You are on page 1of 8

Elí Freysson/Meistari Hinna Blindu 1

5.

Hann hélt áfram í sömu átt. Hrafninn tók stutta flugtúra hingað og þangað. Stundum flaug
hann á undan Mikael, lenti á jörðinni og gargaði á hann eins og til að segja honum að fara
hraðar. En lengstum sat fuglinn spakur sem farþegi á öxl Mikaels. Honum var sama.
Léttur þunginn var kunnglegur, eins og annað smá brot af gleymdu lífi hans.
Þessi dagur og sá næsti liðu viðburðarlaust. Veðrið hélt áfram að skána hægt og
rólega og tréin urðu yngri og strjálli. Það var á áttunda degi sem hann gekk loks út úr
dalnum, og Mikael sá svartan reyk stíga til himins í suðvestur átt. Það hlaut að vera
þorpið sem Broon hafði nefnt.
Strókurinn dreif hann áfram, gaf honum kraft og auðveldaði honum að hunsa
sársaukann í hnénu. Fyrsta stiklan á ferð hans var innan seilingar. Loksins færi hann að
hætta að ganga í þveröfuga átt við takmark sitt.
Hádegi kom og fór, það hallaði undan fæti og skógurinn var á endanum aðeins
nokkrar dreifðar hríslur. Í suðvestri sá hann loks þorpið. Það var aðeins stærra en það sem
hann vaknaði í og ennþá í heilu lagi. Reykurinn hafði valdið honum smá áhyggjum, og
hann dró andann léttar.
Mikael tók sér augnabliks hlé til að halla sér fram á stafinn og kasta mæðinni. Svo
leit hann um öxl. Að baki honum lá skógivaxinn dalurinn, eins og risavaxin blindgata
sem lá að rústunum. Staðnum þar sem hann hafði vaknað inn í þennan heim. Vaknaði
minnislaus innan eyðileggingu, blóðbað og blinda vitfirringinn.
Brunnurinn þaut enn og aftur í gegnum huga hans og Mikael lagði aftur af stað.

--------------------

Þorpið var umkringt ökrum, búfénaði, og fólki sem var að sinna hvoru tveggja. Þau voru
of langt í burtu til að Mikael gæti séð framan í þau, en hann sá nokkur horfa í áttina til
sín. Þau hvorki veifuðu né kölluðu til hans svo Mikael hélt beint áfram.
Rétt eins og dauða þorpið var þetta umlukið girðingu á hæð við Mikael sjálfan.
Hún bar augljós merki um aldur og slit og var gerð úr grönnum trjástofnum sem höfðu
verið reknir niður í jörðina og bundnir saman með tágum. Hliðið var opið og ýmsar
skynjanir tóku á móti honum þegar hann gekk inn: Hljóð frá mönnum og dýrum, þefinn
sem fylgdi hvorum tveggja sem og ógeðfelld brunalykt.
Flest húsin voru eins og stærri og minna niðurníddar útgáfur af kofa Broons:
Efniviðurinn torf, steinar og timbur. Tveir menn stóðu fyrir utan eitt þeirra og röbbuðu
saman. Annar þeirra leit á hann. Svipurinn var kannski ekki beint fjandsamlegur, en
samt . . . varfærinn. Tortrygginn. Aðkomumenn voru sennilega ekki nógu sjaldgæfir til að
vera tíðindi, en samt nóg til að vekja eftirtekt og dálitla grunsemd. Eða kannski var það
bara eitthvað við hann sjálfan.
"Ö...afsakið mig..."
"Aðeins lengra í þessa átt, félagi," sagði annar maðurinn og benti. "Við torgið."
Ha?

1
Elí Freysson/Meistari Hinna Blindu 2

"Hvað áttu eiginlega við?"


