You are on page 1of 9

Arna Tryggvadóttir

Menntaskólinn við Hamrahlíð


SAGA3CC05

Trans: nýfætt hugtak

Guðmundur Arnlaugsson
16.04.21
Í 21. aldar samfélagi eru hinsegin hugtök eins og samkynhneigð, tvíkynhneigð og trans frekar
útbreidd og vel skilin. Fólk hefur mismunandi skoðanir á þeim en ef þú færir út á götu gætir
þú líklegast ekki fundið neinn sem veit ekki hvað þessi orð raunverulega þýða. Það sem við
köllum hómófóbískt í dag er fólk sem finnur fyrir hatri gagnvart samkynhneigð þrátt fyrir að
vita fullkomlega hvað það er. Aftur á móti er það í mannlegu eðli að efast um það sem við
skiljum ekki svo getum við kallað manneskju hatursfulla ef hún skilur í raun ekki tiltekið
hugtak og finnur þess vegna fyrir nokkurs konar gremju gagnvart því? Þetta er ekki endilega
eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur í nútímanum en þegar við lítum á sögu og
baráttu hinsegin fólks fyrir réttindum er gott að hafa þetta á bak við eyrað. Áður fyrr var
tiltekin venja að ekki var tekið mark á trans fólki vegna þess að sískynhneigt fólk gat
hreinlega ekki ímyndað sér hvernig það væri að vera fætt í vitlausum líkama. Að mörgu leiti
hafa alls konar jafnréttindabaráttur byrjað með fræðslu.
Með því að skoða málfar í rituðum heimildum og samtölum við fólk vil ég reyna að finna
hvenær og hvernig trans fólk varð sýnilegt og hugtakið þekkt í íslensku samfélagi. Hvenær er
sá tímapunktur?

Samtökin ´78
Eins og nafnið gefur til greina voru Samtökin ´78 stofnuð árið 1978 með þeim tilgangi að efla
þekkingu í samfélaginu um hinsegin málefni. Þetta voru hagsmunarsamtök samkynhneigðs
fólks á Íslandi sem fengu nafn sitt frá samskonar samtökum í Danmörku og Noregi sem
kölluð voru Samtökin ´48.1 Stofnun samtakana á Íslandi var auðvitað risastórt skref í réttu
áttina í réttindabaráttu hinsegin fólks en það sem stendur uppúr umfjöllunum um þessa
stofnun má sjá að hvergi er minnst á trans fólk. Í byrjun var alltaf tala ð um samtökin sem
samtök fyrir samkynhneigt fólk, það má jafnvel sjá það í því efni sem Samtökin ´78 gáfu sjálf
út. Í tímariti samtakana Úr felum sem fyrst var gefið út árið 1982 má sjá að þau hafa uppfært
sig í „Félag lesbía og homma“. Í þessu blaði má lesa ýmsar greinar frá bæði konum og körlum
um samkynhneigð og líf þeirra bæði á Íslandi og í útlöndum en það er enn ekkert minnst
neitt á tilvist trans fólks.2

1
Vikan, „Við erum bara hýrir.“ 47
2
Samtökin ´78, „Úr felum.“
Þó Samtökin ´78 væru stofnuð til þess að auka fræðslu má sjá að jafnvel þau hafa verið
fórnarlömb fáfræðslu. Nú til dags tala samtökin fyrir alla sem falla undir þetta
regnhlífarhugtak „hinsegin“ svo það hefur eitthvað gerst þarna með tímanum. Hundsun
samfélagsins á trans fólki hefur langt líklegast verið að mestu leiti vegna þess að fólk vissi
hreinlega ekki betur en ekki vegna þess að fólk hafði raunverulega eitthvað á móti því.
Auðvitað er ekki hægt að segja að það sé ekkert hatur til staðar á landinu en ef jafnvel
samtökin virðast ekki vita um trans má svo sannarlega álykta að fáfræðin yfirgnæfi hatrið.

