You are on page 1of 11

Héraðsdómur Reykjavíkur

Dómur 23. desember 2021

Mál nr. S-3120/2021:

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu
(Katrín Ólöf Einarsdóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
Þóri Bergssyni
(Oddgeir Einarsson lögmaður)

Dómur
Mál þetta, sem dómtekið var 15. desember 2021, er höfðað með ákæru,
útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 10. júní 2021, á hendur Þóri
Bergssyni, kt. 230196-2499, Hjallavegi 56, Reykjavík, „fyrir mismunun á grundvelli
kynvitundar með því að hafa, við skemmtistaðinn Hverfisbarinn við Hverfisgötu 20
í Reykjavík, sem var þá í atvinnurekstri, að kvöldi 10. nóvember 2018, þar sem ákærði
var við störf sem dyravörður, neitað Sæborgu Ninju Urðardóttur, kt. 190586-2519,
um þjónustu og aðgang að Hverfisbarnum til jafns við aðra á grundvelli kynvitundar
hennar en brotaþoli er transkona og hét þá Pétur Guðmundsson og var skráð karlkyns
samkvæmt Þjóðskrá Íslands. Umrætt kvöld var brotaþoli klædd í pels, kjól eða pils og
bol, í sokkabuxum og hælaskóm.
(Mál nr. 007-2018-80404)

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 180. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls
sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:
Þá gerir Auður Tinna Aðalbjarnardóttir lögmaður, f.h. Sæborgar Ninju
Urðardóttur, kt. 190586-2519, kröfu um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga
nr. 50/1993 úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 500.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8.
gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. nóvember 2018 til þess dags er
mánuður er liðinn frá því að ákæra er birt ákærða en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr.
6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu en til vara krefst hann vægustu refsingar
er lög leyfa og hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.

I.
Þann 22. nóvember 2018 mætti brotaþoli Sæborg Ninja á lögreglustöðina við
Hverfisgötu og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir mismunun á grundvelli
kynvitundar sem átti sér stað 10. nóvember 2018 á skemmtistaðnum Hverfisbarnum
við Hverfisgötu 20 í Reykjavík. Brotaþoli lýsti aðdragandanum þannig að hún hefði
verið stödd á skemmtistaðnum þar sem haldið var upp á afmæli systur hennar.
Brotaþoli kvaðst hafa verið prúðbúin og verið hleypt inn á staðinn án þess að gerðar
væru athugasemdir. Síðar hefði ákærði gert athugasemdir við klæðnað þeirra sem
hann kvað ekki uppfylla staðla staðarins. Hann hefði þó fallist á að leyfa þeim að vera
til miðnættis.Um kl. 23:00 hefði hún farið á reykingasvæðið en í kjölfarið hefði
ákærði viljað meina henni inngöngu að nýju með vísan til klæðaburðar hennar.
Brotaþoli kvaðst hafa heyrt að ákærði hefði sagt að „svona karl í kerlingapels“ hefði
ekkert þarna að gera.
Ákærði var yfirheyrður tvisvar sinnum, 29. janúar og aftur 19. ágúst sama ár.
Kvaðst hann hafa vísað hópnum út í heild sinni en ekki einungis brotaþola. Hópurinn
hefði ekki uppfyllt kröfur staðarins um klæðnað, en hann hefði látið hjá líða að gera
athugasemdir á þessum tímapunkti enda skammt liðið á kvöldið. Hann hefði gert
hópnum ljóst að hann þyrfti að yfirgefa staðinn kl. 23:00 og ástæðu þess.
Þann 20. maí 2019 tilkynnti Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu að
rannsókn málsins væri hætt, með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála
nr. 88/2008. Sú ákvörðun var kærð til ríkissaksóknara þann 20. júní 2019 og hann
felldi þá ákvörðunina úr gildi 12. september sama ár og lagði fyrir lögreglustjóra að
framkvæma frekari rannsókn. Í kjölfarið voru teknar skýrslur af vitnum sem voru á
vettvangi, og rekstrarstjóra Hverfisbarsins á þeim tíma. Þann 19. janúar 2021 var
málið fellt niður að nýju með vísan til 145. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008,
en brotaþoli kærði þá ákvörðun til ríkissaksóknara 17. febrúar 2021. Þann 17. maí
2021 felldi ríkissaksóknari ákvörðunina úr gildi og lagði fyrir lögreglustjóra að gefa
út ákæru á hendur ákærða.
Meðal gagna eru samskipti milli systur brotaþola og Hverfisbarsins, þar sem
rædd eru áform hópsins um að koma á barinn.