"Ertu ekki ferðalangur?"
Jú, ég er það víst.
"Þakka þér fyrir..." svaraði Mikael hikandi, og hélt áfram þangað til hann var
kominn á torgið. Það var aðeins stærra en í dauða þorpinu. Í miðju þess stóð steinhlaði
sem, metershár og sirka tvisvar sinnum stærri á hæð og breidd. Stór eldur hafði logað þar
nýlega, líklegast uppspretta reykjarstróksins. Hitt sem vakti athygli var stóra húsið. Það
virtist töluvert sterklegra en hin húsin, í því var meiri viður og það var með þrjá
skorsteina. Fyrir utan breiðu útihurðina héngu fjögur merki sem sýndu rúm, krús,
peningapyngju og pott.
Gistikrá. Sem var víst það sem ferðalangar sóttust í. Mikael gekk nær og heyrði
hávært rifrildi koma innanfrá.
"Hrikalega ertu kaldur! Ég sagði þér..."
"Mér er SAMA, Crei. Þú þarft að BORGA eins og allir aðrir! Annars ertu bara
að sóa plássi. MÍNU plássi."
"Þínu plássi? Sú var tíðin..."
"Sú var tíðin að þú gast borgað fyrir áfengi, Crei. Út!"
Mikael var um það bil að taka í húninn þegar hurðinni var fleygt upp á gátt og út
strunsaði illa lyktandi maður, öskureiður á svip.
"Ormétni hóruungi!" hreytti hann út úr sér á meðan hann fjarlægðist. Hurðin
byrjaði að sveiflast aftur til baka en Mikael stoppaði hana og leit inn.
Innandyra var frekar rökkvað þrátt fyrir logandi eldstæði og tvo olíulampa sem
héngu í loftbitunum. Lyktin af kjöti, brauði, ælu, heyi, áfengi og brennandi viði fylltu
nasir hans.
"Fæddistu í gripahúsi?" spurði pirruð rödd, sú sama og hafði rifist við Crei.
Mikael steig inn og lokaði dyrunum.
Herbergið virtist taka upp helminginn af gólffleti hússins. Einfaldir stólar og borð,
í raun aðeins trjábolir klofnir í tvennt, hamraðir saman og settir á fætur, tóku megnið af
plássinu. Hann sá glitta í þrjár manneskjur sem sátu hingað og þangað. Stór pottur hékk
yfir öðru af tveimur eldstæðum og á vinstri hönd var langborð sem náði næstum á milli
veggjanna. Fyrir aftan það voru þrjár tunnur, stór járnbent kista, lokuð hurð og tvær stórar
hillusamstæður. Skítugur maður í skítugri svuntu sat innan um allt þetta og horfði á hann
með blöndu af pirringi og áhugaleysi.
"Nýtt andlit í Porlan," sagði hann með uppgerðargleði. "Velkominn til nafla
alheimsins, kunningi. Höfuðborg Jaðarsins, heimili vona og drauma og virki
siðmenningar!"
"Þú ert hræðilegur lygari," sagði kvenrödd einhversstaðar utan úr myrkrinu.
"Kláraðu bara að drekka og haltu áfram ferðinni, vagnari," hreytti kráareigandinn
út úr sér án þess að líta af Mikael. "Hvað viltu, kunningi? Mat, drykk, vörur? Rúm? Ég er
hræddur um að ég hafi bara tóm rúm."
"Tóm af tvífætlingum, allavega," sagði konan aftur. Kráareigandinn svaraði ekki í
þetta sinn, nema með illu augnarráði.
Mikael velti því aðeins fyrir sér hvað af þessu maðurinn á götunni hafði gert ráð
fyrir að hann vildi og leit yfir vörurnar sem voru í boði. Augu hans námu staðar við
knippi af þurrkuðu kjöti sem héngu niður úr þakinu. Nú þegar hann var kominn úr
skóginum yrði væntanlega erfiðara að finna mat. Nesti væri víst góð hugmynd.

2
Elí Freysson/Meistari Hinna Blindu 3

"Hvað viltu fyrir kjötið?" spurði hann.