Umfjöllun í fjölmiðlum
Hægt er að læra ýmsa hluti um hvernig almenningur tók á móti þessari hugmynd um trans
með því að skoða málfar í fjölmiðlum, bæði vegna þess að íslenska tungumálið og nöfn eru
mjög kynjuð er algengt fyrir trans fólk að breyta um bæði nafn og fornöfn þegar þau koma
út úr skápnum svo þau þurfa ekki endalaust að minnast þeirra tíma sem þau gátu ekki verið
þau sjálf. Þess vegna sýnir það mikið virðingarleysi gagnvart trans samfélaginu nú til dags
þegar fólk neitar annað hvort að nota rétt nafn eða fornöfn fyrir trans aðila. Svona óvirðingu
má sjá hvað eftir annað í fjölmiðlum í kring um 1990.
Í blaðagrein úr Pressunni frá árinu 1988 má sjá eitt dæmi um þetta í viðtali við trans
konu. Viðtalið er nafnlaust en það er ekki einu sinni notað fornafnið „hún“ í allri greininni.
Skrifað er aftur og aftur setningar eins og „hann vill verða kona“ og „hann ætlar að skipta um
kyn.“ Vandamálið hér er mjög skýrt, það er klárlega ekki verið að sýna þessari konu þá
virðingu sem hún á skilið með orðalagi viðtalsins. Einnig má sjá í greininni að það er aldrei
notað orðið trans, eða neitt sambærilegt. Eina orðið sem kemur nálægt trans hugtakinu er
orðið „kynskiptingur,“ en það er niðurlægjandi á sinn hátt þar sem það gefur til skynja að
kyn sé eitthvað sem þú skiptir um, eins og það sé eitthvað sem manneskja velur og skiptir
um eins og föt. Það sem er þó merkilegt við þessa grein er að þrátt fyrir málnotkunina er efni
greinarinnar ekki niðrandi. Hún er skrifuð sem alvöru viðtal við einstakling sem er í stöðu
sem þjóðfélagið þekkir almennt ekki. Það er ekki spurt niðrandi spurninga eða sagt að það
sem konan er að upplifa sé ekki í lagi. Hér má sjá að á þessum tíma var trans í rauninni mjög
illa þekkt hugmynd á Íslandi. Í greininni kemur einnig fram að þessi kona sé búin að fara til
nokkra lækna til þess að sjá hvort þeir gætu hjálpað henni. Hún segir að geðlæknirinn sem
hún fór til hafi strax haldið að hún væri með einhvers konar geðsjúkóm sem hann vildi
lækna. Í lok greinarinnar er sagt frá viðtal við Guðjón Magnússon sem var
aðstoðarlandlæknir. Hann sagði frá því að svona kynleiðréttingaraðgerð hafi ekki verið
framkvæmd á Íslandi áður en að það væri möguleiki að gera hana. Hún væri flokkuð sem
lýtaraðgerð svo hún yrði greidd af almannatryggingum, en að manneskja sem myndi fara í
svona aðgerð þyrfti fyrst að hitta fjölda af sálfræðingum og geðlæknum sem þyrftu að
samþykja að þessi aðgerð væri nauðsynleg fyrir sjúklinginn.3
Þessi grein er yfirhöfuð frekar jákvæð vegna þess að hún sýnir að hugarfar fólks er
hægt og rólega að breytast, og því ber að fagna. Samfélagið átti greinilega mikið eftir ólært,
en það er bara ekki hægt að búast við því að allir skilji og samþykki nýtt hugtak um leið og
það er kynnt til leiks. Sem dæmi úr nútíma samfélagi má nefna fornafnið „hán“, sem er
tiltölulega nýtt hugtak og er enn því miður ekki fullkomlega samþykkt. Fjölmiðla umfjöllun
undanfarin síðustu ár hefur þó sannarlega breyst og fjallað um fornafnið með frjálslyndari
augum.
Um áratugi síðar, árið 1996, birtist frétt í DV sem sagði frá Önnu Kristjánsdóttur,
trans konu sem vann sem vélstjóri áður en hún kom út úr skápnum og varð eitt af fyrstu
þekktu íslensku trans manneskjunni. Hún flutti frá Íslandi til Svíþjóðar til þess að fara í gegn
um kynleiðréttingarskeiðið, sem var ekki í boði á Íslandi. Hún var samt mjög spennt að fá að
komast heim og talaði sérstaklega um að vera glöð að vera komin í „fordómaleysið á
Íslandi.“ Miðað við hennar reynslu voru Íslendingar frekar óöruggir en samt fordómafullir.
Hér styður Anna þessa hugmynd um að fáfræði var kannski stærsta vandamálið sem
Íslendingar glímdu við. Í fréttinni kemur einnig fram viðtal við Ólaf Ólafsson landlækni sem
sagði að um 10 Íslendingar biðu nú eftir að fá að fara í kynleiðréttingaraðgerð og að sú fyrsta
á Íslandi myndi fara fram bráðlega, þó ekki væri gefin upp dagsetning. Hann sagði að þetta
væri mikilvæg aðgerð og að það væri kolrangt að neita fólki að undirgangast hana því
samkvæmt lögum á að veita öllum íbúum landsins læknisþjónustu. Í lokin segir Anna frá því
að bara um einn af hverjum þremur sem biður um kynleiðréttingaraðgerð í Svíþjóð fengi að
fara í gegnum ferlið til enda. Ástæðan fyrir því er að talin er að manneskja gæti séð eftir
aðgerðinni síðar og því ekki hleypt í hana. 4
Það er augljóst að á þessum átta árum á milli fréttanna í Pressunni og DV hefur
eitthvað breyst. Líklegast sýnileiki trans fólks. Orðið „trans“ var ekki enn komið í Íslenska
málnotkun, hvað þá íslenska orðabók, það var ennþá verið að nota orð eins og

