You are on page 1of 10

Saga af Margréti píslarvotti.

- 2294 4to

Í þann tíma, þá liðið var frá pínu Drottins vors Jesú Krists 290 ár, þá óx fjandans
ríki mikið yfir Kristindóminn. Þá var sá keisari er hét Maximilianus. Dioclesianus
var son þess manns Delmutha. Hann kom til ríkis með þeim manni er nefndist
Maximilianus; öðru nafni Olga Hercúles, og voru þeir báðir vondir í móti kristninni.
Dioclesianus var umfram alla aðra í ótrúskap móti kristnum mönnum. Hann setti
dómara og jarla í sínu ríki, svo að hvar sem þeir fyndu kristna menn í ríkinu, þá
skyldu þeir pínast til lífláts; með vatni, vindi, eldi, járni, hungri og frosti. Svo vildi
hann eyðileggja allan kristindóminn í sínu veldi.
En á 19da ári síns ríkis fór hann austur með sínu veldi, en Maximilianus vestur,
og eyddi helga staði en hófu upp skurðgoðablót og deyddu helga menn. En á
öðru ári þessa ófriðar létu þeir báðir sína jarðnesku sæmd; Dioclesíanus í
Mediuborg en Maximilianus í Medoliumborg - og fóru báðir vonda vegu. En
þeirra villa hélst eftir þeirra dag, allt til ríkisstjórnar Aríus Constantínus,
kóngssonar Elías sem fann krossinn þann helga og tók allt ríki til hafs þess sem
liggur um alla veröldina. En að öndverðum þessum háska, var Marcelíus páfi í
Róm, er lét líf sitt með ýmsum píslum.

Á þessum tíma var sú hin heilaga Margrét 12, sumir


skrifa 15 ára gömul, en hún bað bænum sínum til
almáttugs Guðs og mælti þetta:

"Drottinn minn Jesús Kristur! Kraftur heilagra, huggari


hryggra, hjálpari nauðstaddra. Styrk þú mig auma
mey, því ég treysti á þig. Ef að þetta fjandlega vald
kemur til mín og tekur mig höndum, þá lát þú Drottinn
minn ei þína ambátt þreytast, minn Drottinn! Þú ert
huggari sálar minnar og verndari míns vesæla líkama.
Sú móðir er mér skyldi heilt ráð leggja vildi svíkja mig.
Ef þú Drottinn vilt varðveita mig, þá hræðist ég
engann mann."

Þessi mær var dóttir eins ríks manns að nafni


Teódoríus, hann var æðsti höfðingi skurðgoða-
biskupanna. Hann elskaði dóttur sína sem sjálfan sig í hennar uppvexti, en sendi
hana til fósturs úr þeirri borg sem hann var í, sú er hét Antíochía, 15 mílur til
þeirrar borgar þar sem sankti Páll og Barnabas kenndu guðsorð, hver stendur í
endimörku Aralands. En sú er önnur Antiochia er sánkti Pétur setti
erkibiskupsstól í.

Móðir Margrétar andaðist en faðir hennar lifði. Mærin var kristin og hann mátti
hana með engu móti þar frá telja. Þar af brann hann innan og utan af eldi
grimmdar og illsku, svo varla leit hann til hennar með réttum augum og hratt
henni frá sér. En þess meir sem hann hataði hana, þess meir elskaði hún Guð.
Svo gjörðist þessi mær ástfólgin fóstru sinni að hún unni henni sem það væri
hennar eigin holdgetin dóttir. Hin heilaga Margrét var lítillát með helgri þolinmæði
við fóstru sína, og hún skammaðist sín eigi þó að hún væri háleit meyja, en
gjörandi allt með góðvild það sem fóstra hennar vildi, jafnvel að gæta sauða
hennar með öðrum meyjum.
Ég heiti Teódosíus, segir sá sem söguna gjörði, og tók skírn í nafni heilagrar
þrenningar. Ég hugði vandlega að hvernig sú heilaga mær hélt sig á móti
Djöflinum og sigraði þennan heim.

Svo bar til einn dag, að hin heilaga Margrét var þann
veg úti, og gætti sauða fóstru sinnar. Þá fór Ólafur af
Aría til Antíokkíu, til þess að neyða alla kristna menn
til að trúa á goð sín og hvort að nokkur fyndist sem
játaði nafn almáttugs Guðs. Þá skyldi sá píndur eður
deyddur verða. Þá sá Ólafur greifi hvar sú heilaga
mær gekk. Hún var svo fögur að henni voru fáar
jafnar. Þá mælti greifinn við menn sína, að þeir skildu
strax taka hana og spyrja hvort hún væri frjáls, "því þá vil ég greiða út verð fyrir
hana og láta hana vera frillu mína, en ef hún er eigi frjáls vil ég láta hana vera
kvinnu mína, því henni er gefin fegurð fram yfir þær meyjar sem ég hefi séð". En
þá þeir komu til hennar tóku þeir hana og leiddu til greifans. Fór hún með þeim
skjálfandi af hræðslu, sem nærri má geta, yfir að koma til þessara ókunnugu
víkinga, eftir því sem þeir gjörðu illvirki öllum kristnum mönnum.