Kráareigandinn virtist vonsvikinn en var snöggur að fela það á bak við meiri
uppgerðarkátínu.
"Ah, já. Brjóstamjólk ferðalangsins." Hann sendi annað illt augnarráð út í
myrkrið, eins og hann byggist við fleiri hæðnisglósum. "Hvað viltu versla með? Vörur
eða peninga?"
Peninga? Þá hafði hann ekki. Mikael sveiflaði bakpokanum af öxlinni, niður á
borðið og tók upp spjótsoddinn. Án skafts var hann ræfilslegt vopn og Broon hafði verið
svo góður að gefa honum almennilegan hníf.
"Hvað myndirðu gefa fyrir þetta?"
"Áður en hann svarar," sagði napra kvenröddin aftur, "þá vil ég benda þér á að
frændi hans kemur alltaf af og til úr næsta þorpi í leit að skrani. Hann er vel fær um að
finna einhver not fyrir spjótsodd."
Mikael reyndi að sjá konuna...og ákvarða hvort hún væri að hjálpa honum eða
bara að atast í kráareigandanum.
"Þú særir mig, Sana," sagði maðurinn reiðilega. "Jæja, félagi, þetta lítur út fyrir að
vera ágætis oddur. Ég læt þig hafa tvö knippi og máltíð fyrir hann."
Mikael rétti honum spjótsoddinn, maðurinn setti hann á hillu, vafði tveim búntum
af þurrkuðu kjöti í klút og rétti yfir borðið. Næst tók hann skál úr einni hillunni og fyllti
hana með innihaldi stóra pottsins. Hann skellti henni óþarflega fast niður á borðið og
hvessti augun út í myrkrið.
"Hefurðu eitthvað fleira að segja um hversu illa ég rek fyrirtæki mitt, Sana?"
"Mér dytti það ekki í hug, Teir."
Mikael, lítt hrifinn af því að vera viðstaddur þessar samræður, stakk kjötinu í
bakpokann og haltraði að lausu borði með skálina í hönd. Hann hafði ekki hugmynd um
hvað flaut í henni. Það var lífrænt og hafði sennilega verið hluti af dýri einhverntímann,
en fleira gat hann ekki sagt til um. Það var að minnsta kosti hlýtt. Mikael lokaði augunum
og saup á sullinu. Það var... ætt. Máltíðin hafði greinilega staðið og kraumað í dágóðan
tíma og þurfti varla að tyggja. Hann var að minnsta kosti mettur þegar hann sá botninn.
Mikael fór með skálina aftur að borðinu. Teir leit á hann í augnablik áður en hann
sneri sér aftur að því að tálga út viðarbút.
"Ég er á leiðinni norður," sagði Mikael. "Ég þarf að komast norður fyrir fjöllin.
Geturðu sagt mér við hverju er að búast?"
Teir gaut aftur augunum á hann í andartak.
"Vegraine, skilst mér. Þeir hafa eitthvað verið að pukrast í útjaðri Hvítavængs
síðustu ár, en eru víst að fikra sig austar, nær byggðum. Eða svo segja flækingjar og
vagnarar að minnsta kosti. Sumir segja meira að segja að þeir séu að fylkja liði aftur.”
Æi, dásamlegt...
"Ókei... en hvað með leiðina sjálfa? Landslagið? Ég verð að komast norður."
Teir hló. "Þú lætur ekki hræðast, er það? Tja, ég hef aldrei farið þangað sjálfur, en
ef þú fylgir veginum norður ættirðu að komast þetta vandræðalaust. Svona ef það verða
engin, heh, slys. Vegurinn liggur samt ekki alla leið í kringum fjöllin, held ég. Farðu bara
í austur þegar þú kemur í þorp sem heitir Aggis, og þá kemstu."
"Allt í lagi, takk." Mikael bjóst til að fara, en hikaði. "Þessir Vegraine..."
"Fyrir tveim mánuðum tók náungi sem hét Eiki sig til og hélt í norðurátt," greip
Teir fram í fyrir honum. "Hann fleygði sínum fáu eigum á vagn, spennti þreyttan gamlan