3
Jónína Leósdóttir, „Hann vill verða kona!“ 1, 5-6
4
DV, „Anna er flutt heim.“ 2
„kynskiptingur,“ en það má sjá að mikið af fólki kannast allavega við hugmyndina. Það er
líklega vegna þess að fjölmiðlar voru loksins farnir að tala um þetta, hvort sem það væru
jákvæðar eða neikvæðar lýsingar. Umræðan er samt ekki bara mikilvæg til þess að fræða
fólk, vegna hennar virðist aðrir trans aðilar annaðhvort átta sig á eða sætta sig við kynvitund
sína, eða þá fá hugrekkið til þess að koma út úr skápnum. Það varð til eftirspurn á Íslandi
fyrir kynleiðréttingaaðgerðir og eins og áður kom fram var verið að byrja að framkvæma
þær.

Kynleiðréttingar
Ári seinna, í október 1997 var svo birt grein í dagblaðinu Dagur sem sagði frá Díönnu Ómel,
trans konu sem var við það að byrja kynleiðréttingarferlið. Hún er frá Grenivík og hafði verið
í VMA en flutti til Reykjavíkur, þar sem hún gat ekki farið í meðferðina á Akureyri. Hún var
spennt fyrir því að byrja ferlið og vildi helst klára það á mettíma. Hún var nú þegar búin að
fara í allskonar blóðprufur og önnur próf en var á þeim tíma í hópi nokkurra einstaklinga sem
voru í athugun hjá svokölluðum „vinnuhópi landlæknis um kynskipti,“ sem sáu um það að fá
það á hreint hvort einstaklingum væri alvara um það að fara í aðgerðina því það væri ekki
hægt að endurkalla hana. Í þessum vinnuhópi voru Jens Kjartansson lýtalæknir, Óttar
Guðmundsson geðlæknir, Jens Guðmundsson og Arnar Haukson sem voru
kvensjúkdómalæknar. Á þessum tímapunkti höfðu sjö Íslendingar farið í
kynleiðréttingaraðgerðina en aðeins ein hafði verið framkvæmd á Íslandi. Hún fór fram í vor
1997, en þá var kvenmannslíkama breytt í karlmanns. Díana sagði að samtals myndi allt
ferlið kosta um tvær milljónir, þó hún sagði ekki hversu mikið, ef eitthvað, væri greitt af
ríkinu. Greinin er mjög jákvæð og upplýsandi þó orðalagið hafi ekki verið hið besta, eins og
má því miður búast við miðað við þennan tíma. Rithöfundur greinarinnar hoppar á milli þess
að nota fornöfnin „hann“ og „hún“ þegar það kemur að Díönnu. Í byrjun er notað gamla
nafn Díönnu og talað um hana sem karlmann en þegar fjallað er um að hún sé byrjuð í
leiðréttingaferlinu er orðalaginu breytt. Auk þess eru loksins kynnt nýtt orð til leiks,
„transsexualismi“.5
Þessi grein sýnir að Íslendingar hafa nú tekið tvö stór skref í átt að jafnréttindum fyrir trans
fólk, bæði með því að viðurkenna hugtakið, þó það sé ekki lengur notað í dag, og að byrja
kynleiðréttingar fyrir fólk sem þarfnast þeirra. Greinin gefur okkur ekki mjög góða sýn inn í
5
Dagur, „Dúi er komin í kynskipti.“ 22-23
álit samfélagsins yfir höfuð en það er klárt að trans fólk þurfti ekki lengur að efast um það
hvort þau væru að upplifa eitthvað sem væri ekki til.
Það er þó áhugavert að rýna betur í not fornafna í þeim fréttagreinum sem búið er að
skoða hér, það virðist eins og fólk, eða allavega rithöfundarnir, séu ekki að nota rétt fornöfn
nema að manneskjan sé búin að fara í kynleiðréttingu eða sé allavega byrjuð á henni. Það
má sjá að hér sé ekki bara verið að ýta undir staðalímynd kynjanna heldur líka að fólk líti ekki
á trans manneskju sem trans nema að þau líti út fyrir það. Þetta er eitrað hugarfar sem við
sjáum sem betur fer ekki mikið nú til dags, ef manneskja kemur út sem trans þá er hún trans,
sama hvernig hún lítur út. En þetta ýtir enn og aftur undir þá hugmynd að vegna of lítillar
umræðu og fræðslu skilur fólk ekki eitthvað nema þau sjái það sjálf, og vegna lítil skilnings
halda fleiri sig inni í skápnum og ef allir eru í skápnum þá verður enginn umræða. Þetta er
rosalega sorgmæddur vítahringur sem við sjáum allt of oft, sérstaklega fyrir nokkrum
áratugum.

