You are on page 1of 3

Kafli úr bók Kurt Seligmann Saga galdra og dulvísinda

MESÓPÓTAMÍA

Gleymnir Guðir

Frá ómunatíð hefur maðurinn staðið andspænis illum yfirnáttúrulegum verum.


Töfraathafnir eru þau vopn sem hann hefur notað í baráttu sinni við þessi öfl.
Allsstaðar liggja draugar í leyni. Larvaeur og lemúrar búa ofan í jörðu, blóðsugur
sem sloppið hafa að handan gera árásir á þá sem lifandi eru, Namtar (pestin) og
Idpa (sóttin) eru plágur á borgum. Nóttin, eyðimörkin, hyldýpið, hafið, fjöllin,
mýrarnar, sunnanvindurinn: Allt var þetta á valdi illra anda. Súkkúbar og Inkúbar
fluttu mönnum dónalegar martraðir, snörusetjarann Maskim, hinn illa Útuq
eyðimerkurbúa, nautsóværuna Telal og tortímandann Alal. Hugir manna voru uppfullir
af vondum áhrifum djöfla sem kröfðust bæna og fórna. En vitringar ævafornra
menningarsamfélaga vissu líka að til voru góðir andar, eylíflega tilbúnir að koma
vesölum til hjálpar. Í háþróuðum töfratrúarbrögðum sáu prestar fyrir sér æðri
veru, vitran stjórnanda jafnvægis í heiminum.
Í þessum ótta og undrum bjó fólkið við árnar Tígris og Euphrates. Þetta voru
goðsagnakenndir Súmmerar sem sest höðu að í neðri Euphratesdal fimm þúsund árum
fyrir Krist; Akkadíar dökkir á hörund sem komu sér fyrir á svæðinu þar sem Babílon
var þrjú þúsund árum fyrir okkar tímatal; Elemítar, forferður Persa sem hægt er að
rekja fjögur þúsund ár aftur fyrir Krist; stjarnvitrir Babílóníumenn, stofnendur
heimsveldis; Asseríumenn, fyrsta þjóðarafkvæmi Babílóníu, sem síðar drottnuðu yfir
vestur Asíu og Egyptalandi; og enn á ný Medear sem böðuðu sig í dýrðarljóma sem
virtist ætla vara um alla eilífð þar til Persar lögðu undir sig öll Asíulönd.
Prestar stóðu úti á víðum sléttum, á svölum mustera og turna, og horfðu á
næturhimininn. Þeir veltu fyrir sér gátum veraldarinnar, ástæðu allra hluta, lífi
og dauða. Þeir lögðu bænir sínar að fótum Hea, anda jarðarinnar, og himinandanum
Ana. Með galdraþulum, með reykelsi, með kalli og með hvísli, með hreyfingum og með
söng, leituðust prestarnir við að laða að sér dintótta Guði sem nótt sem nýtan dag
voru minntir á ógæfusama dauðlega menn. Munið, var ævinlega viðkvæðið í þulum
þessum: Munið þann er færir fórnir. Megi fyrirgefning og friður fljóta eins og
logandi málmur á vegi hans. Megir dagar þessa manns verða lífgsgjöf sólarinnar!
Mundu það andi jarðarinnar! Mundu það andi himinsins!
Ekki var það aðeins að menn skyldu óttast djöflana, heldur líka að í manninum
sjálfum höfðu hreiðrað um sig hættuleg öfl. Galdrar voru tvíeggjað sverð því þeir
voru ekki alltaf til verndar. Þeir gátu líka lagt heiminn í rúst fyrir mönnum. Í
höndum glæpamanna voru galdrar ógnvekjandi vopn sem þeir beittu til að ná illvilja
sínum fram. Galdramaðurinn áleit sjálfan sig hafin yfir lög og trúarboðorð. Að
eigin geðþótta kastaði hann yfir menn álögum og þuldi þá með þulum til bana:

Bölbænirnar orka á mann eins og illur andi. Öskur yfirtaka hann. Illkvittinn
rödd yfirtekur hann. Bölbænir eru ástæða veikinda hans. Bölbænir kyrkja þennan
mann sem lamb væri. Guðinn innra með honum opnar sárið, gyðjan byrlar honum kvíða.
Vælandi röddinn, líkust hýenuvæli, hefur heltekið hann og hefur hann á sínu valdi.