3
Elí Freysson/Meistari Hinna Blindu 4

asna fyrir framan og lagði af stað. Ég held hann hafði ætlað sér að fara alla leið til Rauðu
Rótar og vinna fyrir sér í námunum. Huh. Auli. En allavega, níu dögum síðar kom hann
aftur. Eða asninn, réttara sagt. Eiki hafði verið bundinn á hann, sem var víst fyrir bestu,
þar sem fingurnir höfðu verið skornir af honum. Eða bitnir. Já og augun höfðu verið sett í
litla pyngju sem hékk um hálsinn á honum." Maðurinn hnussaði hæðnislega. "Sem
minjagripur, býst ég við. Tveim dögum síðar dó hann og náði aldrei nægri heilsu til að
segja hvað hafði gerst."
Teir tók sér hlé til að strjúka tréflísar af hnífnum sínum og sendi Mikael svo lítið
glott. "Hef ég svalað forvitni þinni?"
Mikael datt ekki í hug svar við þessu. Hann hafði sennilega gert það.
"Þú ert semsagt á norðurleið?" Mikael sneri sér við. Eigandi kvenraddarinnar
hafði gengið upp að honum. Hún var sennilega á fertugsaldri, aðeins lægri en Mikael,
með svart hárið í hnút. Hún var klædd í þykkann, snjáðan skinnfrakka og Mikael sá glitta
í sverðshjöltu undir honum. Hún horfði rannsakandi á hann.
"Já, það er satt," svaraði hann, óviss um hvað þetta snerist.
Það varð augnabliks þögn á meðan hún hélt áfram að virða hann fyrir sér. Svo
stönsuðu augu hennar á saxinu.
"Kanntu að nota þennan málm?" spurði hún ákveðin.
"Tja... svo virðist allavega vera."
Hún lyfti upp annarri augabrúninni. "Og hvað þýðir það?"
Mikael brosti með sjálfum sér að eigin orðum. "Ekkert. Já, ég kann á það. Af
hverju spyrðu?"
Konan krosslagði handleggina og trommaði með fingrunum á öðrum þeirra.
"Eins og eigandi þessarar FÍNU krár tók fram, þá heiti ég Sana og rek vagnlest."
Hvenær sagði hann það? Ah, "vagnari".
"Sem stendur er ég á ferðinni með litla verslunarlest til Svartavatns," hélt hún
áfram. “Semsagt norður. Það vill líka svo til að einn af eklunum mínum dó í gær."
"Leitt að heyra."
Sana yppti öxlum án þess að breyta svip.
"Þetta var líkbrennslan hans hérna fyrir utan. Þannig að hér sit ég með fullan vagn
af góðu klæði og ekil sem fýkur í vindinum."
Mikael sá hvert þetta stefndi, en var of upptekinn við að melta upplýsingarnar til
að grípa fram í.
"Mig vanta ekil. Að minnsta kosti til Aggis. Ef þú keyrir þangað færðu hlut af
söluhagnaðinum þar og mat. Og þú kemst leiðar þinnar mun fyrr en ef þú gengur.
Sérstaklega með þetta." Hún stjakaði létt við stafnum með fætinum.
Hann þekkti þessa konu ekki. Hann vissi ekki með hverjum hún ferðaðist. Hann
hafði ekki hugmynd um hvernig maður stýrði vagni. En að geta komist fyrr norður?
"Hvað með Vegraine? Ertu ekki hrædd um að lenda í þeim?"
Sana yppti aftur öxlum og andlitið fylltist af hörkulegri einbeitni.
"Ef það gerist, þá gerist það. Ég hef starfi að sinna og klára þær ferðir sem ég legg
í. Alltaf. Hefurðu ekki heyrt um öryggi í fjöldanum? Ef Vegraine byrja að skoppa úr
runnunum held ég að þú sért betur settur með fleiri þér við hlið."
"Það er víst satt. En vekur ekki vagnalest meiri athygli en einn maður?"
Sana horfði í augu hans í nokkur augnablik en svaraði loks í ögrunartón, "Lá þér
ekki svo á að komast norður?"