2
II.
Skýrslur fyrir dómi
Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða, brotaþola og annarra vitna við
aðalmeðferð málsins, að því marki sem nauðsynlegt þykir til úrlausnar þess.
Ákærði kvaðst hafa starfað sem dyravörður umrætt sinn. Hann hefði mætt kl.
19:00 og verið fyrstur dyravarða. Hópurinn hefði mætt og hefði honum ekki fundist
hann uppfylla staðla um klæðaburð en látið það eiga sig enda klukkan ekki orðin
margt og þau einu gestirnir. Um kl. 21:00 hefði hann útskýrt fyrir tiltekinni konu að
hópurinn yrði að yfirgefa staðinn kl. 23:00 og bað hana að skila því. Hópurinn hafi
ekki verið ánægður með ákvörðunina en hann hafi bara gefið þeim framangreinda
útskýringu. Hann hafi síðan verið spurður út í ákvörðunina og á hverju hún væri byggð
og hafi hann reynt að segja sem minnst. Þetta hafi verið hans ákvörðun en hann hefði
þó borið þetta undir yfirdyravörð þegar hann mætti til vinnu og hefði hann verið sama
sinnis enda tekið eftir hópnum. Hann hafi einfaldlega sagt að hann treysti ákærða fyrir
þessu. Ákærði kvaðst hafa vísað hópnum út tveimur tímum síðar. Ákærði kvaðst þá
hafa átt samskipti við aðra konu og aðeins hana. Sú hafi verið að „reyna að búa til
vesen“ og verulega ósátt. Nánar spurður kvaðst hann eiga við að hún hefði spurt hann
ítrekað og reynt að búa til aðstæður þar sem hann myndi reka í vörðurnar. Kvaðst
hann hafa svarað líkt og áður. Hann hefði nefnt að klæðnaður þeirra væri „MH look“
sem samræmdist ekki viðmiðum staðarins um klæðaburð. Ætti hann við klæðaburð
sem einkenndist af lopapeysum og ósamstæðum klæðnaði. Kvaðst ákærði hafa sagt
við konuna að hún væri sennilega sú eina sem uppfyllti viðmið um klæðaburð en hún
hefði verið í blazer og spariskóm.
Ákærði kvað konuna sem ræddi við hann hafa ásakað hann um „transfóbíu“ og
taldi líklegt að hún hefði rangtúlkað orð hans þegar hann talaði um viðmið í
klæðaburði. Hún hafi sagt við hann „ég sé hvað þetta er, þetta er transfóbía“. Hún hafi
þannig ákveðið að svo væri. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa látið þau orð falla um
brotaþola að „svona karl í kerlingapelsi“ hefði ekkert þarna að gera. Þá kvaðst ákærði
ekki hafa sagt orð við brotaþola og hún ekki við hann. Hann hefði bara séð að hún
stóð utandyra með hópnum þegar samtalið átti sér stað ásamt fleirum. Minnti hann að
brotaþoli hefði verið í pels og mögulega pilsi. Aðspurður kvað hann sig minna að
klæðaburður hennar hefði verið ósamstæður en hann hefði verið að vísa hópnum út í
heild sinni. Ákærði kvaðst ekki hafa borið kennsl á kyn brotaþola strax. Hann hafi
trúlega grunað það þó.
Ákærði kvað mögulegt að einhver úr hópnum hefði farið inn á staðinn aftur til
að sækja eitthvað, það hefði ekki legið það mikið á að þau færu. Hann kvaðst muna
eftir því að konan sem hann ræddi við úti hefði tekið pels og „strunsað“ inn án þess

