat á EES-gerðir sem eru í gildi. Tilskipun 87/102/EBE var ekki lengur í gildi
þegar kvörtunin var móttekin. Skrifleg athugasemd kæranda um það efni dagsett
6

30. maí 2017 breytir ekki þessari niðurstöðu stofnunarinnar. Samkvæmt því mun 7

2
Óformleg þýðing stofnunarinnar.
3
[Íslenskur heildartexti 1. mgr. 21. gr. laga nr. 3 3 / 2 0 1 3 um neytendalán. Hér sleppt.]
4
[Íslenskur heildartexti 1. mgr. 25. gr. laga nr. 3 3 / 2 0 1 3 um neytendalán. Hér sleppt.]
5
[Íslenskur heildartexti 3. mgr. 25. gr. laga nr. 3 3 / 2 0 1 3 um neytendalán. Hér sleppt.]
6
Tilskipun 8 7 / 1 0 2 / E B E var felld úr gildi með ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 1 6 / 2 0 0 9 frá
5. febrúar 2009, frá 12. maí 2009 að telja.
7
Kærandi heldur því fram, í svarbréfi sínu við boðunarbréfi stofnunarinnar um lokun málsins frá 24.
mars 2017, að stofnunin sé bær um að leggja mat á EES-gerðir sem séu ekki lengur í gildi. Rök hans

4
stofnunin ekki leggja mat á það hvort Hæstiréttur Íslands hafi rangtúlkað tilskipun
87/102/EBE eða íslenska ríkisstjórnin innleitt hana ranglega við setningu laga nr.
1 2 1 / 1 9 9 4 . Ennfremur leggur stofnunin ekki mat á það hvort brot aðildarríkis gegn
8

EES-samningnum kunni að leiða til skaðabótaskyldu ríkisins. Málssókn vegna


vanefndar samkvæmt 31. grein Samningsins um eftirlitsstofnun og dómstól getur
ekki komið í stað einkaréttarlegrar málshöfðunar til að knýja fram bótaskyldu ríkis
eftir EES-rétti. Samkvæmt þessu mun mat stofnunarinnar einvörðungu beinast að
því hvort Ísland hafi réttilega innleitt tilskipun 2008/48/EB.

Tilskipun 2 0 0 8 / 4 8 / E B hefur það að markmiði að veita neytendum vernd gagnvart


óréttmætum eða villandi viðskiptaháttum á sviði neytendalána, og þá sérstaklega
með því að skipa fyrir um veitingu upplýsinga til lántakans af hálfu lánveitanda.
Samkvæmt ákvæðum 4. - 6. gr. tilskipunar 2 0 0 8 / 4 8 / E B ber skylda til þess, að á þeim
tíma sem gengið er frá gerð lánssamnings hafi lántakandi undir höndum allar
málsmetandi upplýsingar sem skipt gætu máli um skuldbindingu hans eða haft áhrif
á hana. Til að tryggja mesta mögulegt gagnsæi og samanburðarhæfi lánstilboða skuli
meðal þessara upplýsinga tilgreina heildarlántökukostnað neytandans, er jafnframt
sýni þá árlegu hlutfallstölu kostnaðar sem við eigi um lánið.

Í g-lið 3. greinar tilskipunar 2 0 0 8 / 4 8 / E B er heildarlántökukostnaður neytanda


skilgreindur sem "allur kostnaður, þ.m.t. vextir, þóknanir, skattar og öll önnur gjöld
sem neytandinn þarf að greiða í tengslum við lánssamninginn og sem lánveitandinn veit
um". Dómstóll Evrópusambandsins hefur úrskurðað á þá leið að skyldan til að
upplýsa neytandann um heildarkostnaðinn af lántöku sinni, reiknaðan og sýndan í
formi árlegrar hlutfallstölu kostnaðar samkvæmt einu stærðfræðilegu líkani, hafi
úrslitaþýðingu. Samkvæmt i-lið 3. greinar tilskipunar 2 0 0 8 / 4 8 / E B er hugtakið
9

"árleg hlutfallstala kostnaðar" skilgreint sem "heildarlántökukostnaður neytanda,


tilgreindur sem árleg hlutfallstala heildarfjárhæðar láns, þ.m.t, þar sem við á,
kostnaður sem um getur í 2. mgr."