4
Elí Freysson/Meistari Hinna Blindu 5

Þetta var einföld en áhrifarík spurning og hún sá sennilega á honum að svo var.
"Jæja, hvað segirðu? Kemurðu með eða ekki?"
Hann var smeykur. Að ferðast um hættulegt landsvæði með ókunnugu fólki
heillaði hann ekki beint. En eins og áður hafði takmark hans forgang. Ef þetta kæmi
honum að gamla fjallastígnum í tæka tíð til að hjálpa föngunum og finna svör, þá varð
hann að gera Þetta.
"Ég kem með."

--------------------

Það tók að rökkva og Sana gaf merki um að stoppa. Vögnunum var raðað í tvær lengjur,
uxarnir bundnir við runna og eklarnir bjuggu sig undir nóttina. Tveir kveiktu varðeld á
meðan hinir drógu fram teppi.
Mikael lauk við að tjóðra uxana sína og svipaðist um eftir einhverju sem hann
gæti aðstoðað við.
Sana hafði kynnt hann stuttlega fyrir hinum eklunum og undirstöðuatriðum í því
hvernig átti að stýra uxakerru og lagt svo strax í hann norður. Þegar hann vandist breyttu
aðstæðunum fór hann að geta notið þess að hvíla særðu löppina án þess að hægja ferðina.
"Heitirðu ekki Jones?" spurði hann þann sem sá um matarbirgðirnar. "Þarftu
aðstoð?"
"Ja hérna," sagði eldri maður með sítt skegg og lítið hár. "Einhver sem hlakkar til
að prófa matseldina mína." Hann glotti svo að skein í gular tennurnar. "Alltaf gaman að
hitta nýtt fólk."
Jones klifraði upp í vagninn sinn, rétti Mikael stóran pott og setti svo þrífót ofan í
hann. Mikael setti hvort tveggja niður við eldstæðið, sem brátt var farið að skíðloga.
Jones tók til efni í súpu á meðan Mikael setti saman þrífótinn. Eklarnir settust á teppin og
spjölluðu sín á milli á meðan maturinn var eldaður.
Mikael kaus að halla sér upp að vagnhjóli svo hann gæti teygt fram slæmu löppina
án þess að reyna á bakið. Hrafninn hafði horfið eitthvað út í buskann í bili. Á keyrslunni
hafði hann flögrað í kringum lestina, flogið einstaka sinnum í burtu og einu sinni snúið
aftur með mús í goggnum.
Á endanum tók Jones níu skálar úr poka og hóf að fylla þær og rétta fólki.
"Borðið elskurnar. Þið fáið ekki betra fæði í nokkru þorpi!"
"Á þessum slóðum er þetta því miður rétt hjá þér," skaut Sana á hann án þess að
líta upp frá skálinni sinni.
"Jæja, gerðu betur, stjóri," svaraði Jones án þess að fipast í glaðværðinni.
Mikael fékk skál og saup úr henni.
"Jæja, hvað finnst þér?" spurði sá gamli í gegnum gula brosið sitt.
"Ég... hef sannarlega fengið verri máltíðir," svaraði hann hreinskilnislega.
Jones hló og hélt áfram að deila út súpu.
Eins og brennda hundinn sem ég át í rústunum.
Um stund heyrðist ekkert í búðunum nema snarkið í eldinum og sötur. Mikael
horfði ýmist á logana eða út í myrkrið. Óþægileg hugsun hvarflaði að honum.
"Vegraine."
Allir horfðu á hann.