3
að segja nokkuð við hann og án hans samþykkis, og síðan komið aftur út. Eftir það
hafi hún gengið í burtu frá staðnum með glas og hann hafi tekið það af henni.
Aðspurður um klæðaburð sem samræmdist staðli staðarins kvað ákærði það
vera meira „blazerjakkar“ og fínni klæðnaður, ekki t.d. derhúfur. Eigandi staðarins
hafi gert strangar kröfur um klæðaburð og gert athugasemdir ef honum þætti
viðmiðum ekki fylgt eftir af dyravörðum. Hafi reglurnar þó ekki verið skýrar en hann
reynt að framfylgja þeim.
Brotaþoli kvaðst vera transkona og klæða sig í samræmi við það. Þetta kvöld
hafi systir hennar haldið upp á afmælið sitt og hafi gestirnir farið saman á
Hverfisbarinn. Minnti hana að þau hefðu mætt um kl. 20:00. Hefði hún farið með
systur sinni út að reykja og ákærði, sem var dyravörður, hefði gert athugasemdir við
klæðaburð þeirra. Hann hafi fallist á að hópurinn fengi að vera þarna til miðnættis.
Þetta kvaðst brotaþoli hafa heyrt frá annarri manneskju. Líklega hefði hann talað við
systur hennar um þetta. Um kl. 22:00 hafi verið farið að ýta á þau að fara á tilsettum
tíma. Um kl. 23:00 hefði vitnið farið út að reykja ásamt vitnunum Ídu og Regni en
þegar hún hefði ætlað inn hefði henni verið meinuð innganga. Hefði ákærði viljað að
þau færu tafarlaust enda ekki rétt klædd. Þegar ýtt var á hann hefði hann sagt eitthvað
á það leið að hann væri ekki að fara að hleypa einhverjum karli í kerlingarpels inn á
staðinn. Nánar spurð kvað brotaþoli ákærða hafa sagt framangreint yfir hópinn. Nánar
spurð kvaðst brotaþoli ekki hafa heyrt hann segja þetta sjálf heldur hefði einhver
staðfest við hana að þessi orð hefðu verið sögð, þ.e. haft það eftir ákærða. Taldi hún
líklegt að vitnið Ída hefði sagt henni þetta.
Í kjölfarið hefði verið rifist aðeins og greinilegt hefði verið að hópurinn var ekki
velkominn. Hefði brotaþola þótt þetta vera transfóbískt. Ákærði hafi einnig gripið
glas af einu þeirra og sagt þeim að koma sér í burtu. Þá hafi hann talað um að þau
væru „MH-leg“ og nefnt dæmi um slíkt. Engan hafi langað til að vera áfram eftir
þetta en mögulega hafi einhver farið inn til þess að sækja hluti. Kvað brotaþoli vitnið
Ídu hafa farið inn í pelsinum hennar en hún hefði viljað sýna ákærða fram á hversu
mikið bull þetta væri hjá honum og mismunun. Hefði hún farið inn athugasemdalaust.
Þá hefði verið par sem gekk þarna inn og einhver hefði spurt hvernig brotaþoli ætti að
klæða sig og hefði ákærði þá bent á manninn.
Aðspurð kvaðst brotaþoli hafa verið komin út sem kona á þessum tíma og hafa
lagt sig fram við að klæða sig kvenlega til að koma í veg fyrir leiðindi. Hafi hún verið
í kjól, mögulega fjólublárri úlpu, og pels. Hugsanlega einhverju mynstruðu og á háum
hælum. Kvaðst brotaþoli aðspurð hafa skorið sig úr hópnum enda um tveir metrar á
hæð í skónum. Kvaðst hún hafa verið létt förðuð og vel til höfð. Gæti verið að sumir
í hópnum hefðu verið fínni en aðrir. Brotaþoli kvaðst hafa dregið sig til baka þegar
framangreint gekk á. Hafi fólkið þarna svolítið verið að „tönglast á þessu“ og