Hér með var sú heilaga Margrét hrædd af því að hún hafði ásett sér stöðug að
vera í sinni upptekinni Krists elsku, hve mjög sem hennar yrði freistað. Þá leit hún
upp til himins og bað til Guðs, konungs allra konunga, og sagði:

"Minnstu mín Drottinn og hjálpaðu mér, skapari himins og jarðar. Miskunna mér
og hjálpa mér, svo að sála mín týnist ekki með ómildum. Drottinn minn, Jesús
Kristí, láttu mig gleðjast jafnan og þig lofa. Láttu önd mína ekki flekkast né trú
mína spillast, né minn líkama pínast, og vit mitt eigi fangast af hrekkvísri slægð
fjandans og hans erindisreka. Heldur gef þú mér vísdóm að ég megi varðveitast.
Send þú mér engil þinn af himnum til að kenna mér að svara þeim illa greifa, því
að ég þykist nú svo komin vera sem sauður með vörgum. Nú bið ég þig
allsvaldandi Guð! Hjálpa þú mér frá þeim illa greifa."

Þá fóru þeir til Ólafs greifa og sögðu: "Lávarður! Þér hæfir ekki að taka þessa
mær til eiginkvinnu, því að hún elskar Jesúm Kristum." Þá skipti Ólafur litum og
sagði; "Þér skuluð leiða hana hingað." Þeir gjörðu svo.
Hann spurði hana: "Hvert er þitt kyn?"
Hin heilaga Margrét svarar: "Frjáls er ég og kristin."
Þá spyr greifinn: "Hvert er nafn þitt?"
"Margrét heiti ég!"
"Á hvern trúir þú?"
"Ég trúi á Guð föður almáttugann, og á Jesúm Krist hans son, sem minn
meydóm hefir varðveitt óskaddaðann til þessa dags."
Greifinn segir: "Þá kallar þú á hann sem langfeðgar vorir krossfestu."
"Af því þeir gjörðu það, þá þrífast þeir eigi, en hann lifir í dýrð eilífrar dýrðar,
óendanlega, en þeir Títus og Vespasíus drápu á einum degi 35000 af þeim í
hefnd Drottins."

Þá varð Ólafur yfirmáta reiður og skipaði að setja hana í myrkvastofu, en vildi


leita alls við svo að hann fengi náð meydómi hennar. Fór hann nú sjálfur til
Antíokkíu og bað sér hjálpar til goða sinna. En í líkneskjunni er hann tilbað var
fjandi einn sá er Ædonis* hét. Annan dag eftir sat hinn illi greifi á dómstóli og
sendi eftir Margréti. Þá hún var komin, mælti sá óguðlegi greifi svo allir heyrðu:
"Þú hin hégómlega mær! Miskunna sjálfri þér, og þínum fagra líkama, og hverf til
goða minna. Mun ég eiga þig að kvinnu og gefa þér allt það er þú vilt hafa."
Margrét mælti: "Guð er sá mig varðveitir. Ég veit til hvers þú eggjar mig. Sem er
af þeirri sætu sannleiksgötu er ég tek til að ganga."
Greifinn svarar: "Mikla ást skal ég leggja á þig ef þú vilt ganga til minna goða. Ég
vil gefa þér mikið fé og vera við þig sem sjálfan mig."
Margrét svarar: "Ég skal setja minn líkama til písla, svo að ég fái hvíld með
helgum meyjum."

Þá leit Margrét upp til himna, og mælti svo:

"Minn hugur er til þín, allsvaldandi Guð! Og aldrei fyrirlít ég þig. Veittu mér
miskunn, að þessi greifi yfirvinni mig ekki, og ljáðu mér miskunn þína móti þeim
illa óvin. Láttu óvini mína ekki granda mér, því að þú ert Guð, blessaður um aldir
alda."