Sumir galdramenn voru taldir hafa yfir illu auga að ráða. Þeir gátu drepið
fórnarlamb sitt með andartaks augnatilliti einu saman. Um aðra var það sagt að
þeir skópu myndir af óvinum sínum sem þeir kveiktu í eða stungu í þær pinnum. Allt
eftir því hversu miklum óskunda þeir vildu koma af stað.

Sá er myndina skóp, sá er þylur,


svipur illúðlegur, illt auga,
sá er munnljótur, ill tunga,
varasvipur grimmur, orðvondur.
Mundu þetta himinsandi!
Mundu þetta moldarandi!

Til voru þulur gerðar til að koma í veg fyrir allrahanda gjörninga svartagaldurs,
gegn stöðugri viðveru djöfla og púka sem smugu óséðir eins og snákar inn í hús,
til að gera konur ófrjóar, stela börnum og stundum komu þeir yfir landið eins og
stríðsmenn úr Asíu færu þar með ránum og óöld.

Þeir fara yfir löndin eitt af öðru,


þeir gera þrælinn að hefðarmanni.
þeir kasta á dyr frjálst borinni konu út úr húsinu þar sem hún ól barn,
þeir hrinda fuglsungum upp úr hreiðrum þeirra og út í tómið,
þeir keyra uxann á undan sér, þeir fæla burt lambið,
þessir illu, klóku djöflar.

En friðarraddir láta líka í sér heyra mitt í ótta og óreiðu, og sálmatilbeiðsla


skiptist á við galdraþulur. Enn má sjá skrifað á brotna leirtöflu með fleygrúnum:
Blómsveigar...upphafni hyrðir...á hásætum og ölturum...veldissproti úr
marmara...upphafni hyrðir, konungur, hyrðir fólksins.... Friðarsöngvar þagna þegar
Namtar, djöfullinn sem hefur slæm áhrif, opnar sitt svarta vænghaf. Síðan er
eymdarlýðurinn minntur á Múlga, drottinn hyldýpis og plánetanna, sem eru systkini
hans. Í dauðans hryllingi ákallar lýðurinn guði og anda sem hann hefur gleymt í
allri velmeguninni, enda er maðurinn gleyminn rétt eins og guðirnir sem hann mótar
í sinni eigin mynd.

Mundu, drottinn landanna, andi Múlga.


Mundu, drottning landanna, andi Nín-gelal.
Mundu, voldugi stríðsmaður Múlga, andi Nindar.
Mundu, æðri kunnátta Múlga, andi Pákú.
Mundu, sonur Múlga, andi En-Zúna.
Mundu, frú gestgjafanna, andi Tísku.
Mundu, Konungur réttlætisins, andi Údú...*

*Múlga er meistari Heljar; Nín-gelal, það er jörðin; Nindar er Satúrnus; Pákú


Merkúr; En-Zúna tunglið; Tísku Venus; og Údú er sólin.