4
brotaþola þótt það óþægilegt. Einhverjir hafi tekið upp hanskann fyrir hana og einhver
hafi rætt við ákærða. Hafi verið kominn „hiti“ í ákærða og hann verið reiður undir
lokin.
Brotaþoli kvað atvikið hafa haft áhrif á sig. Henni hafi liðið illa enda hafi þetta
gerst á afmæli systur hennar auk þess sem hennar mesti ótti hafi raungerst. Hafi hún
lítið farið út úr húsi og ekki viljað láta sjá sig.
Lára Biering Sveinsdóttir kvaðst hafa verið stödd á Hverfisbarnum. Hún hafi
hitt Regn sem var vinnufélagi hennar og hafi þau verið á útisvæðinu. Hafi hún sagt
háni hvað hefði verið í gangi, þ.e. að brotaþola hefði verið meinaður aðgangur að
skemmtistaðnum því hún væri trans, eða eitthvað í þá áttina. Jafnframt að hún hefði
komist inn ef hún hefði verið í jakkafötum. Hafi þeim verið vísað út fyrir kl. 24:00 en
það hefði verið sagt að þau mættu vera inni þangað til. Vitnið kvað brotaþola hafa
verið úti að tala við ákærða. Þá kvaðst vitnið muna að brotaþoli hefði verið leið yfir
þessu.
Regn Sólmundur Evudóttir kvað vitnið Rakel hafa boðið sér í afmæli og hafi
hán mætt á Hverfisbarinn en ekki þekkt marga. Um kl. 23:00 hafi hán farið út í reyk
og þá hafi eitthvert ósætti verið í gangi. Einhver hefði sagt að þau þyrftu að fara því
dyravörður hefði gefið þau fyrirmæli. Ástæða þess væri sú að þau uppfylltu ekki
skilyrði um klæðaburð. Hefðu þau verið ómeðvituð um það áður. Kvað vitnið nánar
spurt að vitnið Rakel hefði sagt að þau ættu pláss til kl. 23:00 en væru ekki velkomin
eftir það vegna klæðaburðar. Aðalástæðan hefði verið sú að brotaþoli væri ekki
„nægilega vel klædd“. Einhver hefði haft eftir dyraverði að brotaþoli væri karl í
kerlingapels og svo beint að þeim öllum að þau væru MH-týpur. Taldi vitnið að vitnið
Ída hefði sagt þetta eða brotaþoli. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna eftir beinum
samskiptum á milli brotaþola og ákærða. Þegar borinn var undir vitnið framburður
háns hjá lögreglu um að hán hefði heyrt dyravörðinn segja við brotaþola að hún væri
ósnyrtilega klædd, kvaðst vitnið kannast við það en ekki vera visst um það í dag hvort
hán hefði heyrt það sjálft eða annars staðar frá.
Vitnið kvaðst muna eftir því að Ída og brotaþoli hefðu verið að tala saman og
sú fyrrnefnda verið í mun meira uppnámi yfir þessu en brotþoli, sem hefði sennilega
ekki meðtekið þetta. Hefði Ída orðið æst þegar hún ásakaði dyravörðinn um transfóbíu
og orðið sífellt reiðari. Ákærði hafi þá orðið agressívur við hana og merkti hán það á
líkamstjáningu hans. Ekki hefði þýtt að rökræða við hann og hann bara maldað í
móinn. Hann hefði ekki getað útskýrt hver viðmið um klæðaburð væru og bent á karl
í jakkafötum sem dæmi. Þegar borið var undir vitnið framburður þess hjá lögreglu um
að ákærði hefði bent á konu í blazerjakka, skyrtu og buxum, kvaðst vitnið ekki muna
þetta í dag en mögulega hefði það verið svo. Vitnið kvað þau öll hafa farið þegar þau
voru ekki velkomin lengur á staðnum. Hán hefði farið inn og sótt trefilinn sinn og svo

5
farið. Hefði hán huggað brotaþola aðeins þegar þau voru komin annað. Hefði brotaþoli
sagt að dyravörðurinn hefði verðið aggresívur og með transfóbíu.
Rakel Glytta Brandt kvaðst hafa verið að halda upp á afmælið sitt. Hán hefði
boðað komu sína áður og komið ásamt nokkrum gestum sínum. Á einhverjum
tímapunkti, eftir að hafa verið á staðnum í nokkrar klukkustundir, hefði dyravörður
dregið hán og afsíðis og sagt að þau ættu að færa veisluna annað. Hán hefði orðið
svolítið gáttað en ekki fengið skýr svör. Hefði dyravörðurinn talað um „týpur eins og
þau“. Nánar spurt kvaðst vitnið muna að hann hefði ýjað eitthvað að klæðaburðinum
en mundi ekki hvað hann hefði sagt. Hefði verið ljóst að honum þættu þau ekki passa
þarna inn. Hópurinn hafi verið fjölbreyttur, sumir trans. Kvað vitnið sér hafa fundist
allir spariklæddir og enginn skorið sig úr. Síðar hefði hán heyrt að einhver ágreiningur
var fyrir utan, sem hefði verið nokkuð óræður, en beinst að því að ákærði hefði átt að
hafa sagt að „karl í kerlingarpels“ mætti ekki fara inn. Aðrir hafi mátt fara inn í sama
pels. Nánar spurt kvaðst vitnið ekki hafa verið vitni að því þegar framangreind
ummæli voru sett fram. Vitnið kvaðst þó muna eftir þessum orðum án þess að geta
sagt til um hvort þau væru endursögn frá öðrum. Einhver í hópnum hefði sagt að
ummæli hans væru transfóbísk. Hafi ákærði svarað því til að viðkomandi mætti túlka
það að vild. Eftir rökræður við dyravörðinn, þar sem reynt hefði verið að komast að
því hvers vegna þau máttu ekki vera þarna áfram,hefðu þau ákveðið að fara út.
Ída Finnbogadóttir kvaðst hafa komið með Rakel á staðinn og hitt þá brotaþola
í fyrsta sinn. Einhvern tímann fyrir miðnætti hefði hún farið út til þess að reykja með
brotaþola og fleirum. Þegar þau hafi ætlað aftur inn hafi ákærði meinað brotaþola
inngöngu og tekið fram að það væri vegna þess að hún væri „gaur í kerlingapels“.
Kvaðst vitnið hafa reynt að ræða við hann á rólegum nótum. Allir hafi verið rólegir á
þessum tímapunkti en ekki viljað fara inn án brotaþola. Kvaðst vitnið hafa farið inn í
pels brotaþola til að sækja eitthvað. Hefði hún gert það til þess að leggja áherslu á
þessa mismunun sem henni hefði þótt augljós. Ákærði hafi ekki viljað taka rökum
heldur bara ítrekað það sem hann áður hafði sagt. Þá kvaðst vitnið hafa náð í drykkinn
sinn og tekið hann með. Ákærði hafi sagt að hún mætti ekki fara með drykkinn en sér
hefði þótt það sjálfsagt. Hafi ákærði þá hlaupið á eftir henni og slegið drykkinn úr
hendi hennar. Allt hefði verið á rólegum nótum fram að því. Almennt hafi allir í
hópnum verið snyrtilegir. Vitnið kvað sér vera ókunnugt um einhverja umræðu um að
hópurinn hefði þurft að yfirgefa staðinn. Hefði fyrrnefnd synjun um inngöngu aðeins
beinst að brotaþola en ekki hópnum. Hafi hún skynjað það svo að það hefði verið á
grundvelli kynvitundar en ákærði hefði gefið lítið fyrir að brotaþoli væri trans og hefði
vísað til hennar sem karlkyns. Þá hafi ákærði vísað til þess að brotaþoli ætti að klæðast
jakkafötum. Væri rétt eftir henni haft í lögregluskýrslu að ákærði hefði bent á einhvern
karlmann í jakkafötum til viðmiðunar.