Hún bað sér eigi líknar, þó að þeir berðu hana. Greifinn kallaði til hennar og
sagði: "Væg þú! Væg þú þínum fagra líkama, og sjálfri þér, trú þú á goð mín, og
muntu verða hverri mær sælli." Allir þeir sem hana sáu, aumkuðu hana vegna
þeirrar miklu blóðrásar, og sumir sögðu: "Víst aumkvum vér þig, því vér sjáum
þína kvöl og þitt hold slitið vera."
Greifinn mælti: "Mikilli sæmd týnir þú fyrir þína ótrú."
En aðrir sögðu: "Greifinn er ákaflega reiður og vill týna þér og allri þinni
minningu. Hverf þú heldur til goða vorra og meið ei þinn líkama."
Margrét mælti: "Illir ráðgjafar eruð þér og hinir verstu menn. Farið þér til goða
yðar, sem þér gjörið með höndum yðar. Guð er minn hjálpari. Ó illir ráðgjafar!
Jeg segi yður, þá minn líkami er kominn að þrotum hvílist minn andi með
heilögum meyjum, en þér eruð allir óhreinir. Hvað eigið þér að kvelja mig? Mín
sála hvílist með heilögum. Það skuluð þér vita að ég vil eigi trúa á heiðin goð,
þau eru máttlaus og rækja engan mann. En þú bölvaði hundur" - sagði hún til
greifans - "gjörir vilja föður þíns sem er sjálfs Djöfulsins, en ég vildi dag og nótt
míns Föðurs vilja gjöra, að ég megi vera með heilögum meyjum. En þó þið hafið
vald á líkama mínum þá mun Kristur taka sál mína úr píslum þínum. Óskýr
maður ert þú Ólafur greifi, frá Guði dæmdur. Með hans krafti verður þú bundinn
með eilífum píslum, fyrir þinn grimmleik. En lofaður sé Guð minn um aldir að
eilífu, Amen."

Þá varð sá illi greifi ákaflega reiður, og mælti að hana skyldi hengja í loft upp og
slíta hennar hold frá beinum. Svo var gjört.

Heilög Margrét leit þá til himna og mælti:

"Umhverfis mig eru margir hundar og settu sín ráð móti mér, en þú Drottinn! Sjá
til mín. Tak sál mína úr hunda höndum. Drag þú mig úr munni þess óargadýrs og
leys mig undan höndum illvirkja. Styrk mig Kristur og gef mér lífsvon, og lát mína
sálu koma upp til himna. Send þú eina dúfu af himni þá er styrki mig, svo að ég
megi sigra þennan heim svo þitt nafn megi dýrkast um aldir alda."

Þá tóku þeir hana höndum og leiddu hana burt. Sá illi greifi mátti ei sjá hana fyrir
blóði er af hennar líkama rann. Þá mælti greifinn: "Hvað er að þér Margrét! Vík
þú til goða minna, svo þú deyjir ei illum dauða. En ef þú vilt eigi mín ráð hafa, þá
skal mitt ráð þér að bana verða og mitt sverð."
Þá mælti hin heilaga Margrét: "Heyr þú mig banvæni greifi! Ef ég þyrmi líkama
mínum þá fyrirgerst sál mín. Því gef ég líkama minn til písla, að ég vil að sál mín
lifi í fögnuði á himnum."
Þá reiddist Ólafur greifi afar mikið, og bauð að leiða hana enn í myrkvastofu. Þeir
gjörðu svo, og luktu hana í myrkvastofunni. Þá var miður dagur. Hún signdi sig
með heilögu krossmarki og tók að biðja fyrir sér með eftirfylgjandi orðum:

"Heyr þú allsvaldandi Guð! Þú sem stýrir spektardómi. Þú ert faðir föðurlausra.


Þú er sannur dómar ljóss og lífs. Líttu til mín, því ég er einkabarn föður míns og
þó fyrirleit hann mig. Drottinn! Miskunna mér, og bjóð að ég sigri óvin minn, þann
er stríðir á móti mér. Að ég dæma megi hann og tala við hann. Dæm þú á milli
okkar, því ég kveina nú á þig í mínum sárum. Láttu ei saurgast sál mína né vit
mitt. Sé mín von heldur til þín."

Þá kom engill Guðs til Margrétar og fóstra hennar, til myrkvastofunnar, og færðu
henni brauð og vatn. Engill Guðs tók fóstru hennar og flutti hana 40 mílur til
myrkvastofunnar og burt þaðan aftur. Allir þeir sem nálægir voru, og á Guð trúðu,
sáu og lyktuðu með bæn.

Þá kom þar fram úr einni á einn grimmur flugdreki, allur með ýmsum litum sem
göltur væri. Á honum var fax og skegg svart, það náði á miðjar fætur. Tennur
hans voru úr járni, og gaus hann brennisteini úr sínu gini. Túnga hans var svo
löng að hún vafðist um háls honum. Hann hafði nöðru eina í gini sér, úlfshöfuð
sýndist á honum og sverð í klónum. Þá færðist ódaunn mikill í myrkvastofuna.