Arna Magnea Danks er trans kona sem var fædd á Íslandi árið 1970. Hún hefur sjálf farið í
geng um allt kynleiðréttingarferlið, þó hún hafi því miður ekki fengið tækifæri til þess fyrr en
2018. Ef miðað er við hennar frásögn virkar ferlið núna eins og það gerði árið 1997. Hún hitti
sálfræðinga og geðlækna fyrst sem gáfu svo grænt ljós á að hún mætti byrja í hormóna
meðferðinni, eftir það fór hún í kynleiðréttingaraðgerðina. Hún fékk aðgerðina algerlega
niðurgreidda frá ríkinu og borgaði eitthvað smá fyrir hormónin, en þau virka eins og öll
önnur lyfseðilslyf, sem eru niðurgreidd af ríkinu eftir að kostnaðurinn nær einhverju ákveðnu
þaki. Brjóstaaðgerðina þurfti hún þó að borga alveg fyrir sjálf, 600.000 kr. Einkennilega þurfa
þó trans menn á Íslandi ekki að borga fyrir brjósta fjarlægingaaðgerðina. Þetta gæti verið
annaðhvort vegna þess að brjóstauppbygging er talin sem lýtalækning en fjarlæging sem
læknismeðferð, eða þá að kvenhormónin sem trans konur fá eiga að mynda brjóst
náttúrulega.6
Miðað við það sem Ólafur Ólafsson sagði árið 1996 um það að kynleiðréttingaaðgerðir séu
talin sem læknisþjónusta má búast við því að niðurgreiðslur frá ríkinu virkuðu eins, eða voru
allavega svipaðar á þeim tíma.