6
Leó Freyr Halldórsson kvaðst hafa verið næsti yfirmaður ákærða á þeim tíma
sem um ræðir. Hann hafi komið til vinnu milli kl. 21 og 22 og veitt því eftirtekt að
tveir gestir hefðu verið úti að reykja en þeir hefðu ekki verið í klæðnaði sem
samræmdist reglum staðarins. Hafi heitar umræður verið í gangi en ákærði hafi verið
mættur fyrstur dyravarða. Umræddur hópur, sem hinir tveir tilheyrðu, hefði verið einu
gestir staðarins. Vitnið kvaðst hafa farið upp á efri hæðina til að búa sig til vinnu.
Ákærði hefði komið og spurt hann álits varðandi klæðaburð gestanna. Kvaðst vitnið
hafa sagt honum að taka ákvörðun um þetta en verið sammála mati hans. Hafi þeir
ekki rætt hve lengi hópurinn mætti vera á staðnum. Eftir þetta hefði vitnið farið út úr
húsi með rekstrarstjóra staðarins og umræddir gestir hefðu verið farnir þegar þeir
komu til baka. Hafi hópnum verið vísað út þar sem hann var ekki talinn uppfylla reglur
staðarins um klæðaburð. Vitnið kvað „dresscode“ hafa verið á staðnum en þau hefðu
verið sveigjanlegri fyrri hluta kvölds án þess að hafa tiltekinn viðmiðunartíma.
Næsta dag hefði orðið ljóst að þetta hefði orðið mikið mál og hefðu ummæli á
vefsíðu staðarins borið þess merki. Spurður um þær reglur sem giltu um klæðaburð á
staðnum kvað hann þær hafa verið settar af eigendum staðarins og þeir hefðu verið
mjög strangir. Viðmiðið hafi verið snyrtilegur klæðnaður, merkjavörur, yfirhafnir sem
pössuðu við klæðaburð, engin höfuðföt. Hafi dyraverðir síðan átt að meta þetta innan
þessara marka. Ákærði hafi þekkt reglurnar en hann hafi verið nýr og ekki mjög
reyndur eða vanur samskiptum sem þessum. Kvaðst vitnið þó enga ástæðu hafa til
þess að ætla að hann hefði verið stífari við hópinn en eðlilegt væri.
Cesar Arnar Sanchez, þáverandi rekstrarstjóri staðarins, kvaðst hafa verið í
vinnu umrætt kvöld. Hann og vitnið Leó hefðu farið út af staðnum og eftir að þeir
komu til baka hefði hann heyrt að eitthvað hefði komið upp varðandi hóp. Hefði Leó
sagt honum að hópurinn hefði ekki uppfyllt reglur um klæðaburð. Vitnið kvað
hlutverk dyravarða að framfylgja reglum sem eigendur settu en þær hefðu verið mjög
strangar. Gestir hafi þurft að vera „uppstrílaðir“, flottir skór, engar hettupeysur eða
lopapeysur. Spurður um tímamörk hvað þetta varðaði kvað hann reglurnar hafa verið
í gildi allan opnunartímann en hann hefði sjálfur miðað við 23:00.
Ástrós Þórjónsdóttir kvaðst hafa tekið við sem rekstrarstjóri Hverfisbarsins í
byrjun árs 2019. Hún hefði starfað með ákærða í um tvö ár og hefði á þeim tíma aldrei
komið upp vandamál í tengslum við vinnubrögð hans. Hennar fyrsta verk eftir að hún
tók við hefði verið að breyta reglum staðarins um klæðaburð gesta. Reglurnar hefðu
verið of strangar og enginn hversdagsklæðnaður leyfður, eingöngu fínni fatnaður.
Eigandi staðarins hefði ákveðið hverjar reglurnar voru og dyraverðir hefðu átt að
framfylgja þeim. Eftir kl. 23:00 hefði verið almenn opnum og þá hefðu reglurnar um
„dress code“ tekið gildi. Vitnið kvað sér kunnugt um atvikið og hefði fundað með