Reis sá illi Dreki upp um miðja nótt og gaus eldi úr nösum sér, svo leiftraði um
húsið. En er hin heilaga Margrét sá það varð hún hrygg og hrædd, svo hún féll til
jarðar og merkti sig með krossmarki og mælti:
"Guð almáttugur! sem á himnum ert og bast Belsibup. Hjálpa þú mér við þessum
dreka og miskunna mér Drottinn minn." Hún varð svo bleik sem fölnað gras. Enn
féll hún í annað sinn á kné, rétti upp hendur sínar og sagði: "Sjáðu til mín
Drottinn minn! og miskunna mér, því ég er næsta hrædd við þessa ókind, að það
muni fyrirkoma mér. Þér gjöri ég þakkir Drottinn! Eigi veit ég hví þessi óvin berst
við mig. Ekkert hef ég honum mein gjört."

En þegar hin heilaga Margrét hafði þetta sagt, þá gapti


drekinn kjaftinum og setti einn stóran kjaft á höfuð henni en
tunguna undir hennar iljar, dró veðrið til sín og svelgdi
hana svo í sinn kvið. En það krossmark er hún hafði merkt
sig með óx svo í kviði honum að hann mátti eigi þola, og
sprakk í tvo hluti. Margrét þoldi enga písl í það sinn, heldur
kom hún úr þeim dreka ósködduð. Þá sá hin heilaga
Margrét til vinstri handar einn svartan djöful og voru hendur
hans langar við kné honum, og hafði sá manns líkneskju.
Þá hún sá þetta bað hún sér miskunnar til Guðs, og sagði:

"Lofa ég og dýrka ég þig, allsvaldandi Guð! Gleðst ég og fagna Jesús Kristur,


konungur ódauðlegra, stólpi trúar, upphaf spektar, skapari engla, styrkur og
grundvöllur. Láttu trú mína blómgast, því ég sé fjandann bundinn. Ég sé helvíti
eyðast. Sjá! Nú bið ég Dúfu mína að koma til mín. Nú gladdist ég og fagnaði að
drekinn varð yfirstiginn. Þar fyrir gjöri ég þér þakkir, ódauðlegur keisari andar
minnar, styrkur og móður, styrkleiki trúar, kóróna, vopn, gylltur vöndur, gimsteinn
stór, eilíf sæla, dýrðlegur huggari allra. Guð um allar aldir alda. Amen!"

Þegar hún hafði þetta mælt, þá reis fjandinn upp og gekk til
hinnar heilögu Margrétar, tók í hönd hennar, og mælti:
"Staðfasta sé ég þig í bænum þínum, og mikil undur hefir þú fjört
á bróður mínum, er Rúríus hét, sá er svelgdi þig í dreka líki. Ég
sendi hann til þín að hann skyldi týna þér og þínum meydómi
fyrirfara, en þú drapst hann með merki hins heilaga kross. Ég
veit að þú vilt líka fyrirkoma mér með bænum þínum. Ég bið þig
að þú drepir mig ekki."
Þá brosti hin heilaga Margrét að Djöflinum, gekk að honum, tók hann og batt, og
kastaði í gólfið með hæðni og setti sinn hægri fót á háls honum og mælti: "Svara
mér, því ég er ambátt Krists, og Guð er með mér." Þegar hin heilaga Margrét
hafði þetta sagt, skein þar himna ljós í myrkvastofunni. Þá kom heilög Dúfa af
himni ofan og mælti: "Sæl ertu Margrét, mey Guðs. Englar Guðs bíða þín og sál
þín skal komast í himnaríki." Þá lofaði hin heilaga Margrét Guð, og mælti til
Fjandans: "Heyr þú Djöfull! Hvaðan ert þú kynjaður, segðu mér!"
Fjandinn svaraði: "Ég bið þig ambátt Guðs að þú lyftir fætinum af hálsi mínum,
að ég hafi ró litla stund við þig að tala, og mun ég þá segja þér allan minn sið og
lifnað."
Hún gjörði svo, en hann tók að mæla: "Mitt nafn er Belsibup, og er ég höfðingi
næst Lúsifer, og stend nótt og dag móti kristninni og svík þá menn er minn vilja
gjöra, og enginn maður mátti mér fyrirkoma utan þú. Mjög hefur þú mín augu
úttroðið úr mínum haus og minn háls brotið, og drepið minn bróður. Ég berst við
kristna, svo þeir haldi að þeir eigi vant á sér og signi sig ekki, en synduga menn
læt ég una vel í syndum sínum. Nú hefir þú Margrét unnið sigur á oss. Eigi hefði
mér mátt til koma, þótt karlmaður hefði yfirstígið mig sem þú gjörðir. Ég sveik
Adam og Evu, ég yfirsté föður þinn og móður, en þú hefir mig unnið og minn
bróður drepið. Sumir Djöflar flýðu frá þér, en ég leitaði við að yfirstíga þig, en nú
er ekki megn mitt né máttur á móti þér, fyrir því að ég sé að Guð er með þér.
Skipa þú við mig svo sem þín er miskunn til, en fyrr en Kristur var með þér þá
varstu mold og aska og líkami þinn var fölnaður. Síðan þú fékkst himneska speki
ertu öll önnur. Fótur þinn er gulli fegri, sigurteikn er í hendi þér, hús það þú ert í
er fullt af góðum ilm. Fingur þínir voru meðal þess heilaga krossmarks, með
hverju þú sigraðir mig. Réttvísra manna syndum safna ég, og blinda hugskot
þeirra. Ég læt þá gleyma heilagri speki og þá þeir fara að sofa vek ég þá upp og
áfýsi þá til illra verka, bæði að brjóta upp hús og stela fjárhlutum manna og þá ég
get ekki komið þeim vakandi til þess, þá læt ég þá syndgast í svefninum. Með
ýmsu móti freista ég þeirra á allan hátt sem verða kann, og ég vil sem frekast
banna þeim himneska speki. Mýki ég þá mér til handa frá Guði. En alla þá sem
ég finn þess líka, þá verð ég feginn við þeim að taka og í burt að kasta. Ó! Sæl
ert þú Margrét. Eigi veit ég hvað ég skal aðhafast, undarlegt er þetta að ein
breisk mey skal sigra mig, föður sinn, móður og allt sitt kyn, og fylgja heilögum
Guðs englum. Víst má vor kraftur nú alls ekkert. Þú hefir bundið fjandann, og
skal ég verða svívirtur af einni mey."