Í málinu E-27/13, Sævar Jón Gunnarsson, lagði EFTA-dómstóllinn mat á það hvort
leyfilegt væri að sleppa því að taka mið af verðbólgustigi við útreikning á
"heildarlántökukostnaði" og "árlegri hlutfallstölu kostnaðar" af verðtryggðum
10 11

eru þau að jafnvel þótt tilskipun sé ekki lengur í gildi geti einstaklingur enn verið að finna fyrir
afleiðingunum af rangri innleiðingu eða túlkun þeirrar tilskipunar, eins og tilfellið sé um þúsundir
Íslendinga sem tóku lán í skjóli laga nr. 1 2 1 / 1 9 9 4 um neytendalán, sem innleiddi tilskipun
8 7 / 1 0 2 / E B E í íslenska réttarskipan (upphaflega lög 3 0 / 1 9 9 3 ) .
8
Á það ber að leggja áherslu að samkvæmt 5. grein Samningsins um eftirlitsstofnun og dómstól er
stofnuninni falið það verkefni að tryggja efndir af hálfu EFTA-ríkjanna á skuldbindingum sínum
samkvæmt EES-samningnum. Sýni hún fram á það, ýmist á grundvelli eigin eftirlitsstarfa eða á
grundvelli kvartana sem henni hafi borist, að ríki hafi brugðist því að standa við skuldbindingar sínar
samkvæmt sáttmálanum, getur stofnunin ákveðið að grípa til þeirrar málssóknar vegna vanefndar
sem um er mælt í 31. grein Samningsins um eftirlitsstofnun og dómstól. Þar sem slík málssókn á að
gegna því hlutverki að tryggja að markmið EES-samningsins nái fram að ganga í virkri framkvæmd
verður óhjákvæmilega að líta svo á, að eftirlitsstarf stofnunarinnar skuli beinast að þeirri löggjöf og
stjórnsýsluframkvæmd sem er við lýði á hverjum tíma. Lög nr. 1 2 1 / 1 9 9 4 um neytendalán, sem
innleiddu tilskipun 8 7 / 1 0 2 / E B E , eru ekki lengur í gildi. Þau voru leyst af hólmi með lögum nr.
3 3 / 2 0 1 3 um neytendalán.
9
Mál C-264/02 Cofinoga Merignac [2004] ECR-I-02157, málsgrein 26.
10
Greinar 1(2)(d) og (e) í tilskipun 8 7 / 1 0 2 / E B E .
11
Grein 1a(1)(a) í tilskipun 8 7 / 1 0 2 /EBE.

5
lánum. Um það ályktaði dómstóllinn að þegar gert sé ráð fyrir að verðbólgustigið sem
tilgreina beri við gerð lánssamnings haldist í 0%, á tímapunkti þar sem raunveruleg
verðbólga er töluvert hærri, gefi sú forsenda ekki rétta* mynd af þeim kostnaði sem
leiði af verðtryggingunni og þar með af heildarlántökukostnaði í skilningi d-liðar 2.
mgr. 1. gr. tilskipunar 87/102/EBE, er samsvarar g-lið 3. gr. tilskipunar
2 0 0 8 / 4 8 / E B . Í samræmi við þetta varð það niðurstaða dómstólsins að þegar
12

lánssamningur sé bundinn við vísitölu neysluverðs og lántökukostnaðurinn taki þar


af leiðandi breytingum í samræmi við verðbólgu, samrýmist það ekki tilskipun
87/102/EBE að miðað sé við 0% verðbólgu við útreikning á heildarlántökukostnaði
og árlegri hlutfallstölu kostnaðar ef þekkt verðbólgustig á lántökudegi er ekki 0 % . 13