5
Elí Freysson/Meistari Hinna Blindu 6

"Ef þeir eru í auðnunum á þessum slóðum, gætu þeir þá ekki séð varðeldinn
langar leiðir?"
"Ertu stressaður?" spurði maður á hægri hönd Mikaels, Ólafur.
"Hann ætti að vera það," sagði Jóhann, unglingspiltur sem var augljóslega
smeykur. "Ef helmingurinn af því sem maður heyrir um þessar ófreskjur er satt..."
"Það er svo sannarlega satt," sagði Roth rólega.
"Tja, jæja,” sagði Ólafur. “Það er líka svo sannarlega satt að þeir fylgjast með
vegum og liggja í leyni. Það breytir engu hvort við kveikjum eld eða ekki. Þess utan,"
hann dró upp hníf sem lá við að teldist sverð, "veit ég hvert á að stinga honum þessu ef
þeir eru með vesen." Hann kastaði hnífnum svo hann stakkst af afli inn í hlið eins
vagnsins og hló.
"Hefurðu einhverntímann mætt Vegraine mönnum?" Rödd Roths var enn róleg,
en nú var dálítil spenna í henni. Þögnin sem fylgdi svaraði spurningu hans.
"Ég hef gert það," hélt hann áfram og hlaut fyrir vikið óskipta athygli. "Fyrir
fjórum árum var ég í vagnalest með fjórtán öðrum. Við vorum að flytja salt og bygg. Það
var engin viðvörun, engin hættumerki. Nema hvað skyndilega fékk einn asninn spjót í
gegnum sig. Síðan annar asni. Og annar. Ég leit til vinstri upp á hæðina og sá þá spretta
upp aftan við steina. Þeir voru afar snöggir að drepa eða særa alla asnana og æddu svo
niður til okkar. Þeir voru..."
Roth þagnaði og leit upp til himins, hugsi.
“Sumir kalla þá dýr og kannski er það rétt að einhverju leyti. Þeir eru eins og óðar
skepnur, en búa samt yfir mennskri kænsku og grimmd. Þeir sýndu alla þessa eiginleika
þennan dag, þegar þeir réðust öskrandi á okkur með spjót, kylfur og axir."
Roth saup úr skálinni sinni.
“Þeir gera oft árásir í litlum hópum. Kannski til að sanna hugrekki sitt eða
eitthvað slíkt. En þennan daginn fengum við á okkur algjört ofurefli.”
"Hvernig... hvernig lifðirðu þá af?" spurði Jóhann. Mikael leit á hann og hina
eklana. Allir horfðu á Roth með óttablandinni ákefð, nema Sana og kannski Ólafur.
Munnvik Roths lyftust eitt augnablik en sigu svo niður aftur. "Með því að hlaupa
hraðar en ferðafélagar mínir. Hetjur týna lífinu og ég er harðákveðinn í að lifa."
"Slappst þú einn?" spurði Mikael.
"Já. Ekki í fyrstu samt. Ég veit að þeir tóku nokkra lifandi, þrátt fyrir
blóðþorstann. Greyin."
Roth stóð upp, kippti hnífnum úr vagninum og kastaði honum til Ólafs. "Gangi
þér vel. Svona fyrst þú veist hvert á að stinga þessu," sagði hann þurrlega.
Þessu fylgdi vandræðalega þögn og eklarnir einbeittu sér vandlega að skálunum
og innihaldi þeirra. Það var Jones sem loks rauf þögnina.
"Gerðist þetta á þessum slóðum?"
"Hm? Nei. Nei, ég hef aldrei farið hér í gegn áður. Þetta var á leiðinni frá Torvin
til Camanar. En þeir eru víst að færa sig sífellt lengra niður á láglendið. Kannski eru þeir
jafnvel að hopa."
"Hopa? Undan hverju?" spurði annar maður vantrúaður.
"Hver veit? Þetta eru flökkusögur. Það er alltaf nóg af þeim."
"Já, mikil ósköp," sagði Sana kvíðalausri röddu. "Og flestar um dauða, drunga og
heimsendi. Alltaf það sama."
"Jamm. Ég hef litla trú á þeim," sagði Ólafur.