Þá svaraði hin heilaga Margrét: "Segðu mér kyn þitt, eður hver gat þig?"
Þá svaraði Fjandinn: "Satan heitir konungur Djöflanna, sá er burtrekinn var úr
Paradís. Ég veit mig ekki verðugan við þig að mæla því að þú ert svo heilög og
ég sé Jesúm Krist hjá þér, hvern ég hræðist. Leita þú í Ritningunum og muntu
finna að hann er skikkelsi vort. Vér erum ekki af jörðu, heldur af vindum, og erum
í loftinu. Nú særi ég þig hin heilaga mey, Margrét! Fyrir þann Guð er þú trúir á;
dreptu mig ekki. Láttu mig heldur í nokkuð jarðar skaut á meðan þú lifir, svo sem
Salómon gjörði um sína daga. Hann lukti oss í einu keri, en eftir hans atgang
kveiktum vér eld í kerinu, og þá komu heimskir menn af Babýlon, sem brutu það
og meintu það væri fullt af fulli. Síðan flugum vér í burtu og þá var veröldin full af
vondum öndum."
Margrét mælti: "Hættu bölvaður fjandi, og þegi þú. Lát mig ei heyra orð af þér
framar."
Svo varpaði hún honum í eitt horn myrkvastofunnar og mælti: "Far þú nú
bölvaður Fjandi til helvítis, svo þú verðir engum manni að meini."

Hann sökk þá í jörðina ílandi og öskrandi.