Stofnunin bendir á að í EES-rétti er ekki lagt almennt bann við samningsskilmálum


um verðtryggingu lána í samningum milli lánveitanda og neytanda. Tilskipun
14

2 0 0 8 / 4 8 / E B tekur tillit til þeirrar staðreyndar að vaxtagjöld og önnur gjöld kunni að


vera breytileg. Í 4. mgr. 19. gr. tilskipunar 2 0 0 8 / 4 8 / E B er mælt svo fyrir að ef um er
að ræða gjöld sem innifalin eru í árlegri hlutfallstölu kostnaðar og ekki er unnt að meta
þegar útreikningur fer fram, skuli hin árlega hlutfallstala kostnaðar reiknuð út frá
þeirri forsendu að útlánsvextirnir og önnur gjöld haldist sem föst viðmið samkvæmt
þeirri stöðu sem þau hafa í upphafi, og haldi gildi allt til loka lánssamningsins. Við
þessar aðstæður, þegar heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala kostnaðar
verða ekki reiknuð út til fullrar hlítar, eins og reyndin er um verðtryggð lán, verður
að byggja alla áætlun um þau á málefnalegum forsendum,** í samræmi við dóm
EFTA-dómstólsins í máli nr. E-27/13. 15

Upplýsingar þær sem bornar voru fram í kvörtuninni eru að mestu leyti byggðar á
rannsókn á neytendalánum frá árabilinu 2010 til 2012. Eftir þann tíma hefur íslenski
löggjafinn kynnt til sögunnar nýja löggjöf, lög nr. 3 3 / 2 0 1 3 um neytendalán
("neytendalánalögin"), en þau tóku gildi 1. nóvember 2013 og hafa innleitt tilskipun
2 0 0 8 / 4 8 / E B í íslenska réttarskipan.

Neytendalánalögin breyta því með hvaða hætti skuli standa að útreikningi á árlegri
hlutfallstölu kostnaðar af verðtryggðum lánum á Íslandi. Áður gátu lánveitendur
miðað við þá forsendu í útreikningum sínum á árlegri hlutfallstölu kostnaðar að
verðbólga yrði 0% frá upphafi til loka lánstímans. Í 3. mgr. 21. greinar laganna er nú
mælt svo fyrir, að þegar lánveitendur reikni út árlega hlutfallstölu kostnaðar af
verðtryggðum lánum skuli þeir í reiknilíkani sínu taka mið af stærð sem svarar til
meðal ársverðbólgu samkvæmt breytingum á vísitölu neysluverðs síðastliðna 12
mánuði, ásamt því viðmiði að sú ársverðbólga haldist óbreytt til loka lánstímans.

Í 1. mgr. 25. greinar neytendalánalaganna er ennfremur mælt fyrir um nýja


skuldbindingu á hendur lánveitanda um að skýra fyrir neytandanum hugsanleg áhrif
verðbólgu á heildarkostnað af vísitölutengdum lánum, áður en gengið er frá
lánssamningi. Í þessari 1. mgr. 25. gr. laganna er þess krafist að lánveitandi láti

12
Aðalefni skilgreiningarinnar á "heildarlántökukostnaði" í g-lið 3. greinar tilskipunar 2 0 0 8 / 4 8 / E B
er að undirstöðu til hið sama og í d-lið 2. mgr. 1. greinar tilskipunar 8 7 / 1 0 2 / E B E .
13
E-27/13, Sævar Jón Gunnarsson g. Landsbankanum hf., tilvitnað að ofan, málsgreinar 92 og 93.
14
E-25/13, Gunnar V. Engilbertsson, [2014] EFTA Dómasafn 524.
15
E-27/13, Sævar Jón Gunnarsson g. Landsbankanum hf., tilvitnað að ofan, málsgrein 92.