7
starfsfólki um það. Hafi orðið vesen umrætt kvöld og hóp vísað frá vegna þess að
hann uppfyllti ekki staðla um klæðaburð.

III.
Niðurstaða
Ákærði krefst frávísunar málsins á þeim grunni að heimfærsla til refsiákvæðis
sé röng og í ósamræmi við verknaðarlýsingu ákvæðisins.
Samkvæmt 1. mgr. 180. gr. almennra hegningarlaga skal hver sem í
atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi neitar manni um vörur eða þjónustu til jafns við
aðra á grundvelli þjóðernis hans, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða
kynvitundar sæta sektum eða fangelsi allt 6 mánuðum. Í athugasemdum við ákvæðið
í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 135/1996 um breyting á
almennum hegningarlögum kemur fram að atvinnurekstur eða þjónustustarfsemi séu
staðir þar sem veitt er sérstök þjónusta í atvinnuskyni. Í dæmaskyni er nefndur
aðgangur að veitingastað, hóteli eða samgöngutækjum. Því er ljóst að heimfærsla til
refsiákvæðis í ákæru er rétt og er kröfu um frávísun hafnað.
Ákærði krefst einnig frávísunar á þeim grunni að rannsókn málsins hafi verið
áfátt en ástæða hefði verið til þess að taka skýrslu af fleiri vitnum og að afla
sönnunargagna, svo sem upptöku úr eftirlitsmyndavélum staðarins. Atriði þessi þykja
ekki eiga að valda frávísun málsins heldur koma til skoðunar við mat á sönnun. Í þeim
efnum ber ákæruvaldið hallann af sönnunarskorti. Verður kröfu um frávísun á þessum
grunni því hafnað.
Ákærði reisir kröfu sína um sýknu á sjónarmiðum um fyrningu. Telur hann að
af þeirri ástæðu verði ákærða ekki refsað fyrir háttsemina, sbr. 6. mgr. 82. gr. almennra
hegningarlaga.
Brot samkvæmt 180. gr. almennra hegningarlaga varðar sektum eða fangelsi allt
að sex mánuðum. Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laganna fyrnist sök manns á tveimur
árum, þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en eins árs fangelsi eða refsing sú sem
til er unnið fer ekki fram úr sektum.
Meint brot ákærða var framið 10. nóvember 2018 og telst fyrningarfrestur frá
þeim degi, sbr. 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Í 4. mgr. 82. gr. laganna er
kveðið á um að fyrningarfrestur rofni þegar rannsókn sakamáls hefst fyrir rannsóknara
gegn manni sem sakborningi. Samkvæmt 2. ml. 5. mgr. sömu lagagreinar rýfur
rannsókn samkvæmt 4. mgr. ekki fyrningarfrest ef rannsóknari hættir henni, ákærandi
ákveður að höfða ekki sakamál gegn sakborningi eða ákærandi afturkallar ákæru.
Stöðvist rannsókn máls um óákveðinn tíma rýfur rannsóknin heldur ekki
fyrningarfrest. Stöðvist rannsókn máls af því að sakborningur hefur komið sér undan