Annan dag þar eftir bauð Ólafur Greifi að leiða hana fyrir sitt sæti. Þeir gjörðu
svo. Þá mælti greifinn: "Fylg þú mínum ráðum, og bið til goða minna, og skal þér
að gagni verða."
Þá mælti Margrét: "Það væri þér þörf, að þú beiddir til Guðs og hans sonar Jesú
Krists og værir vinur spámannanna ef þú værir þess verðugur, því að goð þín og
gjafir eru einskis verðar. Þau hafa munna og mæla ekki, eyru og heyra ekki, og
engan mátt neitt að verka."
Þá reiddist Ólafur greifi og skipaði að færa hana úr klæðum og gjöra mikinn eld
undir henni, "því að ég sé hún er djörf sem skógardýr". Og enn mælti hann til
hennar: "Sé ég að þú ert járni harðari og virðir einskis líkamlegar píslir. En vér
skulum vinna þér hæfilegar píslir, og dauða og maklega fæðu líkama þínum, sem
ei skal draga fyrir þér lengur. Ég sver við heilsu goða minna, nema þú lofir mér
að hneygja háls þinn fyrir ódauðlegum goðum mínum, að ég skal hrista úr þér
jarðlega önd. Skal ég þá vita hvort þú hefir svo mikla ást á Kristi þínum og hvort
þér þykir mikils vert að brenna líkama þinn, fyrir hans sakir. Hygg heldur að þörf
þinni og hjálpa líkama þínum, fyrr en þú kemur kvik til bana."
Þessi orð heyrði Margrét og mælti: "Þú hinn vondi, þínar píslir hræðist ég ekki,
en ógnir þínar miklu minna en alls ekki. Því ég hygg á eilífa umbun, er ég skal
taka á móti andlegum pínum. Ei eru líkar píslir þínar við dýrð þá er vér vitum að á
móti kemur. Eða því heitir þú píslum en lætur þó ei fram koma allt það er þig
girnir? En vittu það fyrir víst, að hvorki eldur né dauðans háski mun skaða mig
fyrir frelsi míns herra Jesú, en allt það er þú hefir ætlað að veita mér af píslum
þínum, þá dvel ei við það, því goðum þínum neita ég sterkast af öllu hjarta, en ég
bið Drottinn minn Jesúm að hjálpa mér. Hans nafn vegsama ég."
Þeir tóku hana þá og færðu úr klæðum, og hengdu hana yfir eldinn nakta. En
Ólafur hæddist að henni og mælti: "Sjá þú nú Margrét! Og gleðstu nú með Kristi
þínum. Þetta veitir hann þér og þeim er á hann trúa. Taki hann þig frá eldi
þessum ef hann má svo miklu orka sem þú segir, en ég má því orka að gjöra þig
sæla á jörðunni, að fjárhlutum og allskyns gersemum."
Þá svarar hin heilaga Margrét: "Ólafur! Þú fagnar af písl minni stundlegri en þú
hyggur eigi að þínum eilífum píslum, því það er dýrð vor kristinna manna. Eftir
þetta komum vér til Guðs fagnaðar og sá fögnuður gengur mér aldrei úr hyggju.
Þessi eldur brennir líkama minn, en eldur skal brenna þig í helvíti og það eilíflega
og alla heiðingja. En sá Guð sem frelsaði þá þrjá sveina úr eldsins ofni (félaga
Daníels spámanns), hann veiti mér skaplega kælingu, að eldur þessi megi ei sigra
mig heldur megi ég léttilega lofa minn Guð í eldi þessum. Heyr þú Guð! er alla
hluti skapaðir og allar höfðskepnurnar þjóna og lúta. Heyr mig ákallandi þig. Veit
mér að eldur þessi kosti mig ekki, heldur brenni hann syndir mínar úr hjarta
mínu."

Nú mátti heyra undarlega hluti. Dýrð Drottins birtist yfir ambátt hans, en illskunnar
erindrekar stunduðu með öllu móti að fyrirkoma henni og brenna hana. En þeir
urðu svo móðir og uppgefnir að þeir máttu einskis orka, og ræddu sín á milli;
"skilji lávarður vor hversu erfitt oss mun þetta verða".
Þá mælti sá banvæni greifi að taka skyldi skjólu og kalt vatn og steypa yfir líkama
hennar, og reira hana með sterkum svipum síðan. Og enn bauð hann henni að
trúa á goð sín.

En hin heilaga Margrét mælti og kallaði á Drottinn:

"Ég þakka þér allsvaldandi Guð, að ég fæ að þola þetta fyrir þínar sakir hér á
jörðu, svo ég megi sæl vera í öðrum heimi."

Og enn mælti hún til greifans: "Ég mun ei fylgja þínum ráðum, og ei biðja til goða
þinna daufra og dumba, og ei skal fjandinn sigra heilaga mey, því að Kristur hefir
tilbúið mér eilífa vistarveru. Hann er gimsteinn sálar minnar."
Greifinn mælti að fylla skildi eitt ker af tjöru og vatni, og binda hendur og fætur og
steypa henni þar í, og deyða hana. Hans þénarar gjörðu sem þeim var boðið.

Þá hóf hin heilaga Margrét upp sín augu og mælti:

"Drottinn Guð almáttugur! Þú ert meiri en allir englar og allt má svo vera sem þú
vilt. Slít þú bönd þessi af mér, að ég megi lofa heilagleika þinn og þeir menn er
trúa á þig. En þetta vatn verður mér fagur skírnarbrunnur, því heilög Dúfa kemur
yfir mig, fyllt af miskunsemi heilags anda og helgidómi, og vígir vatn þetta með
nafni þínu, að ég sé þvegin til eilífs ljóss. Fæg þú önd mína með dýrð þinni, í
nafni föðurs og sonar og heilags anda. Þú ert lofaður Guð um aldir alda."