6
neytandanum í té upplýsingar um sögulega þróun verðlags og áhrif verðlagsþróunar
á höfuðstól og greiðslubyrði, ef lán hans er verðtryggt, og um þróun verðlags og
16

ráðstöfunartekna næstliðin 10 ár. 17

Það er álit stofnunarinnar að þær breytingar sem innleiddar hafa verið með
neytendalánalögunum, og skipa svo fyrir að lánveitendur skuli nú reikna árlega
hlutfallstölu kostnaðar á grundvelli meðal ársverðbólgu á síðustu 12 mánuðum,
uppfylli þau skilyrði sem EFTA-dómstóllinn hefur lýst í málinu E-27/13 og fela í sér
að hina árlegu hlutfallstölu verði að reikna út frá málefnalegum forsendum, þegar
ekki sé unnt að meta á útreikningstímanum hverju kostnaðarþáttur muni nema.
Ákvæði 3. mgr. 21. gr. neytendalánalaganna ættu að geta útrýmt þeirri framkvæmd
lánveitenda á Íslandi að gera ráð fyrir 0% verðbólgu allan lánstímann við útreikning
sinn á hinni árlegu hlutfallstölu kostnaðar. Íslensk löggjöf ætti nú að geta tryggt, og
þá sérstaklega vegna 3. mgr. 21. gr. og 1. mgr. 25. gr., að neytendum verði veittar
viðunandi upplýsingar um skilmála verðtryggðra lána og kostnaðinn af þeim, í
samræmi við ákvæði 4. - 6. greinar tilskipunar 2008/48/EB.

Af hálfu stofnunarinnar eru samkvæmt þessu engar ástæður til að fylgja þessu
kvörtunarmáli frekar eftir.

HEFUR TEKIÐ SVOFELLDA ÁKVÖRÐUN:

Kærumáli því sem risið er af meintum misbresti af hálfu Íslands á því að framfylgja
tilskipun 2 0 0 8 / 4 8 / E B og tilskipun 8 7 / 1 0 2 / E B E er hér með lokað.

Fyrir hönd Eftirlitsstofnunar EFTA

Bente Angell-Hansen Frank J. Büchel Högni Kristjánsson


Forseti Stjórnarmaður Ábyrgur stjórnarmaður

Carsten Zatschler
Áritar sem forstöðumaður
Laga- og stjórnunarsviðs

Skjal þetta hefur verið staðfest rafrænt af Bente Angell- Hansen og Carsten Zatschler.

Frh. á næstu bls.

16
1. tölul. 1. mgr. 25. greinar neytendalánalaganna.
17
4. tölul. 1. mgr. 25. greinar neytendalánalaganna.

7
Aths. þýðanda:

* Hér er fylgt þýðingu hjá EFTA-dómstólnum um orðalag í 93. mgr. dómsins


("does not correctly represent"), er eins mætti þýða "gefur ekki rétta mynd" eða
"gefur ekki réttilega til kynna" osf.

** Hér er um að ræða þýðingu á orðunum "reasonable assumptions" í 92. mgr.


dómsins, er einnig mætti þýða sem "sanngjarnar" eða "raunhæfar" forsendur. Í hinni
íslensku þýðingu hjá dómstólnum virðist þessum texta vera sleppt í þeirri málsgrein,
en hins vegar er orðið "raunhæfur" viðhaft í 93. mgr. fyrir "correctly", eins og á er
bent í fyrri aths. Hjá ESA er enskum texta dómsins fylgt um báðar málsgreinarnar.

Rétt þýðing úr ensku á framangreindri ákvörðun ESA staðfestist hér með.

Reykjavík, 27. júní 2018.

Hjörtur Torfason hrl.


Löggiltur skjalaþýðandi úr og á ensku
Hávallagötu 1, 101 Reykjavík