Slík er viskan á fleygrúnuðum áletrunum sem okkur hafa borist frá konuglega
bókasafninu í Ninevu, sem Ashurbanipal konungur hafði tekið saman upp úr fornum
ritum Akkadea. Þau höfðu fyrir löngu orðið óskiljanleg, en einmitt það var ástæðan
fyrir þeirri óhemju dulúð sem þeim var eignað. Tekið var sem sjálfsagt mál að þau
væru enn í fullu gildi, af því að þessar dularfullu formúlur voru lesnar upphátt
öldum saman. Svipuð trú á að göldróttum orðum mætti ekki breyta var til hjá öðrum
fornþjóðum, trú sem vissulega hefur ekki mikið breyst allt til okka daga. Gyðingar
og Kaþólikkar fara með bænir sínar á Hebresku og Latínu, dauðum tungumálum, í sömu
trú á óskeikuleika upprunalegra trúarrita, alveg eins og Akkadear í stjórnartíð
Ashurbanipals.
Rit Akkadíana gömlu sýna greinilega hugmyndir alþýðu þess tíma um
yfirnáttúrulega hluti. Gott og illt orsakaðist af góðum og illum öndum fólkinu
sent af góðum og illum guðum. Tvíhyggja var þeim í blóð borin. Þeir lifðu togaðir
sundur og saman af baráttu mill ljósra og myrkra afla. Í þessum eilífu átökum var
ekki að finna neina siðferðilega mælistiku. Dauðinn einn skar úr um hvað snéri
upp og hvað snéri niður í baráttunni milli góðs og ills. Gott gat auðveldlega gert
illt. Mulga var ekki með öllu illur, samt var afkvæmi hans Namtar allra djöfla
verstur. Gott og illt búa ekki endilega í aðskyldum hýbýlum. Hliðholl öfl búa í
myrku hyldýpi Múlga. Kvikindislegir andar búa við hliðina á verndaröndum. Svona
trúarkerfi hefði hæglega getað steypt fólkinu í botnlausa ringulreið hefði það
ekki á valdi sínu kunnáttu í göldrum sem vörn við illum áhrifum.
Þjóðfélagið var reist upp af grunni galdurs. Á því hékk tilvera fólksins.
Listir blómstruðu, kaupmenn stunduðu sín viðskipti, herfylki röðuðu sér upp á
sléttunum, fórnarreykur steig upp frá hofum, veiðimenn reikuðu um fjöllin í
norðri, og í konungshöllinni voru samankomnir vitringar til að skeggræða sín á
milli um málefni ríkisins. Þjóðir þessar hafa skilið eftir sig sýnishorn um mikla
menningu, sem ber vott um fágaðan smekk. Það var ríkjandi þarna skýr tilfinning
fyrir fegurð. Handverksmenn gerðu dásamlega hluti úr málmi, stein, tré, skeljum og
ýmiskonar öðrum efnum. Verk þeirra sýna fullkomið jafnvægi á milli stílfágunar og
einfaldleika, milli grófgerðra hluta og nálægðar, milli kímnigáfu og hrottaskapar.
Elemítarnir til forna höfðu skapað guði sína í dýrslíki. En hjá þeim Súmmerísku
Akkadeum stukku fram úr skeppnunum mannlegir guðir. Dýrið er bælt niður og látið
hlýða mannalögum. Hetjugoðsögnin Gilgamesh er skorin í hörpu kóngsins í Úr þar sem
hann heldur utan um tvö óð naut sem hafa mannshöfuð. Við sjáum ljón og hund á leið
á fórnarathöfn. Björn heldur á hörpu " er gleðifyllir hofsforgarðinn", á meðan
asni slær hana, bragð sem Miðöldum var líka kært. Refur gerir sig heimakominn á
loppu bjarnarins, trommandi á spjald og hristir hristu sína undir skoltum úskorins
nautshaus sem prýðir hljóðboxið. Skeppna sem er hálfur maður og hálfur sporðdreki
er um það bil að fara að dansa. Á afturfótum stendur antilópugeit og hristir
hristurnar. Það sem við sjáum framsett er óbeislaður andi dansins.
Hátíðargleði skiptist á við alvarlega svipi við fórnarathafnir og öllu er
áorkað með göldrum og gjörningum sem frelsa sálina undan ótta og stuðar
ímyndunarafl mannsins. Það var með göldróttum tilgangi að myndirnar voru skornar,
ljóð samin, tónlist spiluð og opinberir minnismerki reist.

Kurt Seligmann The History Of Magic And The Occult ©1948

You might also like