Þá varð landskjálfti mikill, kom þá heilög dúfa og


hafði eina gull-lega kórónu og setti yfir þá heilögu
mey. Þá losnuðu hendur hennar og fætur og sté
hún upp úr vatninu og sagði: "Drottinn ríkti og stór
í sæmd og styrkleika og styrkti mig með krafti."

"Kom þú Margrét!" sagði Drottinn, "í hvíld Drottins


þíns í himnaríki. Sæl ertu Margrét að þú hélst
meydómi þínum ósködduðum. Því skal sál þín
koma til Paradísar sælu og hvíldar, því að þín bíða
opnar dyr himnaríkis."
En þeir sem hjá voru, og sáu þessa undarlegu sýn,
þótti kynlegt. "Mikill er sá Guð og máttugur, sem
veitir henni þvílíka hluti, í hvert sinn er hún kallar til
hans."
En hún fann til hátta þeirra ræðu. Tók hún þá að tala trú fyrir þeim, og sagði:

"Heyrið þér hinir hyggnu, skiljið og kannist við að Drottinn Jesús Kristur skipaði
alla hluti. Honum þjóna allir. Rétttrúaðir menn eru svo sem þér megið hér sjá á
þessum hlutum, að hvorki eldur né vatn, sverð né járn mega mér granda. Nú
hugleiðið af ráðum mínum. Fyrirlátið að fægja skurðgoð og snúist til skapara yðar
og sáluhjálpara. Sá er oss kallar frá myrkrunum til ljóssins. En ef þér viljið til hans
hverfa, þá skuluð þér taka skírn í hans nafni og fylgja með trú réttri. Þá munuð
þér verða með önd og líkama í eilífum fögnuði án enda."

En er hún hafði þetta mælt, og margt annað Guðs vilja til nytsemdar, þá fyrirlétu
þeir skurðgoðavilluna og snérust til réttrar trúar. Fjöldinn var á þeirri stundu 5000
manna utan kvenna. En þá hinn illi greifi sá það, þá óttaðist hann að allt fólkið
mundi snúast eftir þeim sem á Guð trúðu, og taka hann og svipta sæmd og lífi.
Hann bauð vinum sínum að taka þá menn er á Guð nú trúðu, og voru þeir þá
leiddir úr borginni á heiðina er Femení heitir. Er öllum það kunnugt að þeir
skírðust þar í blóði sínu og fyrirlétu jarðneskt líf, en tóku í staðinn eilífan fögnuð af
Guði. En eftir þessa hluti skeða þóttist greifinn sjá að Margrét mundi ei láta sína
staðfestu, og bað að láta leiða hana úr borginni og höggva af henni höfuðið. Þeir
tóku hana höndum og leiddu hana til þess staðar þar sem þeir voru vanir að
deyða kristna menn, og seldu hana í hönd kvalara einum er Malcus hét. Hann
mælti við Margréti, að hún skyldi ljá hálsinn móti sverði hans. Bað að hún
minntist sálar sinnar í sínum bænum.

Þá mælti hin heilaga Margrét: "Ef þú sérð Kristum hjá mér, þá bíð þú, svo að ég
megi biðja til Drottins míns, miskunnar, og fela sálu mína honum í hendur", en
hann gaf henni frest að biðjast fyrir meðan hún vildi. Þá bað hún Guð með miklu
andvarpi, eigi af því að henni þætti mikið fyrir að deyja, heldur fyrir það að hún
vorkenndi þeim sem eftir voru, þeirra synda vegna, karla og kvenna.

Bænin

"Heyr þú Guð! sem með valdi þínu settir jörðina og himininn, og gafst enda á
veröldinni en settir takmörk sjónum. Heyr þú bæn mína. Fyrir það ég vegsama
þig, Jesúm Kristum, fagnandi, og lofa þig og þitt heilaga nafn. Því að þinn kraftur
og veldi styrkti mig breiska skepnu þína, og lét mig djarflega komast yfir allar
þrautir. Því bið ég þig Drottinn minn, að hver maður sem les lífssögu mína og
píslarþjáning, eður heyrir, þá séu þeim þeirra syndir fyrirgefnar. Og hver sem í
böndum hefir verið eður einhverjum vandræðum eður myrkvastofu, þá sé honum
borgið. En ég bið þig Drottinn minn, að hver maður sem minnist mín í bæn sinni,
þá sé honum og verði sínar syndir fyrirgefnar. Enn bið ég þig Drottinn minn, að
hver maður sem hefir í hendi sér bók mína ritaða og fer með úti eða inní, að þar
sé hinn heilagi andi sem mitt nafn og nauðir nefndar eru. Og ei sé í því húsi sem
mín bók er inní barn fætt blint, dauft, lamað, dumbt né fíflslegt. Og hver maður
ungur eður gamall sem til skrifta gengur og kallar á almættis orð og minnist písla
minna, honum séu sínar syndir fyrirgefnar. Og enn bið ég þig Drottinn minn, að
sá maður er til kirkju gengur, sá er ritar píslarsögu mína, eður kaupir með fé sínu,
fyll þú hann Drottinn með heilögum anda þínum, því að hold og blóð erum vér og
syndgum oft, en bætum sjaldan. Lát þú ei fjandann freista vor of mjög. Fyrirgef
þú þeim syndir sínar, er til þín kalla í nauðum sínum."