8
rannsókn rýfur rannsóknin fyrningarfrest, en sá tími sem rannsóknin stóð yfir telst
ekki til fyrningartímans.
Brotaþoli lagði fram formlega kæru hjá lögreglu 22. nóvember 2018 og hófst þá
formleg rannsókn máls. Skýrsla var tekin af ákærða 29. janúar 2019. Líta ber svo á að
við það tímamark hafi fyrningarfrestur rofnað. Eins og áður er lýst var ákvörðun
lögreglu um að hætta rannsókn og síðar að fella málið niður felld úr gildi af
ríkissaksóknara. Í fyrra skiptið var lagt fyrir lögreglu að rannsaka málið frekar en í
síðara skiptið að gefa út ákæru í málinu. Tímabil þetta var frá 20. maí 2019 til 17. maí
2021 en ákæra í málinu var gefin út 10. júní 2021. Ber að meta málsmeðferðartíma
heildstætt og verður rannsókn í skilningi 82. gr. almennra hegningarlaga ekki túlkuð
svo þröngt að málsmeðferðartími hjá ríkissaksóknara á kærustigi teljist undanskilinn
þegar virkur málsmeðferðartími er metinn.
Að mati dómsins telst rannsókn ekki hafa stöðvast í skilningi 5. mgr. 82. gr.
almennra hegningarlaga. Verður því ekki fallist á það með ákærða að sök hans sé
fyrnd.

Ákærði hefur staðfastlega neitað sök í málinu Hann kveðst hvorki hafa sett út á
klæðaburð brotaþola sérstaklega né gert athugasemdir sem beint var að kynvitund
hennar. Athugasemdir hans hafi beinst að hópnum í heild sem ekki hafi á heildina litið
klætt sig í samræmi við viðmið staðarins. Af þeirri ástæðu hafi hópurinn ekki fengið
að vera áfram á staðnum og hafi hann framfylgt þeirri ákvörðun. Hefur framburður
ákærða verið stöðugur að þessu leyti. Kvaðst hann hafa viljað að hópurinn væri farinn
af staðnum fyrir tiltekinn tíma. Bar brotaþoli um að ákærði hefði verið farinn að ýta á
hópinn fyrir þann tíma. Þá bar vitnið Leó um að ákærði hefði borið undir hann
ákvörðun sína sem hefði verið byggð á klæðaburði hópsins í heild.
Fyrir liggur að brotaþola var veitt þjónusta og aðgangur að staðnum við komu
og þá án athugasemda. Sannað er að ákærði gerði síðar athugasemdir við klæðaburð
hópsins að því leyti að hann uppfyllti ekki viðmið staðarins, sem ákærða og vitnunum
Leó, Cesari og Ástrós ber saman um að hafi verið mjög ströng. Þá ber ákærða og
vitninu Rakel saman um að ákærði hafi upplýst hán um framangreint og tilkynnt háni
að hópurinn yrði því að vera farinn út af staðnum fyrir miðnætti. Bárust þessi skilaboð
til annarra úr hópnum, að því er virðist frá háni, eins og þau hafa borið um. Ekki liggur
fyrir að þessari ákvörðun hafi verið mótmælt þó fyrir liggi að hópurinn hafi verið
ósáttur.

Með lögum nr. 136/1996 um breyting á almennum hegningarlögum var réttinum


til jafns aðgangs að þjónustu og opinberum stöðum veitt sérstök réttarvernd með
ákvæði 180. gr. almennra hegningarlaga. Með ákvæðinu skyldi öllum tryggður jafn

9
aðgangur að þjónustu og opinberum stöðum án mismununar á grundvelli kynþáttar,
litarháttar eða þjóðernis.
Ákvæðið var fært í núverandi horf með lögum nr. 13/2014 um breyting á
almennum hegningarlögum. Í tengslum við vinnu nefndar um réttarstöðu transfólks
sem skipuð var af velferðarráðherra 24. mars 2011 var þess farið á leit við
innanríkisráðuneytið að refsiréttarnefnd yrði falið að gera tillögur að breytingum á
almennum hegningarlögum hvað varðaði mismunun á grundvelli kynvitundar teldi
nefndin ástæðu til þess að gera breytingar af þessu tilefni. Var í kjölfarið gerð breyting
á 1. mgr. 180. gr. í þá veru að refsivernd tók jafnframt til kynvitundar einstaklings.
Í athugasemdum með 1. gr. laga nr. 13/2014 segir að lagt hafi verið til
grundvallar í mannréttindastarfi Evrópuráðsins að aukin hætta sé á að fordómar og
almenn mismunun beinist gegn einstaklingum með kynáttunarvanda. Ákvæði 1. mgr.
sé jafnframt ætlað að stuðla að því að transfólk leiti réttar síns telji það á sér brotið hér
á landi. Þá er sérstaklega tekið fram að með mismunun á grundvelli kynvitundar sé átt
við mismunun sem beint sé gegn manni eða hópi manna sem telji sig hafa fæðst í
röngu kyni og annaðhvort óski að lifa sem einstaklingur/einstaklingar af gagnstæðu
kyni eða hafi hafið líf sem slíkir einstaklingar þá þegar. Sé höfð hliðsjón af gildissviði
laga nr. 57/2012, um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda.