6
Elí Freysson/Meistari Hinna Blindu 7

Einhverra hluta vegna brosti Roth að þessu. Það varði bara í augnablik og Mikael
grunaði að hann hefði verið sá eini sem tók eftir því. Hvað skyldi hafa legið á bak við
það?
"Ja, er ekki stríð eða eitthvað fyrir norðan?" spurði Jones.
"Jú. Ég hef heyrt eitthvað um flóttafólk," svaraði Jóhann.
"Hvað segja flökkusögurnar þínar um það, Roth?" spurði Ólafur.
"Flökkusögurnar mínar? Ekki mikið. Bara hvísl á börum og ummæli ferðalanga.
Maður þarf að kunna að tína sannleikskornin úr slíku tali og raða þeim saman. En
allavega, já. Miðað við það sem ég hef heyrt er eitthvað á seyði fyrir norðan. Í kringum
Ysta Virki og yfirráðasvæði þess. Einhver skæruátök."
"Á milli hverra?" Efinn lak af orðum Ólafs.
"Það veit enginn," sagði Jóhann áður en Roth náði að svara. "Maður heyrir sögur
um árásir á lítil þorp. Um óþekkta ógn sem birtist út úr nóttinni. Úr . . . úr Grjótadal."
Mikael fann kaldan hroll fara um sig, þrátt fyrir varðeldinn. Þetta hljómaði alltof
kunnuglega.
"Æi nei, Grjótadalur! Skæl og vein!" spottaði Ólafur.
"Veistu, þú getur verið algjört fífl," hreytti Jóhann út úr sér.
"Hvað, ö, hvað er þetta með Grjótadal?" skaut Mikael inn í áður en umræðuefnið
kafnaði í rifrildi.
"Æi, láttu það ekki á þig fá," svaraði Ólafur. "Strákurinn hlustar bara of mikið á
gamlar goðsagnir."
Mikael gerði sér grein fyrir því að þetta væri líklegast eitthvað sem hann ætti að
vita um, ef höfuðið á honum væri í lagi. Hann leitaði að leið til að spyrja út í þetta án þess
að líta út eins og auli.
Ólafur sneri sér aftur að Jóhanni. "Sko, jafnvel þótt sögurnar séu sannar, jafnvel
þótt Dalurinn hafi einhverntíman hýst eitthvað annað en samtíning af skrípum og
vitleysingum, þá var það fyrir löngu síðan. Mesta áhyggjuefnið þessa dagana eru
Vegraine, ekki einhver skuggaleg, illa skilgreind illska." Hann hló aðeins.
"En hvað með Dalinn? Hvað er svona sérstakt við hann?" Mikael lét stoltið flakka
í von um upplýsingar. Eklarnir sendu honum undarleg augnaráð, áður en Jones tók að sér
að svara.
“Ja . . . það er víst heljarstór, hrjóstrugur dalur töluvert norðan við Ysta Virki. Á
svæði sem Jukiala reyndi aldrei að temja, og sem Vegraine lögðu einhverra hluta vegna
aldrei undir sig.”
“Mér skilst að jarðvegurinn sé ófrjór,” sagði Sana.
“Ég heyrði að eitthvað í Grjótadal ræki allar boðflennur í burtu,” sagði einn
ekillinn.
“Draugar, skilst mér,” sagði annar. “Andar þeirra sem fórust í Sundrunginni, og
rötuðu ekki yfir huluna.”
“Jæja, hver svo sem ástæðan var, þá létu víst allir þennan dimma stað í friði, og
um tíma gekk allt vel.”
"Hah. Trúirðu virkilega á 'gömlu góðu dagana'?"
"Æi, þegiðu nú til tilbreytingar, Ólafur," sagði Sana.
“En það kom að því að það... kom eitthvað þaðan. Eitthvert fólk, sem enginn
kannaðist við, og einhver illska með þeim.”
“Illska?”