Þá urðu heyrðar reiðarþrumur miklar og kom hinn heilagi andi í dúfulíking, en allir
þeir er hjá stóðu féllu til jarðar með Guðs krafti. En heilög dúfan snart hana og
mælti: "Sæl ertu Margrét á meðal kvenna, því þú leitaðir heilagrar smurningar
svo margra heita sem þú minnist í bænum þínum. Sver ég við sjálfan mig og
dýrð engla minna, að allir hlutir er þú beiddir eru þér veittir, og ei skal óhreinn
andi koma fram þar sem bók þín er fyrir. Sæl ertu Margrét! og sælt er það fólk
sem fyrir þig trúir á Guð. Kom þú í þann fögnuð sem þér er fyrirbúinn, en ég er
með þér og skal uppljúka fyrir þér himnaríkis dyrum."

Þá leit hin heilaga Margrét kringum sig og sagði: "Faðir og móðir, systur og
bræður, alla yðar særi ég við Guðs nafn, hins eilífa konungs, að þér gjörið mína
minning og nefnið mitt nafn, og felið yður á hendur Guði. En þá ég sé synduga,
þá bið ég fyrir yður til Guðs, að hann veiti yður syndalausn, og láti yður verðuga
vera að búa í ríki sínu." Og enn bað hún til Guðs og mælti:

"Ég þakka þér Jesús Kristur, að þú lést mig verðuga vera að eignast hlut með
heilögum meyjum, og enn bið ég þig að mín sál sé varðveitt með heilögum
englum, í samfélagi þinna útvaldra, og öðlist að sjá þína fagnaðar ásjónu, hverja
ég fýsist á að líta. Lof segi ég þér Drottinn minn, lofaður og dýrkaður og
vegsamaður sértu um eilífar aldir alda. Amen."

Síðan reis hin heilaga Margrét upp og mælti: "Malcus bróðir! Tak nú sverð þitt og
högg höfuð af mér fyrir Guðs sakir því að nú hef ég sigrað þennan heim."
En hann svaraði: "Sæl ert þú Margrét. Ei er það mitt verk að deyða þig, heilaga
mey Guðs."
Hin heilaga Margrét svarar: "Ef þú gjörir ei þetta, þá hefir þú enga hlutdeild með
mér í Paradís."
Þá tók Malcus sverð sitt og hjó af henni höfuðið í einu höggi, og bað sér svo
líknar af Guði sem eftir fylgir: "Drottinn minn, láttu mér ei þetta að synd verða" og
féll á hægri hönd fyrir hræðslu sakir og bað sér miskunnar. Þar kom til hans
líkama heilagur engill í dúfu líki, og fleiri Guðs englar af himnum ofan, og settust
yfir líkama hennar og blessuðu hana. Þar komu og fjandans árar sem kvöldust
mjög og kölluðu ógurlegri röddu, mælandi: "Guð er mikill og sterkur." Þar komu
sjúkir menn, daufir og haltir, og urðu heilir. Þar kom og hin heilaga mey,
Guðsmóðirin María, og aðrar heilagar Guðsmeyjar, móti sálu hennar. Þá varð þar
heyrð rödd af himni, sem sagði: "Takið þér líkama hennar, og flytjið sál hennar í
Paradís, Mikael." Þá tóku englar hana og fylgdu henni í loft upp, yfir skýin, og
mæltu þessum orðum: "Enginn má þér jafnfætis standa Drottinn í góðum hlutum,
og enginn eftir verkum sínum." Og enn sungu þeir þennan lofsöng: "Sanctus,
sanctus, sanctus, Deus, Deus, Zebaot, pleni sunt cæle et Terra gloría tua
Hósíanna inexelse = Heilagur, heilagur, heilagur ert þú Guð Drottinn Zebaoth.
Fullir eru himnar af dýrð þinni, hósanna gjör þú oss í hæðum."

Þá varð Ólafur greifi ókyrr af felmstri, drap konu sína, þrjár dætur og sonu sína
þrjá, en hann sjálfur flúði á skóg og var með villidýrum.

Og endast svo saga hinnar heilögu Margrétar.

You might also like