Af hálfu ákæruvaldsins er á því byggt að ákærði hafa mismunað brotaþola á


grundvelli kynvitundar með því að hafa neitað brotaþola um frekari þjónustu og
aðgang að Hverfisbarnum til jafns við aðra umrætt sinn. Til marks um mismununina
sé huglæg afstaða hans gagnvart brotaþola sem hafi endurspeglast í ummælum hans
þegar hann meinaði brotaþola inngöngu á staðinn að nýju. Þá hafi hann bent á
karlmann í jakkafötum til þess að leggja áherslu á hvernig hún ætti í reynd að klæða
sig og að endingu hafi hann ekki gert athugasemdir þegar Ída fór inn í pels brotaþola.
Ákærða og brotaþola ber saman um að þau hafi ekki átt í orðaskiptum þann tíma
sem brotaþoli var á staðnum.
Vitnið Ída kvað ákærða hafa haft uppi áðurgreind ummæli um brotaþola þegar
hópurinn ætlaði inn aftur. Vitnið kvað sér hafa verið ókunnugt um fyrrgreindan
aðdraganda, þ.e. að ákærði hefði tjáð vitninu Rakel að hópurinn uppfyllti ekki viðmið
um klæðaburð og yrði að vera farinn fyrir tiltekinn tíma. Dómurinn metur framburð
beggja trúverðugan en þau hafa með skýrum og afdráttarlausum hætti lýst
kringumstæðum er atvik þetta átti sér stað, hvort á sinn veg.
Framburður vitna í málinu er því marki brenndur að langt er liðið frá atvikum.
Skýrslur voru til að mynda teknar af flestum vitnum rúmu ári eftir að atvik áttu sér
stað og eftir að ríkissaksóknari felldi úr gildi ákvörðun lögreglustjóra um að hætta
rannsókn. Þá ber dóminum að leggja mat á sönnunargildi framburðarins með hliðsjón

10
af 126. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Er þó ekkert fram komið sem þykir
rýra trúverðugleika framburðar þeirra.
Engin vitni, að Ídu undanskilinni, heyrðu þegar ákærði hafði uppi framangreind
ummæli um brotaþola. Þá er framburður vitnanna, m.a. brotaþola, á reiki varðandi það
frá hverjum þau heyrðu frásögnina, í hvaða samhengi og hvenær.
Þá telur dómurinn sömuleiðis óljóst þegar litið er til framburðar brotaþola og
vitna hverjar hafi verið kringumstæður þegar ákærði er sagður hafa bent á karlmann í
jakkafötum og lagt áherslu á að brotaþoli ætti að klæðast þannig. Bar vitnum ekki
saman um hvort ákærði hefði bent á karl eða konu í jakka til þess að leggja áherslu á
æskilegan klæðaburð.
Ákærða, brotaþola og vitninu Ídu ber saman um að sú síðastnefnda hafi í kjölfar
deilna við ákærða klætt sig í pels brotaþola og brugðið sér inn á staðinn. Dómurinn
fellst ekki á að með því hafi ákærði haft ásetning til að mismuna brotaþola á grundvelli
kynvitundar en eins og vitnið Ída bar um átti þetta fyrst og fremst að hafa táknræna
merkingu. Eins og fram er komið í málinu yfirgaf hópurinn staðinn saman.
Með hliðsjón af framangreindu telur dómurinn ósannað að ákærði hafi
mismunað brotaþola umrætt sinn á grundvelli kynvitundar hennar. Framburður
ákærða um ástæðu þess að hann hefði ákveðið að hópurinn í heild sinni gæti ekki
verið lengur á skemmtistaðnum fær stoð af vitnisburði í málinu eins og rakið hefur
verið. Þá er ósannað að ákærða hafi gengið annað til í kjölfarið en að framfylgja þeirri
ákvörðun. Verður ákærði því, með vísan til 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um
meðferð sakamála, sýknaður af ákæru þessari.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 verður
einkaréttarkröfu brotaþola vísað frá dómi.
Með vísan til 2. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 ber að greiða allan sakarkostnað
málsins úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Oddgeirs
Einarssonar lögmanns. Hliðsjón er höfð af umfangi málsins, tímaskýrslu lögmannsins
og reglum Dómstólasýslunnar nr. 2/2021.

D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Þór Bergsson, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Einkaréttarkröfu brotaþola er vísað frá dómi.
Allur sakarkostnaður málsins, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða,
Oddgeirs Einarssonar, 1.178.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Sigríður Hjaltested
--------------------- --------------------- ---------------------
Rétt endurrit staðfestir, Héraðsdómi Reykjavíkur, 23. desember 2021

11

You might also like