7
Elí Freysson/Meistari Hinna Blindu 8

“Það er nánast ómögulegt að finna tvær eins frásagnir, en aðalatriðin eru þau að
það voru gerðar tilefnislausar árásir á bú og bæi. Og þessir árásarmenn fjölguðu í sífellu
við sig; Fengu venjulegt fólk í lið með sér, og brenndu og drápu og rústuðu öllu sem fyrir
varð. Jukiala sendi víst hersveit inn í dalinn til að finna uppsprettu brjálæðisins. Þeir
sneru ekki aftur.”
“Hvenær var þetta?”
"Ég veit það eiginlega ekki. Það er eitt af þessum óljósu atriðum. Svona sögur eru
óáreiðanlegar."
"Eins og ég hef einmitt verið að segja," tautaði Ólafur. Jones annaðhvort heyrði
ekki í honum eða hunsaði hann.
"En þeim kemur öllum saman um eitt," sagði gamli maðurinn, "Það býr illska í
Grjótadal. Og þetta er ekki eina sagan sem er honum tengd. Bara sú versta.”
“Það eru fleiri svona sögur,” sagði Roth hljóðlega. “Af fjöldabrjálæði. Út um
allan heim.”
"Hah, já. Þú ættir að hlusta á Roth," sagði Ólafur. "Hann hefur ferðast um allt."
"Tvisvar," bætti Roth við.
"En allavega," hélt Jones áfram, "þá stöðvuðu herir Jukiala á endanum þennan óða
mannfjölda. Naumlega, ef marka má sögurnar. Og til þessa dags eru Dalurinn vondur
staður sem huguðustu menn voga sér ekki til."
"Ef hann eru svona hræðilegt, geturðu þá úskýrt fyrir mér af hverju ein máttugasta
borg Jaðarsins liggur svona nálægt honum?" spurði Ólafur, og skeytti engu um pirruðu
augnarráðin sem hann fékk.
"Hefurðu einhvern tímann komið til Ysta Virkis?" spurði Roth ögrandi.
Maðurinn hikaði aðeins. "Ja, nei. En ég veit hvar það er, eins og allir. Nú?"
"Ekkert, Ólafur. Hreint ekki neitt."
"Og vorum við ekki að enda við að segja að útlitið væri ekki sérlega gott á því
svæði?" sagði Jóhann reiðilega.
"Jú, jú. Óljósar sögur af drápum og mannshvörfum, og allt það."
"Ég held að þú ættir að hlusta meira á slíkar sögur, Ólafur," sagði ungi maðurinn.
"Það er meira að segja sagt að það ríki umsátur um Ysta Virki!"
"Svo segja þeir, félagi. Ég er ekki vanur að taka mikið mark á einhverju sem ég
hef ekki séð með eigin augum."
"Þá ertu kjáni," sagði Roth hljóðlega.
Ólafur glotti bara, og yppti öxlum. Samtölin tóku að fjara út eftir þetta, og Mikael
fékk frið til að stara í eldinn og hugsa.
Dularfullar árásir á þorp, eins og hann sjálfur hafði upplifað. Stríð í norðri.
Uggvænlegt, bölvað land. Hvernig tengdist þetta tvennt, og hvernig snerti það hann? Ef
það snerti hann þá í raun í veru. Endalausar spurningar, engin svör. Þetta var óþolandi.
Eins og hræðilegur kláði í sálinni.
Einhver potaði í öxlina á honum. Eklarnir voru að láta vínsekk ganga á milli.
"Drekkið sparlega af þessu, strákar," varaði Sana þá við.
Hann tók tvo stóra sopa, og slakaði aðeins á þegar þægilegur hitinn rann ofan í
hann. Hann lagðist niður, vafði teppinu utan um sig, og reyndi að tæma hugann fyrir
svefninn. Það var nóg komið af martröðum.

You might also like