Allt leiðir aftur til fáfræðslu


6
Arna Magnea Danks, viðtal.
Arna Magnea hefur samt vitað að hún væri fædd í vitlausum líkama frá því að hún var
fjögurra ára gömul. Samt kom hún ekki út úr skápnum fyrr en árið 2003. Hún segir að ekki
nóg með það að hún hafi orðið fyrir miklu ofbeldi frá pabba sínum og öðrum í kring um sig
fyrir að vera svo „stelpuleg“, þá vissi hún eiginlega ekki hvað hún var. Hún vissi að hún væri
öðruvísi vegna þess að allir í kring um hana létu eins og hún væri öðruvísi. „Maður
skammaðist sín fyrir það sem maður var án þess að vita hvað maður var,“ sagði hún. Þetta
leiddi skiljanlega til mikillar vanlíðan og innvortis haturs, svo mikið að hún reyndi að taka sitt
eigið líf. Það var ekki fyrr en hún var orðin 30 ára þegar hún lærði loksins hvað trans var. Hún
segir að þetta sé vegna þess að það var eingin umræða í gangi á Íslandi, þetta var hugmynd
sem fólk vissi bara ekki af. Hún bjó í Bretlandi þegar hún kom fyrst út árið 2003 en faldi sig
fljótt aftur eftir að hún varð fyrir hatursárás. Það var ekki fyrr en hún var komin aftur til
Íslands, mörgum árum seinna, sem hún tók eftir því hvað viðhorfið og umræðan höfðu
breyst á landinu og hún þorði loksins að vera hún sjálf. Hún segir að ef hún hafi verið fædd
núna þá hefði hún ekki lent í því að þurfa að fela sig, því það eru börn núna á Íslandi sem fá
stuðning frá fjölskyldu sinni og samfélaginu vegna þess að nú vitum við hvað þetta er og
hvernig það er hægt að hjálpa trans fólki.7
Maður, sem gengur hér undir nafnleynd, bergmálaði punkt Örnu. Hann var 16 ára árið 1980
og fannst það vera allt annar tími en nútíminn. Hann segir frá því að hugtökin undir hinsegin
regnhlífinni voru allt önnur og ekki nálægt því jafn mörg. Það var bara talað um homma og
lesbíur og af og til var minnst á tvíkynhneigð. Það var ekkert um trans, hvað þá aðrar
kynímyndir. Vegna þess urðu hann og vinir hans fyrir miklu einelti á Íslandi. Allt frá því að
vera neitað um vinnu og til grófra árása. 8
Það er ekki endilega hatur sem hélt þeim inni í skápnum, það var fyrst og fremst það að vita
ekki hvað þau væru, og að fólkið í kring dæmdu þau því þau vissu það ekki heldur.

Lokaorð
Baráttan byrjaði með nafnleynd en því meiri umræða sem varð, því fleira fólk þorði að deila
sinni sögu. Hvort sem það eru fréttagreinar eða samtöl við fólk með upplifanir af þessum
tíma má sjá alls staðar að stærsta vandamál Íslendinga á níunda og tíunda áratugi tuttugustu
aldar var fáfræði. Aftur og aftur er hægt að sjá hversu misskilið trans fólk var, og jafnvel

7
Arna Magnea Danks, viðtal.
8
Nafnleynd, viðtal.
hversu mikið þau misskildu sjálf sig stundum. Vissulega er sumt fólk fullt af hatri og neitar
hreinlega að samþykkja trans fólk, það sést enn í dag. En það er eins og lang flestir
Íslendingar voru ekki reiðir út í hugmyndina um að „skipta“ um kyn, þeir bara skildu ekki
hvernig það ætti að nálgast umræðuna. Svo það voru notuð vitlaus fornöfn og nöfn vegna
þess að fólk átti erfitt með að skilja að trans fólk er fætt trans, í stað þess að verða trans
þegar þau eru búin að skipta um kyn bæði löglega og líkamlega. Það er fáfræði, sem getur
vissulega breyst í transfóbíu en þessi hugtök þýða ekki það sama. Transfóbía er þegar
manneskja ræðst á eða særir trans fólk þrátt fyrir að vita betur. En fáfræði er stórt vandamál
sem getur haft áhrif á heil samfélög. Sem betur fer er mjög einföld lausn við því, fræðsla og
framkoma minnihlutahópa í fjölmiðlum. Það virðist loksins hafa gerst á Íslandi í kring um
1995. Það gerist ekki allt í einu, þetta er löng og ströng barátta og hún er alls ekki búin. Við
erum þó klárlega að gera eitthvað rétt því með hverju ári sjáum við ný tækifæri fyrir trans
fólk að blómstra í samfélaginu og það byrjaði allt með nokkrum hugrökkum manneskjum
sem þorðu að segja heiminum frá sinni sögu.

Heimildaskrá

Arna Magnea Danks. Viðtal tekið af Örnu Tryggvadóttur 7. apríl 2021.

Dagur. „Dúi er kominn í kynskipti.“ 18. október, 1997

DV. „Anna er flutt heim í fordómaleysið á Íslandi.“ 8. júní, 1996.


Jónína Leósdóttir. „Hann vill verða kona!: Íslendingur ætlar að skipta um kyn.“ Pressan, 3.
ágúst, 1989.

Nafnleynd. Viðtal tekið af Örnu Tryggvadóttur 18. mars 2021.

Samtökin ´78. Úr felum. 1. tölublað. 1. desember, 1982.

Vikan. „Við erum bara hýrir.“ 28. september, 1978.

You might also like